Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 338/2013

Miðvikudaginn 29. janúar 2014

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með bréfi, dags. xx 2013, kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða lífeyrisréttindi hennar vegna búsetu erlendis.

 Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi, dags. xx 2013, að búsetuhlutfall yrði lækkað úr 100% í 80,7% þar sem viðurkenndur hafði verið réttur til lífeyrisgreiðslna í öðru EES-landi.

 Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a. svo:

 „Ég vil kæra ákvörðun Tryggingastofnunar dagseta xx 2013 þar sem þeir leiðrétta við mig lífeyrisgreiðslur frá 1. desember næstkomandi en þá breyta þeir aftur búsetuhlutfalli mínu niður í 80,7%. Ég vísa í kærumál mitt við stofnunina nr. 287/2012 en þar var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins vegna skerðingu á lífeyrisgreiðslum til mín felld úr gildi. Í úrskurðinum segir „ ..að þessi breytta réttarframkvæmd og lögskýring af hálfu Tryggingastofnunar fái ekki beina stoð í orðalagi 18.gr. almannatrygginga.“ Ég tel að ekkert hafi breyst er varðar þann úrskurð og túlkun þessara laga þrátt fyrir í millitíðinni hafi danir samþykkt örorkulífeyri til mín, ég sendi afrit af því bréfi með.

Það vakna einnig nokkrar spurningar hjá mér er varðar vinnubrögð Tryggingastofnunar, ef ég er einungis með 80,7% búsetu hér á landi þrátt fyrir að hafa búið hér 10 ár eftir að ég varð öryrki eða í 18 ár frá 16 ára aldri (32ár alls) en x og x í B. Af hverju teljast þau x ár sem ég hef búið hér eftir örorku ekki með? Þýðir þetta að ég eigi einungis rétt á 80,7% ellilífeyri þrátt fyrir að hafa jafnvel búið hér alveg til 67 ára aldurs að undanskildum x árum? Á ég aldrei á lífshlaupinu rétt á að fá endurmat á búseturétti að hálfu Tryggingastofnunar þar sem ég er með MS sem er ekki enn læknanlegur sjúkdómur? Eru ekki eðlileg vinnubrögð að lífeyrisgreiðslu fari í skerðingu eins og greiðslur mínar frá VR frekar en að réttindi mín skerðist um 19,3%. Þar fyrir utan er ég gift og B taka enn mið af tekjum maka við útreikning bóta.

Ég lét Tryggingastofnun ríkisins strax vita um leið og ég fékk tekjur frá B en gengi launanna þaðan eru ekki rétt reiknað í tekjuáætlun minni hjá stofnunninni. Tryggingastofnun reiknar þessar xx krónur til að vera xx krónur á mánuði meðan ég fékk síðast xx krónur mínus þær xx krónur sem ég þarf að greiða við flutning peningana til Íslands (meðaltal ársins xx kr). Þó tekjur mínar frá B færu í skerðingu og ég fengi minna út úr því fjárhagslega þá finnst mér að rétt skuli vera rétt og ég kæri mig ekki um að sitja uppi á 80,7% ellilífeyri í ellinni.“


Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. xx  2013, eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Í greinargerð stofnunarinnar, dags. xx 2013, segir svo:

 „Kærð er á breytingu á hlutfalli búsetuskerðingar örorkulífeyris.

Í kærumáli nr. 287/2012 var ákvörðun Tryggingastofnunar um að leiðrétta búsetuútreikning á lífeyrisgreiðslum kæranda vegna búsetu í B á árunum 1996-2000 og væntanlegs lífeyrisréttar frá B felld úr gildi.  Í framhaldi af úrskurðinum var greiðslum breytt að nýju í samræmi við úrskurðinn í 100% greiðslur. 

Eftir að borist hafði tilkynning um að samþykkt hefði verið umsókn kæranda um greiðslur í B var með bréfi dags. xx 2013 tilkynnt um þar sem viðurkenndur hefði verið réttur til lífeyrisgreiðslna í öðru EES-landi á grundvelli EES-samningsins yrði búsetuhlutfallið/greiðsluhlutfallið lækkað úr 100% í 80,7% frá xx 2013. Þá ákvöðrun kærir kærandi.

Grundvöllur breytingarinnar var að reikna bæri lífeyrisgreiðslur hér á landi hlutfallslega skv. EES-reglum og í samræmi við 18. gr., sbr. 17., 58., 68 og 70 gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og 29. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, sbr. reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2003 (á að vera 2004) um samræmingu almannatryggingakerfa og framkvæmdareglugerð með henni nr. 987/2009. 

Í kærumáli nr. 287/2012 var ákvörðun Tryggingastofnunar um skerðingu greiðslna felld úr gildi með þeim rökstuðningi að stofnunin hefði um árabil túlkað ákvæði 18. gr. almannatryggingalaga með þeim hætti að við útreikning búsetutíma skuli reikna tímann frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri að fullu sem búsetutíma hér á landi.  Þá var vísað til þess að nú þegar hefði verið úrskurðað um breytta réttarframkvæmd Tryggingastofnunar í máli nr. 221/2009.

Tryggingastofnun telur niðurstöðu þessa vera byggða á misskilningi þar sem rökstuðningur um að stofnunin hafi um árabil túlkað ákvæði 18. gr. með þeim hætti sem segir í úrskurðinum á ekki við um útreikning greiðslna til einstaklinga sem almannatryggingareglur EES-samningsins eiga við.  Þá átti breytt réttarframkvæmd Tryggingastofnunar sem mál nr. 221/2009 fjallaði um eingöngu við um einstaklinga sem flutt höfðu hingað til lands frá landi sem Ísland hefur ekki gert milliríkjasamning um almannatryggingar við. 

Vakin skal athygli á því að úrskurður þessi er ekki í samræmi við fyrri framkvæmd úrskurðarnefndarinnar, t.d. í málum nr. 7/2010, 23/2010 og 347/2010.  Í öllum þessum málum var hlutfallslegur búsetuútreikningur á grundvelli EES-samningsins staðfestur.

Eftir að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lá fyrir barst svar við umsókn kæranda um lífeyrisgreiðslur frá B.  Niðurstaðan var sú að kærandi átti hlutfallslegan bótarétt þar í landi og fær hún nú greiddar xx á mánuði sem reiknast sem xx kr. á mánuði (þ.e. miðað við meðaltalsgengi ársins).  Í framhaldi af breytingu þessari var búsetuútreikningi greiðslna kæranda breytt í samræmi við í hlutfallslegan búsetuútreikning á grundvelli EES-samningsins.  Samtals á hún því meira en 100% rétt þar sem greiðsluréttur í fleiri en einu landi skv. EES-reglum hefur í för með sér að fleiri ár en þau 40 búsetuár skv. íslenskum reglum, eða í B 4/5 hlutar búsetutímans, sem almennt veita 100% rétt teljast með við útreikning greiðslna.  Með því að fá hlutfallslegar greiðslur frá Íslandi og B eru lífeyrisgreiðslur kæranda nú í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um útreikning lífeyrisgreiðslna til einstaklinga sem hafa áunnið sér tryggingaréttindi í fleiri en einu EES-ríki.

Til upplýsinga skal það tekið fram að þar sem bætur frá B er hærri en íslenskar bætur hækkuðu bætur til kæranda um xx þús. kr. á mánuði með hlutfallslegum útreikningi frá báðum löndunum miðað við að hafa áður eingöngu fengið 100% greiðslur frá Islandi.

Varðandi spurningar/hugleiðingar kæranda sem koma fram í kæru þá reiknast búsetuhlutfall örorkulífeyrisgreiðslna út frá tryggingaréttindum kæranda við upphaf örorku og búseta meðan á örorkulífeyrisgreiðslum stendur hefur ekki áhrif á þann útreikning.  Þetta er í samræmi við almannatryggingareglur á grundvelli EES-samningsins um að tryggður einstaklingur eigi ekki að tapa áunnum réttindum við flutning milli landa.

Um það hvort ekki væru eðlileg vinnubrögð að lífeyrisgreiðslur fari í skerðingu eins og lífeyrissjóðsgreiðslur frá VR frekar en að réttindi skerðist um 19,3% þá þá skal á það bent að skerðing eins og tekjuskerðing vegna lífeyrissjóðsgreiðslna er ekki heimil vegna lífeyrisgreiðslna frá öðru landi.  Skerðing vegna lífeyrisgreiðslna frá öðru landi getur einungis farið fram með þeim hætti að annaðhvort sé reiknað út réttindaútfall á grundvelli áunninna tryggingatímabila eða að lífeyrisgreiðslur erlendis frá séu einfaldlega dregnar frá lífeyrisgreiðslum hér á landi.

Hvað snertir hugleiðingar kæranda um skerðingu ellilífeyrisgreiðslna þá myndi nýr búsetuútreikningur væntanlega eiga sér stað þegar að því kemur og ekki er hægt að segja til um það nú hverjar forsendur útreiknings verða á þeim tíma.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. xx 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar skerðingu Tryggingastofnunar ríkisins á örorkulífeyrisgreiðslum til kæranda vegna búsetu erlendis.

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að í kærumáli nr. 287/2012 hafi úrskurðarnefnd almannatrygginga fellt úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins vegna skerðingar á lífeyrisgreiðslum til hennar. Kærandi telji að ekkert hafi breyst er varði þann úrskurð og túlkun laganna þrátt fyrir að í millitíðinni hafi B samþykkt örorkulífeyri til hennar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að búsetuhlutfall/greiðsluhlutfall hafi verið lækkað úr 100% í 80,7% eftir að umsókn kæranda um greiðslur B hafi verið samþykkt. Tryggingastofnun telji niðurstöðu í kærumáli nr. 287/2012 vera byggða á misskilningi þar sem rökstuðningur í úrskurðinum eigi ekki við um útreikning greiðslna til einstaklinga sem almannatryggingareglur EES-samningsins eiga við.

Við endurskoðun á réttindum kæranda hjá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2012 kom í ljós að búsetuhlutfall hennar hafði ekki verið rétt skráð. Tryggingastofnun tilkynnti því kæranda í xx 2012 að búsetuhlutfalli yrði breytt úr 100% í 80,7%. Kærandi kærði ákvörðun um breytt búsetuhlutfall til úrskurðarnefndar almannatrygginga, sem komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. 287/2012 að ekki ætti að skerða búsetutíma frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri hlutfallslega og hnekkti ákvörðun Tryggingastofnunar. Í kjölfar úrskurðarins breytti Tryggingastofnun greiðslum til kæranda og greiddi henni á ný miðað við 100% búsetuhlutfall. Kæranda var jafnframt tilkynnt að greiðslurnar yrðu endurskoðaðar þegar niðurstaða lægi fyrir um danskan lífeyri frá D. Með bréfi, dags. xx 2013, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að fallist hefði verið á rétt hennar til lífeyrisgreiðslna frá B og þar af leiðandi yrði búsetuhlutfall hennar á Íslandi lækkað úr 100% í 80,7% í samræmi við hlutfallslega búsetu á Íslandi. Kærandi fær nú hlutfallslegar örorkulífeyrisgreiðslur bæði frá Íslandi og B og er hún samtals með 100% lífeyrisréttindi. Tryggingastofnun hefur enn fremur bent á að þar sem bætur frá B séu hærri en íslenskar bætur hafi bætur til kæranda hækkað um xx kr. á mánuði með hlutfallslegum útreikningi frá báðum löndunum.

Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda þegar búsetuhlutfall var hækkað í 100% að greiðslur yrðu endurskoðaðar þegar niðurstaða umsóknar um B lífeyri lægi fyrir. Rétt er að taka fram að samkvæmt 3. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 má endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa. Í tilviki kæranda háttar svo til að með nýrri ákvörðun, dags. xx 2013, var fyrri stjórnvaldsákvörðun endurskoðuð og henni breytt. Þær breytingar höfðu þá orðið að hlutfallslegur bótaréttur kæranda í B hafði verið viðurkenndur og var því eðlilegt að endurskoða búsetuhlutfall kæranda.

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.  Í 1. mgr. 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem eru á aldrinum 18-67 ára og hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu. Í 4. mgr. 18. gr. segir að örorkulífeyrir skuli greiðast eftir sömu reglum og ellilífeyrir. Við ákvörðun á búsetutíma skuli reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

Í 1. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, sem vísað er til í 4. mgr. 18. gr. laganna, segir:

 „Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera […] kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum koma fullar greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar því aðeins til álita að um búsetu í a.m.k. 40 almanaksár sé að ræða frá 16 til 67 ára aldurs framreiknað í samræmi við 4. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu nýtur kærandi skertra lífeyrisréttinda því hún uppfyllir ekki búsetuskilyrðin að fullu vegna búsetu erlendis á þessu tímabili. Samkvæmt gögnum málsins bjó kærandi erlendis frá xx 1996 til xx 2000. Samanlagður búsetutími hennar hér á landi eftir 16 ára aldur þar til hún hóf töku lífeyris þann xx 2003 eru því 7 ár, 6 mánuðir og 13 dagar. Samanlagður búsetutími kæranda erlendis eru 4 ár, 4 mánuðir og 11 dagar. Samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar eru framreiknuð búsetuár kæranda hérlendis samanlagt 32,31 ár og á hún því rétt á 80,7% greiðsluhlutfalli örorkulífeyris samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins.

Samkvæmt framangreindum útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins er búsetutími kæranda frá örorkumati fram að 67 ára aldri reiknaður í sama hlutfalli og búsetutíminn frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats. Það er í samræmi við framkvæmd Tryggingastofnunar á búsetuútreikningi fyrir þá lífeyrisþega sem hafa áunnið sér lífeyrisréttindi í öðrum aðildarríkjum EES. Þannig hefur Tryggingastofnun frá gildistöku EES-samningsins árið 1994 skipt framreiknuðum búsetutíma hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila á milli þeirra EES ríkja þar sem viðkomandi hafði áunnið sér réttindi. Hjá þeim lífeyrisþegum sem hafa verið búsettir utan EES er útreikningur búsetutíma hins vegar þannig að búseta frá örorkumati að 67 ára aldri er reiknuð að fullu sem búsetutími hérlendis. Framkvæmd búsetuútreiknings Tryggingastofnunar ríkisins með þeim hætti sem lýst hefur verið hér að framan hefur verið staðfest með úrskurðum úrskurðarnefndar almannatrygginga, m.a. í málum nr. 23/2010, 347/2010 og 32/2012.

 

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að greiðsluhlutfall örorkulífeyris til kæranda skuli vera 80,7%.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiðsluhlutfall örorkulífeyris til A, skuli vera 80,7% er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta