Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 180/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 180/2015

 

Ár 2015, fimmtudaginn 7. maí, er tekið fyrir mál nr. 126/2015; A og B, dags. 20. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 23. maí 2014. Útreikningur á leiðréttingu grundvallaðist á þeim verðtryggðu lánum sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum kærenda árin 2009 og 2010 vegna tekjuáranna 2008 og 2009, nánar tiltekið á láni bankans X nr. 1 og láni bankans Y nr. 2. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda nam samtals 896.752 kr. og var sú fjárhæð birt þeim 11. nóvember 2014. Þann 9. janúar 2015 var kærendum tilkynnt að fjárhæðinni skyldi ráðstafað inn á lán bankans Y nr. 2. Þann 20. febrúar 2015 samþykktu kærendur ráðstöfunina, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána, og fór hún fram degi síðar, 21. febrúar 2015.

Í kæru til úrskurðarnefndar, dags. 16. febrúar 2015, sendri með tölvupósti þann 20. febrúar 2015 og móttekinni sama dag, kemur fram að kærendur hafi tekið lán í erlendri mynt hjá bankanum X vegna húsnæðiskaupa. Staða þeirra hafi verið 56.508.441 kr. í lok árs 2009, sbr. skattframtal 2010, og 55.923.751 kr. í lok árs 2010, sbr. skattframtal 2011. Kærendur segja Alþingi hafa sett svokölluð Árna Páls lög sem hafi kveðið á um að breyta skuli öllum erlendum lánum í innlend. Samhliða því hafi átt að reikna þessi lán frá lántökudegi til umbreytingardags eins og önnur íslensk lán. Hafi það verið gert við lán kærenda án þess að kærendur væru sérstaklega ánægð með það. Þegar farið hafi að falla dómar í Hæstarétti um ólögmæti gengistryggðra lána hafi lán, sambærileg þeim sem kærendur tóku, verið dæmd lögleg. Samt hafi verið búið að breyta lánum kærenda í samræmi við Árna Páls lögin og endurreikna þau eins og önnur íslensk lán. Kærendur telja með ólíkindum að lán þeirra séu nú ekki endurreiknuð á grundvelli laga nr. 35/2014. Segja þau það siðlaust og vísa til þess að lán þeirra hafi hækkað umtalsvert eins og önnur íslensk húsnæðislán þótt þau uppfylli ekki einhverja staðla. Telja þau það ekki standast jafnréttissjónarmið stjórnarskrár. Kærendur krefjast þess að öll húsnæðislán þeirra verði leiðrétt. Í kæru vísa kærendur til þess að þau muni samþykkja leiðréttingu með þeim fyrirvara um að brugðist verði við því óréttlæti sem um ræði í málinu.

Þann 8. apríl 2015 sendi úrskurðarnefndin bankanum X umsagnarbeiðni með vísan til 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Í beiðninni var farið yfir efnisatriði kæru kærenda. Var óskað umsagnar bankans X um þau og einnig það hvort lán kærenda hjá bankanum hafi verið endurreiknuð m.v. verðtryggingu á tímabilinu 2008 til 2009, og eftir atvikum gögnum er vörpuðu ljósi á það. Einnig var óskað eftir lánsnúmerum og upplýsingum um endurreiknað greiðsluflæði, ef það ætti við. Umsögn bankans X barst 13. apríl 2015. Þar kom fram að erlent lán kærenda hafi verið endurreiknað samkvæmt fyrirmælum bráðabirgðaákvæða laga nr. 151/2010 um breytingu á vaxtalögum nr. 38/2001. Endurreikningur hafi tekið til allra erlendra húsnæðislána, án tillits til þess hvort þau teldust lögleg eður ei. Reikningsaðferð laganna byggði á því, að áhrif gengisbreytinga voru færð til baka, sem og samningsvextir (Libor/Euribor). Þess í stað voru reiknaðir á upphaflegan höfuðstól vextir sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum (sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001). Engar ráðagerðir voru um það í lögunum, að möguleiki væri á að reikna upphaflegan höfuðstól á annan hátt og komu verðtrygging eða vextir sem almennt eru reiknaðir á verðtryggðar skuldbindingar því ekki þar við sögu. Að uppgjöri loknu hafi lántakendum hins vegar staðið til boða að skuldin yrði verðtryggð að uppfylltum skilyrðum um lengd lánstíma, sbr. bráðabirgðaákvæði X. í lögum nr. 38/2001. Uppgjör hafi á hinn bóginn farið fram eftir að leiðréttingartímabili laga nr. 35/2014. Við þetta bætti bankinn að lán kærenda hafi ekki verið endurreiknað frekar þar sem það hafi talist löglegt erlent lán, sambærilegt þeim sem voru til umfjöllunar í hæstaréttarmálum nr. 524/2011 og 446/2013. Frá lántökudegi og fram að uppgjöri verði því að líta svo á að það hafi reiknast samkvæmt upphaflegum skilmálum sem á engan hátt sé unnt að yfirfæra á verðtryggingu í skilningi laga nr. 38/2001.

Þann 13. maí 2015 var umsögn bankans X send kærendum til yfirferðar og andmæla. Svar þeirra barst samdægurs. Þar kom fram að kærendur hafi ekki munað hvernig „Árna Páls“ lögin voru orðrétt. Hins vegar skipti það lántakendur ekki svo miklu máli hvort að lán þeirra séu endurreiknuð m.v. óverðtryggða vexti Seðlabankans eða verðtryggða vexti Seðlabankans í þessum „leiðréttingum“ á lánum þeirra. Eins og gefur að skilja hafi bankastofnanir lántakendur alveg jafn mikið í „gíslingu“ þar sem bilið á milli óverðtryggðra og verðtryggða húsnæðislána sé alltaf það mikið að að verðbólgan rúmist þar á milli. Á því tímabili sem leiðréttingin eigi að bæta fyrir verðbólguna sem óvænt hafi orðið í kjölfar hruns, og litið sé á sem forsendubrest við lántöku allra lána, hækka lán kærenda þá um verðbólguna að viðbættum vöxtum með þessum útreikningum bankans X í samræmi við þessi „asnalegu lög“ sem sett hafi verið. Á þeim tíma hafi ekki verið í boði að taka óverðtryggð lán. Lán þessi og lántakendur þeirra hafi orðið fyrir alveg jafn miklum skaða, ef ekki meiri, og aðrir þeir sem hafi að nafninu til tekið verðtryggð lán. Kærendur telja að það ætti að vera að einfalt að reikna hækkun lána þeirra í samræmi við hækkun verðtryggðra lána. Kærendur mótmæla ekki útreikningum og svörum bankans og telja að framkvæmd þeirra sé í samræmi við lög en mótmæla þeirri staðhæfingu bankans að á engan hátt sé hægt að yfirfæra hækkun lánanna á verðtryggingu í skilningi laga nr. 38/2001.

 

II.

Kærendur skiluðu kæru sinni til úrskurðarnefndar sama dag og þau samþykktu leiðréttingu, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Í lagagreininni kemur fram að hafi umsækjandi ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar skuli hann samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingar samkvæmt 11. gr. innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Að þeim tíma liðnum falli réttur til leiðréttingar niður. Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að heimilt sé að kæra ákvörðun um fjárhæð leiðréttingar samkvæmt 9. gr., framkvæmd leiðréttingar samkvæmt 11. gr. og endurupptöku samkvæmt 13. gr. til úrskurðarnefndar. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er gert ráð fyrir að kæra fresti framkvæmd leiðréttingar samkvæmt lögunum. Í 4. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kemur fram að ef umsækjandi hafi ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd leiðréttingar og kærir ekki niðurstöðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, skuli hann samþykkja hana innan þriggja mánaða. Ella falli réttur til hennar niður. Í 5. mgr. 8. gr. sömu reglugerðar segir að samþykki umsækjanda á framkvæmd/ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar skv. 1.-4. mgr. sömu greinar sé bindandi og taki ekki breytingum þótt hjúskaparstaða breytist.

Jafnvel þótt ákveðin rök hnígi að því að hugsunin við framangreinda laga- og reglugerðarsetningu hafi verið sú að með samþykki á leiðréttingu félli niður kæruréttur verður ekki framhjá því litið að í hvorugu lagaákvæðinu er það tekið fram berum orðum. Þannig kemur það ekki fram að samþykki á útreikningi og framkvæmd leiðréttingar leiði til þess að kæruréttur falli niður, að því tilskyldu að kærufrestur sé ekki liðinn. Ummæli í greinargerð með lögum nr. 35/2014 taka heldur ekki af vafa þar um. Þær sem kæruheimild til æðra stjórnvalds er meðal grundvallarréttinda stjórnsýsluréttarins, sbr. m.a. 26. gr. laga nr. 37/1993, er það mat úrskurðarnefndarinnar að hann verði ekki takmarkaður nema með skýru lagaákvæði. Leiðir það því ekki sjálfkrafa til frávísunar málsins þótt kærendur hafi samhliða kæru sinni samþykkt leiðréttingu, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014.

Kærendur skiluðu kæru sinni til úrskurðarnefndar í tölvupósti. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 skal umsókn um leiðréttingu beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri ákvað að umsókn og málsmeðferð yrði í gegnum vefinn leiðrétting.is. Ekki er tekið á því í lögum nr. 35/2014 hvernig kærumeðferð samkvæmt lögunum skuli vera. Í reglugerð nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, segir í 3. mgr. 10. gr. að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd og birting úrskurða nefndarinnar skuli vera rafræn. Í framkvæmd hefur málsmeðferðin hjá úrskurðarnefndinni farið fram í gegnum vefinn leiðrétting.is. Að mati úrskurðarnefndar verður að liggja fyrir skýr sérlagaheimild ef hægt á að vera að einskorða málsmeðferð kæra við rafræna meðferð. Þar sem slík sérlagaheimild liggur ekki fyrir, heldur aðeins reglugerðarheimild, var kæranda heimilt að senda skriflega kæru til nefndarinnar, enda ljóst að almennt ákvæði 1. mgr. 35. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 veitir aðeins heimild fyrir rafrænni stjórnsýslu.

Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að umrætt lán hafi verið verðtryggt. Ljóst er af framangreindri umsögn bankans X, sem kærandi mótmælir í raun ekki efnislega, að lán þau sem kærendur krefjast nú leiðréttingar á eru það ekki. Því ekki að sjá að framangreint lagaskilyrði sé uppfyllt. Ákvörðun ríkisskattstjóra á leiðréttingafjárhæð kærenda, sem byggir á því að láni bankans X nr. 1 og láni bankans Y nr. 2 séu leiðrétt,  hefur að öðru leyti ekki sætt andmælum og verður því ekki hnekkt. Kröfu kærenda er hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta