Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/1994

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 5/1994

A, B og C
gegn
Prentsmiðjunni Odda hf.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 13. janúar 1995 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 21. mars 1994 óskuðu A, B og C, allar prentsmiðir, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort forsvarsmenn Prentsmiðjunnar Odda hf. hefðu brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er þeim var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Jafnframt var óskað afstöðu nefndarinnar til þess hvort starfsmönnum væri mismunað eftir kynferði við starfsmenntun og starfsþjálfun og konum þannig torveldað að auka hæfni sína í starfi og fylgja eftir þróuninni í prentiðnaði.

Með bréfi dags. 6. apríl 1994 var forsvarsmönnum fyrirtækisins kynnt erindið og óskað afstöðu þeirra til þess. Svarbréf D, forstjóra Prentsmiðjunnar Odda hf. er dags. 28. apríl 1994. Jafnframt liggur fyrir í málinu bréf hans til kærunefndar dags. 18. mars s.l, þ.e. áður en málið var kært. Á fund nefndarinnar mættu A, B, C og D.

Kærendur eru menntaðir prentsmiðir frá Iðnskólanum í Reykjavík en prentsmíði er lögvernduð iðngrein skv. iðnaðarlögum nr. 42/1978. Þær tóku sveinspróf á árunum 1988, 1989 og 1990. Tvær þeirra hófu störf hjá Prentsmiðjunni Odda hf. á árinu 1989 og sú þriðja á árinu 1991. Með bréfi dags. 28. febrúar 1994 var þeim sagt upp störfum frá og með 1. mars s.á með lögmætum fyrirvara. Í uppsagnarbréfi eru ástæður sagðar minnkandi verkefni og óvissa á markaðnum. Þeim ástæðum er ekki mótmælt af kærendum. Segja þær ekki óalgengt að starfsmönnum fækki fyrri hluta árs en fjölgi aftur síðar á árinu þegar verkefni aukast. Þær mótmæla því hins vegar og telja brot á ákvæði 6. gr. jafnréttislaga að þremur faglærðum konum hafi verið sagt upp en ekki þeim prentsmiðum af gagnstæðu kyni sem höfðu styttri starfsferil hjá fyrirtækinu. Að auki séu starfandi ófaglærðir karlar þrátt fyrir ákvæði iðnaðarlaga um lögverndun starfsgreinarinnar.

Í erindinu til kærunefndar segir jafnframt:

Í þessari iðngrein hefur þróunin verið mjög hröð. Fyrir ca. 2 árum unnum við öll okkar störf á ljósaborðum en í dag er þessi vinna að mestu leyti unnin á tölvur. (Scitex og Makka) í dag er skiptingin í þessari deild eftirfarandi: Undirbúningssvið: 4 karlmenn, 1 kona og 1 karlkynsnemi; Scitexsvið (tölvuskeyting): 9 karlmenn, þar af 6 með styttri starfsaldur í faginu, 2 karlkynsnemar, 1 aðstoðarkona; Makkasvið: 3 karlmenn, 2 konur (þar af önnur í leyfi); Skeyting á borði: 7 karlmenn, 7 konur, þar af við þrjár, 5 karlkynsnemar, 2 aðstoðarmenn.

Af þessari upptalningu má glöggt sjá að einungis karlmönnum hefur verið gefinn kostur á að fylgja þessari þróun en okkur konunum ekki. Við störfum allar enn á ljósaborðum en eins og sjá má hafa karlar með styttri starfsaldur í faginu verið þjálfaðir á tölvur. Með því að fá ekki að taka fullan þátt í þróun starfsgreinarinnar, teljum við að okkur sé mismunað vegna þess að við erum konur. Við álítum að þetta sé brot á 9. gr. jafnréttislaga.

Í bréfi kærenda dags. 19. maí 1994 mótmæla þær fullyrðingum forstjóra Prentsmiðjunnar Odda hf. um að þær hafi ekki sýnt starfi sínu og þróun í prentiðnaði áhuga. Þær hafi þvert á móti árangurslaust óskað eftir að fá vandasamari verkefni. Þær benda einnig á að flest námskeið á vegum Prenttæknistofnunar séu haldin á vinnutíma. Til að sækja þau þurfi leyfi verkstjóra sem ekki sé alltaf auðsótt.

Að lokum fullyrða þær að þegar þær hafi óskað eftir nánari skýringum á því hvers vegna þeim var sagt upp störfum, hafi verið vísað til fjölskylduaðstæðna þeirra. Ákvörðun sem byggi á því hvort þær hafi fyrir öðrum að sjá eða eigi útivinnandi maka hljóti að teljast andstæð ákvæðum jafnréttislaga.

Forstjóri Prentsmiðjunnar Odda hf. leggur áherslu á mikla samkeppni innan prentiðnaðarins, bæði milli fyrirtæki innanlands og erlendis. Forsenda þess að fyrirtæki geti lifað af slíka samkeppni sé að það hafi hæfasta starfsfólk sem völ er á hverju sinni. Við prentsmíði starfi hjá fyrirtækinu 23 konur og 42 karlar og sjái þau um undirbúning prentunar. Kærendur hafi starfað við filmu- og plötugerð en þar hafi starfað í byrjun ársins 1994 nítján manns, þar af sjö konur og fjórir nemar. Vegna ónógra verkefna hafi fyrirtækið frá áramótum 1993/1994 neyðst til að segja upp fimm starfsmönnum, þremur konum og tveimur körlum. Í bréfi fyrirtækisins dags. 18. mars 1994 segir síðan:

Þetta fólk vinnur við filmuskeytingu og plötugerð en þar, eins og víðar í fyrirtækinu, hefur orðið umtalsverður samdráttur, sem er bæði vegna minnkandi verkefna og þróunar í forvinnslu prentgripa, sem almennt er að gerast í prentiðnaði. Tölvuvæðing í prentsmiðjum - og ekki síður tölvuvæðing útgefenda prentaðs máls - er að leysa handavinnu af hólmi í mjög ríkum mæli. Sú vinna sem áður var alfarið unnin í prentsmiðjum er nú að færast yfir í tölvur verkkaupans og er ekki séð fyrir endann á þeirri þróun. Við höfum að sjálfsögðu orðið að aðlaga okkur þessari þróun, bæði með því að tölvuvæðast sjálfir og laga okkur að þróuninni hér innan húss að öðru leyti. Einn liðurinn í þessu er að vinna á ljósaborðum dregst saman en hann, ásamt samdrætti á markaðnum, er orsök uppsagna karla og kvenna undanfarið.

Tekið er fram að þetta séu ástæður uppsagnar starfsmannanna en ekki kynferði eða fjölskylduaðstæður. Hins vegar hafi legið fyrir beiðni frá trúnaðarmanni Félags bókagerðarmanna um að reynt yrði að taka tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna við ákvörðun um hverjum yrði sagt upp. Það sé hins vegar verulega vandasamt og oft ekki á færi fyrirtækja að meta heimilishagi starfsmanna sinna og slíkt megi að sjálfsögðu aldrei verða til þess að starfsmönnum sé mismunað eftir kynferði.

Þeirri fullyrðingu kærenda að konur njóti ekki sömu möguleika og karlar til endurmenntunar og framfara í starfi er alfarið vísað á bug. Óvíða hafi starfsfólki, bæði konum og körlum, staðið til boða jafn mörg námskeið og möguleikar starfsmanna Prentsmiðjunnar Odda hf. til endurmenntunar séu því miklir. Á vegum Prenttæknistofnunar hafi verið haldin sérstök námskeið fyrir starfsfólk fyrirtækisins auk almennra námskeiða. Að auki hafi starfsfólki boðist að nota tölvur fyrirtækisins til æfinga utan vinnutíma. Margir, bæði konur og karlar, hafi sýnt framkvæði í starfi, sótt námskeið á þeirra vegum og önnur og jafnvel tekið með sér námsbækur heim til að vera betur undirbúið. Þetta fólk tileinki sér hina nýju tækni fyrr en aðrir. Tvær stúlknanna sem hér um ræði hafi vissulega sótt námskeið á vegum fyrirtækisins en ekki sýnt neina sérstaka framför eða áhuga. Sú þriðja hafi hvorki sótt námskeið né sýnt þeim eða hinni nýju tækni áhuga. Að sjálfsögðu reyni fyrirtækið að halda í fólk sem sýni starfi sínu áhuga og tileinka sér nýja tækni. Þeir sem ekki geri það, víki fyrst þegar starfsfólki sé fækkað.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Tekið er fram að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að þeim tilgangi verði náð.

Ýmis ákvæði laganna fjalla um skyldur atvinnurekenda til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Má í því sambandi nefna 5. gr. laganna er kveður á um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skuli atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Skv. 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf og um uppsögn úr starfi. Um starfsmenntun og starfsþjálfun er kveðið í 9. gr. laganna og þar lögfest að konur og karlar skuli njóta sömu möguleika til framhaldsmenntunar, starfsþjálfunar og til að sækja námskeið til að auka hæfni sína í starfi eða til undirbúnings annars starfs.

Kærunefnd jafnréttismála telur að við mat á því hvort uppsögn úr starfi brjóti gegn ákvæðum jafnréttislaga beri, eftir því sem við á, að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í 8. gr. um mat á því hvenær ráðning í starf telst brot á ákvæðum jafnréttislaga. Samkvæmt 8. gr. skal kærunefnd þegar þess er óskað fara fram á það við atvinnurekanda að hann veiti nefndinni upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Fullyrðingum kærenda um að hjá Prentsmiðjunni Odda h.f starfi karlar með sömu menntun og þær en styttri starfsaldur hefur ekki verið mótmælt af forstjóra fyrirtækisins. Ágreiningslaust virðist einnig að í störfum prentsmiða starfi ófaglærðir karlar þrátt fyrir ákvæði iðnaðarlaga nr. 42/1978 um lögverndun greinarinnar. Telja verður að það sé með fullri vitund stéttarfélags starfsmannanna, Félags bókagerðarmanna, en upplýst er að rætt var við trúnaðarmann starfsmanna á vinnustaðnum um fyrirhugaðar uppsagnir. Forstjóri Prentsmiðjunnar Odda hf. leggur áherslu á að þessir starfsmenn hafi sérstaka hæfileika umfram kærendur, sem felist m.a. í almennum áhuga þeirra á starfinu, endurmenntun þeirra og hæfni til að takast á við þróunina innan prentiðnaðarins. Líta verður svo á að þessi skýring atvinnurekanda taki bæði til þeirra starfsmanna sem hafa sömu menntun og kærendur en styttri starfsaldur og þeirra sem ekki hafa sömu menntun. Kærunefnd telur það hins vegar utan síns verksviðs að taka afstöðu til þess hvort uppsagnirnar feli í sér brot á ákvæðum iðnaðarlaga.

Þegar gögn málsins eru virt telur kærunefnd jafnréttismála að forstjóri Prentsmiðjunnar Odda hf. hafi sýnt nægjanlega fram á að uppsagnir starfsmannanna A, B og C hafi ekki brotið gegn 4. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, sbr. 2. mgr. 6. gr.

Af gögnum málsins má ráða að engin stefna virðist til staðar hjá Prentsmiðjunni Odda hf. um starfsþjálfun og endurmenntun starfsmanna. Slík stefna er að mati kærunefndar nauðsynleg, ekki síst til að tryggja að starfsmenn fái sömu tækifæri til að þroskast í starfi en séu ekki háðir duttlungum eða velvilja yfirmanna hverju sinni. Á þetta ekki síst við um þær starfsgreinar þar sem þróun er mjög ör eins og í prentiðnaði. Kærunefnd jafnréttismála hvetur forsvarsmenn Prentsmiðjunnar Odda hf. til að móta stefnu á þessu sviði í samráði við stéttarfélag starfsmanna.

Kærendur hafa leitt að því nokkrar líkur að þær hafi ekki setið við sama borð varðandi endurmenntun og starfsþjálfun og aðrir starfsmenn. Ekki er hins vegar fyllilega ljóst hvar orsakanna fyrir því er að leita.

Með vísan til þess telur kærunefnd jafnréttismála að kærendur hafi ekki sýnt nægjanlega fram á líkur á því að þeim hafi verið mismunað vegna kynferðis við starfsþjálfun og endurmenntun hjá fyrirtækinu, sbr. 9. gr. jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta