Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 70/2013

Fimmtudaginn 12. mars 2015


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 24. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 30. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. júní 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. júní 2013 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 9. júlí 2013.

Athugasemdirnar voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 23. júlí 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1946. Hann er kvæntur og býr ásamt eiginkonu sinni í íbúð hennar að D götu nr. 5 í sveitarfélaginu E. Kærandi er í 50% starfi.

Kærandi tilgreinir forsendubrest í rekstri fyrirtækis sem hann átti sem aðalástæðu greiðsluerfiðleika sinna. Hann hafi veðsett fasteign sína til að stofna fyrirtækið sem nú sé gjaldþrota.

Samkvæmt gögnum málsins eru heildarskuldir kæranda 112.477.170 krónur og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þá eru ábyrgðarskuldbindingar kæranda alls 78.146.839 krónur samkvæmt ábyrgðaryfirliti umboðsmanns skuldara.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. júní 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Jafnframt var honum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Með bréfum umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. júlí og 27. ágúst 2012 tilkynnti umsjónarmaðurinn að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil með vísan til 15. gr. lge. Kærandi virtist hafa gert riftanlega ráðstöfun með því að færa eignarhluta sinn í fasteigninni B-vegi nr. 2 í sveitarfélaginu F yfir á eiginkonu sína. Teldist ráðstöfun eignarinnar hafa farið fram 30. desember 2008 en einn kröfuhafi hefði mótmælt framlögðu frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings á þessum grundvelli. Ef rétt reyndist félli ráðstöfunin undir e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Af þessu tilefni sendi umboðsmaður skuldara kæranda bréf 20. ágúst 2012 þar sem gerð var grein fyrir XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.) og 131. gr. þar sem fjallað sé um gjafagerninga. Þar er því lýst að í 2. mgr. 131. gr. segi að krefjast megi riftunar á gjöfum til nákominna hafi gjöfin verið afhent sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag. Í 194. gr. laganna komi meðal annars fram að að því leyti sem ákvæði 131. gr. laganna kveði á um tuttugu og fjögurra mánaða frest skuli sá frestur vera fjörutíu og átta mánuðir í þeim málum sem höfðuð séu fyrir árslok 2012. Í bréfinu kemur fram að umboðsmanni þyki rétt að líta svo á að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Móttökudagur umsóknar kæranda var 17. nóvember 2010.

Í bréfinu hafi kærandi verið upplýstur um að andmæli hefðu borist frá Íslandsbanka í kjölfar þess að umsjónarmaður hafði sent út frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Hafi andmælin verið vegna þess að kærandi virtist hafa gert riftanlega ráðstöfun í skilningi gþl. með því að færa eignarhluta sinn í fasteigninni B-vegi nr. 2, sveitarfélaginu F, yfir á eiginkonu sína. Þetta hafi verið gert 30. desember 2008.

Í framangreindu bréfi hafi kæranda verið kynnt framkomið bréf umsjónarmanns og honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Í svari kæranda hafi verið óskað eftir því að embættið heimilaði að samningur hans um greiðsluaðlögun næði fram að ganga þar sem kærandi hafnaði því að fyrir lægi riftanlegur gerningur í skilningi gþl. Hefði Íslandsbanki ekki lagt fram nein gögn sem stutt gætu þetta sjónarmið bankans.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. maí 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 2. mgr. 131. gr. gþl.

 

II. Sjónarmið kæranda

Þess er krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 10. maí 2013 verði felld úr gildi og að greiðsluaðlögun kæranda nái fram að ganga eins og umsjónarmaður hafi lagt til.

Kærandi vísar til þess að hann hefði á sínum tíma átt 50% hlut í sumarbústað við B-veg nr. 2, sveitarfélaginu F. Þegar farið hafi að kreppa að honum fjárhagslega hafi hann vart getað haldið sínum hlut í bústaðnum en kröfuhafar hafi verið farnir að leita fullnustu í honum. Hafi kærandi því selt eiginkonu sinni eignarhlutann. Í afsali 1. desember 2008 komi meðal annars fram að eiginkonan hafi að fullu greitt umsamið kaupverð, meðal annars með yfirtöku áhvílandi veðskulda. Kaupsamningsfjárhæðar hafi þó ekki verið getið í afsalinu en kærandi hafi á sínum tíma varið henni til greiðslu skammtímaskulda. Við eigendaskiptin hafi áhvílandi fjárnám vegna skulda kæranda verið um 1.000.000 króna. Erfitt hafi verið fyrir eiginkonu kæranda að standa undir rekstri bústaðarins og hafi hún selt hann til X ehf. með afsali 2. júlí 2010. Á haustmánuðum 2011 hafi eiginkona kæranda keypt bústaðinn aftur en stór hluti kaupverðsins hafi verið tekinn að láni.

Kærandi hafnar því að hann hafi gert riftanlega ráðstöfun í skilningi gþl. enda hafi engin gögn verið lögð fram því til stuðnings. Kærandi hafi fyrir nærfellt fjórum árum selt eignarhluta sinn í sumarbústað og fengið greitt fyrir hann. Kaupandi hefði síðan selt bústaðinn áfram til þriðja manns.

Enginn kröfuhafa, að Íslandsbanka undanskildum, hafi gert athugasemdir við að greiðsluaðlögun kæranda næði fram að ganga. Kærandi sé eignalaus og greiðslugeta hans neikvæð. Hann búi nú í eign eiginkonu sinnar. Líta verði til félagslegra aðstæðna og aldurs kæranda. Hann sé kominn á ellilífeyrisaldur með tilheyrandi skerðingu á aflahæfi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana. Segi þar jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi. Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram að ástæður þær sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í 131. gr. gþl. sé fjallað um gjafagerninga en þar segi í 2. mgr. að krefjast megi riftunar á gjöfum til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag. Í 194. gr. gþl. komi meðal annars fram að að því leyti sem ákvæði 131. gr. laganna kveði á um tuttugu og fjögurra mánaða frest skuli sá frestur vera fjörutíu og átta mánuðir í þeim málum sem höfðuð séu fyrir árslok 2012. Með „nákomnum“ í skilningi gþl. sé meðal annars átt við hjón og þá sem búi í óvígðri sambúð.

Í 2. mgr. 2. gr. gþl. sé fjallað um frestdag í skilningi laganna. Komi þar fram að frestdagur sé sá dagur sem héraðsdómara berist beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þessu þyki rétt að líta svo á að jafna eigi móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Frestdagur í máli kæranda hafi því verið 17. nóvember 2010 er umsókn hans hafi verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Ráðstöfun kæranda á 50% hlut í sumarbústað við B-veg nr. 2 í sveitarfélaginu F hafi verið gerð samkvæmt afsali 1. desember 2008 en afsalið hafi verið móttekið til þinglýsingar 30. desember sama ár. Falli ráðstöfunin því innan þeirra tímamarka sem fjallað sé um í 2. mgr. 131. gr., sbr. 194. gr. gþl.

Kærandi hafi ekki lagt fram gögn því til stuðnings að eðlilegt endurgjald hafi verið greitt fyrir greindan eignarhluta hans að B-veg nr. 2 og ekki sé getið um kaupverð í þinglýstu afsali utan að það sé „að fullu greitt“. Kærandi verði því ekki talinn hafa sýnt fram á að endurgjald hafi komið fyrir 50% hlut hans í eigninni.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunar­umleitanir hans falla á hinn bóginn niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kæranda þess efnis að greiðsluaðlögun hans nái fram að ganga á því ekki við í málinu eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kæranda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til e-liðar.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að samkvæmt 15. gr. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem hann telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þegar nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Það er mat umboðsmanns skuldara að sú ráðstöfun kæranda að afsala 50% hlut sínum í sumarbústað við B-veg nr. 2 með afsali til eiginkonu sinnar 1. desember 2008 hafi verið riftanleg samkvæmt XX. kafla gþl.

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar samkvæmt gþl. Varða þau sjónarmið sem þar eru að baki jafnræði kröfuhafa en eitt af þeim skilyrðum sem eru fyrir riftun er að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi (hér kröfuhöfum kæranda) til tjóns.

Að því er varðar mál þetta kemur 131. gr. gþl. til skoðunar, en hún varðar gjafagerninga. Í 1. og 2. mgr. 131. gr., sbr. 194. gr. gþl., sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010, kemur fram að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar allt að 24 mánuðum fyrir frestdag. Undir hugtakið gjafagerningur falla einnig svokallaðir örlætisgerningar, þ.e. þegar verulegur munur er á því verðmæti sem afhent er og endurgjaldinu sem skuldarinn fær.

Umboðsmaður skuldara telur að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Í 1. mgr. 2. gr. gþl. er fjallað um frestdag en það er sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti.

Tímamark frestdags hefur verið miðað við fyrsta hugsanlega tímamarkið sem ógjaldfærni skuldara liggur fyrir skráð hjá opinberu yfirvaldi. Tilgangur lge. er meðal annars sá að skuldari, sem er eða verður um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar með samningi við kröfuhafa að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Takist slíkir samningar ekki hefur skuldari möguleika á því að óska eftir nauðasamningi við kröfuhafa á grundvelli lge. Þannig er grundvöllur lge. byggður á ógjaldfærni skuldarans og samningsumleitunum hans til að aðlaga skuldir að greiðslugetu, eftir atvikum með því að fá skuldir að öllu leyti eða hluta felldar niður. Til þess ber einnig að líta að 15. október 2010 hófst tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 11. gr. lge., sbr. bráðabirgðaákvæði II, um leið og umboðsmaður skuldara tók á móti umsókn um greiðsluaðlögun. Merkir það að tilteknar aðgerðir til innheimtu á kröfum skuldara eru óheimilar og kröfuhafi getur ekki fengið bú skuldara tekið til gjaldþrotaskipa, sbr. d-lið 1. mgr. 11. gr. lge. Ljóst er að tilgangurinn með því er öðrum þræði sá að koma í veg fyrir mismunun kröfuhafa við þær aðstæður þegar skuldari er orðinn ógjaldfær án þess þó að ganga megi að honum. Tilgangurinn er á hinn bóginn ekki sá að valda því að kröfur fyrnist á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Með vísan til þessa telur kærunefndin að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Í tilviki kæranda er frestdagur því 17. nóvember 2010. Samkvæmt því fór ráðstöfun kæranda á 50% eignarhluta sínum í greindum sumarbústað til eiginkonu sinnar 1. desember 2008 fram innan þeirra tímamarka sem tiltekin eru í 2. mgr. 131. gr. gþl.

Rifturnarreglur gþl. fjalla um takmarkanir á því að þrotamaður geti gefið gjafir í tiltekinn tíma áður en hann varð ógjaldfær. Ein þessara takmarkana er 131. gr. gþl. Meðal þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt til að gjöfin sé riftanleg er að hún skerði eignir skuldarans og auðgi móttakandann. Gjafahugtak 131. gr. gþl. hefur verið talið fela í sér þrjú meginatriði: Að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Gjafahugtakið rúmar margs konar ráðstafanir og byggist á hlutlægu mati á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi. Til að gjafagerningur sé heimill er gerð krafa um að skuldari sé gjaldfær á þeim tíma er ráðstöfun var gerð.

Samkvæmt afsali 1. desember 2008 seldi kærandi eiginkonu sinni 50% eignarhluta í sumarbústað sínum. Kaupverð liggur ekki fyrir. Kærandi hefur greint frá því að kaupverðið hafi meðal annars verið greitt með yfirtöku áhvílandi veðskulda og að við eigendaskiptin hafi áhvílandi fjárnám vegna skulda kæranda á bústaðnum verið um 1.000.000 króna. Einnig liggur fyrir að eiginkona kæranda afsalaði bústaðnum til þriðja manns rúmu einu og hálfu ári síðar eða 2. júlí 2010 en kaupverðið var 8.900.000 krónur. Samkvæmt afsali skyldi það meðal annars greitt með yfirtöku áhvílandi veðskulda, alls að fjárhæð 1.423.844 krónur en það voru fjárnám frá árunum 2009 og 2010. Í afsalinu frá 2010 kemur einnig fram að fasteignamat bústaðarins sé 10.560.000 krónur og brunabótamat 14.550.000 krónur.

Í athugasemdum með 4. gr. frumvarps til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn vegna umsóknar um greiðsluaðlögun enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Eflaust sé ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn og sé þá á ábyrgð skuldarans að afla þeirra. Samkvæmt þessu var það í verkahring kæranda að afla þeirra gagna sem umboðsmaður skuldara gaf honum færi á að afla með bréfi 20. ágúst 2012. Kemur því að mati kærunefndarinnar ekki til þess að umboðsmaður skuldara beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum kæranda sem ekki er upplýst um í gögnum málsins og hér skipta máli. Hlutverk umboðsmanns skuldara að þessu leyti er samkvæmt lge. að leggja mat á þau gögn sem kærandi hefur lagt fram, eftir atvikum að beiðni eða samkvæmt áskorun umboðsmanns.

Kærunefndin álítur að við úrlausn málsins verði að líta til þess hvort fullt endurgjald hafi komið fyrir sumarbústaðinn þegar honum var ráðstafað til eiginkonu kæranda og hvort kærandi var gjaldfær á þeim tíma. Ekki liggur fyrir verðmat á bústaðnum á þeim tíma er afsal fór fram. Fyrir liggur að í lok árs 2008 var kærandi kominn í vanskil með hluta af skuldum sem á honum hvíldu. Þá segir í kæru: „Þegar fór að kreppa að fjárhagslega [...] lá fyrir að [kærandi] gat trauðla haldið eignarhaldi bústaðarins. Var hvort tveggja um það að ræða að kröfuhafar hans voru farnir að leita fullnustu í bústaðnum til tryggingar kröfum sínum, auk þess sem rekstur bústaðarins var [kæranda] orðinn erfiður.“ Kærandi hefur heldur ekki sýnt fram á að hann hafi verið gjaldfær þrátt fyrir ráðstöfunina á þeim tíma er hún fór fram. Að mati kærunefndarinnar bera þessi atriði með sér að kærandi hafi ekki verið gjaldfær á þeim tíma er hann afsalaði eignarhluta sumarbústaðarins til eiginkonu sinnar.

Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn er sýna fram á kaupverð eignarhlutans í nefndum sumarbústað, svo sem kaupsamning eða önnur gögn. Hann hefur heldur ekki sýnt fram á það hvernig hann ráðstafaði þeim fjármunum sem hann kveðst hafa fengið fyrir eignarhlutann. Kærandi segist þó hafa greitt skammtímaskuldir með greiðslunni en ekkert í gögnum málsins styður þessa frásögn kæranda. Liggur þannig ekkert fyrir í málinu sem sýnir fram á að eðlilegt verð hafi komið fyrir 50% eignarhluta kæranda í sumarbústaðnum B-vegi nr. 2 í sveitarfélaginu F.

Samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja ráðstöfun kæranda á eignarhlutanum í sumarbústaðnum riftanlega eftir framangreindum ákvæðum gþl.

Að öllu ofangreindu virtu telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta