Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 139/2013

Fimmtudaginn 12. mars 2015

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 30. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. ágúst 2013 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 17. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. október 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 15. október 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1982. Hann býr ásamt sambýliskonu og tveimur börnum að B götu nr. 49a í sveitarfélaginu C sem er 148 fermetra parhús. Kærandi á tvö önnur börn sem hann greiðir meðlag með.

Kærandi er atvinnulaus. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans eru 251.258 krónur vegna umönnunargreiðslna, atvinnuleysis-, barna- og vaxtabóta.

Kærandi kveður greiðsluerfiðleika sína upphaflega stafa af skilnaði hans og fyrrum eiginkonu sinnar fyrir nokkrum árum en hann hafi þurft að bera verulegan kostnað vegna dómsmáls í tengslum við skilnaðinn. Þá hafi tekjur hans lækkað verulega vegna fæðingarorlofs og atvinnuleysis í kjölfarið.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 43.621.824 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) fyrir utan skuldir að fjárhæð 1.004.453 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 16. nóvember 2012 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. ágúst 2013 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að beiðni um greiðsluaðlögun verði samþykkt.

Kærandi telur framgöngu sína ekki falla undir ákvæði b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hann hafi markvisst lækkað skuldir sínar til dæmis með því að selja fasteignir og bíla. Skuld vegna bílaláns hafi lækkað úr 4.673.894 krónum í 2.462.037 krónur og loks hafi bílnum verið skilað til lánveitanda.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi stofnað til eftirfarandi skuldbindinga á árinu 2012 í krónum:

2012 Dags. Upphafleg Fjárhæð
 
fjárhæð 2013
Bílasamningur vegna Z 28.6.2012 1.231.015 1.289.455
Bílasamningur vegna Þ 21.8.2012 3.731.747 0
Bílasamningur vegna Æ 20.12.2012 2.462.037 2.662.079

Í tengslum við síðasta bílasamninginn hafi kærandi látið bifreiðina Þ upp í bifreiðina Æ og þannig losnað undan skuldbindingunni frá 21. ágúst 2012. Fjármögnunaraðili hafi nú tekið við bifreiðinni.

Í ágúst 2012 er kærandi hafi tekist á hendur fyrrgreinda skuldbindingu að fjárhæð 3.731.747 krónur hafi mánaðarlegar greiðslur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, numið 80.405 krónum. Á þeim tíma hafi kærandi verið tekjulaus vegna óvissu um rétt til greiðslu í fæðingarorlofi. Þegar bílasamningurinn hafi verið gerður 21. ágúst 2012 hafi kærandi þegar verið í vanskilum með aðrar skuldbindingar sínar. Elstu ógreiddu gjalddagar af skuldum kæranda séu samkvæmt gögnum málsins 2. júlí 2012 vegna greiðslukorts hjá Arion banka og 5. ágúst 2012 af íbúðarláni hans hjá sama banka. Ekki verði annað séð en að kærandi hafi verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar hann stofnaði til samningsins 21. ágúst 2012.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf 21. ágúst 2013 þar sem athygli hans hafi verið vakin á atvikum sem leitt gætu til synjunar á heimild til greiðsluaðlögunar. Hafi honum verið boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Á þeim tíma hafi ekki legið fyrir upplýsingar um samninginn frá 21. ágúst 2012 en í bréfinu hafi verið rökstuðningur um að stofnun samningsins frá 20. desember 2012 myndi leiða til þess að umsókn hans yrði synjað með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og honum boðið að andmæla þeirri niðurstöðu.

Með tölvubréfi 26. ágúst 2013 hafi embættinu borist afrit af nefndum samningi frá 21. ágúst 2012. Þar komi fram þau sjónarmið kæranda að hann telji nefnda synjunarástæðu ekki eiga við enda hafi hann minnkað við sig skuldir með títtnefndum bílasamningi frá 21. desember 2012.

Kærandi hafi verið upplýstur um þau sjónarmið sem ráðið geti niðurstöðu í mati samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. Ekki verði annað séð en að sömu sjónarmið og reifuð hafi verið í bréfi umboðsmanns skuldara frá 21. ágúst 2013 eigi eftir sem áður við í málinu nema hvað kærandi hafði ekki sótt um greiðsluaðlögun þegar hann stofnaði til samningsins 21. ágúst 2012.

Sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhjákvæmilegt sé að synja umsókn kæranda með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem liggi fyrir í málinu á þeim tíma sem ákvörðun sé tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kæranda gefist færi á að nýta andmælarétt sinn samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir í málinu við töku ákvörðunar. Hafi þessar upplýsingar ekki afturvirk áhrif á gildi ákvörðunarinnar. Þá telji embætti umboðsmanns skuldara að þau gögn sem kærandi hafi lagt fyrir kærunefndina sýni ekki fram á að kærandi hafi ekki stofnað til skulda á þeim tíma er hann hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að beiðni um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi en af því leiðir að umboðsmaður skuldara þarf að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt því lagaákvæði er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2008 til 2012 í krónum:

  2008 2009 2010 2011 2012
Meðaltekjur á mánuði (nettó)* 338.422 374.753 342.936 419.510 378.448
Eignir alls 24.020.181 20.823.744 46.567.134 50.103.677 38.664.814
· Fasteignir 17.910.000 15.550.000 41.650.000 46.250.000 33.450.000
· Ökutæki o.fl. 5.800.000 5.220.000 4.698.000 3.850.000 5.211.000
· Bankainnstæður o.fl. 310.181 53.744 219.134 3.677 3.814
Skuldir 28.363.463 28.844.723 63.030.964 58.117.743 43.816.371
Nettóeignastaða -4.343.282 -8.020.979 -16.463.830 -8.014.066 -5.151.557

*Ráðstöfunartekjur kæranda, þ.m.t. fjármagnstekjur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Arion banki 2005 Veðskuldabréf 25.700.000 38.517.658 2012
Lykill 20.12.2012 Bílasamningur 2.462.037 2.662.070 2013
Landsbankinn 2012 Bílasamningur 1.231.015   2012
Innheimtustofnun sveitarfélaga 2012 Meðlag 487.186 536.041 2012
Tollstjóri 2012 Opinber gjöld 601.635 652.435 2012
Arion banki 2012 Greiðslukort   698.057 2012
Arion banki 2012 Yfirdráttur   167.147 2012
Ýmsir 2012-2013 Reikningar 264.249 388.416 2012
    Alls 30.746.122 43.621.824  

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru mögulegar ástæður synjunar sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða er b-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 21. ágúst 2013 var gerð grein fyrir b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Athygli var vakin á því að í málinu lægju fyrir upplýsingar sem gætu leitt til synjunar á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í bréfinu segir meðal annars: „Samkvæmt gögnum frá kröfuhöfum stofnaðir þú til skuldbindinga með tveimur bílasamningum á árinu 2012. Annars vegar samning við Landsbankann vegna Z þann 28. júní, upphafleg fjárhæð 1.232.015 kr. [...]. Hins vegar samning við Lykil fjármögnun vegna Æ þann 20. desember, upphafleg staða 2.462.037 kr. [...].Fyrrnefndi samningurinn, dags. [28]. júní 2012, virðist hafa verið stofnaður á meðan þú varst enn í vinnu, og því verður ekki úr því ráðið hvort þú hafir verið greinilega ófær um að standa við skuldbindingar þínar á þeim tíma sem til þess samnings var stofnað. Aftur á móti stofnaðir þú til síðarnefnda samningsins, dags. 20. desember 2012, eftir að þú lagðir inn umsókn um greiðsluaðlögun. Í greinargerð vegna umsóknar þinnar kemur fram að tekjur þínar væru greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði en þú yrðir atvinnulaus eftir að þeim greiðslum lyki um áramótin.“ Í bréfinu er síðan greint frá því að flestar fjárskuldbindingar kæranda hafi farið í vanskil á seinni hluta ársins 2012 og elsti ógreiddi gjalddaginn af fyrrnefnda bílasamningnum hafi verið 1. október 2012. Af framangreindu er sú ályktun dregin að með bílasamningnum 20. desember 2012 hafi kærandi stofnað til skuldbindingar á þeim tíma sem hann hafi greinilega verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar.

Í svari kæranda við framangreindu bréfi kom fram að hann teldi að synjun á grundvelli b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. ekki eiga við í málinu þar sem með samningnum frá því í desember 2012 hafi hann minnkað við sig skuldir.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 30. ágúst 2013 byggist þó ekki á bílasamningnum frá 20. desember 2012 heldur á bílasamningi sem kærandi tókst á hendur 21. ágúst 2012 að fjárhæð 3.731.747 krónur. Segir í ákvörðuninni að ekki verði annað ályktað en að kærandi hafi verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar hann stofnaði til samningsins í ágúst. Síðan segir að við ritun bréfsins 21. ágúst 2013 hafi ekki legið fyrir upplýsingar um samninginn frá því í ágúst 2012 en ekki verði annað séð en að sömu sjónarmið og reifuð voru í bréfinu eigi við í málinu.

Það er skýrt að í fyrrgreindu bréfi embættis umboðsmanns skuldara til kæranda var honum einungis boðið að sýna fram á að hann hefði ekki stofnað til skuldar á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar með því að takast á hendur skuld samkvæmt bílasamningi í desember 2012. Andmælaréttur hans hjá umboðsmanni skuldara var því takmarkaður við þessa einu skuldbindingu.

Umboðsmaður skuldara er við málsmeðferð sína bundin af rannsóknarreglunni en rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt rannsóknarreglunni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

 

Eins og mál þetta liggur fyrir var það einn meginþáttur í rannsókn umboðsmanns skuldara að afla viðhlítandi upplýsinga til að unnt væri að leggja mat á hvort kærandi uppfyllti skilyrði lge. til að fá heimild til greiðsluaðlögunar. Í ljósi þeirra andmæla kæranda að hann hafi markvisst unnið að því að draga úr skuldbindingum sínum og það hefði hann gert með bílasamningnum í desember 2012 bar umboðsmanni skuldara meðal annars að leggja sérstakt mat á fjárhagsstöðu kæranda út frá þeim forsendum. Andmæli kæranda leiddu þannig til þess að umboðsmanni skuldara bar að rannsaka mál kæranda frekar en gert var áður en ákvörðun var tekin í því.

Gögn málsins sýna að kærandi minnkaði skuldir sínar samkvæmt bílasamningum frá apríl og fram í desember 2012. Í ljósi þessa og atvika málsins að öðru leyti telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hefði verið rétt að byggja ákvörðun sína á heildarmati á þróun fjárhags kæranda á árinu 2012 og afla viðeigandi upplýsinga til að unnt væri að leggja réttan grunn að málinu þegar ákvörðun var tekin í því. Verður að telja að lögbundnu mati embættis umboðsmanns skuldara samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. hafi verið áfátt í máli kæranda þar sem það var hvorki byggt á réttum forsendum né hafði nægilegra upplýsinga verið aflað áður en hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. 2. mgr. 5. gr. lge. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar án þess að umboðsmaður skuldara hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta