Nr. 326/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 25. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 326/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20070011
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 7. júlí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. júní 2020, um að synja honum um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 16. mars 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. júní 2020, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 7. júlí sl. og í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 14. júlí sl. féllst kærunefnd á þá beiðni. Tölvupóstur barst frá umboðsmanni kæranda þann 21. september sl. þar sem kemur m.a. fram að greinargerð yrði ekki skilað til kærunefndar í málinu og að kærandi hefði yfirgefið landið.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. júní 2020, hafi kæranda verið synjað um atvinnuleyfi. Væri stofnuninni því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókn hans því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Greinargerð barst ekki frá kæranda.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. eru skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis skv. ákvæðinu m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.
Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, þ.m.t. ákvarðanatöku um hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi.
Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að Vinnumálastofnun synjaði því að kæranda yrði veitt atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki með ákvörðun, dags. 11. júní 2020. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
F.h. kærunefndar útlendingamála,
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir, settur varaformaður