Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/1994

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 12/1994

A
gegn
Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála mánudaginn 26. júní 1995 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með kæru dags. 9. desember 1994 fór konan A, hjúkrunarforstjóri, þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma (hér eftir KGRP) hefði, með ráðningu B í stöðu forstjóra KGRP, brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá KGRP um:

  1. fjölda umsækjenda, aðgreindra eftir kyni

  2. menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var

  3. hvaða sérstaka hæfileika B hefði umfram A

  4. fjölda starfsmanna hjá KGRP, aðgreindra eftir kyni

  5. aðrar þær upplýsingar sem að mati KGRP gætu komið að gagni við mat á því hvort jafnréttislög hefðu verið brotin.

Svarbréf formanns stjórnar KGRP er dags. 31. janúar 1995. Stjórnin fól síðan lögmanni sínum að annast málið fyrir hönd KGRP. Bréf hans til kærunefndar eru dags. 29. mars 1995 og 20. júní 1995. Hann kom á fund nefndarinnar 12. maí 1995.

A kom á fund nefndarinnar 26. maí 1995. Greinargerð og bréf hennar eru dags. 30. mars 1995 og 12. júní 1995.

Staða forstjóra KGRP var auglýst laus til umsóknar hinn 16. október 1994. Í auglýsingunni segir:

Forstjórinn hefur yfirumsjón með allri starfsemi stofnunarinnar samkvæmt lögum um kirkjugarða.

Leitað er að einstaklingi, sem hefur menntun og þekkingu til að takast á við þetta starf. Algjört skilyrði að viðkomandi hafi víðtæka stjórnunarreynslu.

Góð tungumálakunnátta er nauðsynleg, enska og eitt Norðurlandamál.

Stjórn KGRP fól framkvæmdastjórn, sem í eiga sæti þrír menn og þrír til vara að undirbúa ráðninguna. Framkvæmdastjórn leitaði til C, Ráðgjafar og ráðningarþjónustu, sem sá um auglýsingu og veitti ráðgjöf við meðferð umsókna. Umsækjendur um stöðuna voru þrjátíu og þrír, þar af þrjár konur. Framkvæmdastjórn fór yfir allar umsóknirnar og valdi, með aðstoð C, þrettán umsækjendur til frekari skoðunar og átti viðtöl við þá. Af þessum þrettán voru tvær konur. Að viðtölum loknum valdi framkvæmdarstjórn fimm umsækjendur úr þessum hópi og lagði fyrir stjórn KGRP að velja forstjóra úr þeim hópi. Þessir fimm voru allir karlmenn. Stjórnin valdi síðan B til að gegna starfinu.

A lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1962, prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands 1974, B.sc. prófi í gjörgæsluhjúkrun frá Várdhögskolan í Lundi 1979, B.Sc. prófi í viðskipta- og hagfræði frá Háskólanum í Lundi 1989, Fil. kand. prófi í stjórnun frá Háskólanum í Lundi 1990 og B.Sc. prófi í hjúkrun frá H.í. 1993. Auk þess hefur hún sótt ýmis námskeið, flest á sviði heilbrigðismála og stjórnunar. Hún vann við kennslu á árunum 1963-1971, við hjúkrun, einkum gjörgæsluhjúkrun, bæði í Lundi og á Íslandi á árunum 1974-1982 og við stjórnun á Háskólasjúkrahúsinu í Lundi frá 1982-1986. Frá 1986 hefur hún starfað sem hjúkrunarforstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971 og Cand. theol. prófi frá H.Í. 1978. Hann lauk þriggja missera námi í viðskipta- og rekstrarfræðum frá Endurmenntunarstofnun H.Í. 1991. Auk þess hefur hann sótt ýmis námskeið á sviði tölvumála. Hann starfaði sem sóknarprestur á árunum 1978-1984 og sem deildarstjóri viðskiptadeildar Rafmagnsveitu Reykjavíkur frá 1984-1995.

A leggur áherslu á að hún sé hæfari umsækjandi en B. Í auglýsingu um starfið sé tekið fram að víðtæk stjórnunarreynsla sé algjört skilyrði. Hún hafi starfað í sex ár sem framkvæmdastjóri hjúkrunar taugalækningasviðs á Háskólasjúkrahúsinu í Lundi og verið hjúkrunarforstjóri FSA í meira en átta ár þar sem hún hafi verið yfirmaður u.þ.b. 300 starfsmanna. Í starfi sínu hjá FSA hafi hún yfirumsjón með rekstri á líkhúsi sjúkrahússins. Í því felist sama starf og fram fari í Fossvogskirkju að jarðarförum undanskildum, þ.e.a.s. móttaka allra þeirra, sem látast á starfssvæði sjúkrahússins, búnaður þeirra í kistu og kistulagningar. Þá hafi hún í starfi sínu sem hjúkrunarforstjóri FSA séð um skipulagningu og uppbyggingu kristilegs starfs á sjúkrahúsinu í samvinnu við sóknarpresta.

A leggur áherslu á að val framkvæmdastjórnar á þeim fimm umsækjendum sem stjórn KGRP var gefinn kostur á að kjósa um hafi verið brot á jafnréttislögum. í máli A kom fram að hún teldi viðtal það sem framkvæmdastjórn átti við hana ekki uppfylla þau skilyrði sem gera verði til slíkra viðtala. Sér hafi strax fundist að ekki væri neinn áhugi á umsókn hennar og viðtalið væri einungis til málamynda. Þegar hún hafi minnst á reynslu sína af útfararþjónustu hafi sér verið sagt að forsendur væru breyttar þar sem búið væri að greina útfararþjónustuna frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Myndi hún ekki heyra undir væntanlegan forstjóra og kveðst hún hafa skilið það svo að þannig yrði það framvegis.

Í bréfi stjórnar KGRP frá 31. janúar 1995 segir:

„Þegar menntun og starfsreynsla B og A eru borin saman og haft er í huga forstjórastarf hjá K.G.R.P. sem er sjálfseignarstofnun safnaða í Reykjavíkurprófastsdæmum, hefur B að mati framkvæmdastjórnar K.G.R.P. mikla yfirburði. Þessi yfirburðir hans felast a.v. í guðfræðimenntun hans og reynslu í safnaðarstörfum og haldgóðri menntun hans við Háskóla Íslands í viðskipta- og rekstrarfræðum, ásamt 10 ára stjórnunarreynslu yfir viðskiptadeild R.R., þar sem öll helstu fyrirtæki landsins eru í viðskiptum og um 50% íbúanna býr.“

Í bréfi lögmanns KGRP er ítrekað að það hafi vegið þungt í huga framkvæmdastjórnarmanna að B hefði guðfræðimenntun, mikla þekkingu og reynslu af kirkjulegu starfi og safnaðarstarfi, víðtæka stjórnunarreynslu ásamt viðskipta- og rekstrarfræðimenntun.

Í samtali við kærunefnd sagði lögmaðurinn að A hefði komið vel út við hlutlægt mat á umsækjendum en huglæg atriði hefðu ráðið því að hún var ekki valin í fimm manna hópinn. Einnig hefði framkvæmdastjórn leitað ýmissa upplýsinga um hana og þær verið á þann veg að hún væri umdeild og það gustaði um hana. Það væri ekki endilega neikvætt, en þó í þetta starf, þar sem um samskipti við syrgjendur væri að ræða. Ennfremur hefði það haft sitt að segja að þeim hefði verið kunnugt um að hún hefði sótt um fleiri störf á Reykjavíkursvæðinu, en ekki fengið, svo sem stöðu forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og stöðu framkvæmdastjóra Félags ísl. hjúkrunarfræðinga. Þeir hefðu því ályktað að þeir væru ekki þeir einu sem teldu hana ekki nægilega hæfa. Aðspurður taldi lögmaðurinn þó ekki að synjun á umsókn A um stöðu forstjóra Tryggingarstofnunar ríkisins segði mikið um hæfni hennar. Þá hefði þeim þótt óheppilegt að A myndi lækka í launum. Aðspurður sagði lögmaðurinn að ekki hefði verið kannað hvort aðrir umsækjendur myndu lækka í launum. Loks kom fram í samtali við lögmanninn að framkvæmdastjórnin taldi A ekki líklega til að hafa skilning á virku kostnaðaraðhaldi, en það væri mikilvægt í þessu starfi.

Í bréfi lögmanns KGRP kom fram að ekki væri unnt að veita frekari upplýsingar um þá fimm umsækjendur sem fóru í lokaúrtakið þar sem umsóknir þeirra hefðu verið endursendar þegar ráðið hefði verið í stöðuna og stjórn KGRP ekki talið við hæfi að óska eftir afritum af gögnum þessum né heldur halda frumritum þeirra í vörslum sínum, eftir að niðurstaða um ráðninguna lá fyrir.

A upplýsti að sér hefði verið boðið starf framkvæmdastjóra Félags ísl. hjúkrunarfræðinga þegar hún sótti um það, en ekki tekið því þar sem launin hefðu verið of lág. Því til staðfestingar lagði hún fram afrit bréfs úr skjalasafni Hjúkrunarfélags Íslands þar sem fram koma launakröfur hennar. Hvað varðar guðfræðimenntun B sé það ljóst að hún hafi ekki slíka menntun enda hafi ekki verið auglýst eftir guðfræðingi heldur manneskju með menntun til að takast á við starfið og hana telji hún sig hafa. A vísar einnig til bréfs D, bæjarstjóra Akureyrar og fyrrverandi framkvæmdastjóra FSA, en undir hans stjórn vann hún í fjögur ár, en þar segir:

„Hún lagði sig fram við stjórnun á sínu sviði og tók á ábyrgan og virkan þátt í rekstri og stjórnun sjúkrahússins. Menntun og starfsfræðslu starfsfólksins sýndi hún mikinn áhuga. A er samviskusöm og hefur sterka réttlætiskennd. Hún er metnaðarfull og kappkostar að leysa starf sitt vel af hendi. Öll samskipti og samstarf A við framkvæmdastjóra sjúkrahússins á þessu tímabili voru mjög góð og til fyrirmyndar.“

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnanna og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. 17. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Skv. 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hefur til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvalli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að láta það kynið ganga fyrir sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru aðstæður þannig að ekki er unnt að bera saman kæranda og fjóra af þeim fimm umsækjendum sem stjórn KGRP kaus í milli þar sem gögn um þá hafa ekki legið fyrir. Verður því að gera ráð fyrir að sá sem valinn var í starfið hafi verið þeirra hæfastur.

Stjórn KGRP hefur haldið því fram að yfirburðir B felist í guðfræðimenntun hans og haldgóðri menntun í viðskipta- og rekstrarfræðum við Endurmenntastofnun H. Í. ásamt 10 ára stjórnunarreynslu sem deildarstjóri viðskiptadeildar Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Samkvæmt upplýsingum, sem fyrir liggja í bréfi lögmanns KGRP, dags. 20. júní 1995, stóð ekki til þegar starfið var auglýst og ráðning fór fram að Útfarastofa kirkjugarðanna heyrði undir það. Síðan hafi því verið breytt. Með vísan til þessa mætti ætla að guðfræðimenntun hefði ekki átt að skipta sérstaklega máli þegar ráðið var í starfið enda ekki gerð að skilyrði í auglýsingu um það.

A er viðskiptafræðingur að mennt og auk þess með Fil. kand. próf í stjórnun. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja er menntun hennar á þessu sviði meiri en B. Einnig stjórnunarreynsla sem rík áhersla var lögð á í auglýsingu um starfið. Þegar allt þetta er virt verður að telja að A hafi þá eiginleika sem auglýst var eftir í ríkara mæli en sá sem ráðinn var.

Kemur þá til álita hvort stjórn KGRP hafi sýnt fram á að B hafi aðra sérstaka hæfileika umfram A sem réttlættu ráðningu hans í starf forstjóra KGRP þrátt fyrir menntun A og starfsreynslu.

Eins og að framan er rakið telur lögmaður KGRP að huglæg atriði hafi ráðið því að A var ekki valin í lokaúrtakið. Kærunefnd fellst á að slík atriði geti með öðru komið til skoðunar við mat á hæfni einstaklinga í starf. Stjórn KGRP hefur haldið því fram að ýmsar upplýsingar sem hún hafi aflað sér um A hafi bent til þess að hún væri ekki heppileg í starfið. Engin gögn hafa þó verið lögð fram þessu til stuðnings. Í þessu tilviki komst framkvæmdastjórn KGRP að niðurstöðu um A að loknu stuttu viðtali sem hún kveðst hafa upplifað svo að það væri til málamynda og ekki uppfyllt kröfur sem gera verði til slíkra viðtala. Enginn af starfsmönnum ráðningarstofunnar sem aðstoðaði við val á umsækjendum var viðstaddur viðtalið en vænta má að þeir hefðu getað lagt hlutlaust og faglegt mat á það sem fram fór. Kærunefnd telur að niðurstöðu, byggða á huglægu mati á umsækjanda, verði að taka með varúð og í þessu tilvikið verði ekki á henni byggt.

Hvað varðar þá röksemd að A hafi ekki fengið önnur störf sem hún hafi sótt um, en umrædd störf voru stöður forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og framkvæmdastjóra Félags ísl. hjúkrunarfræðinga, fellst kærunefnd ekki á að slíkt geti verið réttmæt ástæða til að hafna umsækjanda í starf. Í síðara tilvikinu mun hafa verið um misskilning af hálfu framkvæmdastjórnar KGRP að ræða. A mun hafa átt kost á stöðu framkvæmdastjóra Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga en ekki samist um laun.

Efasemdir framkvæmdastjórnar KGRP um að A hefði skilning á kostnaðaraðhaldi eru ekki studdar neinum rökum. Þvert á móti liggur fyrir umsögn bæjarstjórans á Akureyri og fyrrum framkvæmdastjóra FSA um að A hafi tekið ábyrgan og virkan þátt í rekstri og stjórnun sjúkrahússins í starfi sínu sem hjúkrunarforstjóri.

Að mati kærunefndar hefur stjórn KGRP því ekki sýnt fram á neina þá sérstöku hæfileika B umfram A er vegi þyngra en menntun hennar og starfsreynsla. Með vísan til þess er það niðurstaða kærunefndar að með ráðningu B í starf forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma hafi stjórn KGRP brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til stjórnar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma að fundin verði viðunandi lausn á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

Ragnhildur Benediktsdóttir vék sæti í máli þessu. Hjördís Hákonardóttir, héraðsdómari, tók sæti hennar.

 

Hjördís Hákonardóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta