1098/2022. Úrskurður frá 5. október 2022
Hinn 5. október 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1098/2022 í máli ÚNU 22050023.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Með erindi, dags. 25. maí 2022, kærði A tafir á afgreiðslu Tryggingastofnunar á beiðni hans um upplýsingar, dags. 22. apríl sama ár, um það hversu mikið peningaflæði væri á milli Tryggingastofnunar og Innheimtustofnunar sveitarfélaga.
Kæran var kynnt Tryggingastofnun með erindi, dags. 12. júní 2022, og skýringa óskað. Í svari Tryggingastofnunar, dags. 22. júní, kom fram að ekki yrði séð að stofnuninni hefði borist erindi kæranda. Tryggingastofnun liti á erindi úrskurðarnefndarinnar frá 12. júní sem framsendingu á erindi kæranda. Stofnunin svaraði erindi kæranda daginn eftir, þar sem óskað var eftir því að kærandi afmarkaði beiðni sína nánar í samræmi við 15. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 1. júlí 2022, var kæranda gefið færi á að tjá sig um svar Tryggingastofnunar. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.
Niðurstaða
Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í málinu barst Tryggingastofnun ekki erindi kæranda frá 22. apríl 2022. Stofnunin leit hins vegar á erindi úrskurðarnefndarinnar frá 12. júní 2022 sem framsendingu erindis kæranda og svaraði erindinu hinn 23. júní sama ár.
Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Þegar svo háttar til að beiðni um gögn hefur ekki borist kærða er ekki um að ræða synjun á aðgangi að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 25. maí 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir