Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 22/2012. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

 

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 10. desember 2012

í máli nr. 22/2012:

Sigurður Ingi Þorsteinsson

gegn

Borgarbyggð

Með bréfi, dags. 12. júlí 2012, sem barst kærunefnd útboðsmála degi síðar, kærir Sigurður Ingi Þorsteinsson útboð Borgarbyggðar á skólaakstri við grunnskóla í Borgarbyggð og akstur í tómstundastarf 2012 til 2016. Með bréfi, dags. 19. júlí 2012, kom kærandi að viðbótarsjónarmiðum í tilefni af kærunni. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

1.        Aðallega að kærunefnd útboðsmála „stöðvi samningsgerð kærða [...] við Guðjón Gíslason á akstursleið nr. 2 og Tryggva Val Sæmundsson á akstursleið nr. 6“ þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Einnig krefst hann þess að nefndin ógildi ákvarðanir kærða um að ganga til samninga við Guðjón Gíslason og Tryggva Val Sæmundsson á áðurgreindum leiðum.

2.        Til vara að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

3.        Í báðum tilvikum að nefndin úrskurði að kærði greiði kærenda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

Kærða var kynnt kæran þegar hún barst og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kærenda um stöðvun. Með bréfi, dags. 23. júlí 2012, sem barst nefndinni degi síðar, krefst kærði þess aðallega að kærunni verði vísað frá, en til vara þess að að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Með ákvörðun 27. júlí 2012 hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis í tengslum við útboðið. Verður nú leyst úr öðrum efnisatriðum kærunnar.

Með bréfi, dags. 10. september 2012, gerði kærandi athugasemdir við greinargerð kærða.

 

I.

Kærði auglýsti í apríl og maí 2012 útboð á skólaakstri í grunnskóla í Borgarbyggð og akstur í tómstundastarf 2012 til 2016. Útboðsgögn í hinu kærða útboði voru dagsett 24. apríl 2012 og var útboðið auglýst á EES svæðinu þann dag. Þá voru útboðsgögn aðgengileg á skrifstofu kærða frá og með 15. maí sama ár og útboðið að auki auglýst á vefsíðu kærða og í héraðsblöðum 16. sama mánaðar. Með auglýsingunni óskaði kærði eftir tilboðum í skólaakstur með grunnskólanemendur næstu fjögur skólaár, frá byrjun skólaárs haustið 2012 til og með loka skólaárs vorið 2016. Samkvæmt útboðsgögnum er um að ræða skólaakstur við Grunnskólann í Borgarnesi og Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi, Kleppjárnsreykjum og Hvanneyri auk aksturs nemenda við skólana í tómstundastarf. Í útboðsgögnum var samningstími svo sem áður greinir ákveðinn fjögur ár, þó með möguleika á framlengingu hans í tvígang til eins árs í senn. 

Í útboðsgögnum hins kærða útboðs er meðal annars kveðið á um að um útboðið gildi ákvæði laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða og laga nr. 84/2007, sbr. kafla 1.1.2, að væntanlegir samningsaðilar skuli lúta ákvæðum íslenskra laga og reglugerða, sbr. kafla 1.2.3, að bjóðendum sé heimilt að bjóða í einstakar akstursleiðir eða fleiri en eina, en að bjóða skuli í alla verkþætti þeirrar leiðar sem boðið væri í, sbr. kafla 1.1.4, og að kærði muni taka lægsta tilboði í akstursleið að því gefnu að lægstbjóðandi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt útboðsgögnum, en kærði áskilur sér jafnframt rétt til að hafna öllum tilboðum, sbr. kafla 1.2.1.

Útboðið var svo sem áður greinir auglýst í apríl og maí 2012. Samkvæmt útboðsgögnum var fyrirspurnarfrestur til 1. júní sama ár, svarfrestur til 8. þess mánaðar og opnunartími tilboða fyrirhugaður 15. sama mánaðar kl. 14. Skyldu tilboð gilda í fjórar vikur eftir opnun þeirra. Tilboð í hinu kærða útboði voru opnuð samkvæmt áætlun og skiluðu 23 bjóðendur tilboðum, þ. á m. kærandi sem meðal annars bauð í tvær tilteknar akstursleiðir, auðkenndar nr. 2 og 6 í útboðsgögnum. Samkvæmt gögnum málsins var lægstbjóðendum í hinu kærða útboði tilkynnt um þá ákvörðun kærða að ganga til samninga við þá 12. júlí 2012. Degi síðar var öðrum bjóðendum tilkynnt um þá ákvörðun og að ekki yrði gengið við samninga við þá. Þrátt fyrir það féllst kærði á að ljúka ekki samningsgerð um þær akstursleiðir, sem kæra þessi lýtur að, fyrr en kærunefnd útboðsmála hefur tekið afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda. Eftir ákvörðun kærða 13. júlí 2012 voru tilboð lægstbjóðenda framlengd til 27. sama mánaðar kl. 14 og samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum lauk kærði samningsgerð við þá aðila fyrir upphaf skólastarfs haustið 2012.

 

II.

Kærandi, sem átti næst lægsta tilboð í akstursleið nr. 6 í hinu kærða útboði, vísar til þess að kærði hafi 12. júlí 2012 tilkynnt sér um að taka ætti tilboði kæranda vegna þeirrar akstursleiðar, þar sem litið væri svo á af hálfu kærða að lægstbjóðandi í þá leið, Tryggvi Valur Sæmundsson, hefði afturkallað tilboð sitt vegna akstursleiðarinnar. Að kvöldi sama dags hefði kærði á ný haft samband við kæranda og tjáð honum að tilboðið við kæranda stæði ekki lengur, þar sem Tryggva Val hefði snúist hugur og að gengið yrði til samninga við hann.

Þá vísar kærandi til þess að hann hefði verið lægstbjóðandi í akstursleið nr. 2 í hinu kærða útboði miðað við þær forsendur sem lágu til grundvallar útboðinu, en útboðsgögn gerðu ráð fyrir að áætlaður nemendafjöldi á akstursleiðinni skólaárið 2012 til 2013 væri sjö börn, með almennum fyrirvara um að nemendafjöldi og akstursleið gæti breyst. Kærandi vísar til þess að kærði teldi sig hafa heimildir fyrir að börn á áðurgreindri leið yrðu 11 talsins og af þeim sökum hefði verið ákveðið að taka tilboði bjóðandans Guðjóns Gíslasonar sem var lægstbjóðandi miðað við að fjöldi barna væri 9 til 12 börn. Kærandi heldur því fram að kærði hafi aldrei upplýst bjóðendur um hinar breyttu forsendur útboðsins, svo sem honum var þó skylt samkvæmt útboðsgögnum. Forsendur þær sem bjóðendur gátu lagt til grundvallar við gerð tilboða voru þær að gert væri ráð fyrir sjö börnum á akstursleiðinni og að kærði myndi taka lægsta tilboði.

Kærandi telur að ákvarðanir kærða, um að ganga til samninga við bjóðandann Guðjón Gíslason vegna akstursleiðar nr. 2 og bjóðandann Tryggva Val Sæmundssonar vegna akstursleiðar nr. 6, fái ekki staðist með vísan til eftirfarandi sjónarmiða:

Kærandi telur að hið kærða útboð heyri undir lögsögu nefndarinnar, enda varði það þjónustusamning sem hljóti næsta víst að svara að lágmarki til viðmiðunarfjárhæðar samkvæmt reglugerð nr. 229/2010 um viðmiðunarfjárhæðir um útboðsskyldu á EES-svæðinu, sem nemi 25.862.000 krónum, sbr. og 26. gr. laga nr. 84/2007. Tekur kærandi dæmi þess að virði akstursleiðar nr. 2, einnar og sér, nái þeirri fjárhæð og sé um 27,2 milljónir krónur (243 kr. * 110 km * 180 dagar * 4 ár).

Kærandi byggir á því að verulegar líkur séu á því að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 84/2007 við ákvörðun um að ganga ekki til samninga við kæranda.

Hvað akstursleið nr. 2 varðar telur kærandi að hann hafi verið lægstbjóðandi í þá leið og því hafi kærði með réttu átt að ganga til samninga við hann til samræmis við útboðsgögn og ákvörðun Byggðarráðs kærða 12. júlí 2012, þar sem ákveðið var að ganga til samninga við lægstbjóðendur hverrar akstursleiðar hins kærða útboðs. Útboðsgögn gerðu ráð fyrir sjö nemendum samkvæmt áætlun og tilboð kæranda hefði verið lægsta boð miðað við þær forsendur. Hafi kærandi við tilboðsgerð kappkostað að bjóða sem lægst verð í áætlaðan nemendafjölda hverrar leiðar. Kærandi heldur því fram að kærði hafi ákveðið einhliða og án nokkurrar tilkynningar að miða forsendur fyrir vali á tilboði við 11 nemendur á akstursleið nr. 2, þrátt fyrir að útboðsgögn hefðu gert ráð fyrir sjö nemendum á sömu leið. Kærandi bendir á að í útboðsgögnum hafi vissulega verið gerður fyrirvari um að nemendafjöldi og akstursleiðir gætu breyst, en þar sé á hinn bóginn hvergi áskilinn réttur kaupanda til að breyta forsendum sínum fyrir vali á tilboði slíkum breytingum til samræmis. Þvert á móti sé í útboðsgögnum tiltekið að ef breytingar yrðu á akstursleiðum yrði „ætíð miðað við boðin einingaverð skv. tilboði í verkefnið“, sbr. kafla 1.2.8. Telur kærandi að ákvörðun kærða um val á tilboði sé ólögmæt þar sem hún byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum sem brjóti í bága við meginreglur útboðsréttar um jafnræði og gagnsæi. Kærandi heldur því fram að í útboðsgögnum hafi skýrlega verið gert ráð fyrir sjö nemendum á akstursleið 2 og að óumdeilt sé að kærandi hafi átt lægsta tilboðið miðað við þær forsendur. Þá fullyrði kærandi að hvergi hafi komið fram í útboðsgögnum að kaupandi myndi taka tilboði á grundvelli annarra valforsendna og að hann hafi einhliða og án tilkynningar miðað forsendur fyrir vali á tilboði við 11 nemendur á akstursleiðinni. Kærandi vísar enn fremur til þess að kaupendum sé í útboðsrétti heimilt innan ákveðinna marka að gera breytingar á útboðsskilmálum, að því gefnu að þær brjóti ekki í bága við jafnræði bjóðenda. Í því samhengi sé gerður greinarmunur á form- og efnisbreytingum í því samhengi þar sem hinar fyrrnefndu hafi ekki raunveruleg áhrif á val tilboða, en hinar síðarnefndu geri það á hinn bóginn. Ljóst sé að ákvörðun kærða um breytingu á upphaflegum valforsendum hljóti að fela í sér slíka breytingu. Kærandi vísar að auki til ákvæða 1. mgr. 38. gr. og 45. gr. laga nr. 84/2007. Kærandi bendir á að ekkert liggi fyrir um hvort 11 nemendur séu endanlegur fjöldi fyrrgreindrar leiðar, eða hvort einungis sé um að ræða áætlanir kærða. Kröfu sína styður kærandi enn fremur við úrskurð kærunefndar útboðsmála frá 16. ágúst 2006 í máli nr. 12/2006 og ákvörðun nefndarinnar frá 9. ágúst 2010 í máli nr. 17/2010, en í síðastgreindu máli, sem kærandi heldur fram að sé sambærilegt þessi máli, hafi nefndin staðfest að kaupanda hafi verið rétt að velja það tilboð sem var hagstæðast miðaða við þann nemendafjölda sem tilgreindur var í útboðsgögnum.

Hvað akstursleið nr. 6 varðar byggir kærandi á því að kærði hafi tilkynnt að ganga ætti til samninga við kæranda og að sú tilkynning hafi verið bindandi loforð í skilningi almennra reglna samningaréttar og meginreglna stjórnsýsluréttar, enda teljist tilboð almennt bindandi þegar það sé komið til vitundar móttakanda þess, sbr. og 76. gr. laga nr. 84/2007. Telur kærandi að kærða hafi verið óheimilt að afturkalla tilboð sitt fyrr en frestur til töku tilboðsins af hálfu kæranda var liðinn, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kærandi heldur því fram að kærði hafi 12. júlí 2012 litið svo á að Tryggvi Valur hafi ekki viljað ganga til samninga við kærða og að gengið yrði til samninga við kæranda ef hann myndi framlengja tilboð sitt fyrir tiltekið tímamark degi síðar. Kærandi hafi aldrei fengið tækifæri til þess þar sem kærði hafi afturkallað áðurgreinda ákvörðun síðla dags 12. júlí. Áréttar kærandi að slík afturköllun og ákvörðun um að ganga til samninga við Tryggva Val brjóti gegn meginreglu samningaréttar og þar með meginreglum laga nr. 84/2007. Kærandi heldur því fram að ósk kærða, um að kærandi framlengdi tilboð sitt, hafi falið í sér staðfestingu þess efnis að tilboðinu yrði tekið. Kærandi mótmælir athugasemdum kærða um annað sem röngum. Kærandi áréttar að hann hafi haft fullan vilja til þess að framlengja tilboð sitt og hljóta þannig eina af þeim akstursleiðum sem hann bauð í og áréttar að símtal forsvarsmanna kærða hafi falið í sér bindandi loforð um að hann myndi taka tilboði kæranda ef hann myndi framlengja það. Kærandi hafi fengið frest fram að kvöldi 12. júlí til að taka ákvörðun um framlengingu tilboðsins, en svo sem áður greinir hafi kærði afturkallað tilboð sitt fyrir það tímamark og því hafi tilboð kæranda ekki orðið fyrir valinu.

Kröfur sínar um annars vegar ógildingu ákvörðunar kærða, um að ganga til samninga við bjóðendurna Guðjón Gíslason og Tryggva Val Sæmundsson, og hins vegar um að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, byggir kærandi á þeim sjónarmiðum sem rakin eru hér á undan. Telur kærandi sýnt að hann hafi átt lægsta tilboð í akstursleið nr. 2 og að hann hefði átt raunhæfa möguleika á að verða valinn ef kærði hefði hegðað sér til samræmis við lög nr. 84/2007. Hið sama gildi um tilboð kæranda í akstursleið nr. 6, enda hafi hann haft lögmætar væntingar um að samið yrði við hann ef hann hefði framlengt tilboð sitt. Samkvæmt því séu uppfyllt skilyrði skaðabóta samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laganna.

Að síðustu áréttar kærandi kröfu sína um að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi og tekur fram að áætlaður kostnaður vegna málsins sé um 400.000 krónur.

 

III.

Kærði krefst þess aðallega að kæru verði vísað frá, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað, þ. á m. kröfu hans um stöðvun samningsgerðar.

Kærði telur að vísa beri kærunni frá þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, enda lúti flestar athugasemdir kæranda að framsetningu atriða í útboðsgögnum eða framkvæmd útboðsins. Kærði bendir í því samhengi á að kærandi hafi átt kost á að kynna sér útboðsgögn frá 16. maí 2012 og að innihald þeirra hafi verið kæranda ljóst eigi síðar en þann dag, er hann sótti gögnin á skrifstofu kærða.

Kærði hafnar staðhæfingu kæranda um að ranglega hafi verið staðið að áætlunum um fyrirhugaðan fjölda barna á hverri akstursleið í hinu kærða útboði. Kærði bendir á að útboðsgögn hafi tiltekið að breytingar kynnu að verða á þeirri áætlun og að akstursleiðir kynni að breytast eftir atvikum og að bjóðendur, sem taka þátt í útboðum á borð við þetta, verði að gera ráð fyrir slíkum breytingum og haga tilboðum sínum til samræmis til samræmis við það. Kærði bendir enn fremur á að tilboðsblöð í útboðinu hafi verið þannig úr garði gerð að bjóðendum hafi verið gert að gera tilboð í mismunandi flokka á hverri akstursleið, sem miðuðu við mismunandi fjölda nemenda, og að með því móti hafi verið skýrlega gefið til kynna að nemendafjöldi væri breytilegur. Kærði heldur því fram að bjóðendur hafi því haft alla möguleika á að gera tilboð er tækju mið af mismunandi fjölda nemenda.

Kærði vísar til þess að samkvæmt áætlun hafi fjöldi barna á akstursleið nr. 2 verið sjö nemendur. Eftir gerð útboðsgagna hafi verið ljóst að fleiri börn myndu nýta sér skólaakstur á þeirri leið, þ. á m. vegna flutnings lögheimilis eins barns og þess að öðru barni hefði verið boðin skólavist í Borgarnesi vegna fötlunar. Kærði bendir á að þrátt fyrir það sem á undan er rakið um útboðsgögn og áætlun um fjölda nemenda á hverri akstursleið hafi kærandi varðandi akstursleið nr. 2 hagað tilboði sínu á þá leið að hann hafi boðið 343 krónur á hvern km í flokkinn 7-8 börn, en boðið 540 krónur á hvern km í alla aðra flokka, þ. á m. flokkinn 9-12 börn. Bjóðandinn Guðjón Gíslason, er átti næstlægsta tilboð í flokkinn 7-8 nemendur, hafi boðið betur en kærandi í öllum öðrum flokkum, þ. á m. flokkinn 9-12 börn þar sem hann bauð 375 krónur. Samkvæmt því sé hafið yfir allan vafa að tilboð bjóðandans Guðjóns sé hagstæðara fyrir kærða miðað við aðstæður og að teknu tillit til nemendafjölda á akstursleiðinni og að hið sama hefði gilt ef fækkun hefði verið í áætlun á nemendafjölda leiðarinnar. Kærði áréttar að það sé skylda sín, sem sveitarfélags, að fara vel með almannafé, og að ákvörðun um val á tilboði vegna akstursleiðar nr. 2 hafi verið á því reist að velja hagkvæmasta tilboðið.

Kærði vísar til þess að í tilefni af kæru Davíðs Ólafssonar og Einars S. Traustasonar, sem barst kærunefnd útboðsmála 20. júní 2012 vegna hins kærða útboðs, hafi Byggðarráð kærða stöðvað innkaupaferli útboðsins 21. sama mánaðar þar til 9. júlí sama ár, er ákvörðun nefndarinnar, um að hafna kröfu fyrrgreindra aðila um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir, lá fyrir. Fáum dögum síðar áttu tilboð í hinu kærða útboði að renna út, samkvæmt fyrirmælum útboðsgagna, og greip kærði til þess ráðs að óska eftir því við þá bjóðendur, sem átt höfðu lægstu tilboð í hverja akstursleið, að framlengja tilboð sín um 14 daga, til að unnt væri að ljúka innkaupaferlinu og samningsgerð til samræmis við lög nr. 84/2007, sbr. einkum 76. gr. þeirra.

Kærði heldur því fram að allir lægstbjóðendur í útboðinu hefðu samþykkt að framlengja tilboð sín. Kærði vísar til þess að bjóðandinn Tryggvi Valur Sæmundsson, lægstbjóðandi í akstursleið nr. 6, hafi óformlega lýst því yfir við kærða að hann myndi ekki fallast á boð hans um framlengingu tilboðsins. Hafi kærði því leitað til kæranda með óformlegum hætti, en kærandi hafi ekki viljað framlengja tilboð sitt að svo stöddu, þar sem hann teldi það óhagstætt fyrir sig að fá aðeins eina akstursleið af nokkrum sem hann bauð í. Kærði heldur því fram að úr hafi orðið að bjóðandinn Tryggvi Valur hafi óskað eftir að framlengja tilboð sitt og að skömmu síðar hafi kærandi enn verið efins um hvort hann ætti að framlengja tilboð sitt í akstursleið nr. 6. Því hafi kærandi verið upplýstur um framlengingu á gildi tilboðs Tryggva Vals. Kærði hafnar staðhæfingum kæranda um þessa sömu atburðarás sem röngum og mótmælir því að með samskiptum milli kærða og kæranda hafi verið gengið að samningi um tiltekna akstursleið.

Þá bendir kærði á að í útboðsgögnum hins kærða útboðs hafi bjóðendum verið veittur frestur til 1. júní 2012 til að gera athugasemdir við útboðsgögnin eða óska frekari skýringa um þau, en engar slíkar athugasemdir eða fyrirspurnir hafi komið fram, hvorki fyrir né eftir það tímamark.

Að síðustu áréttar kærði kröfur sínar með vísan til alls þess sem á undan er rakið.

 

IV.

Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur þegar komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Eftir að bindandi samningur er kominn á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna. Þegar af þessum sökum verður að hafna kröfu kæranda um að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvarðanir kærða um að ganga til samninga við Guðjón Gíslason á akstursleið nr. 2 og Tryggva Val Sæmundsson á akstursleið nr. 6, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða. Í 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 er kveðið á um skaðabótaskyldu vegna tjóns sem hlotist hefur vegna brota kaupanda á lögum og reglum um opinber innkaup. Samkvæmt ákvæðinu eru sett tvö skilyrði fyrir skaðabótaskyldu. Annars vegar þarf að vera um að ræða brot á lögum eða reglum um opinber innkaup. Hins vegar þarf bjóðandi að sanna að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið.

Kærði falaðist eftir því við tiltekna bjóðendur 12. júlí 2012 að þeir framlengdu tilboð á grundvelli hins kærða útboði, þ. á m. bjóðendurna Guðjón Gíslason vegna akstursleiðar nr. 2 og Tryggva Val Sæmundsson vegna akstursleiðar nr. 6. Með því tók kærði afstöðu til þess hvaða tilboð hann taldi hagstæðust og þar með hvaða tilboð hann hygðist velja í hinu kærða útboði. Kærandi ber brigður á að ákvarðanir kærða 12. júlí 2012 hafi verið í samræmi við fyrirmæli laga nr. 84/2007.

Í útboðsgögnum hins kærða útboðs var í kafla 1.2.1 um töku tilboða meðal annars kveðið á um að kærði myndi taka lægsta tilboði í hverja akstursleið að því gefnu að lægstbjóðandi uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru samkvæmt útboðinu. Í kafla 2 var að finna verklýsingu. Þar var í kafla 2.2 um akstursleiðir meðal annars vakin athygli á því að einstaka leiðir gætu breyst á samningstímanum og eftir atvikum orðið styttri eða lengri og jafnvel fallið niður, en þetta færi eftir fjölda þeirra nemenda sem sæktu grunnskólann hverju sinni og staðsetningu þeirra. Í köflum 2.2.2 til 2.2.7 var einstökum akstursleiðum lýst auk þess sem gefnar voru upplýsingar um áætlaðan fjölda nemenda skólaárið 2012 til 2013 á hverri akstursleið og áætlaða vegalengd hennar. Þar var einnig sérstaklega tiltekið að fjöldi farþega réðist af fjölda nemenda sem þyrftu á þjónustunni að halda hverju sinni. Í kafla 2.3 var að finna nánari lýsingu einstakra akstursleiða þar sem enn var vísað til áætlaðs nemendafjölda á hverri akstursleið skólaárið 2012 til 2013, en tiltekið að nemendafjöldi og akstursleið gætu breyst. Í kafla 4 í útboðsgögnum var að finna tilboðsblöð fyrir bjóðendur í útboðinu og þar var í öllum tilvikum gert ráð fyrir að bjóðendur skiluðu inn upplýsingum um tilboðsfjárhæðir fyrir einstakar akstursleiðir, miðað við ólíkar forsendur um fjölda nemenda, en ekki einungis miðað við fyrirliggjandi áætlanir um nemendafjölda skólaárið 2012 til 2013, til samræmis við þá staðreynd að nemendafjöldi gæti tekið breytingum. Af útboðsgögnum verður ráðið að bjóðendum var í sjálfvald sett að gera tilboð í akstursleiðir miðað við ólíkar forsendur um fjölda nemenda og að gerður var skýr fyrirvari um að fjöldi nemenda á hverri akstursleið væri breytingum háður.

Miðað við fyrirliggjandi gögn verður ráðið að ákvarðanir kærða um val á tilboðum í akstursleiðir nr. 2 og 6 voru teknar með hliðsjón af fyrirmælum útboðsgagna um að kærði myndi taka lægsta tilboði í hverja akstursleið. Að mati kærunefndar útboðsmála hefur ekki verið sýnt fram á að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007 við framkvæmd hins kærða útboðs. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu kæranda um að nefndin láti uppi álit á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins verður þeirri kröfu hafnað.

Úrskurður þessi hefur dregist sökum anna hjá kærunefnd útboðsmála.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda, Sigurðar Inga Þorsteinssonar, vegna útboðs kærða, Borgarbyggðar, á skólaakstri við grunnskóla í Borgarbyggð og akstur í tómstundastarf 2012 til 2016.

                

Reykjavík, 10. desember 2012.

 

Páll Sigurðsson,

Auður Finnbogadóttir,

Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta