Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 65/2011

Mánudaginn 12. mars 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 14. október 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 23. september 2011, móttekin 3. október sama ár, þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun er hafnað.

Með bréfi, dags. 24. október 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 7. nóvember 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. nóvember 2011, og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send kæranda 2. janúar 2012 og var henni auk þess sendur tölvupóstur þann 21. febrúar 2012 þar sem henni var gefið færi á að koma að frekari gögnum og/eða athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Málsatvik

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun einstaklinga í kjölfar atvinnuleysis og tekjulækkunar. Hún hafi verið búsett í Frakklandi frá árinu 2006 og hefur starfað þar við að kenna ensku og þar áður sem tæknimaður hjá X í Frakklandi en er atvinnulaus eins og er.

Með ákvörðun sinni, dags. 23. september 2011, synjaði umboðsmaður skuldara umsókn kæranda um greiðsluaðlögun með vísan til þess að hún uppfylli ekki skilyrði til að fá samþykkta umsókn um greiðsluaðlögunar með vísan til búsetuskilyrðis 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

Með kærunni lagði kærandi fram vottorð, dags. 3. október 2011, um móttöku flutningstilkynningar frá Þjóðskrá Íslands þar sem fram kemur að kærandi hafi flutt að B-götu nr. 4, sveitarfélaginu C, þann 1. október 2010.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni fer kærandi fram á að mál hennar verði endurupptekið hjá umboðsmanni skuldara þar sem henni hafi verið hafnað á grundvelli þess að vera búsett erlendis en hún hafi nú tekið ákvörðun um að flytjast til Íslands. Hún leggi fram flutningstilkynningu því til stuðnings.

Hún þurfi að vera á flakki milli Íslands og Frakklands í einhverja mánuði því hún eigi tvö börn og sé ólétt af því þriðja. Hún sé að leita sér að starfi og láti vita ef eitthvað gerist í hennar málum.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns kemur fram að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri umboðsmanni að líta til aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. ákvæðisins komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og séu búsettir hér á landi. Frá því megi þó víkja skv. a-lið 4. mgr. 2. gr. lge. ef viðkomandi er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili og verið búsettur hér á landi a.m.k. þrjú ár samfleytt enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánadrottna sem hér eiga heima.

Þegar kærandi hafi sótt um hafi hún hvorki átt lögheimili hér á landi né verið búsett hér. Ekki þótti sýnt að hún uppfyllti skilyrði a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. um tímabundna búsetu erlendis og hafi því verið tekin sú ákvörðun að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi flutt lögheimili sitt til Íslands með tilkynningu til Þjóðskrár, dags. 3. október 2011, og hafi tilgreindur flutningsdagur verið 1. október sama ár. Í greinargerð með kæru komi fram að kærandi krefjist þess að málið verði tekið upp að nýju á þeim grundvelli að hún hafi nú skráð lögheimili hér á landi auk þess sem hún hafi nú tekið ákvörðun um að flytja aftur til landsins. Að hennar sögn verði hún á flakki milli Íslands og Frakklands í nokkra mánuði vegna þess að hún á tvö börn og sé ólétt af því þriðja. Hún kveðst vera að leita sér að starfi.

Umboðsmaður skuldara telur að gera verði kröfu um að kærandi sýni fram á búsetu á Íslandi með gögnum og var henni því send beiðni með tölvupósti þann 28. október 2011 um að staðfesta búsetu sína á Íslandi með gögnum. Í tölvupósti frá kæranda, dags. 31. október 2011, kemur fram að hún geti ekki sýnt fram á búsetu sína með gögnum.

Að því virtu telur umboðsmaður skuldara að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar skv. a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. geta þeir einir leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og séu búsettir hér á landi. Í sömu grein segir að heimilt sé að víkja frá þessu skilyrði ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda að uppfylltum öðrum skilyrðum greinarinnar. Af ákvæðinu er ljóst að ekki er heimilt að víkja frá skilyrðinu um búsetu hér á landi í öðrum tilvikum en þar eru upp talin. Að öðru leyti en þar greinir er því um ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því að fá samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun að skuldari sé með lögheimili og búsettur hér á landi.

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. er gerð sú krafa að skuldari eigi lögheimili hér á landi og jafnframt að hann sé búsettur hér. Er því ljóst að ekki sé nægjanlegt eitt og sér að lögheimili sé skráð hér á landi. Í málinu liggur fyrir tilkynning kæranda til Þjóðskrár Íslands um breytt lögheimili. Samkvæmt henni er fjöldi þeirra einstaklinga sem flytja samkvæmt flutningstilkynningu einn. Samkvæmt þjóðskrá eru börn kæranda ekki skráð með lögheimili hér á landi og bendir það ekki til þess að kærandi sé raunverulega búsett hér á landi en hún er samkvæmt gögnum málsins einstæð móðir.

Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn utan flutningstilkynningar til Þjóðskrár sem gera líklegt að hún sé í raun búsett hér á landi og verður í ljósi atvika málsins að telja að ólíklegt sé að kærandi sé í raun og veru búsett hér á landi. Hefur kæranda ítrekað verið gefið tækifæri til að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings en ekkert hefur borist.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun umboðsmanns um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta