Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/1993

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 6/1993

A
gegn
Sjúkrahúsi Akraness.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 28. janúar 1994 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 3. ágúst 1993 óskaði A, ritari, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu skrifstofumanns við Sjúkrahúsið á Akranesi bryti gegn ákvæðum jafnréttislaga, 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með bréfi dags. 16. ágúst 1993 var framkvæmdastjóra Sjúkrahúss Akraness kynnt erindið og óskað eftir upplýsingum um fjölda umsækjenda, menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um hvaða sérstöku hæfileika hann hafi til að bera, sbr. 8. gr. jafnréttislaga. Svarbréf framkvæmdastjórans er dags. 30. ágúst 1993. Á fund kærunefndar mættu: kærandi, A, B, formaður stjórnar Sjúkrahúss Akraness og C, framkvæmdastjóri þess.

Staða skrifstofumanns hjá Sjúkrahúsi Akraness var auglýst laus til umsóknar í júní 1993. Í auglýsingu er starfinu lýst svo að í því felist m.a. merkingar og færslur bókhalds, útskrift reikninga og almenn skrifstofustörf. Fram kemur að æskilegt sé að umsækjendur hafi stúdentspróf eða sambærilega menntun og þekkingu og reynslu í notkun tölva. Umsækjendur um starfið voru alls 25, þar á meðal kærandi þessa máls. Stjórn sjúkrahússins ákvað að ráða í starfið D.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem ráðinn var.

A lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands árið 1986. Hún var við nám í læknisfræði við Háskóla Íslands eina önn og einn vetur við nám í meinatækni við Tækniskóla Íslands. Hún hefur sótt tölvunámskeið bæði hjá Stjórnunarfélagi Íslands og hjá Tölvufræðslunni á Akureyri. A vann við almenn skrifstofu- og bókhaldsstörf hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli í tæp tvö ár, 1987 og 1988, hjá bæjarfógetaembættinu á Akranesi á árinu 1989 og frá maí 1991 hefur hún verið ritari hjá Heilsugæslustöðinni á Akranesi. Hún kenndi ensku við Fjölbrautaskóla Vesturlands á árinu 1988. Hún vann við verslunar- og skrifstofustörf hjá Sigurjóni og Þorbergi h.f. sumrin 1980 til 1985, sem starfsstúlka á sjúkrahúsinu sumrin 1985 og 1986 og sem flokksstjóri hjá Vinnuskóla Akraness sumarið 1990.

D lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands vorið 1993. Hann starfaði á skrifstofu Knattspyrnufélags íþróttabandalags Akraness í þrjú ár með námi og sá þar um almennan rekstur. Sem sumarstörf hefur hann starfað sem flokkstjóri við Vinnuskóla Akraness og við verslunina Skagaver við pöntun á vörum.

Samkvæmt upplýsingum forráðamanna Sjúkrahúss Akraness eru konur um 85% starfsmanna. Á skrifstofunni störfuðu fram að ráðningu D tveir karlar og tvær konur, nú þrír karlar og ein kona. Karlar gegna störfum framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og bókara, starfi launafulltrúa gegnir kona.

Í erindi sínu til kærunefndar og á fundi með nefndinni gagnrýndi A harðlega hvernig staðið var að ráðningunni. Taldi hún ýmislegt benda til þess að ekkert hlutlægt mat hefði farið fram á umsækjendum. Stjórn Sjúkrahússins hefði í reynd ekki kynnt sér fyrirliggjandi umsóknir heldur samþykkt tillögu skrifstofustjóra um að ráða ungan pilt sem litla reynslu hefði haft af skrifstofustörfum. A taldi meginástæðuna fyrir þessu vali vera persónuleg tengsl skrifstofustjórans og D. Skrifstofustjóri Sjúkrahússins vær stjórnarmaður í Knattspyrnufélagi íþróttabandalags Akraness en þar hefði D starfað um skeið á skrifstofu sem aðstoðarmaður þjálfara. Svo virtist sem þekking hans á fótbolta og vinartengsl við skrifstofustjórann hefðu ráðið meiru en hæfni til að takast á við starfið. Engar skýringar hefðu komið fram á því hvaða sérstöku hæfileikum umfram hana D væri búinn. Ráðningin hlyti því að teljast brot á ákvæðum jafnréttislaga.

Í bréfi framkvæmdastjóra Sjúkrahúss Akraness til kærunefndar, dags. 30. ágúst 1993 er ákvörðun stjórnar skýrð svo: „Samkvæmt ósk skrifstofustjóra S. A., E, var D ráðinn í starfið. Hafði hann bæði stuðning stjórnar og framkvæmdastjóra, hvað þessa ráðningu snerti, en starfsmaður þessi vinnur að mestu leyti sem aðstoðarmaður skrifstofustjóra hvað varðar bókhald o.fl. Þegar ráðið er í störf, sem ekki eru stjórnunarstörf, þá hefur afstaða stjórnar yfirleitt verið sú, að farið er eftir óskum þess yfirmanns sem hefur með viðkomandi starfsmann að gera.“

Síðar í sama bréfi segir: „Hjá Knattspyrnufélagi Í.A. hefur D fengið mjög gott orð fyrir samviskusamlega unnin störf, lipurð í starfi og átt gott með að umgangast fólk. Hvað menntun [varðar] og annað sem óskað var eftir skv. auglýsingunni, þá teljum við að hann uppfylli þau skilyrði mjög vel, og að kynferði hafi ráðið því að hann fékk þetta starf, fær alls ekki staðist, enda er þetta í fyrsta sinn sem því er haldið fram, hvað ráðningar hjá okkur snertir. í gegnum störf sín hjá Knattspyrnufélagi Í.A. hefur E kynnst störfum D, og metið þau að verðleikum, þannig að hann óskaði eftir að hann fengi þetta starf.“

Á fundi með kærunefnd lögðu formaður stjórnar Sjúkrahússins og framkvæmdastjóri þess áherslu á að farið hefði verið með þessa umsókn með venjubundnum hætti. Formaður stjórnar upplýsti að skrifstofustjóri hefði á fundi stjórnarinnar fullyrt að D uppfyllti þau skilyrði sem fram hefðu komið í starfsauglýsingu. Þetta hefði nægt sér til að samþykkja ráðninguna. Jafnframt var upplýst að umsóknir hefðu ekki verið skoðaðar með það í huga hvaða sérstöku hæfileika D hefði umfram kæranda. Engar reglur væru í gildi hjá sjúkrahúsinu um hvernig standa bæri að mannaráðningum og fram kom sú skoðun að óþarft væri að kalla þá umsækjendur sem búa á Akranesi í viðtal þar sem stjórnarmenn þekki þá. ítrekuð var sú afstaða að starf D hjá Knattspyrnufélagi Í.A. hefði m.a. falið í sér bókhald og önnur almenn skrifstofustörf enda hann í reynd gegnt starfi framkvæmdastjóra. Starfsreynsla A væri hins vegar fyrst og fremst af afgreiðslustörfum hjá föður sínum en lítil af bókhaldsstörfum.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Í þessu skyni eru lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur og má sem dæmi nefna ákvæði 5. gr. laganna er mælir fyrir um að atvinnurekendur skuli vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Þá er atvinnurekendum skv. 6. gr. sömu laga forboðið að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf og 7. gr, laganna býður að störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum.

Það er meginregla í íslenskum rétti að ráða skuli þann umsækjanda sem hæfastur er talinn. Við mat á hæfni ber m.a. að horfa til menntunar og starfsreynslu. Þeir umsækjendur sem hér um ræðir hafa báðir lokið stúdentsprófi. A hefur jafnframt sótt tölvunámskeið hjá Stjórnunarfélagi Íslands og hjá Tölvufræðslu Akureyrar. Í starfsauglýsingu er sérstaklega tekið fram að reynsla í notkun tölva sé æskileg. Starfsreynsla A af skrifstofustörfum er tæp fimm ár eftir stúdentspróf. Starfsreynsla D er hjá Knattspyrnufélagi Í.A. en því starfi gegndi hann í þrjú ár meðfram námi í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Að öllu þessu virtu telur kærunefnd A hæfari til starfs þessa.

Þær skýringar sem fram hafa verið færðar af hálfu forsvarsmanna Sjúkrahúss Akraness á ráðningu D eru í ljósi þessa allsendis ófullnægjandi að mati kærunefndar. Þá hafa heldur engar upplýsingar komið fram um nokkra þá sérstöku hæfileika D sem réttlætt geti val á honum og þar með sniðgöngu hæfari umsækjanda.

Niðurstaða kærunefndar er því sú að með ráðningu D í starf skrifstofumanns hjá Sjúkrahúsi Akraness, hafi stjórn þess brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til stjórnar Sjúkrahúss Akraness að A verði greiddar hæfilegar bætur eða fundin verði önnur viðunandi lausn sem kærandi getur sætt sig við.

Kærunefndin telur ástæðu til að taka fram, að verulega hafi skort á að rétt og eðlilega hafi verið staðið að málum við ráðningu þessa, bæði almennt og með tilliti til jafnréttislaga.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Helgi Guðjónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta