Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 50/2013

Fimmtudaginn 19. mars 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 26. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. mars 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 3. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. apríl 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. maí 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 22. ágúst 2013. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1976 og býr ásamt sambýliskonu og fjórum börnum að B götu nr. 1b í sveitarfélaginu C.

Kærandi er bílasmiður og hefur 255.081 krónu í ráðstöfunartekjur á mánuði.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til tekjulækkunar, vankunnáttu í fjármálum, hækkunar á greiðslubyrði lána og aukins framfærslukostnaðar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 34.767.684 krónur og falla 505.762 krónur þar af utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. maí 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 9. nóvember 2012 tilkynnti umsjónarmaður að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun næði fram að ganga samkvæmt 15. gr. lge. Í upphafi greiðsluaðlögunarumleitana hafi kærandi mætt til umsjónarmanns. Eftir það hafi verið erfitt að ná sambandi við kæranda, en umsjónarmaður hafi ítrekað gert tilraunir til þess án þess að kærandi sinnti því. Hefði umsjónarmaður reynt að ná til kæranda með tölvupósti, ábyrgðarbréfi og símtölum en allt án árangurs. Því tilkynnti umsjónarmaður til umboðsmanns skuldara að fram væru komnar aðstæður í máli kæranda sem hindruðu að greiðsluaðlögun næði fram að ganga. Sendi umboðsmaður skuldara kæranda bréf 26. febrúar 2013. Þar var honum kynnt framkomið bréf umsjónarmanns og honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Kærandi tók á móti bréfinu 27. febrúar 2013 en svaraði því ekki.

Með bréfi til kæranda 8. mars 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að verða aftur tekinn inn í greiðsluaðlögun. Verður að skilja kröfuna á þann veg að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa misst tökin á lífi sínu á árinu 2012. Hann hafi verið kominn í mikla óreglu sem hafi leitt til þess að hann hafi hætt að svara umsjónarmanni sínum. Nú hafi hann leitað sér hjálpar og sótt meðferð á Vogi og eftirmeðferð á göngudeild. Kærandi sé að reyna að bæta fyrir mistök sín og biðji um annað tækifæri til að standa sig gagnvart umboðsmanni skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í máli þessu meti umsjónarmaður það svo að fella beri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda þar sem hann hafi ekki haft umbeðin samskipti við umsjónarmann. Verði að leggja þær skyldur á kæranda að hann sýni samstarfsvilja og komi að gerð frumvarps með því að láta í té upplýsingar um óljós atriði er skipti máli við samningu þess. Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist svör við bréfi er embættið sendi kæranda 25. febrúar 2013.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. segi að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skuli samið í samráði við skuldara. Ekki hafi reynst unnt að ná í kæranda þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir umsjónarmanns og embættis umboðsmanns skuldara.

Hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara.

Í máli þessu greinir umsjónarmaður frá því að í fyrstu hafi kærandi svarað fyrirspurnum sínum og meðal annars komið á fund sem umsjónarmaður hafi boðað hann til. Eftir það hafi ekki tekist að ná í kæranda þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir en umsjónarmaður hafi reynt að ná tali af kæranda símleiðis, sent honum tölvupóst og ábyrgðarbréf. Af þessum ástæðum hafi umsjónarmaður komið því á framfæri við umboðsmann skuldara að kærandi uppfyllti ekki skilyrði greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður skuldara hafi síðan fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með ákvörðun 8. mars 2013.

Í lge. er víða lögð áhersla á skyldur skuldara til að taka virkan þátt í greiðsluaðlögunarumleitunum og stuðla að því að heildarmynd fáist af fjárhag hans. Þannig er gert ráð fyrir að skuldari sýni bæði umboðsmanni skuldara og umsjónarmanni að hann taki þátt í samstarfi við þá og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Meðal skyldna skuldara að þessu leyti er að eiga samstarf við umsjónarmann um samningu frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun.

Þegar atvik málsins eru virt verður að telja að verulega hafi skort á samstarf af hálfu kæranda er hann lét hjá líða að eiga nauðsynleg samskipti við umsjónarmann til þess að unnt væri að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun eins og honum er skylt að gera samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. Kærandi hefur því á þennan hátt ekki sinnt einni af grundvallarskyldum sínum við greiðsluaðlögunarumleitanir.

Í ljósi þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta