Hoppa yfir valmynd

Nr. 304/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. ágúst 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 304/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22060052

 

Beiðni [...] og barns hennar um endurupptöku

I.       Málsatvik

Hinn 2. apríl 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 17. október 2019 um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Afganistan (hér eftir nefnd kærandi), og barni hennar [...], fd. [...], ríkisborgara Afganistan (hér eftir A) um fjölskyldusameiningu við einstakling er kveðst heita [...], vera fæddur [...], ríkisborgari Afganistan (hér eftir M), á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Hinn 5. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar nr. 271/2020 uppkveðnum 13. ágúst 2020.

Hinn 22. júní 2022 lagði M fram að nýju beiðni um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum. Hinn 8. ágúst 2022 bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda.

Af framlagðri beiðni og fylgigögnum má ráða að beiðni um endurupptöku málsins byggi á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.      Málsástæður og rök kæranda

Í gögnum málsins er bréf ritað af M þar sem hann vísar til þess að kærandi hafi fengið viðvörunarbréf frá Talibönum. M vísar til þess að Talibanar fari með stjórn Afganistan og hafi takmarkað frjálsa för kvenna með því að banna þeim að fara út úr húsi án fylgdar karlkyns ættingja. Því til stuðnings leggur M fram tengla á fréttir á vefsíðum ýmissa netfjölmiðla. Í bréfinu er beiðni um endurskoðun á málinu byggð á því að kærandi búi við heft frelsi undir stjórn Talibana, hún hafi ekki karlkyns ættingja og séu örlög hennar í höndum Talibana.

Þá greinir M frá því að kæranda hafi verið synjað um fjölskyldusameiningu við sig vegna mistaka sinna en hann hafi, þegar mál hennar hafi verið í meðferð, verið í strangri lyfjameðferð vegna andlegra vandamála og hafi hann verið metinn andlega vanheill af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Þá hafi M á þeim tíma verið alvarlega þunglyndur. Telur M að verið sé að láta kæranda og A gjalda fyrir sín mistök og fari það gegn mannréttindum þeirra þegar litið sé til þeirra aðstæðna sem ríki í Afganistan. M vísar til þess að í bréfi Talibana til kæranda hafi þeir varað hana við því að þeir myndu bráðlega kalla M heim eða þvinga hana til að giftast Talibana.

III.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 2. apríl 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hún sé maki M og eigi þar með rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Vísaði nefndin m.a. til framburðar M í viðtölum hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd þar sem hann kvaðst hafa yfirgefið Grikkland um áramótin 2011/2012, en gögn frá grískum yfirvöldum bendi til þess að hann hafi komið til landsins undir lok árs 2010. Hafi því verið verulegt misræmi milli frásagnar M og framlagðra gagna um stofnun hjúskapar þeirra, sem þau kveða að hafi átt sér stað árið 2012. Þá var það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að A sé barn M og að A eigi þar með rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli síðastnefnds ákvæðis. Í því sambandi horfði kærunefnd til þess að M kvaðst hafa verið í Grikklandi á þeim tíma sem getnaður hafi átt sér stað, auk misræmis í framburði M um aldur og nafn A.

Með áðurgreindum úrskurði kærunefndar nr. 271/2020 var beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar og A synjað. Var beiðnin m.a. byggð á því að framlögð læknisfræðileg gögn um heilsufar M gæfu skýringar á því hvers vegna misræmi hefði verið í framburði M hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá voru með beiðninni lagt fram myndband og ljósmyndir sem teknar hefðu verið á degi hjónavígslu M og kæranda. Í úrskurði sínum tók kærunefnd fram að framlögð gögn um heilsufar M bæru með sér að hann glímdi við andleg vandamál. Hnekktu þær upplýsingar hins vegar ekki mati nefndarinnar sem fram hafi komið í úrskurði, dags. 2. apríl 2020, varðandi upplýsingar um dagsetningar frá grískum yfirvöldum um að kæranda hefði verið þar í landi í lok árs 2010. Þá tók kærunefnd fram að til þess að kærandi gæti átt rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga yrði hún að sýna fram á með gögnum að hún væri í hjúskap með M. Kærandi hefði hins vegar ekki sýnt fram á að hún og M væru hjón og að A væri barn M.

M hefur að lagt fram nýja beiðni um endurupptöku máls kæranda. Byggist beiðnin aðallega á því að vegna aðstæðna kvenna í Afganistan undir stjórn Talibana sé líf kæranda í hættu og því sé tilefni til að endurskoða fyrri ákvörðun um synjun á fjölskyldusameiningu kæranda og A við M. Til stuðnings frásögn sinni um framangreint lagði M fram afrit af bréfi sem hann kveður vera bréf Talibana til kæranda og lagði einnig fram tengla á umfjallanir netfjölmiðla um aðstæður kvenna í Afganistan.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd bauð nefndin M að leggja fram gögn sem gætu sýnt fram á hjúskap hans og kæranda og að hann væri faðir A. Hinn 8. ágúst 2022 lagði M fram ýmis gögn. Lagði hann fram á annan tug ljósmynda og bólusetningarvottorð A, sem þegar hafði verið lagt fram. Meðal ljósmyndanna voru ódagsettar ljósmyndir af kæranda og M, annars vegar saman við hátíðlegt tilefni og hins vegar í myndbandssímtölum.

Með beiðni um endurupptöku málsins hafa engin haldbær gögn verið lögð fram sem sýna fram á hjúskap kæranda og M. Þá hafa engin gögn verið lögð fram sem skýra framangreint misræmi í framburði M hjá íslenskum stjórnvöldum. Það er mat kærunefndar að sökum óútskýrðs misræmis í framburði M hjá íslenskum stjórnvöldum og skorts á gögnum, að framlagðar ljósmyndir af M og kæranda séu ekki til þess fallnar að renna stoðum undir frásögn M og kæranda þess efnis að þau séu í hjúskap og að A sé barn M. Þá er það mat kærunefndar að afrit af bréfi sem M kveður vera bréf Talibana til kæranda hafi ekki sönnunargildi um hjúskaparstöðu kæranda og M. Jafnframt er það mat kærunefndar að umfjallanir netfjölmiðla um aðstæður kvenna í Afganistan sem M vísar til hafi ekki þýðingu fyrir beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

Verður því hvorki fallist á að aðstæður kæranda hafi breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga frá því að nefndin úrskurðaði í máli hennar.

Eru því skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar hjá kærunefnd því hafnað. Það athugast að mál þetta lýtur ekki að beiðni kæranda um alþjóðlega vernd heldur einvörðungu að fjölskyldusameiningu við M.


Úrskurðarorð:

Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er hafnað.

The appellant´s request for re-examination is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta