Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/1992

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 1/1992:

A
gegn
Biskupsstofu f.h. Skipulagsnefndar kirkjugarða.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 1. júlí 1992 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:

 

Með bréfi dags. 30. desember 1991 óskaði A, landslagsarkitekt eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning B, landslagsarkitekts í stöðu umsjónarmanns kirkjugarða, sem tók gildi hinn 1. júní sl., bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

MÁLAVEXTIR

Haustið 1991 var auglýst laus til umsóknar staða umsjónarmanns kirkjugarða. Staðan heyrir undir skipulagsnefnd kirkjugarða og er Biskup Íslands, hr. C, formaður þeirrar nefndar og yfirmaður umsjónarmanns kirkjugarða. Starfið er þannig hluti af starfsemi íslensku þjóðkirkjunnar. 13 umsækjendur voru um stöðuna. Skipulagsnefnd kirkjugarða skipaði starfshóp þriggja manna til að fara yfir umsóknir og ræða við umsækjendur. Starfshópurinn skilaði áliti sínu þann 5. desember 1991 og var það sameiginleg niðurstaða hans að þau A, landslagsarkitekt, kærandi þessa máls og B, landslagsarkitekt teldust hæfustu umsækjendur.

Skipulagsnefnd kirkjugarða mælti með því við biskup, að B yrði ráðinn og var það gert.

Með bréfi dags. 30. desember 1991 óskaði A eftir því, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðningin bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Eftirtalin sátu í kærunefnd jafnréttismála við afgreiðslu máls þessa: Margrét Heinreksdóttir, settur héraðsdómari, Sigurður H. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og Hjördís Hákonardóttir, borgardómari, en hún tók sæti Ragnhildar Benediktsdóttur, skrifstofustjóra biskupsstofu, formanns kærunefndar jafnréttismála, þar sem hún vék sæti sökum vanhæfis í máli þessu.

Með bréfi dags. 12. febrúar 1992 var kæran kynnt Biskupsstofu og jafnframt farið fram á, að upplýst yrði um menntun og starfsreynslu þess er ráðinn var svo og hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til að bera, sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Báðum aðilum voru kynnt gögn málsins og gefinn kostur á að koma að upplýsingum er málið varðaði. Jafnframt komu á fund kærunefndar jafnréttismála A, landslagsarkitekt og biskup Íslands, herra C ásamt D, þáverandi umsjónarmanni kirkjugarða.

Í málinu liggja fyrir eftirfarandi upplýsingar um menntun og starfsreynslu þessara tveggja umsækjenda:

A stundaði nám við skrúðgarðabraut „Statens Gartnerskole Jensvoll“ í Noregi árin 1967 til 1969 og lauk cand. hort. prófi frá landslagsarkitektadeild norska landbúnaðarháskólans að Ási haustið 1973. Hún starfaði á arkitektastofu í Bergen árin 1973 til 1975 og í þrjá mánuði vann hún hjá garðyrkjudeild bæjarins Drammen með skipulagningu kirkjugarða að aðalverkefni. Árin 1976 til 1979 var hún kennari í skrúðgarðyrkju við Garðyrkjuskóla ríkisins og hefur frá árinu 1979 rekið eigin teiknistofu í Reykjavík. Hún hefur auk þess sinnt stundakennslu við Garðyrkjuskóla ríkisins og við Tómstundaskólann og haldið námskeið hjá Iðntæknistofnun. A hefur skrifað kennslubók í skrúðgarðyrkju, haldið fjölda erinda og skrifað greinar í blöð á sínu sviði.

Í málinu liggja einnig fyrir upplýsingar um ýmis verkefni sem A hefur unnið sem landslagsarkitekt. Má þar nefna m.a. skipulag á Hvanneyri þ.m.t. kirkjugarður, aðalskipulag Hóla í Hjaltadal og lóð kaþólska safnaðarins að Landakoti í Reykjavík. Ennfremur skipulag kirkjugarðs í Ólafsvík og kirkjugarðs við Kotstrandarkirkju.

B lauk prófi frá Garðyrkjuskóla ríkisins vorið 1978 og prófi í landslagsarkitektúr frá Norska landbúnaðarháskólanum að Ási vorið 1982. B var kennari við skrúðgarðabraut Garðyrkjuskóla ríkisins árin 1982 til 1986 og stundakennari við sama skóla árin 1988 til 1990. B rak eigin teiknistofu í Reykjavík árin 1986 til 1991. Af gögnum málsins kemur fram að lokaverkefni hans frá Landbúnaðarháskólanum í Noregi fjallaði um skipulag kirkjugarða á Íslandi með sérstakri áherslu á kirkjugarðinn að Hjarðarholti í Dölum. Hann sá um undirbúning og verkstjórn verklegra framkvæmda ásamt öðrum vegna 50 ára afmælissýningar Garðyrkjuskóla ríkisins sumarið 1989. Hann sat í undirbúningsnefnd vegna ráðstefnu um kirkjugarða sem haldin var vorið 1991 og flutti þar erindi um hleðslur og hellulagnir með sérstöku tilliti til kirkjugarða.

Um sérstaka hæfileika þess sem var ráðinn umfram kæranda segir í bréfi biskupsstofu dags. 26. febrúar 1992:

„Tveir umsækjendur höfðu menntun og starfsþekkingu umfram aðra, A og B, landslagsarkitektar. Voru vitanlega áhöld um, hvort skyldi velja til starfsins, en B þótti standa skör framar í þessu tilliti, þar sem hann hafði aflað sér sérþekkingar á þessu sviði, þar með talið, að hann valdi sér kirkjugarða sérstaklega sem skólaverkefni og skrifaði um þá lokaritgerð. Auk þess hefur hann haldið erindi á ráðstefnu um kirkjugarða, skipulag þeirra og umsjón. Það er því ljóst að hann hefur sýnt þessum þætti sérstakan áhuga og aflað sér sérþekkingar á þessu sviði.“

Í málinu liggur einnig fyrir starfslýsing fyrir umsjónarmann kirkjugarða frá árinu 1983. Þar kemur fram, að umrætt starf er afar viðamikið og því fylgir mikill erill, m.a. ferðir um landið og vinna utan hefðbundins vinnutíma. Einnig kemur fram, að í þessu starfi reyni mikið á hæfni til að miðla málum og sætta ólík sjónarmið. „Í þessu starfi reynir meira á félagslega þjálfun en í öðrum störfum“, segir orðrétt í starfslýsingu.

NIÐURSTAÐA

Kærunefnd jafnréttismála er sammála um eftirfarandi niðurstöðu:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Í lögunum er sérstaklega fjallað um stöðuveitingar, sbr. 2., 5. og 6. gr. laganna, en veigamikill þáttur í því að koma á jafnrétti er að þess sé gætt við ráðningar í störf og stöðuveitingar.

Vegna þessa var lögfest regla um öfuga sönnunarbyrði í l. 28/1991. Samkv. 6. gr. laganna skal atvinnurekandi sýna kærunefnd fram á, að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans við ráðningu, setningu eða skipun í starf. Samkv. 8. gr. laganna skal atvinnurekandi veita nefndinni skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram konuna/karlinn sá hefur til að bera sem ráðinn er í starf.

Það er mat kærunefndar jafnréttismála, byggt á fyrirliggjandi gögnum, að þeir tveir umsækjendur sem hér er fjallað um, séu báðir hæfir til að gegna starfi umsjónarmanns kirkjugarða. Þegar hins vegar er litið til aldurs þeirra og starfsreynslu, leiðir hlutlægt mat til þeirrar niðurstöðu, að A standi þar feti framar.

Á fundi kærunefndar með aðilum kom fram af hálfu Biskupsstofu, að við ráðningu í starf umsjónarmanns kirkjugarða hefði verið litið til þess, að félagslegur þáttur væri stór hluti af starfinu, m.a. samskipti við heimamenn í kirkjusóknum landsins. Hefðu umsækjendur því með öðru verið metnir út frá hæfileikum þeirra til að miðla málum og taka tillit til sjónarmiða annarra og B verið talinn hæfari að þessu leyti. Hann hefði til að bera sérstaka lipurð í samskiptum við fólk, sem mikið reyni á í starfinu.

Sú spurning vaknar af þessu tilefni hvort þetta sé fullgild ástæða skv. 8. gr. laga nr. 28/1991 þar sem talað er um „aðra sérstaka hæfileika umfram konuna“ sá hafi til að bera sem ráðinn var í starf. Þykir það ekki útilokað, en þar sem ekki hefur verið sýnt fram á, að A sé ekki lagið að sætta ólík sjónarmið eða taka tillit til þeirra, þykir þessi ástæða ekki geta réttlætt að gengið var framhjá henni við ráðningu í starf umsjónarmanns kirkjugarða.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að A verði að teljast hæfari til starfsins, og að Biskupsstofa hafi ekki hnekkt löglíkum fyrir því að kynferði hafi legið til grundvallar vali starfsmanns. Hefur því með ráðningu B í starf umsjónarmanns kirkjugarða verið gengið framhjá umsækjandanum A og þar með brotin ákvæði 1. mgr. 2. tl. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 1. og 3. gr. sömu laga.

Með vísan til ofangreindra röksemda beinir kærunefnd jafnréttismála þeim tilmælum til Biskupsstofu að ofangreind stöðuveiting verði látin ganga til baka og að A verði ráðin í starfið.

 

Hjördís Hákonardóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður H. Guðjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta