Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 174/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 174/2015

 

Ár 2015, fimmtudaginn 7. maí, er tekið fyrir mál nr. 36/2015; kæra A, dags. 14. janúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 19. maí 2014. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 473.895 kr. og var sú fjárhæð birt honum 9. nóvember 2014.

Með kæru, dags. 14. janúar 2015, er kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru er þess krafist að leiðréttingarfjárhæð kæranda verði endurskoðuð. Kærandi telur eðlilegt að fyrrverandi sambýliskona hans fái helming leiðréttingar. Kærandi byggir málatilbúnað sinn á þeim rökum að skuldir hans hafi verið miklar á því tímabili sem leiðréttingin nær til og telur að leiðréttingarfjárhæð hans sé ekki í samræmi við það.

Þann 5. mars 2015 sendi úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kæranda beiðni um frekari rökstuðning fyrir kæru með vísan til 4. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Í bréfinu var farið yfir þau atriði sem útreikningur leiðréttingarfjárhæðar byggist á, s.s. lán sem voru grundvöllur vaxtabóta, sbr. lið 5.2. í skattframtölum, eða nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði, hjúskaparstöðu og frádráttarliði. Lagt var fyrir kæranda að yfirfara forsendur ákvörðunar ríkisskattstjóra og tilkynna til úrskurðarnefndar ef ákvörðun byggðist á röngum staðreyndum að hans mati. Í svari kæranda kemur fram að hann telji að allar upplýsingar liggi fyrir í málinu. Kærandi gat ekki sé annað en að yfirlit yfir heimilisfólk og lán hafi verið rétt. Hann telur þó að einhver skekkja sé í útreikningi leiðréttingar.

Með bréfi, dags. 29. apríl 2015, leitaði úrskurðarnefndin umsagnar bankans X vegna láns nr. 1. Óskað var upplýsinga um hver hefði verið skuldari lánsins á tímabilin frá 1. apríl 2009 til 31. desember 2009 og hvers vegna tilkall kæranda hafi einungis verið 50% á því tímabili. Í umsögn bankans X, dags. 30. apríl 2015, kemur fram að kærandi hafi yfirtekið hluta konunnar B í láninu með yfirlýsingu, dagsetta í marsmánuði 2009, samhliða því að hann hefði keypt eignarhluta hennar í hinni veðsettu eign. Meðfylgjandi umsögn voru afrit af yfirlýsingu um yfirtöku og umrætt skuldabréf.


II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar. Samkvæmt forsendum ríkisskattstjóra var kærandi á tímabili júnímánaðar 2008 til marsmánaðar 2009, þ.e. hluta leiðréttingartímabils 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, í sambúð með konunni B og er það í samræmi við upplýsingar Þjóðskrár Íslands. Fjárhæð leiðréttingar fyrrverandi sambýliskonu kæranda er ekki til umfjöllunar í máli þessu.

Ljóst er að leiðrétting kæranda miðast við að tilkall hans til leiðréttingar lána hafi verið 50% vegna sambúðar á tímabili júnímánaðar 2008 til marsmánaðar 2009. Þá leggur ríkisskattstjóri til grundvallar ákvörðunar sinnar að tilkall kæranda til leiðréttingar láns bankans X nr. 1 sé 50% á tímabilinu 1. apríl 2009 til 31. desember 2009 þar sem kærandi hafi einungis skuldað helming lánsins. Útreiknuð leiðrétting lána kæranda var samtals 865.257 kr. Frá þeirri fjárhæð dragast frádráttarliðir, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014, samtals að fjárhæð 391.362 kr. Nánar tiltekið er um að ræða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kæranda er því 473.895 kr.

Í 3. gr. laga nr. 35/2014 er fjallað um afmörkun leiðréttingar samkvæmt lögunum. Þar segir í 2. mgr. að leiðrétting samkvæmt lögunum taki til heimila, þ.e. einstaklinga, hjóna og sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar innan leiðréttingartímabils skv. 1. mgr. Taki leiðrétting til áhvílandi lána á sameiginlegu heimili hjóna eða sambýlisfólks, óháð því hvor aðilinn var skráður fyrir lánunum á tímabilinu. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 segir að leiðrétting einstaklings og hámark hennar ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps, er varð að lögum nr. 35/2014, kemur fram að afmörkun og þar með tilkall til leiðréttingar byggist á nokkrum þáttum. Síðan segir: „Í fyrsta lagi afmarkast leiðrétting við ákveðið tímabil, í öðru lagi þarf að hafa verið áhvílandi verðtryggt lán á heimili á sama tímabili, í þriðja lagi er það skilyrði að vaxtagjöld af lánunum hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta. Síðastgreinda atriðið felur nánar í sér kröfu um að til lána hafi verið stofnað vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þ.e. til heimilishalds viðkomandi, en hvorki til útleigu, né annarra nota eða sem fjárfesting einvörðungu. Réttur til vaxtabóta hefur þannig víðtæka skírskotun í þessu sambandi því annars vegar er um að ræða staðfestingu á nýtingu láns og hins vegar afmörkun á rétti til annars vegar vaxtabóta við einstaklinga og hins vegar hjóna og sambúðarfólks óháð því hver skráður er fyrir láni á þeim tíma sem um sameiginlegt heimilishald var að ræða. Á þessum forsendum er litið svo á að tilkall til leiðréttingar vegna lána til öflunar húsnæðis til sameiginlegs heimilishalds eigi jafnt við um hjón og einstaklinga sem höfðu sambærilega fjárhagslega samstöðu vegna sambúðar óháð því hvort viðkomandi var formlega skráður fyrir lánum á því tímabili sem leiðréttingu er ætlað að taka til. Réttur eða tilkall til leiðréttingar kann þannig að ráðast af hjúskaparstöðu á tímabilinu eða innan áranna 2008–2009. Skilnaður hjóna eða samvistarslit hefur þannig ekki í för með sér brottfall réttar til leiðréttingar, enda ræðst útreikningur leiðréttingar skv. 7. gr. af stöðu lána sem hvíldu á hverjum tíma á sameiginlegu heimili á tímabilinu.“

Nánar er fjallað um útreikning leiðréttingar og ráðstöfun í 4. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir í 3. mgr. að fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ráðist skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins, 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ef breytingar hafi orðið á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skuli útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi í sama mánuði. Í 4. mgr. segir að heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis geti að hámarki orðið 4 milljónir kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skuli, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Í tilviki kæranda er óumdeilt að hann var í sambúð hluta leiðréttingartímabils 1. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014. Við ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar byggði ríkisskattstjóri á því að hlutfall kæranda í útreiknaðri leiðréttingu á láni nr. 1 eftir að sambúð hans lauk með konunni B hafi verið 50%. Samkvæmt umsögn bankans X tók kærandi aftur á móti yfir hluta fyrrverandi sambýliskonu sinnar í láninu eftir að sambúð þeirra lauk í marsmánuði 2009. Leiðrétting einstaklings ræðst af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Þar sem kærandi sleit sambúð og tók alfarið yfir umrætt lán í mars 2009 hefði útreikningur leiðréttingar á því átt að miða við að breyting á högum kæranda hafi tekið gildi í sama mánuði, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Fjárhæð leiðréttingar og hámark hennar tekur mið af hjúskapar- og heimilisstöðu leiðréttingartímabilsins, óháð því hvor aðili var skráður fyrir leiðréttum lánum á tímabilinu og óháð því hvor er nú ábyrgur fyrir skuldum ef sambýlisfólk uppfyllir skilyrði samsköttunar. Af þessu leiðir að ekki voru forsendur til að ákvarða tilkall kæranda til leiðréttingar á láni bankans X nr. 1 á tímabilinu frá 1. apríl 2009 til 31. desember 2009 sem 50%. Tilkall kæranda til leiðréttingarfjárhæðar var hlutfallslega hærri en 50% innan þess tímabils og er útreiknuð fjárhæð leiðréttingar kæranda því ekki í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda.

Eins og fram kemur byggir ákvörðun ríkisskattstjóra á leiðréttingarfjárhæð á því að hlutfall kæranda í láni bankans X nr. 1 á tímabilinu frá 1. apríl 2009 til 31. desember 2009 hafi verið 50%. Svo er ekki, en kærandi yfirtók lánið með yfirlýsingu dagsettri í marsmánuði 2009.  Við ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar, hefði ekki verið hjá því komist að afla frekari upplýsinga um hagi kæranda að þessu leyti, m.a. skýringa kæranda sjálfs, enda bar ríkisskattstjóra að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en tekin var ákvörðun í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið var því ekki nægjanlega upplýst við töku ákvörðunar. Þar fyrir utan er ljóst af 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014 að ríkisskattstjóri getur tekið til leiðréttingar athugasemdir vegna rangra upplýsinga um staðreyndir, s.s. um lán. Verður því að ómerkja hina kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra varðandi leiðréttingarfjárhæð kæranda og senda ríkisskattstjóra til nýrrar efnismeðferðar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar efnismeðferðar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta