Hoppa yfir valmynd

Nr. 115/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 1. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 115/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110087

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 29. nóvember 2022 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Írak (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. nóvember 2022, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og mál hans tekið til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Hinn 10. janúar 2018 sótti kærandi um fjölskyldusameiningu við [...] (hér eftir A). Hinn 11. desember 2018 var kæranda veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga vegna fjölskyldutengsla við A.

Hinn 23. nóvember 2021 móttók Útlendingastofnun umsókn frá núverandi eiginkonu kæranda, [...], fædd [...] (hér eftir B), um fjölskyldusameiningu hennar við kæranda. Vegna þeirrar umsóknar mætti kærandi í viðtal hjá Útlendingastofnun 22. júní 2022. Í viðtalinu kom fram að kærandi hafi fengið leyfi til lögskilnaðar hér á landi við A 23. apríl 2021.

Hinn 7. september 2022 sendi Útlendingastofnun lögmanni kæranda tilkynningu um hugsanlega afturköllun alþjóðlegrar verndar hans og dvalarleyfis hér á landi. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun 28. september 2022 ásamt lögmanni sínum. Hinn 16. nóvember 2022 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 29. nóvember 2022. Hinn 13. desember 2022 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Hinn 9. janúar og 20. febrúar 2023 bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar voru ákvæði 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga rakin sem og lögskýringargögn að baki þeim. Útlendingastofnun vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 422/2021 frá 2. september 2021 þar sem það hafi verið mat nefndarinnar að ekki væri hægt að túlka ákvæði 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga með þeim hætti að afturköllun verndar á grundvelli 2. mgr. 45. gr. sömu laga gæti verið byggð á ákvæðum 48. gr. laganna. Þá er vísað til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvað varðar heimild til afturköllunar ákvörðunar stofnunarinnar. Jafnframt er vísað til þess að heimildir stjórnvalda til að afturkalla fyrri ákvarðanir séu þó ekki tæmandi taldar í 25. gr. stjórnsýslulaga og geti komið til skoðunar að beita ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar um afturköllun, sbr. álit umboðsmanns í málum nr. 6073/2010, frá 13. júlí 2011, og 9730/2019, frá 22. janúar 2019. Heimildir til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar á ólögfestum grundvelli ráðist einkum af hagsmunamati þar sem hagsmunir málsaðilans og tillit til réttmætra væntinga hans af því að ákvörðun standi óbreytt sé metið gagnvart þeim hagsmunum sem mæla með því að ákvörðunin verði afturkölluð.

Útlendingastofnun vísaði til þess að grundvöllur alþjóðlegrar verndar sem kæranda var veitt hér á landi hafi verið fjölskyldutengsl við A. Var það mat Útlendingastofnunar að þar sem kærandi hefði skilið að lögum við A uppfyllti hann ekki lengur skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga sem maki eða sambúðarmaki. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt frásögn kæranda væri hann frá […], Írak, og hafi hann ferðast þangað árið 2021 þar sem hann hafi gengið í hjónaband og dvalið í um tvo mánuði að því er virtist án erfiðleika.

Útlendingastofnun vísaði til umfjöllunar í úrskurði kærunefndar frá 19. maí 2022 varðandi mat á aðstæðum í sjálfstjórnarhéraði Kúrda. Var það mat Útlendingastofnunar að upplýsingar í þeim gögnum sem stofnunin hefði yfirfarið við meðferð málsins og vísað til bentu ekki til þess að aðstæður í heimahéraði kæranda hefðu breyst til hins verra. Í ljósi þess sem rakið hefði verið, frásagnar kæranda og þeirra gagna sem lægju fyrir um heimaríki kæranda var það mat Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda væru ekki þannig að þær féllu undir ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimaríkis síns í skilningi a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að forsendur væru til að afturkalla þá alþjóðlegu vernd sem kæranda hefði verið veitt hér á landi árið 2018 og dvalarleyfi hans á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, sbr. 59. gr. sömu laga, enda væru skilyrði þess ekki lengur uppfyllt og væri sú niðurstaða reist á ólögfestum afturköllunarheimildum stjórnsýsluréttarins.

Í ákvörðun Útlendingastofnun eru heilbrigðisvandamál kæranda rakin og vísað í úrskurð kærunefndar nr. 194/2022, frá 19. maí 2022, og heimildir í skýrslum alþjóðastofnana hvað varðar aðstæður í heilbrigðiskerfi Íraks. Var það mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda og heilsufarsgögn bentu ekki til þess að hann væri í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa eða glímdi við heilsufarsvandamál sem væru þess eðlis að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Af gögnum málsins yrði ráðið að kærandi hefði undirgengist hjartaaðgerð í heimaríki sínu árið 2011 og þá ætti kærandi bakland í heimaríki sínu þar sem núverandi kona hans og dætur dveldu hjá móður og bræðrum hans. Þá var það mat Útlendingastofnunar að skýrslur um aðstæður í heimaríki kæranda sem stofnunin hefði kynnt sér bentu ekki til þess að aðstæður væru með þeim hætti að veita ætti kæranda dvalarleyfi vegna erfiðra félagslegra og almennra aðstæðna á heimasvæði hans í Írak. Að lokum var það mat Útlendingastofnunar að afturköllun á alþjóðlegri vernd kæranda og dvalarleyfi bryti ekki gegn 42. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið fyrst hingað til lands árið 2018 og hafi verið búsettur hér á landi frá þeim tíma. Kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd og dvalarleyfi sem maki flóttamanns 11. desember 2018 og hafi því dvalið hér á landi í um fjögur ár. Kærandi sé Kúrdi, fæddur og uppalinn í […] í Kúrdistan. Kærandi þjáist meðal annars af sykursýki og hjartavandamálum. Kærandi hafi fengið hjartaáfall í Írak árið 2011 og aftur árið 2019. Kærandi hafi farið í hjartaþræðingu 6. janúar 2021 og þurfi að mati heimilislæknis á hjartaendurhæfingu að halda. Þá sé kærandi óvinnufær með öllu og sé handhafi örorkumats sem sé í gildi til 31. desember 2022 samkvæmt úrskurði Tryggingastofnunar. Á því tímabili sem kærandi hafi verið búsettur hér á landi hafi hann aðeins einu sinni farið aftur til heimaríkis síns þar sem hann hafi dvalið í tvo til þrjá mánuði og gifst núverandi eiginkonu sinni, B. Þá á kærandi börn í heimaríki sem hann hafi ekki séð um langt skeið.

Kærandi byggir aðalkröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að skilyrði til afturköllunar á alþjóðlegri vernd hans á ólögfestum grundvelli séu ekki uppfyllt. Kærandi vísar til þess að kærunefnd hafi í fyrri úrskurðum komist að því að ekki sé hægt að túlka ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þannig að afturköllun geti byggst á 48. gr. sömu laga og að afturköllun verndar á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga komi aðeins til greina ef forsendur verndar, þ.e. fjölskyldutengsl við útlending séu ekki lengur fyrir hendi og önnur skilyrði stjórnsýsluréttar séu uppfyllt. Hvað framangreint varðar telur kærandi að líta megi til athugasemda um ákvæði 48. gr. í frumvarpi með lögum um útlendinga nr. 80/2016 þar sem fram komi að ólíklegt sé að oft reyni á heimildarákvæði 48. gr. þar sem útlendingur hafi myndað tengsl við landið. Af lögskýringargögnum megi sjá að heimildinni um afturköllun samkvæmt 48. gr. laga um útlendinga skuli beita varlega og í undantekningartilvikum sem skýra verði þröngt enda sé um sérstaklega íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati kæranda verði að telja að engin rök standi til þess að rýmri kröfur eigi við um afturköllun á ólögfestum grundvelli og því megi styðjast við framangreind sjónarmið löggjafans við mat á því hvort skilyrði séu uppfyllt í máli kæranda. Kærandi hafi myndað sterk tengsl við landið á þeim fjórum árum sem hann hafi búið hér, meðal annars félagslega, og þá hefur hann fengið lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu hér á landi. Kærandi telur sig því hafa myndað það sterk tengsl við landið sem mæli gegn því að alþjóðleg vernd hans og dvalarleyfi verði afturkölluð.

Kærandi vísar til þess að Útlendingastofnun hafi komist að því að þar sem fjölskyldutengsl sem hafi verið til staðar þegar honum var veitt vernd í desember 2018 hafi breyst uppfylli hann ekki lengur skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga sem maki eða sambúðarmaki. Þrátt fyrir að sá hluti málsins sé uppfylltur í skilningi afturköllunarheimilda þá telur kærandi að uppfylla þurfi önnur skilyrði almennra reglna stjórnsýsluréttar um afturköllun stjórnvaldsákvarðana. Kærandi telur skilyrðin óuppfyllt þar sem hann hafi ekki notfært sér vernd í heimaríki sínu. Þá muni ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis verða honum til tjóns.

Kærandi telur að það að hann hafi farið eina ferð til heimaríkis í þeim tilgangi að ganga í hjúskap jafngildi því ekki að hann hafi notfært sér vernd heimaríkisins. Kærandi gerir athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi komist að því að hann hafi sjálfviljugur notfært sér vernd heimaríkis síns í skilningi a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga þrátt fyrir framangreint fordæmi kærunefndar þess efnis að afturköllun verndar á grundvelli 2. mgr. 45. gr. sömu laga geti ekki verið byggð á ákvæðum 48. gr. laganna. Kærandi telur að þrátt fyrir skilyrðið um að notfæra sér vernd í heimaríki sé byggð á ólögfestum afturköllunarheimildum þá sé í ákvörðun Útlendingastofnunar engum rökstuðningi fyrir að fara um það með hvaða hætti hann hafi notfært sér vernd í heimaríki á meðan hann hafi dvalið þar eða hvað yfir höfuð felist í þeirri vernd. Að mati kæranda styðjist heimildin til afturköllunar á ólögfestum grundvelli við heildarmat sem taki mið af nokkrum þáttum. Tvö meginsjónarmið við matið séu tillit til þeirra hagsmuna aðila og réttmætra væntinga hans um að upphafleg ákvörðun standi og tillit til þeirra hagsmuna sem mæli með því að ákvörðun sé afturkölluð. Þá hafi það þýðingu við ákvörðun um afturköllun hve íþyngjandi afturköllunin sé fyrir aðila máls. Sé litið til hagsmuna kæranda til þess að njóta alþjóðlegrar verndar og réttmætra væntinga til þess að halda verndinni og dvalarleyfi hér á landi vegna aðstæðna í máli hans telur kærandi að telja verði að þeir hagsmunir séu mun meiri en hagsmunir stjórnvalds til afturköllunar.

Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað með fullnægjandi hætti hvort ákvörðun um afturköllun verndar og dvalarleyfis hér á landi yrði honum til tjóns, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar sé ekkert sem sýni fram á af hverju kærandi sé ekki í hættu í heimaríki. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun byggt niðurstöðu sína á gömlum skýrslum sem sýni ekki hvernig staðan sé nú á heimasvæði hans, […], á sjálfstjórnarsvæði Kúrdistans í Írak. Kærandi telur að nýlegar skýrslur alþjóðastofnana og stjórnvalda annarra ríkja, svo sem International Institute of Netherlands, sýni fram á að öryggisástand í kúrdískum hluta Íraks hafi hrakað á haustmánuðum 2022. Kærandi telur að ekki hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti hvaða áhrif afturköllun á alþjóðlegri vernd hafi á hann, þar með talið hvað bíði hans á heimasvæði hans í Írak og því sé um alvarlegan efnisannmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar að ræða og varði það ógildingu á ákvörðuninni.

Kærandi byggir einnig á því að afturköllun á alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi verði honum til tjóns í ljósi einstaklingsbundinnar stöðu hans sem öryrkja og vegna nauðsynjar hans á heilbrigðisþjónustu vegna veikinda hans. Kærandi gerir athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi á engan hátt vikið að því hvort afturköllun yrði honum til tjóns í ljósi veikinda hans. Kærandi sé óvinnufær og styðjist við átta mismunandi lyf. Kærandi hafi fengið tvö hjartaáföll, sé greindur með sykursýki, háþrýsting, blóðfituröskun, kransæðasjúkdóm og glími við margs konar verki og andlega vanlíðan því tengdu. Veikindi kæranda hafi orðið til þess að hann sé háður heilbrigðisþjónustu hér á landi sem honum bjóðist ekki í heimaríki. Þá komi fjárhagslegar hindranir í heimaríki í veg fyrir að hann fái fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Með tilliti til framangreinds telur kærandi að skilyrði til afturköllunar á alþjóðlegri vernd hans og dvalarleyfi á ólögfestum grundvelli séu óuppfyllt.

Verði ekki fallist á að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar um afturköllun alþjóðlegrar verndar og dvalarleyfis gerir kærandi þá kröfu til vara að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að hann hafi ríka þörf á vernd með tilliti til almennra aðstæðna, erfiðra félagslegra aðstæðna og heilbrigðisástæðna. Kærandi vísar til þess að félagsleg staða sín sem öryrki skipti í þessu samhengi miklu máli. Þá byggir kærandi á því að hann sé í meðferð sem sé óforsvaranlegt að rjúfa og glími við veikindi sem séu þess eðlis að veita skuli honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi sé óvinnufær og sé með örorkumat sem hafi gilt frá 15. júlí 2021. Kærandi hafi vegna mikilla veikinda ekki getað unnið frá árinu 2011. Í vottorði frá Hjartamiðstöð Íslands, dags. 2. desember 2022, sem kærandi hafi lagt fram komi fram að hann sé á átta mismunandi lyfjum og að hann þurfi áfram að vera í eftirliti hjá hjartalækni og í öflugri lyfjameðferð. Kærandi sé með dreifðan kransæðasjúkdóm, hafi fengið hjartaáföll árið 2011 og 2019 og hafi farið í hjartaþræðingu á Landspítalanum 6. janúar 2021. Þar sem kærandi sé óvinnufær og þurfi að vera í endurhæfingu við hjartavandamáli sínu hafi hann þörf fyrir fjárhagslegan stuðning. Kærandi telur að af öllu framangreindu og framlögðum vottorðum sé ljóst að þörf hans á heilbrigðisþjónustu sé lífsnauðsynleg og að meðferð hans hér á landi hafi verið stöðug og allt mæli með því henni skuli haldið samfellt áfram.

Verði ekki fallist á framangreindar kröfur gerir kærandi þá kröfu að lokum að máli hans verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til nýrrar meðferðar og rannsóknar. Kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla áður en hann hafi fengið tilkynningu um hugsanlega afturköllun á alþjóðlegri vernd hans og dvalaleyfi á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda verði vart séð hvaða nauðsyn hafi búið að baki því að nýta undantekningarheimild afturköllunar á alþjóðlegri vernd þegar fullljóst sé að hann sæki um að leiða rétt sinn til dvalar í landinu á öðrum grundvelli. Kærandi telur að með því að beita undantekningarheimild um afturköllun hafi Útlendingastofnun ekki virt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afturköllun alþjóðlegrar verndar

Í 48. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar ef flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fellur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr. ef hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Í athugasemdum við 48. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið eigi sér stoð í C-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Útlendingastofnun taki ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og skuli túlkun ákvæðisins fara fram í samræmi við leiðbeiningar í handbók flóttamannastofnunar.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi skilið við B 24. maí 2015 og kvænst A í […] í Írak 22. mars 2016. Verður ráðið af gögnum málsins að A hafi yfirgefið Írak einhverju síðar, komið hingað til lands og sótt um alþjóðlega vernd sem henni var svo veitt 6. desember 2017. Í kjölfarið lagði kærandi fram umsókn um fjölskyldusameiningu við A. Útlendingastofnun móttók þá umsókn 10. janúar 2018. Kæranda var veitt vernd hér á landi 11. desember 2018 á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga vegna fjölskyldutengsla við A. Samkvæmt framangreindu er ljóst að kærandi var ekki veitt alþjóðleg vernd hér á landi á grundvelli 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Grundvöllur verndar skv. 2. mgr. 45. gr. er í veigamiklum atriðum annars eðlis en skv. 37., 39. og 44. gr. laga um útlendinga. Slík vernd er þannig ótengd þeim ástæðum sem tilgreindar eru í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Af því leiðir að grundvöllur þeirrar alþjóðlegu verndar sem veitt er skv. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga tengist aðeins óbeint þeim skilyrðum afturköllunar sem útlistuð eru á tæmandi hátt í 1. mgr. 48. gr. laganna. Þá er ekki vísað sérstaklega í grundvöll verndar skv. 2. mgr. 45. gr. í 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga eða í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi. Í ljósi orðalags 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga og samræmis milli ákvæða laganna telur kærunefnd ekki unnt að túlka ákvæðið með þeim hætti að afturköllun verndar sem veitt hefur verið á grundvelli 2. mgr. 45. gr. geti verið byggð á ákvæðum 48. gr. laga um útlendinga.

Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða þegar ákvörðunin er ógildanleg. Ljóst er að stjórnvöldum er einnig heimilt að afturkalla ákvarðanir sínar á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttarins um afturköllun, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis frá 13. júlí 2011 í máli nr. 6073/2010 og 22. janúar 2019 í máli nr. 9730/2018. Getur afturköllun verndar að mati kærunefndar verið heimil ef forsendur verndarinnar, þ.e. þau fjölskyldutengsl sem þar eru tilgreind við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, eru ekki lengur fyrir hendi, aðili hefur notfært sér vernd heimaríkis og uppfyllt eru önnur skilyrði almennra reglna stjórnsýsluréttar um afturköllun stjórnvaldsákvarðana.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi og A hafi fengið lögskilnað 23. apríl 2021. Í dagbókarfærslum úr Erlendi er skráð að þann 19. ágúst 2021 hafi kærandi komið til Útlendingastofnunar til að athuga með fjölskyldusameiningu en hann eigi 17 ára dóttur í Írak og að samkvæmt læknisvottorði þurfi hann að fá fjölskyldusameiningu af læknisfræðilegum ástæðum. Hinn 27. janúar 2022 er skráð að eiginkona kæranda í Írak hafi sótt um fjölskyldusameiningu við hann. Hinn 26. júní 2022 mætti kærandi til viðtals hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar um fjölskyldusameiningu. Í viðtalinu staðfesti kærandi það að hann hefði gengið í hjúskap við B í október 2021. Kvað kærandi hjónavígsluna hafa farið fram í […] og hafi þau bæði verið viðstödd hana. Kærandi mætti í annað viðtal hjá Útlendingastofnun 28. september 2022. Aðspurður greindi kærandi frá því að vera fæddur og uppalinn í […] á sjálfstjórnarsvæði Kúrdistan í Írak og hafi búið þar áður en hann hafi komið hingað til lands og fengið alþjóðlega vernd. Kærandi kvaðst hafa farið til heimaríkis árið 2021 og dvalið þar í tvo til þrjá mánuði. Kærandi kvaðst ekki hafa lent í vandræðum þegar hann hafi ferðast til heimaríkis. Kærandi kvað eiginkonu sína og tvær dætur vera í heimaríki ásamt móður hans og þremur bræðrum. Í umsókn B um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar við erlendan ríkisborgara sem Útlendingastofnun móttók 22. nóvember 2021 kemur fram að hún og kærandi hafi í mars sama ár byrjað að tala saman um framtíð dætra sinna og ákveðið að sameinast og giftast aftur. Í umsókninni kemur fram að heilbrigðisvandamál kæranda og það að enginn væri til að hugsa um hann hér væri ástæða fyrir því að B vildi koma til landsins.

Í máli kæranda liggur fyrir að þau fjölskyldutengsl sem voru grundvöllur þess að honum var veitt alþjóðleg vernd og dvalarleyfi hér á landi árið 2018 lauk í apríl 2021 með lögskilnaði hans og A. Í mars 2021 endurnýjaði kærandi svo tengsl sín við B, sem hann hafði verið giftur frá árinu 2003 til 2015. Kærandi ferðaðist sjálfviljugur til heimaríkis haustið 2021 og kvæntist B í heimaborg sinni, […] og dvaldi þar um tveggja mánaða skeið. Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli ekki lengur skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga sem maki eða sambúðarmaki útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar samkvæmt IV. kafla laga um útlendinga.

Kemur þá til skoðunar í málinu hvort rétt sé á grundvelli ólögfestra meginreglna um afturköllun að afturkalla þá alþjóðlegu vernd sem kæranda var veitt hér á landi árið 2018 sem og dvalarleyfi hans á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga .

Í greinargerð er byggt á því að réttmætar væntingar hans og hagsmunir af því að halda alþjóðlegri vernd séu mun meiri en hagsmunir stjórnvalda til afturköllunar á verndinni. Þá byggir kærandi einnig á því að afturköllun á alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi verði honum til tjóns í ljósi einstaklingsbundinnar stöðu hans sem öryrkja og vegna nauðsynjar hans á heilbrigðisþjónustu vegna veikinda hans. Kærandi sé óvinnufær og styðjist við átta mismunandi lyf. Kærandi hafi fengið tvö hjartaáföll, sé greindur með sykursýki, háþrýsting, blóðfituröskun, kransæðasjúkdóm og glími við margs konar verki og andlega vanlíðan því tengdu. Veikindi kæranda hafi orðið til þess að hann sé háður heilbrigðisþjónustu hér á landi sem honum bjóðist ekki í heimaríki. Þá komi fjárhagslegar hindranir í heimaríki í veg fyrir að hann fái fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun 28. september 2022 vegna hugsanlegrar afturköllunar á alþjóðlegri vernd kæranda var kæranda gefið færi á því að tjá sig um hugsanlega afturköllun á alþjóðlegri vernd hans hér á landi. Kærandi kvaðst vera með sykursýki og hjartavandamál og vildi eyða restinni af lífi sínu hér á landi. Í viðtalinu kvaðst kærandi hvorki eiga börn né náin skyldmenni hér á landi. Kærandi kvaðst ekki hafa átt í vandræðum með að ferðast til heimaríkis árið 2021. Kærandi kvaðst taka mikið af lyfjum, ætti erfitt með svefn og væri mjög einsamall. Kærandi kvað lyf sem hann þyrfti að taka ekki vera af sömu gæðum í heimaríki og þá væru þau mjög dýr. Aðspurður um hvort kærandi óttaðist einhvern eða eitthvað í heimaríki kvaðst kærandi ekki óttast neinn en þar væri ekki hægt að afla peninga eða stunda rekstur. Kærandi kvaðst ekki geta búið í heimaríki þar sem þar væru ekki góðir læknar eða spítalar. Kærandi ítrekaði í lok viðtals að hann gæti ekki unnið þar sem hann hefði gengist undir tvær hjartaaðgerðir og þá ætti hann engan að.

Af greinargerð og frásögn kæranda má ráða að aðalástæða hans fyrir því að fá að halda alþjóðlegri vernd hér á landi er að fá að halda áfram að njóta þjónustu heilbrigðiskerfisins hér á landi sem hann kveður vera betra en í heimaríki, auk þess sem betri lyf séu í boði hér á landi.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi myndað rík tengsl við landið, hvorki í gegnum atvinnuþátttöku né félagslega. Kærandi hefur hins vegar, eins og að framan er rakið, endurnýjað tengsl við fyrrum eiginkonu og barnsmóður með því að fara aftur til heimaríkis og kvænast henni. Aðspurður í viðtali hjá Útlendingastofnun 28. september 2022 kvað kærandi að sambandið við fjölskyldumeðlimi í heimaríki vera gott og þá væru félagslegar aðstæður hans þar allt í lagi. Af framangreindu verður ráðið að tengsl kæranda við heimaríki eru mun ríkari en tengsl hans við Ísland. Í málinu liggur jafnframt fyrir, líkt og rakið hefur verið, að kærandi yfirgaf ekki heimaríki sitt 2018 vegna ástæðna sem fram koma í 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ljóst er að kærandi er ríkisborgari Íraks og hefur því aðgang að heilbrigðiskerfi landsins og hefur ekki borið fyrir sig mismunun eða að hann hafi verið útilokaður frá því að sækja sér þjónustu sem hann hafi þurft á að halda vegna heilsufarskvilla sinna á meðan hann var búsettur í heimaríki. Samkvæmt heimildum um aðstæður í Írak er meðferð við hjartavandamálum og sykursýki í boði á ýmsum sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum í landinu m.a. í heimaborg kæranda […]. Verður því ekki talið að málsástæða kæranda er varðar heilsufar hans hafi ríkt vægi varðandi hagsmunamat er lýtur að afturköllunar á vernd hans hér á landi enda geti slíkar ástæður almennt ekki verið grundvöllur verndar samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Það er mat kærunefndar að íslensk stjórnvöld hafi heimild og hagsmuni af því að geta afturkallað alþjóðlega vernd einstaklings sem hafi fengið hana á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga ef forsendur hafa breyst verulega í máli viðkomandi. Við mat á lögmæti afturköllunar Útlendingastofnunar á veitingu réttarstöðu flóttamanns verður að hafa hliðsjón af sjónarmiðum um hagsmuni málsaðila af því að upphafleg ákvörðun standi óbreytt gegn hagsmunum af afturköllun, auk sjónarmiða um réttmætar væntingar. Hvað þessi atriði snertir telur kærunefnd, með vísan til þess sem rakið hefur verið, að hagsmunir þess kerfis sem lýtur að veitingu alþjóðlegrar verndar til handa einstaklingum sem raunverulega teljast flóttamenn í skilningi laga um útlendinga og þarfnast verndar gegn ofsóknum vegi mun þyngra en hagsmunir kæranda af því að hann haldi réttarstöðu flóttamanns.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi verið heimilt að afturkalla ákvörðun, dags. 11. desember 2018, um veitingu alþjóðlegrar verndar til handa kæranda, á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar um afturköllun, og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í 48. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun stofnunarinnar, að því er varðar afturköllun á alþjóðlegri vernd kæranda, því staðfest.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Þrátt fyrir að afturköllun alþjóðlegrar verndar á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga geti ekki byggst á ákvæðum 48. gr. laga um útlendinga er að mati kærunefndar rétt að taka til athugunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. eða hvort 42. gr. eigi við, líkt og ákvæði 4. mgr. 48. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi búsettur í […] í Kúrdistan héraði áður en hann kom hingað til lands. Kærandi hefur lagt fram mikið magn af gögnum um heilsufar sitt. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 28. september 2022 kvaðst kærandi hafa undirgengist hjartaaðgerð árið 2011 og árið 2019. Samkvæmt nótu frá heimilislækni á heilsugæslunni Kirkjusandi, dags. 29. apríl 2021, fékk kærandi hjartaáfall árið 2011 og 2018 og fór í hjartaþræðingu hér á landi í janúar 2021 og er í „agressivri medicinskri“ meðferð. Þá sé kærandi með sykursýki og háþrýsting. Í vottorði sama læknis, dags. 2. desember 2022, kemur fram að líðan kæranda sé sæmileg en hann fái stundum verk yfir brjóst þegar hann sé í göngutúrum. Kærandi sé á ýmsum lyfjum, svo sem hjartamagnýl, amlo, atorvastatin, bloxazoc og Imdur. Álit læknis sé að kærandi sé stöðugur en þurfi áfram að vera í eftirliti hjá hjartalækni og vera í öflugri lyfjameðferð. Þá liggur fyrir í gögnum málsins vottorð, dags. 15. júlí 2021, um að umsókn kæranda um örorkumat hafi verið samþykkt, með gildistíma frá 1. maí 2021 til 31. desember 2022.

Þrátt fyrir að kærandi glími við hjartasjúkdóm þá bera framlögð gögn ekki með sér að hann sé í meðferð sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Þá liggur fyrir gögnum að kærandi hafi undirgengist hjartaaðgerð í heimaríki árið 2011 og verið í læknismeðferð þar áður en hann kom hingað til lands árið 2018. Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 (Country Policy and Information Note - Iraq: Medical and healthcare provision - UK Home Office, janúar 2021) er ríkisborgurum Íraks tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfi landsins. Þá sé meðferð við hjartavandamálum í boði á ýmsum sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum í landinu m.a. í heimaborg kæranda […]. Kærandi á því að geta haldið áfram í eftirliti hjá hjartalæknum í heimaríki. Þá sé jafnframt aðgengi að heilbrigðisaðstoð og lyfjum m.a. vegna sykursýki og hjarta- og blóðþrýstingslyfjum í heimaríki. Af framangreindri skýrslu um heilbrigðiskerfið í Írak og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum kæranda telur kærunefnd að hann geti fengið aðstoð í heimaríki sem og aðgang að meðferðum og lyfjum sem hann þurfi á að halda vegna heilsufarsvandamála sinna.

Að því er varðar almennar aðstæður heimahéraði kæranda í Írak hefur kærunefnd meðal annars kynnt sér eftirfarandi skýrslur:

  • Country Guidance: Iraq (European Union Agency for Asylum (EUAA), júní 2022);
  • Country Policy and Information Note - Iraq: Humanitarian situation (UK Home Office, ágúst 2022);
  • Country Policy and Information Note - Iraq: Security situation (UK Home Office, nóvember 2022);
  • Country of Origin Information Report - Iraq - Security situation (European Union Agency for Asylum, janúar 2022);
  • Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, janúar 2021);
  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);

Að mati kærunefndar benda heimildir í framangreindum skýrslum ekki til þess að aðstæður í heimaríki kæranda séu með þeim hætti að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna aðstæðna á svæðinu. 

Í viðtali hjá Útlendingastofnun 28. september 2022 greindi kærandi frá því að eiga móður og þrjá bræður í heimaríki. Þá séu eiginkona hans og dætur búsettar hjá þeim. Í umsókn eiginkonu hans um fjölskyldusameiningu við kæranda kemur fram að hún hafi lokið framhaldsskólamenntun. Í umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis hér á landi, dags. 23. júní 2022, kemur fram að kærandi hafi starfað sem sjúkraflutningamaður frá árinu 1999 til ársins 2017. Í skýrslu læknis vegna umsóknar um örorkubætur, kemur fram að kærandi hafi ekki unnið síðan árið 2011. Kærandi var með tölvubréfi 17. febrúar 2023 spurður að því hvernig hann hefði séð fyrir sér frá árinu 2011 þar til hann hafi yfirgefið Írak árið 2018. Í tölvubréfi lögmanns kæranda 20. febrúar 2023 til kærunefndar greindi kærandi frá því að hann hafi fengið fjárhagslegan stuðning frá fjölskyldu sinni. Af framangreindu er því ekki alveg ljóst hvort kærandi hafi unnið í heimaríki á árunum 2011 – 2017 en ljóst er að hann hefur notið stuðnings fjölskyldu sinnar þar og ekkert bendir til þess að hann muni ekki njóta þess stuðnings áfram.  Að framangreindu virtu telur kærunefnd að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með vísan til fyrri umfjöllunar er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli félagslegra aðstæðna.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem nái því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Sem fyrr segir dvaldi kærandi í heimaríki í tvo til þrjá mánuði haustið 2021 án vandkvæða. Í ljósi þess og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki hans telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli hans. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu hans þangað.

Frestur til að yfirgefa landið

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Honum er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins glímir kærandi við ýmis heilsufarsvandamál. Með hliðsjón af atvikum málsins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Komi til brottvísunar kæranda mælist kærunefnd til þess að tryggt verði að kærandi hafi nægilegt magn nauðsynlegra lyfja með sér til heimaríkis svo ekki verði rof á þeirri meðferð við endursendingu hans til heimaríkis.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta