Hoppa yfir valmynd

Nr. 418/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 418/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070032

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. júlí 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí 2018, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, þar sem ákvarðað var að kæranda skyldi vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár, verði felld úr gildi.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 13. nóvember 2016. Þann 7. apríl 2017 dró kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka. Samkvæmt því sem kemur fram í hinni kærðu ákvörðun yfirgaf kærandi landið þann 14. júní 2017. Þann 30. nóvember 2017 sótti kærandi um alþjóðlega vernd í Þýskalandi. Þann 28. desember 2017 sendu þýsk stjórnvöld beiðni til íslenskra yfirvalda um móttöku á kæranda á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (Dyflinnarreglugerðin). Íslensk stjórnvöld samþykktu þá beiðni og kom kærandi hingað til lands þann 12. júní sl. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun degi síðar og var boðaður til birtingar í máli hans þann 5. júlí sl. Kærandi dró umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi til baka þann 5. júlí sl., áður en honum var birt ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans.

Með bréfi, dags. 5. júlí sl., tilkynnti Útlendingastofnun kæranda um hugsanlega brottvísun og endurkomubann frá Íslandi. Með hinni kærðu ákvörðun frá 16. júlí sl. var kæranda vísað brott frá Íslandi. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 17. júlí 2018. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 23. júlí sl., var kæranda skipaður talsmaður, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 7. ágúst 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi afturkallað umsókn sína um alþjóðlega vernd öðru sinni þann 5. júlí sl. Þann sama dag hafi stofnunin tilkynnt kæranda um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Hafi kæranda verið veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Í viðtali hjá stofnuninni þann 13. júní sl. hafi kæranda verið gefinn kostur á að andmæla mögulegri brottvísun og endurkomubanni. Í málinu lægi fyrir að kærandi hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests. Í niðurstöðu sinni vísaði Útlendingastofnun til þess að á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga væri stofnuninni skylt að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd brott frá landinu yfirgæfu þeir ekki landið innan veitts frests. Að teknu tilliti til andmæla kæranda og 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga var kæranda vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára, sbr. 2. mgr. 101. gr. laganna.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi bendir á að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi hann lýst þeirri stöðu sem blasi við honum í heimaríki. Þá glími kærandi við veikindi sem hann hafi ekki enn fengið fullnægjandi útskýringar á. Í viðtali hafi kærandi lýst því yfir að hann hafi ráðgert að fara til læknis hérlendis og sé byggt á því að veita þurfi honum sanngjarnan frest til þess áður en hann yfirgefi landið. Kærandi telji óréttlátt og ósanngjarnt að vísa sér úr landi til heimaríkis þar sem ekkert nema óvissa og fátækt bíði hans. Kærandi hafi upplýst um að hann tilheyri þjóðernisminnihluta í heimaríki og þar í landi fái hann enga læknisþjónustu. Af gögnum málsins að dæma hafi Útlendingastofnun ekki dregið það í efa. Þá byggir kærandi jafnframt á því að brottvísun hans sé óheimil með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi til laga um útlendinga, reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Þá segir í 1. mgr. 50. gr. laganna að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.

Kærandi er ríkisborgari […] og er því undanþegin áritunarskyldu hér á landi. Eins og kemur fram í gögnum málsins kom kærandi hingað til lands og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 13. nóvember 2016. Kærandi dró þá umsókn til baka þann 7. apríl 2017 og yfirgaf landið í kjölfarið. Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi þá til Þýskalands og sótti þar um alþjóðlega vernd. Hann kom aftur hingað til lands frá Þýskalandi þann 12. júní sl. Áður en Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli kæranda um alþjóðlega vernd dró kærandi umsókn sína til baka öðru sinni þann 5. júlí 2018.

Samkvæmt framansögðu bera gögn málsins með sér að kærandi hafi dvalið hér á landi og í öðrum ríkjum sem taka þátt í Schengen-samstarfinu frá 13. nóvember 2016, þ.e. mun lengur en þá 90 daga sem honum var heimilt að dvelja hér, sbr. 1. mgr. 49. gr. og 1. mgr. 50. gr. laga um útlendinga.

Með tilkynningu Útlendingastofnunar um hugsanlega brottvísun, dags. 5. júlí sl., var kæranda veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið að viðlagðri hugsanlegri brottvísun og endurkomubanni. Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí sl., kemur fram að kærandi hafi ekki yfirgefið landið innan veitts frests og ákvað stofnunin því að brottvísa kæranda og gera honum endurkomubann til tveggja ára. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt fyrir kæranda þann 17. júlí sl.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Þá segir í a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að, svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við, vísa skuli útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu dvelst kærandi ólöglega í landinu og hefur ekki farið af landi brott þrátt fyrir að hafa verið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Í 102. gr. er m.a. kveðið á um vernd gegn brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun en samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots, tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laganna felur brottvísun í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.

Fyrir liggur að kærandi hefur ekki heimild til dvalar hér á landi og hefur fengið nægt ráðrúm til að yfirgefa landið í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda þar að lútandi. Að mati kærunefndar gefa aðstæður kæranda í heimaríki, […] og veikindi hans ekki tilefni til að ætla að brottvísun hans feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvelur hann ólöglega í landinu og yfirgaf ekki landið innan veitt frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga jafnframt staðfest, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                     Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta