Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 62/2012

Mánudaginn 17. febrúar 2014


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. febrúar 2012 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 14. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. apríl 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 9. maí 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.  

 

I. Málsatvik

Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 11. mars 2011. Kærendur eru fædd 1967 og 1968. Þau búa ásamt þremur börnum sínum í leiguhúsnæði í Noregi. Kærandi A er menntuð markaðshagfræðingur en starfar á hjúkrunarheimili og við þrif, bæði störfin eru hlutastörf. Kærandi B er húsasmíðameistari og byggingafræðingur að mennt og starfar sem smiður. Kærendur fá leigutekjur af íbúð sinni að C götu nr. 70 í sveitarfélaginu D.

Að mati kærenda stafa greiðsluerfiðleikar þeirra aðallega vegna atvinnuleysis, tekjulækkunar og hækkunar á lánum vegna verðtryggingar. Árið 2008 hafi kærandi B misst alla yfirvinnu og bifreiðastyrk sem leiddi til launalækkunar. Árið 2009 hafi starfshlutfall hans minnkað í 50% og í kjölfar þess missti hann starfið skömmu síðar sama ár. Hann hafi síðan þegið atvinnuleysisbætur samhliða starfi sem kennari þar til í apríl 2010. Þá hafi hann flutt til Noregs en þar hafi hann verið komin með vinnu sem smiður. Kærandi A varð atvinnulaus árið 2008 vegna samdráttar. Þá hafi hún fengið atvinnuleysisbætur þar til hún fékk tímabundna vinnu fram í janúar 2010, en þá hafi hún orðið atvinnulaus fram í apríl 2010 er hún fékk vinnu fram í apríl 2011. Kærandi A flutti ásamt börnum kærenda til Noregs í maí 2011. Nú sé B í fullri vinnu í Noregi og sé með ótímabundinn ráðningarsamning auk þess sem þau hafi gert húsaleigusamning til þriggja ára sem renni út í lok október 2014.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 54.979.646 krónur og þar af falla 15.273.124 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2007, 2009 og 2010.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. febrúar 2012 var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að þau uppfylltu ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að til þess að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við þeirra mál þá beri þeim að færa sönnur á að um tímabundna búsetu sé að ræða. Sé þá átt við tímabundinn húsaleigusamning eða starfssamning. Kærendur hafi sýnt fram á þriggja ára húsaleigusamning en geta ekki sýnt fram á tímabundin starfssamning þar sem slíkt tíðkist ekki í Noregi. Kærendur telja að með þessu lagaákvæði sé verið að hindra þau í því að gera hið eina rétta í stöðunni, þ.e. að þau fái sér bæði vinnu og hafi öruggar tekjur til að geta staðið skil á skuldum sínum og sýnt ábyrgð gagnvart börnum sínum með því að veita þeim nauðsynjar og mannsæmandi líf.

Kærendur telja að tekjuöryggi þeirra yrði ógnað með tímabundnum starfssamningi. Í upphafi þessa ferlis 11. mars 2011 hafi kærendur leitað til umboðsmanns skuldara og hafi þá tekið skýrt fram að þau hygðust flytja til Noregs þá um vorið. Það hafi ekki verið minnst á að það sem hér sé verið að fara fram á af þeirra hálfu.

Kærendur taka fram að þau muni flytja aftur til Íslands en geta ekki sagt til um hvenær það verður fyrr en þau vita hvenær ástandið á vinnumarkaðnum batnar á Íslandi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá sé miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Tekið sé fram að víkja megi frá skilyrðinu við tvenns konar aðstæður sem lýst sé annars vegar í a-lið 4. mgr. 2. gr. lge. og hins vegar í b-lið 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið komi fram að víkja megi frá skilyrðinu ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili eða verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi B hafi flutt til Noregs í apríl 2010, kærandi A, ásamt börnum þeirra í maí 2011. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá breyttu þau lögheimili sínu 5. maí 2011. Samkvæmt því sem fram komi í greinargerð kærenda starfi þau í Noregi, leigi þar íbúð og hafi keypt sér bifreið. Í rökstuðningi kærenda vegna búsetu í Noregi komi einnig fram að þau vilji að börn þeirra klári skólagöngu í Noregi, en yngsta barn þeirra sé tíu ára og eigi því eftir sex ár af skólaskyldu sinni. Að sögn kærenda var í þeirra tilfelli nauðsyn en ekki val að halda til Noregs til þess að þurfa ekki að láta börnin gjalda þess hvernig staðan var á Íslandi. Kærendur hafi lýst því yfir að þau hyggist snúa aftur heim til Íslands og voni að það verði sem fyrst án þess að geta sagt nánar til um tímasetningu þess.

Umboðsmaður greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi í máli nr. 14/2011 úrskurðað um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verði ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tíman í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.“

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 30. apríl 2012 kemur fram að meðan á vinnslu málsins stóð hjá embættinu hafi kærendur litið svo á að þau hefðu ekki val þegar þau fluttust búferlum til Noregs. Fram hafi komið að vegna atvinnuleysis kæranda B hafi hann farið til Noregs í maímánuði 2010, en þar hafi hann fengið vinnu. Ári síðar, í byrjun maí 2011, flutti kærandi A ásamt börnum þeirra til Noregs. Við flutning til Noregs sagði A upp starfi sínu á Íslandi og fór til atvinnuleitar í Noregi. Nú séu þau bæði í vinnu í Noregi. Þau hafi keypt sé bifreið þar og séu með leigusamning vegna húsnæðis sem renni út 30. október 2014. Þau hafi bæði, við vinnslu málsins svo sem lýst er í kæru, lýst því yfir að hugur þeirra stefni aftur til Íslands, en þau geti ekki sagt hvort eða hvenær það yrði. Svo sem fram komi í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 14/2011 telst það eitt, að lýsa því yfir að aðilar hyggist snúa aftur til Íslands án þess að styðja það neinum gögnum, ekki duga til að sýna fram á að um tímabundna búsetu sé að ræða.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærendur eigi lögheimili og búi og starfi í Noregi. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta þeirra sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því umsókn kærenda um greiðsluaðlögun synjað.

Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kærenda í Noregi sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum. Þá telur nefndin ekki fullnægjandi í þessu sambandi að skuldari lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.

Í tilviki kærenda liggur fyrir að þau búa nú í Noregi og hafa verið með skráð lögheimili þar síðan 5. maí 2011. Kærendur hafa þar fasta atvinnu. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur ekki sýnt fram á að búseta þeirra sé tímabundin í skilningi laganna.

Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir 

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta