Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 71/2013

Fimmtudaginn 19. mars 2015

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 31. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. júní 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. júní 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1977. Hún býr í eigin íbúð að B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er atvinnulaus og hefur 167.490 krónur til ráðstöfunar á mánuði vegna atvinnuleysis- og vaxtabóta.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 26.601.131 króna.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnumissis í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 11. ágúst 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. apríl 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 15. febrúar 2013 gerði umsjónarmaður tillögu um að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður þar sem hann teldi kæranda hafa brugðist skyldum sínum á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Í greinargerð umsjónarmanns kom fram að kærandi hefði ekki lagt fyrir fé samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, stóð yfir eða frá 19. október 2010. Einnig hefði kærandi stofnað til skulda á tímabilinu vegna vanskila á fasteignagjöldum og greitt af bílasamningi en það væri í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem kæmi fram að á fyrrnefndu tímabili mætti skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Umsjónarmaður lagði til við umboðsmann skuldara að heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana yrði felld niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 5. apríl 2013 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bárust engin svör við bréfinu.

Með bréfi til kæranda 13. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-, c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að heimild hennar til greiðsluaðlögunar verði ekki felld niður heldur verði gerð önnur greiðsluáætlun sem hún hafi meiri möguleika á að standa við. Skilja verður þetta svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið atvinnulaus í 13 mánuði af þeim tíma sem frestun greiðslna hafi staðið yfir. Á þeim tíma hafi hún ekki haft neina burði til að leggja til hliðar af atvinnuleysisbótum enda hafi endar ekki náð saman. Þegar hún hafi komist í vinnu í júlí 2011 hafi hún þurft að vinda ofan af smáskuldum sem safnast hafi upp hjá henni frá 2008. Hafi hún sett í forgang að endurgreiða vinum og ættingjum það sem hún hafði fengið lánað hjá þeim.

Kærandi hafi síðan misst vinnu á ný í lok ágúst 2012 og hafi frá þeim tíma fengið atvinnuleysisbætur. Hún hafi ekki náð endum saman þrátt fyrir að útreikningar um framfærslu bendi til annars. Framfærsluviðmið séu of lág. Framfærsluútreikningar sem umboðsmaður skuldara hafi gert fyrir kæranda kveði á um framfærslukostnað að fjárhæð 166.957 krónur. Telji kærandi raunhæft viðmið í þeim efnum 218.000 krónur á mánuði fyrir einstakling og því hafi hana vantað 51.000 krónur upp á. Hafi henni því verið ómögulegt að leggja til hliðar 37.631 krónu á mánuði eins og umboðsmaður hafi lagt til.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan frestun greiðslna standi yfir. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 28 mánuði miðað við tímabilið 1. nóvember 2010 til 28. febrúar 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. nóvember 2010 til 28. febrúar 2013 að frádregnum skatti 5.256.285
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 459.870
Endurgreiðsla ofgreiddrar staðgreiðslu 12.321
Samtals 5.728.476
Mánaðarlegar meðaltekjur 204.588
Framfærslukostnaður á mánuði 166.957
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 37.631
Samtals greiðslugeta í 28 mánuði 1.053.680

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 204.588 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 28 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Miða skuli við að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið um 166.957 krónur á mánuði á meðan hún naut greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað aprílmánaðar 2011 fyrir fullorðinn einstakling. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 1.053.680 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 37.631 króna á mánuði í 28 mánuði. Tillit hafi verið tekið til breytilegra tekna kæranda á tímabilinu en miðað sé við meðaltal heildartekna. Við útreikning á framfærslu sé gert ráð fyrir greiðslu áfallandi fasteignagjalda og annarra lögveða. Kærandi hafi þó „ekki staðið skil á áfallandi fasteignagjöldum vegna áranna 2011 og 2012 að fjárhæð um 15.000 krónur og hefði þess vegna átt að hafa getu til að leggja um 1.483.256 krónur til hliðar“. Hafi meðalgreiðslugeta hennar þá verið 52.973 krónur á mánuði miðað við sama tímabil.

Kærandi telur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara of lág. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar.

Í greinargerð með kæru kveðst kærandi hafa þurft að greiða skuldir sem safnast hefðu upp vegna tekjulækkunar hennar á árunum 2008 til 2011. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn þessu til stuðnings og því liggi ekki fyrir hvort stofnað hafi verið til skuldanna áður en kærandi óskaði greiðsluaðlögunar eða á meðan greiðsluaðlögunar var leitað.

Samkvæmt framansögðu þyki ljóst að kærandi hafi ekki lagt fyrir nægilegt fé af tekjum sínum og öðrum launum samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. í greiðsluskjóli.

Kærandi hafi farið að greiða af bílasamningi 1. nóvember 2011 en greiðslur þessar höfðu frestast vegna greiðsluskjóls. Kærandi hafi alls greitt 219.294 krónur vegna samningsins. Teljist hún því hafa látið af hendi fé sem gagnast hefði lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu hafi kærandi ekki staðið skil á áfallandi fasteignagjöldum vegna húseignar sinnar á meðan greiðsluaðlögunar hafi verið leitað. Nemi vanskil fasteignagjalda vegna áranna 2011 og 2012 alls 238.725 krónum. Með því hafi hún stofnað til nýrra skulda samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. sem skaðað hafi hagsmuni lánardrottna.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-, c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-, c- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. má skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 15. febrúar 2013 að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 13. maí 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem henni hafi verið unnt á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls, í öðru lagi að kærandi hafi greitt 219.294 krónur af bílasamningi frá 1. nóvember 2011 og í þriðja lagi að kærandi hafi stofnað til skulda á tímabilinu með því að standa ekki í skilum með áfallandi fasteignagjöld að fjárhæð 238.725 krónur.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-, c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 1.053.680 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 15. október 2010 til 28. febrúar 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 37.631 króna á mánuði í greiðsluskjóli. Kærandi hafi ekkert lagt til hliðar á tímabilinu og gefið þær skýringar að framfærslukostnaður hennar hefði verið hærri en útreikningar umboðsmanns skuldara gerðu ráð fyrir þannig að hún hefði ekki haft tök á því að leggja til hliðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: tveir mánuðir
Nettótekjur alls 293.617
Nettó mánaðartekjur  að meðaltali 146.809
   
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur alls 2.074.522
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 172.877


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur alls 2.583.448
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 215.287


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. apríl 2013: 4 mánuðir
Nettótekjur alls 458.078
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 114.520


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.409.665
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 180.322

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 30.apríl 2013: 30 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.409.665
Bótagreiðslur 433.570
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 5.843.235
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 194.775
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 166.957
Greiðslugeta kæranda á mánuði 27.818
Alls sparnaður í 30 mánuði í greiðsluskjóli x 27.818 834.540

 

Kærandi hefur ekkert lagt til hliðar í greiðsluskjóli og hefur gefið þá skýringu að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu óraunhæf og því hafi hún ekkert fé haft aflögu til að leggja til hliðar.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattsstjóra um tekjur kæranda á tímabilinu 1. nóvember 2010 til 30. apríl 2013 auk upplýsinga um vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu var greiðslugeta kæranda 27.818 krónur á mánuði að teknu tilliti til áætlaðs framfærslukostnaðar frá 15. október 2010 og þar til greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður 13. maí 2013.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Samkvæmt þessu vantar 834.540 krónur upp á sparnað kæranda á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt því fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. er skuldurum óheimilt, á sama tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum greiddi kærandi á tímabili greiðsluskjóls 219.294 krónur inn á lán vegna bifhjóls. Sú ráðstöfun var ekki nauðsynleg til að sjá kæranda farborða, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., og telst því brot á skyldum kæranda samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt því telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi réttilega komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan hún leitaði greiðsluaðlögunar.

Þá liggur fyrir að kærandi hefur stofnað til nýrra skulda vegna vanskila á fasteignagjöldum í greiðsluskjóli. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur ekki staðið skil á fasteignagjöldum sem til féllu árin 2011 og 2012. Var þó gert ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að fasteignagjöld væru meðal útgjalda kæranda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hefur kærandi því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Fellst kærunefndin því einnig á niðurstöðu umboðsmanns skuldara þess efnis að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hún fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu, að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli, sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun, og að stofna ekki til nýrra skulda á meðan hún leitaði greiðsluaðlögunar.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-, c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta