Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/1994

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 11/1994.

A
gegn
Skólaskrifstofu Reykjavíkur og skólamálaráði Reykjavíkur.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 12. maí 1995 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 6. september 1994 óskaði A, leikskólakennari og uppeldis- og menntunarfræðingur eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort ráðning í stöðu deildarstjóra skólaþjónustudeildar Skólaskrifstofu Reykjavíkur bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með bréfi dags. 22. september 1994 var óskað afstöðu skólamálaráðs Reykjavíkur til erindisins. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um fjölda umsækjenda, menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans umfram kæranda og um hlutfall kynja í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá Skólaskrifstofu Reykjavíkur. Svarbréf forstöðumanns skólaskrifstofu er dags. 25 október 1994. Á fund nefndarinnar mættu A, kærandi málsins, og B, forstöðumaður Skólaskrifstofu Reykjavíkur.

Starf deildarstjóra þjónustudeildar Skólamálaskrifstofu Reykjavíkur, sem er nýtt starf, var auglýst laust til umsóknar þann 24. júlí 1994. Ekki var gerð krafa um tiltekna menntun. Í auglýsingu er starfinu lýst svo:

Deildarstjórinn hafi m.a. með höndum faglega og rekstrarlega ráðgjöf og eftirlit með starfsemi heilsdagsskóla og skóladagheimila. Hann vinni að stefnumótun og verði ráðgefandi við gerð fjárhagsáætlunar fyrir sömu starfsemi. Þá er deildarstjóranum ætlað að sinna ýmsum öðrum þjónustuþáttum, sem Skólaskrifstofan hefir með höndum eða til kann að verða stofnað.

Umsækjendur voru fjórtán. Á fundi skólamálaráðs þann 15. ágúst 1994 var samþykkt að ráða C í starfið. Hann hlaut þrjú atkvæði en D tvö.

Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsreynslu A og B.

A lauk prófi frá Fósturskóla Íslands árið 1974 og stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1986. Hún lauk eins árs sérnámi í stjórnun, skipulagningu og félagsuppeldisfræði fyrir leikskólakennara, grunnskólakennara, félagsráðgjafa og þroskaþjálfa frá Den Social Pædagogiske Höjskole í Kaupmannahöfn árið 1990 og B.A. prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. A starfaði sem leikskólakennari árin 1974 til 1976 og grunnskólakennari 1976 til 1983. Tímabilið 1983 til 1989 starfaði hún sem leikskólakennari og leikskólastjóri, að frátöldu einu ári er hún var ritari hjá Vinnueftirliti ríkisins. Frá árinu 1992 hefur hún starfað hjá Dagvist barna í Reykjavík, fyrst við sérfræðiaðstoð hjá sálfræði- og sérfræðideild en síðan í sérverkefnum við leikskólastjórnun. Árin 1993 og 1994 aðstoðaði hún við rannsóknir í uppeldisfræði við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands og var þar um að ræða 20% starf. A hefur sótt ýmis námskeið bæði hjá Fósturskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

C lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1965 með smíði sem sérgrein og sveinsprófi í húsasmíði árið 1968. Veturna 1979 til 1980 og 1992 til 1993 var hann við nám í list- og verkgreinum ásamt kennslu- og uppeldisfræði við Dansk Slöjdlærerskole í Kaupmannahöfn. Fyrri hluta vetrar 1979 til 1980 var C við nám og starfsþjálfun við skipulag námskeiða, námsstjórn, námsefnis- og námskrárgerð ásamt ráðgjöf um innra starf skóla hjá Fræðsluskrifstofu Oslóarborgar og hjá sænska menntamálaráðuneytinu í Stokkhólmi. Hann hefur sótt ýmis námskeið bæði hjá Kennaraháskóla Íslands og menntamálaráðuneytinu. Á árunum 1965 til 1987 starfaði C sem kennari, fyrst við barnaskóla Vestmannaeyja en síðan við Hvassaleitisskóla í Reykjavík. Hann var kennari við Kennaraháskóla Íslands frá 1987 til 1993 og í hlutastarfi hjá menntamálaráðuneytinu 1983-1992, fyrst í skólaþróunardeild, þá skólarannsóknardeild og síðast í grunnskóladeild m.a. við námsstjórn, námsskrár- og skólanámsskrárgerð, námskeiðahald, ráðgjöf og eftirlit með innra starfi skóla, mat á skólastarfi og við nýbreytni og þróunarstörf í grunnskólum.

Lögð hafa verið fram drög að starfslýsingu fyrir deildarstjóra unnin af skólamálaskrifstofu en þau eru enn í vinnslu og hafa því ekki verið staðfest af skólamálaráði. Verða þau því ekki lögð til grundvallar við umfjöllun málsins.

A rökstyður erindi sitt til kærunefndar svo að hún hafi bæði meiri menntun en sá sem ráðinn var í starfið og að menntun hennar falli mun betur að þeirri lýsingu sem gefin var í starfsauglýsingu. Þar sé tekið fram að um stefnumótandi starf sé að ræða og deildarstjóri muni sinna rekstrarlegri og faglegri ráðgjöf. Menntun hennar á sviði uppeldis- og menntunarfræða og starfsreynsla hennar við stefnumótun og ráðgjöf til margra ára, nú síðustu ár hjá Dagvist barna, falli betur að framangreindri lýsingu en menntun og starfsreynsla þess sem ráðinn var. Að auki eigi hún að baki sjö ára starf sem grunnskólakennari og hafi sem kennari tekið þátt í þróunarstarfi innan grunnskólans, unnið að skipulagningu félagsstarfs nemenda og sinnt námsaðstoð í samvinnu við fræðsluskrifstofu umdæmisins. Í starfi sínu hjá Dagvist barna hafi hún bæði verið ráðgefandi við gerð fjárhagsáætlunar fyrir þá stofnun og unnið eftir slíkri áætlun. Starfsreynsla hennar á uppeldis- og menntunarsviði sé því bæði löng og víðtæk enda hafi hún helgað sig þessari starfsgrein frá árinu 1974 jafnframt því að auka við menntun sína á þessu sviði.

A bendir á að mun fleiri konur en karlar starfi að menntamálum á grunnskólastigi en mjög fáar konur séu þar í stjórnunar- og stefnumótunarstörfum. Upplýst er að forstöðumaður Skólamálaskrifstofu Reykjavíkur og allir þrír deildarstjórarnir sem undir hann heyra eru karlar.

Í greinargerð A til kærunefndar jafnréttismála dags. 3. febrúar 1995 kveðst hún einungis hafa verið kölluð í stutt viðtal við forstöðumann skólaskrifstofu en enginn frá skólamálaráði hafi verið viðstaddur. Í samtalinu hafi ekkert komið fram sem hafi gefið til kynna að hennar mati að forstöðumaðurinn þekkti til náms í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands og í svo stuttu viðtali hafi enginn kostur gefist á að útskýra það. Henni sé ekki kunnugt um að skólamálaráð hafi aflað sér þeirra upplýsinga. Skólamálaráð hafi aftur á móti kallað sérstaklega eftir meðmælum fyrrum yfirmanna og samstarfsmanna þess, sem ráðinn var. Engra slíkra umsagna hafi verið leitað vegna umsóknar hennar.

Í framangreindri greinargerð segir síðan:

Barátta kvenna fyrir bættri stöðu á vinnumarkaði hefur meðal annars farið þannig fram að konur hafa aflað sér aukinnar menntunar til að gegna ábyrgðarstörfum. Þá leið valdi ég í trausti þess að menntunin gæfi aukna möguleika innan starfssviðs menntamála. Ég tel að með því að ganga framhjá fólki með háskólapróf í uppeldis- og menntagreinum sé Skólamálaráð Reykjavíkurborgar að brjóta ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 1991.

Kærandi hefur vakið athygli á því að skólamálaráð hafi leitað eftir skriflegum umsögnum um C en engra slíkra umsagna hafi verið leitað um sig. Þá er vakin athygli á því að ein þessara umsagna, umsögn rektors Kennaraháskólans, er dagsett 6. október 1994 eða hálfum mánuði eftir að skólamálaráði barst tilkynning um að stöðuveitingin hefði verði kærð til kærunefndar jafnréttismála og lá sú umsögn því ekki fyrir við stöðuveitinguna.

Í umsögn skólamálaráðs dags. 21. október 1994 sem undirrituð er af forstöðumanni Skólaskrifstofu Reykjavíkur er áhersla lögð á að umfjöllun skólamálaráðs hafi eingöngu byggst á faglegu mati og kynferði umsækjenda engu ráðið þar um. Ákveðið hafi verið að gera ekki kröfu um tiltekna menntun í starfsauglýsingu og hafi skólamálaráð með því viljað halda því opnu að ráða umsækjanda með kennaramenntun sem og annars konar menntun s.s. á sviði kennslu- og uppeldismála. Hafi síðan verið ráðsins að meta umsækjendur á grundvelli þess hvernig menntun þeirra og starfsreynsla félli sem best að því starfi sem verið var að ráða í.

Í umsögninni segir síðan:

Þegar litið er sérstaklega til þeirra þátta starfs deildarstjórans sem lúta að umsjón, eftirliti, skipulagi og rekstri heilsdagsskólans og skóladagheimila ber að hafa eftirfarandi staðreyndir í huga:

  1. Um er að ræða skólatengda þjónustu, þar sem þættir eins og námsaðstoð, skipulag tómstundastarfs og efling list- og verkgreina skipa verulegan sess. Flutningur skóladagheimila frá Dagvist barna til Skólaskrifstofu á þessu hausti undirstrika vægi skólaþáttarins í starfi deildarstjórans. (leturbr. Skólamálaráðs)
  2. Einnig felur starfið í sér fjármálaeftirlit, mannaráðningar, launabókhald, áætlanagerð o.fl.
  3. Deildarstjórinn þarf einnig að móta starf kennara og annarra starfsmanna við heilsdagsskóla og tengja það í víðum skilningi öðru starfi grunnskólans.

Fram kemur að við ákvörðun hafi verið horft til þess að um nýtt starf væri að ræða sem að hluta til mundi mótast í höndum þess sem ráðinn yrði og því verið talið mikilvægt að líta til þekkingar og reynslu af skólastarfi. Mat ráðsins hafi verið að C væri hæfastur umsækjenda. Er bent á langan starfsferil C sem kennara bæði í grunnskóla og við kennslu kennaranema og á starf hans í menntamálaráðuneytinu þar sem hann hafði með höndum m.a. námsstjórn, námsskrár- og skólanámsskrárgerð, ráðgjöf og eftirlit með innra starfi skóla og frumkvæði að þróunarstarfi í grunnskólum. Ennfremur hjá íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur á árunum 1971 til 1979 þar sem hann hafi m.a. haft með höndum faglega stjórnun á framkvæmd æskulýðs- og tómstundastarfs í grunnskólum borgarinnar.

Að lokum segir í umsögninni:

Á fundum Skólamálaráðs sitja, auk ráðsmanna, forstöðumaður Skólaskrifstofu, forstöðumaður kennslumáladeildar, fræðslustjóri og fulltrúar kennara, skólastjóra og foreldra með málfrelsi og tillögurétt. Engar bókanir eða skriflegar athugasemdir komu frá þessum fulltrúum um ráðningu í starf deildarstjóra Þjónustudeildar.

Í viðtali við kærunefnd lagði forstöðumaður skólaskrifstofu áherslu á vægi reynslu og þekkingar á innra starfi grunnskólans. Hann kvað stefnu skólamálayfirvalda þá að færa alla starfsemi vegna grunnskólabarna inn í grunnskólann með einsetningu og eflingu starfsemi heilsdagsskóla. Að sama skapi væri stefnt að því að draga úr starfsemi skóladagheimila.

NIÐURSTAÐA

Eitt af meginmarkmiðum jafnréttislaga nr. 28/1991 er að tryggja konum jafnstöðu á við karla á vinnumarkaði. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnunana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Á því verður að byggja sem meginreglu í íslenskri stjórnsýslu að ráða beri þann hæfasta sem um opinbert starf eða stöðu sækir, sbr. til hliðsjónar ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð, bæði hjá hinu opinbera og á hinum almenna vinnumarkaði.

Í máli því, sem hér er til umfjöllunar, er óumdeilt að menntun A á sviði uppeldis- og menntunarmála er meiri en C. Hins vegar hefur C mun lengri og víðtækari starfsreynslu. Verður því að telja þau jafnhæf í þessu tilliti. Kemur þá til álita hvort sýnt hefur verið fram á sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var. Í samtali við kærunefnd kom fram hjá forstöðumanni Skólaskrifstofu Reykjavíkur að kennsluréttindi C og víðtæka reynsla hans af skóla- og æskulýðsmálum hefðu vegið þungt.

Hin auglýsta staða er ekki kennslustaða og til hennar þarf ekki kennsluréttindi enda var ekki auglýst eftir kennara í starfið. Það kom hins vegar fram í máli forstöðumanns skólaskrifstofu að ástæða þess að ekki var auglýst eftir kennara hefði verið sú að skólamálaráð hefði vonast til að fá umsækjanda með bæði kennaramenntun og leikskólakennaramenntun. Á slíkt var hins vegar ekki minnst í auglýsingu og starfslýsing í auglýsingu bar ekki þann vilja með sér. Við mat á því hvernig menntun og starfsreynsla umsækjenda fellur að umræddu starfi verður fyrst og fremst að horfa til þeirrar lýsingar á starfinu sem fram kemur í auglýsingu og þegar litið er til menntunar A verður að telja að hún falli sérstaklega vel að þeirri lýsingu.

Þeir sérstöku hæfileikar sem skólamálaráð Reykjavíkur telur C hafa umfram A þykja að mati kærunefndar jafnréttismála ekki vega þyngra en menntun hennar. Með vísan til þessa og hlutfalls kvenna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hjá Skólaskrifstofu Reykjavíkur er það niðurstaða kærunefndar, að skólamálaráð hafi með ráðningu C í stöðu deildarstjóra hjá skólaþjónustudeild Skólaskrifstofu Reykjavíkur brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til skólamálaráðs Reykjavíkurborgar að fundin verði viðunandi lausn á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta