Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2013

Fimmtudaginn 12. mars 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 21. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. febrúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 26. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. mars 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 20. mars 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1957. Hún er ekkja og býr ásamt dóttur sinni í 112 fermetra eigin íbúð að B götu nr. 58 í sveitarfélaginu D. Stjúpsonur hennar býr einnig hjá henni með son sinn. Mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eru 428.957 krónur eftir frádrátt skatts. Kærandi fær einnig 1.965 krónur á mánuði í barnabætur. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda, eftir framfærslu og án tillits til afborgunar af íbúðarhúsnæði, áætlaðar 293.778 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika til fasteignakaupa, andláts maka og veikinda.  

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 43.883.724 krónur. Þar af falla 6.612.330 krónur utan samnings til greiðsluaðlögunar, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árinu 2005.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 6. janúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. júlí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með greinargerð 30. apríl 2012 að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Fram kemur í tilkynningu umsjónarmanns að kærandi hafi misst eiginmann sinn árið 2010 og að skiptum á dánarbúinu væri ólokið. Skuldir í búinu hafi verið meiri en eignir sem hafi valdið því að kærandi hefði ekki fengið heimild sýslumanns til setu í óskiptu búi, sbr. 9. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í gögnum málsins kemur fram að Sýslumannsembættið í Reykjavík hafi veitt ítrekaða fresti á meðan reynt hafi verið að leysa úr máli kæranda gagnvart helsta kröfuhafa dánarbúsins, Íslandsbanka. Í janúar 2012 lagði sýslumannsembættið fram kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um töku dánarbúsins til opinberra skipta. Var krafa sýslumanns samþykkt. Í ljósi þess hafi umsjónarmaður sent málið til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge. 

Með bréfi umboðsmanns skuldara 9. nóvember 2012 var óskað eftir upplýsingum og gögnum um sparnað kæranda, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi verið 159.068 krónur á mánuði miðað við meðaltal launa í júlí, ágúst og september 2012 og vaxtabætur samkvæmt álagningarseðli ársins 2012. Í september 2012 hafði greiðsluskjól kæranda varað í 19 mánuði. Kæranda var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Kærandi svaraði umboðsmanni skuldara með bréfi 3. desember 2012. Í bréfinu kom meðal annars fram að kærandi hefði haft litla möguleika til að leggja fyrir. Hún hafi misst eiginmann sinn árið 2010 og hafi sá atburður haft veruleg áhrif á fjölskylduna. Hún hafi því þurft að sjá fyrir fjölskyldunni og aðstoða börn sín mikið á þessu tímabili. Að mati kæranda sé ekki ástæða til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitandir hennar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Með ákvörðun 8. febrúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að ekki hafi átt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Einnig gerir kærandi kröfu um að henni verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Aðstæður í málinu hafi ekki verið þess eðlis að umsjónarmaður ætti að beita 15. gr. lge. Í það minnsta hafi það verið verulega vanreifað og óljóst hvað hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda. Ljóst sé að það eitt og sér að dánarbú fyrrum eiginmanns kæranda hafi verið tekið til opinberra skipta og að ekki hafi tekist að semja við kröfuhafa búsins, sé ekki ástæða til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana í skilningi 15. gr. lge.

Markmið lge. sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Ekki sé augljóst af orðalagi ákvæðisins hve víðtæk þessi skylda sé eða hvernig hún skuli afmörkuð í einstökum tilfellum. Þá sé ekki kveðið á um það hvernig afmarka eigi framfærslu á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í 3. mgr. 16. gr. lge. sé fjallað um hvernig frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun verði úr garði gert, þ.e. að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans skuli vera tryggð. Í 4. mgr. 16. gr. lge. sé kveðið nánar á um þetta. Þar segi að feli frumvarp umsjónarmanns í sér að skuldari inni af hendi reglulegar afborganir á tilteknu tímabili skuli umsjónarmaður miða við að skuldari haldi eftir svo miklu af tekjum sínum að dugi til að sjá honum og heimilisfólki hans farborða og þeim einstaklingum sem hann hefur framfærsluskyldu við samkvæmt lögum. Í ákvæðinu sé kveðið á um að umsjónarmaður skuli notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Ákvæðið taki hins vegar samkvæmt orðanna hljóðan til þess hvernig frumvarp til samnings skuli byggt upp en ekki til þess hvernig framfærslu skuldara skuli háttað meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lge. segi um a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.:

„Ákvæði 12. gr. snúa að því hvernig skuldari skal haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. Í ákvæðinu er í fyrsta lagi nefnt að skuldari skuli leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það sem fer umfram það sem hann þarf til framfærslu sinnar, fjölskyldu og heimilis síns. Sökum ákvæða 11. gr. um greiðslustöðvun á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana er viðbúið að slík staða geti komið upp.“

Af þessum tilvitnuðu orðum megi draga þá ályktun að mikið þurfi til svo að skuldari teljist hafa brotið gegn skyldum sínum, enda áskilji frumvarpið að skuldari víki augljóslega og með vísvitandi hætti frá skyldum sínum. Þá verði einnig að setja ákvæðið í samhengi við almenn markmið laganna um að hraða eigi uppgjöri á þeim málum þar sem alvarlegur skuldavandi sé fyrir hendi. Þannig segi t.d. í almennum athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lge.:

„Greiðsluaðlögun er ætlað að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. […] Það er markmið þessa frumvarps að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins.“

Í þessu felist að tilgangur lge. sé að gera einstaklingum kleift að gera samning við kröfuhafa og stuðla þannig að því að þeir fari ekki þvingaða leið skuldaskilaréttarins, svo sem gjaldþrot eða almenna nauðasamninga. Þær heimildir sem umsjónarmanni séu veittar með 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hljóti að skoðast sem undantekningarákvæði, þar sem umsjónarmanni sé almennt uppálagt að reyna að koma á samningi milli kröfuhafa og skuldara.

Kærandi telur með vísan til framangreinds að ákvæði a-liðar 12. gr. lge. veiti ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærsla skuldara skuli reiknuð, að í lögskýringargögnum sé tekið fram að skuldarar þurfi að hafa vikið augljóslega og með vísvitandi hætti frá þessum skyldum. Þá sé það markmið laganna að ljúka uppgjöri skuldamála einstaklinga með samningi frekar en úrræðum skuldaskilaréttarins, túlka beri ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þröngt og að mikið þurfi að koma til svo ákvæðið eigi við.

Kærandi hafi litla möguleika haft til að leggja fyrir af mörgum ástæðum. Hún hafi misst eiginmann sinn árið 2010. Sá atburður hafi haft veruleg áhrif á fjölskyldu kæranda, hafi hún ein þurft að sjá fyrir fjölskyldunni og aðstoða börn sín mikið á þessu tímabili. Með hliðsjón af þessu og því sem reifað hafi verið um 1. mgr. 12. gr. lge. sé það mat kæranda að hún hafi ekki brotið gegn því ákvæði og þar af leiðandi hafi ekki verið ástæða til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að eiginmaður kæranda hafi fallið frá árið 2010 og dánarbúinu hafi ekki verið skipt. Undir rekstri málsins hafi komið í ljós að ekki væri hægt að ljúka skiptum vegna neikvæðrar eignastöðu búsins. Umsjónarmaður hafi árangurslaust lagt til við aðalkröfuhafa búsins, Íslandsbanka, að hann gæfi eftir hluta af skuldum búsins svo hægt væri að ganga frá skiptum. Umsjónarmaður hafi tilkynnt umboðsmanni skuldara með bréfi 30. apríl 2012 að hann teldi að í ljósi óvissuþátta um eignir og skuldir kæranda yrði ekki hægt að koma á samningi um greiðsluaðlögun og því talið rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Við vinnslu málsins hafi komið í ljós að greiðslugeta kæranda hafi almennt verið jákvæð en kærandi hafi ekki lagt til hliðar fé í samræmi við fyrirmæli ákvæðisins.

Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 6. janúar 2011 og þá hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hafist auk þess sem skyldur samkvæmt 12. gr. hafi einnig tekið gildi frá þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 1. júlí 2011 sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 23 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. febrúar 2011 til 31. desember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á framangreindu tímabili í krónum:

 

Launatekjur 1. febrúar 2011–31. desember 2012 að frádregnum skatti 9.719.565
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 og 2012 610.715
Samtals 10.241.566
Mánaðarlegar meðaltekjur 455.285
Framfærslukostnaður á mánuði -246.104
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 199.181
Samtals greiðslugeta í 23 mánuði 4.581.174

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 455.285 krónur í meðaltekjur á mánuði á 23 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. beri umsjónarmanni að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmiðin séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið um 246.104 krónur á mánuði á meðan frestun greiðslna stóð yfir, en í þeirri fjárhæð sé einnig gert ráð fyrir óvæntum útgjöldum. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað janúarmánaðar 2013 fyrir fullorðinn einstakling og eitt barn.

Kærandi hafi borið fyrir sig að hún hafi þurft að sjá fyrir börnum sínum við erfiðar aðstæður eftir að eiginmaður hennar féll frá og hafi meðal annars þess vegna ekki haft tök á að leggja fé til hliðar. Fyrir liggi að dóttir kæranda sem búi á heimilinu sé fædd 1993 og stundi hún nám í framhaldsskóla. Önnur börn kæranda séu uppkomin og ekki skráð til heimilis með móður sinni en af greinargerð megi ráða að þau séu 28 og 38 ára gömul. Umboðsmaður skuldara leggi áherslu á að embættið hafi ekki lagaheimild til að taka sérstakt tillit til fjárhagserfiðleika skyldmenna kæranda hvað varði skýrt ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Skýringar kæranda um hærri framfærslukostnað vegna aðstoðar við uppkomin börn sín í kjölfar andláts föður þeirra skýri ekki mikinn skort á sparnaði kæranda. Hún hafi ekki lagt fram gögn sem veitt gætu fullnægjandi skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki lagt til hliðar fé í námunda við 4.581.174 krónur á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir.

Með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi telur að ekki hafi átt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Einnig gerir kærandi kröfu um að henni verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kæranda þess efnis að heimild til greiðsluaðlögunar verði veitt á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kæranda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Með bréfi til umboðsmanns skuldara 30. apríl 2012 lagði umsjónarmaður kæranda til að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Var á því byggt að óvissa væri um eignir og skuldir kæranda þar sem dánarbú eiginmanns hennar hafði verið tekið til opinberra skipta. Kærunefndin telur að málið sé lagt þannig fyrir að þetta atriði skipti ekki máli við úrlausn þess.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar fjármuni í samræmi við skyldu skuldara í greiðsluaðlögun, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Tímabundin frestun greiðslna kæranda hófst 6. janúar 2011 og bar kærandi skyldur samkvæmt 12. gr. lge. frá þeim tíma, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis II í lge. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ítarlega upplýst um skyldur sínar á meðan leitað var greiðsluaðlögunar. 

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. júlí 2011 þar sem kæranda var veitt heimild til greiðsluaðlögunarumleitana fylgdi greiðsluáætlun þar sem greiðslugeta kæranda á þeim tíma var talin vera 293.778 krónur á mánuði þegar tekið hafði verið tillit til þess að kærandi hafði eitt barn á framfæri.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011: 11 mánuðir
Nettótekjur 4.403.331
Nettómánaðartekjur að meðaltali 400.303

 

Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 5.316.234
Nettómánaðartekjur að meðaltali 443.020

 

Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. janúar 2013: 1 mánuður
Nettótekjur 415.980
Nettómánaðartekjur að meðaltali 415.980

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.135.545
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 422.314

 

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. janúar 2013: 24 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.135.545
Bótagreiðslur í greiðsluskjóli 610.715
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.746.260
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 447.761
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 246.104
Greiðslugeta á mánuði 201.657
Alls sparnaður í 24 mánuði í greiðsluskjóli x 201.657 4.839.764

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi enga fjármuni lagt til hliðar á tímabilinu.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærandi fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á óvænt útgjöld sem unnt sé að taka tillit til við útreikning á sparnaði. Á sparnað kæranda skortir því sem nemur 4.839.764 krónum.

Er það því mat kærunefndarinnar að kærandi hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 12. gr. lge., er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta