Hoppa yfir valmynd

Nr. 145/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 145/2024

í stjórnsýslumálum nr. KNU23100175 og KNU23120053

 

Kæra [...]

á ákvörðunum

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 23. október 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Rúmeníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 23. október 2023, um frávísun frá Íslandi.

Hinn 13. nóvember 2023 kærði kærandi ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 1. nóvember 2023, um að synja beiðni hennar um endurupptöku ákvörðunar embættisins frá 23. október 2023.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og bárust fyrir lok kærufresta.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi frá Dusseldorf í Þýskalandi, 10. september 2023. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 12. september 2023, var kæranda vísað frá landinu. Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 20. september 2023. Með úrskurði kærunefndar nr. 22/2024, dags. 17. janúar 2024, staðfesti nefndin ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Kærandi kom aftur til Íslands með flugi frá Amsterdam í Hollandi, 23. október 2023. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, þann sama dag, var kæranda vísað frá landinu að nýju.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 23. október 2023, og eftirfarandi rökstuðningi lögreglunnar, dags. 4. desember 2023, kemur fram að ákvörðunin hafi verið byggð á þeim upplýsingum sem fengist höfðu úr kerfi lögreglu auk framburðar kæranda í viðtali við lögreglumenn. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að kærandi hafi ítrekað komið hingað til lands frá júní 2021 og hafi ekki gefið upp neinar tekjur á Íslandi á þeim árum eða greitt tekjuskatt. Að mati lögreglunnar sé eini tilgangur komu kæranda til landsins að hvetja og bjóða óþekktum fjölda aðila á Íslandi að kaupa vændi og að hún hafi áður stundað slíkt hér á landi. Það sé mat lögreglu að framferði kæranda og háttsemi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega ógn við allsherjarreglu enda sé eini tilgangur komu hennar til landsins að stuðla að hegningarlagabrotum ótiltekins fjölda aðila á Íslandi, sbr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvörðun um frávísun kæranda 23. október 2023 hafi því verið fyllilega réttmæt.

Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 23. október 2023. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 13. nóvember 2023 ásamt fylgiskjölum. Í greinargerð sinni kærði kærandi jafnframt ákvörðun lögreglustjórans um að synja beiðni hennar um endurupptöku, dags. 1. nóvember 2023. Eftirfarandi rökstuðningur lögreglustjórans á Suðurnesjum barst nefndinni 4. desember 2023.

III.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að við komu til landsins 23. október 2023 hafi henni verið meinuð innganga í landið og kynnt að ástæða þess væri almenn landamæraskoðun. Kærandi hafi upplýst yfirvöld um tilefni komu sinnar til landsins, þ.e.a.s. að hún hafi ráðið sig í vinnu og hafi hún framvísað ráðningarsamningi því til staðfestingar. Þá hafi kærandi haft meðferðis fjögur þúsund evrur sem hún hafi ætlað að nota til eigin framfærslu þar til hún fengi fyrstu útborgun. Kærandi sé EES-borgari og hafi þ.a.l. heimild til landgöngu og rétt til atvinnu hér á landi, sbr. 84. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi ekki komist í kast við lögin hér á landi og standi ekki í skuld við ríkissjóð. Ákvörðun um að meina henni landgöngu sé því reist á ólögmætum forsendum. Á meðan unnið hafi verið að framkvæmd ákvörðunarinnar hafi kærandi sætt ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð af hálfu lögreglunnar. Henni hafi verið haldið á afmörkuðu svæði á flugvellinum í tæpar 30 klukkustundir, henni verið meinað að reykja og þurft að grátbiðja um mat. Þá telji kærandi að framkoma lögreglunnar hafi litast af fordómum, fyrirlitningu og vanvirðingu.

Kærandi byggir á því að fella skuli ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum úr gildi þar sem hún brjóti í bága við ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og ákvæði EES-samningsins um frjálsa för fólks, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. tilskipun nr. 2004/38 EB og Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá telji kærandi að málsmeðferð af hálfu lögreglustjórans á Suðurnesjum og Útlendingastofnunar hafi að öllu leyti verið ámælisverð og með engu móti í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Því hafi verið haldið fram að kærandi hafi tjáð lögreglu að hún væri hingað komin sem fylgdarkona og hafi ætlað að vera á Íslandi í sjö daga að minnsta kosti. Kærandi gerir athugasemdir við þetta en líkt og fram komi í frumskýrslu lögreglunnar sem tekin hafi verið af kæranda við komu til landsins hafi kærandi tjáð lögreglu að tilgangur hennar með komu til landsins væri að vinna hjá nafngreindu fyrirtæki við að halda utan um bókhald og hafa yfirlit með lager fyrir félagið. Um sé að ræða óvönduð vinnubrögð lögreglu sem kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við.

Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun um frávísun hennar frá Íslandi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga með vísan til 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fari gegn grundvallarrétti hennar sem EES ríkisborgari til frjálsrar farar sem og gegn meginreglu EES-réttar um bann við mismunun. Kærandi byggir þá á því að í 84. gr. laga um útlendinga segi að EES-borgari hafi rétt til dvalar hér á landi fullnægi hann skilyrðum a-d-liða 1. mgr. sama ákvæðis, þ.e.a.s. að vera í atvinnuleit og hafa nægilegt fé til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan á dvöl standi. Kærandi telji sig hafa uppfyllt fyrrnefnd skilyrði 84. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé rúmenskur ríkisborgari og njóti ríkrar verndar gegn frávísun frá aðildarríkjum. Um rétt kæranda til komu og dvalar hérlendis sé vísað til XI. kafla laga um útlendinga. Hvorki fyrri ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda né ákvæði 94. gr. laga um útlendinga komi í veg fyrir að kæranda sé veitt heimild til landgöngu á ný af þessu tilefni.

Kærandi telji þá að hin kærða ákvörðun sem byggir á ákvæði 94. gr. laga um útlendinga sé ólögmæt enda séu skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt. Þá bendir kærandi á þá staðreynd að af d-lið 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga verði ekki annað ráðið en að þegar útlendingi sé vísað úr landi vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis þurfi að liggja fyrir áhættumat um það hvernig ætluð háttsemi kæranda ógni allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði. Sé það í samræmi við mál Evrópudómstólsins nr. C-41/74 Van Duyn, sem lúti að takmörkunum á rétti einstaklinga til frjálsrar farar og hvað þurfi að koma til svo slíkar takmarkanir séu heimilar. Í málinu hafi verið mótuð sú meginregla að möguleikar aðildarríkja til að víkja frá frelsisákvæðum, m.a. um frjálsa för, séu takmarkaðir og sjaldnast dugi að vísa til undanþáguheimilda eins og sé að finna í 94. gr. laga um útlendinga. Í máli kæranda þurfi miklu meira að koma til svo að ákvörðun lögreglustjórans geti talist heimil.

Kærandi hafnar því að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi gætt að rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, er embættið hafi komist að þeirri niðurstöðu að vísa bæri kæranda frá landinu, sbr. d-lið 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga. Ekkert áhættumat hafi verið framkvæmt af ríkislögreglustjóra, hvorki almennt er varði einstaklinga sem liggi undir grun lögreglunnar um að stunda vændi hérlendis eða sérstakt mat í tilfelli kæranda. Kærandi telji algjörlega óljóst hvernig lögreglan hafi talið að af henni stafaði yfirvofandi og nægilega alvarleg ógn sem réttlæti frávísun hennar frá landinu. Í þessu samhengi vísar kærandi til dóms Evrópudómstólsins í máli R gegn Boucherau frá 27. september 1977. Loks bendir kærandi á að rökstuðningur lögreglustjórans fyrir ákvörðun um frávísun hennar á grundvelli d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga sé ófullnægjandi. Lykilatriði í því að kærandi geti tekið til varna sem og tryggt að ákvörðun sé í samræmi við reglur EES-réttar sé að fullnægjandi rökstuðningur liggi fyrir. Þannig hafi Evrópudómstóllinn talið, t.a.m. í máli Z.Z. gegn Bretlandi frá 3. júní 2013, að nauðsynlegt sé að einstaklingur fái rökstudda ákvörðun, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, um ástæðu frávísunar svo hann geti tekið til varna og gætt hagsmuna sinna.

Kærandi byggir á því að lögregla hafi hindrað afhendingu gagna og störf talsmanns hennar og þvingað hana til miðakaupa. Með því hafi lögregla með ólögmætum hætti stuðlað að takmörkun á rétti hennar, sbr. 13. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, er varði skyldu stjórnvalda til að tryggja henni virkt og raunhæft úrræði. Með sömu rökum telji kærandi að lögregla hafi jafnframt takmarkað rétt hennar til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi byggir á því að fyrri ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 12. september 2023 um frávísun kæranda frá Íslandi og rökstuddur grunur um að hún hafi verið hingað komin til að stunda vændi dugi ekki einn og sér til að réttlæta nýja ákvörðun um frávísun. Lögreglan hafi ekki borið fyrir sig að kærandi hafi gerst sek eða sé grunuð um refsiverða háttsemi hér á landi heldur sé aðeins vísað til þess að sterkar líkur séu á refsiverðu broti kæranda er viðkomi birtingu á vændisauglýsingum.

Kærandi byggir jafnframt á því að ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun hennar frá Íslandi fari í bága við ákvæði EES-samningsins og að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum hafi ekki gætt að meðalhófi og gengið lengra en nauðsyn hafi krafið til að ná settu markmiði. Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga verði stjórnvöld að gæta hófs í meðferð valds síns og ávallt velja vægasta úrræðið. Ákvörðun lögreglustjórans sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ákvæði 94. gr. laga um útlendinga sem ákvörðun lögreglustjórans byggi á áskilji að heimilt sé að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu. Ljóst sé að lögreglustjóranum hafi ekki verið nauðsynlegt að framkvæma ákvörðunina þegar í stað, hvað þá að þvinga kæranda til að kaupa sér flugmiða úr landi með litlum sem engum fyrirvara.

Almenn tilvísun lögreglustjórans til 206. gr. almennra hegningarlaga án þess að rökstutt hafi verið hvernig kærandi eigi að hafa brotið gegn ákvæðinu eða án þess að hún hafi verið ákærð fyrir brot gegn því, sé notuð sem réttlæting fyrir frávísun frá Íslandi sé með öllu óheimil. Ljóst sé að ákvæði 206. gr. eigi ekki við kæranda þar sem ákvæðið feli í sér að refsiverð séu kaup á vændi eða mansal. Hvergi í íslenskum lögum sé mælst til þess að aðilar sem grunaðir séu um að bjóða óþekktum aðilum kaup á vændi eða stundi vændi sér til framfærslu sé óheimil innganga í landið. Rökstuðningur lögreglustjórans í ákvörðun sinni sé að þessu leyti verulega ábótavant og með engu móti í samræmi við þá kröfu sem gera megi til efni rökstuðnings, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Er varðar meintar vændisauglýsingar á erlendum síðum sem kæranda sé gefið að sök, sbr. 7. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, skuli undirstrika að í greinargerð með frumvarpi því sem lögfest hafi 7. mgr. 206. gr. segir að til þess að vændisauglýsing sé refsiverð þá þurfi hún að vera opinber, þ.e.a.s. að auglýsingin þurfi að hafa birst í fjölmiðlum, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Kærandi gerir því athugasemdir við að lögreglustjórinn leiði líkur að því að kærandi hafi gerst brotleg við 7. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. Aðeins sé um meintar auglýsingar að ræða og umrædd vefsvæði séu ekki fjölmiðlar samkvæmt íslenskum lögum.

Kærandi bendir á að íslenskum stjórnvöldum beri að taka tillit til dómafordæma Evrópudómstólsins við túlkun á EES reglum. Með vísan til framangreindra dóma hafi ákvörðun lögreglustjórans verið ólögmæt enda geti háttsemi sem sé ekki refsiverð að landslögum ekki verið frávísunarástæða ríkisborgara EES ríkis við nýtingu á fjórfrelsi sínu. Kærandi gagnrýnir það sem fram kemur í lögregluskýrslu um að henni hafi verið vísað frá landinu í september sl. vegna vændisauglýsingar. Í ákvörðun lögreglustjórans frá 12. september 2023 sé hvergi vikið að meintum vændisauglýsingum né minnst á þær í skýrslu, dags. 11. september 2023. Kæranda hafi ekki verið frávísað á grundvelli vændisauglýsinga. Þá gerir kærandi jafnframt athugasemdir við misræmi í lögregluskýrslum vegna málsmeðferðar 23. október 2023.

Að lokum byggir kærandi á því að ákvörðun lögreglustjórans m.a. um þvingaða frávísun EES-ríkisborgara stríði gegn grundvallar- og stjórnarskrárvörðum rétti hennar en áminnt sé að sérhver manneskja eigi rétt á frelsi, mannvirðingu og lífi án þvingunar. Samkvæmt 75. gr. stjórnarskrár Íslands sé öllum frjálst að stunda hvaða atvinnu sem þeir kjósi. Þrátt fyrir að kærandi hafi í fyrri heimsóknum sínum til landsins greint frá því að vera hingað komin til að veita fylgdarþjónustu sér til framfærslu sé slík háttsemi ekki refsiverð að íslenskum lögum. Kærandi telji að mikið þurfi að koma til svo hægt sé að takmarka atvinnu- og ferðafrelsi hennar með vísan til þeirra ástæðna sem greint sé frá í ákvörðun lögreglustjórans, m.a. að hún hafi ekki greitt tekjuskatt hérlendis eða með því að stuðla að hegningarlagabroti ótiltekins fjölda einstaklinga á Íslandi. Kærandi gerir athugasemdir við það að lögregluyfirvöld neiti að taka tillit til ráðningarsamnings kæranda og hafi fyrirfram ákveðið að hún væri hingað komin til að stunda háttsemi sem þau túlki ógn við allsherjarreglu.

Kærandi telur uppgefnar eftir á skýringar lögreglunnar fyrir synjun á landgöngu hennar vera haldnar ómálefnalegum sjónarmiðum sem réttlæti ekki brot gegn mannréttindum hennar. Þá telji kærandi að hún eigi rétt samkvæmt 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu til frelsis til að ráða yfir eigin líkama. Með hliðsjón af 65. gr. stjórnarskrá Íslands þyki kæranda ljóst að komið hafi verið öðruvísi fram við hana en íslenska ríkisborgara.

Með sömu rökum beri að fella úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um að synja beiðni hennar um endurupptöku.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Kæra á ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um synjun á beiðni kæranda um endurupptöku, dags. 1. nóvember 2023

Hinn 23. október 2023 barst kærunefnd kæra á ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda þann sama dag. Hinn 24. október 2023 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku ákvörðunarinnar hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þar sem kæra á ákvörðuninni hafði þegar borist kærunefnd bar lögreglustjóranum á Suðurnesjum að vísa beiðni kæranda um endurupptöku frá enda getur mál sem borist hefur æðra stjórnvaldi ekki verið til meðferðar hjá lægra settu stjórnvaldi á sama tíma.

Kæru kæranda á synjun lögreglustjórans á Suðurnesjum á endurupptöku ákvörðunarinnar er því vísað frá kærunefnd.

Kæra á ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda frá landinu 23. október 2023

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (Sambandsborgaratilskipunin) verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í umræddum kafla laganna er í 83. gr. m.a. mælt fyrir um að EES-borgara sem framvísi gildu vegabréfi eða kennivottorði sé heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu svo lengi sem vera hans verði ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar. Í 94. gr. laga um útlendinga er kveðið á um í hvaða tilvikum heimilt er að vísa frá landi EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara og aðstandanda hans frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Samkvæmt 2. mgr. 94. gr. tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun samkvæmt a-, b- og d-lið 1. mgr. en Útlendingastofnun samkvæmt c-lið 1. mgr. Nægilegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins. Í 3. mgr. 94. gr. kemur fram að ef meðferð máls samkvæmt 1. mgr. hefur ekki hafist innan sjö sólarhringa er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara frá landi með ákvörðun Útlendingastofnunar samkvæmt ákvæðum b-, c- og d-liðar 1. mgr. innan þriggja mánaða frá komu til landsins.

Líkt og að framan greinir var kæranda fyrst vísað frá landinu með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum 12. september 2023. Með úrskurði kærunefndar nr. 22/2024, dags. 17. janúar 2024, var ákvörðun lögreglustjórans staðfest. Byggði niðurstaða kærunefndar á því að koma kæranda hingað til lands hafi verið ógn við allsherjarreglu í skilningi d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga en kærandi hafi greint frá því að tilgangur komu hennar til landsins væri að stunda vændi hér á landi. Var niðurstaðan byggð á því, m.a. með vísan til tengsla vændis við skipulagðra brotastarfsemi og hugsanlegra aðstæðna þeirra sem stunda slíka starfsemi, að óhjákvæmilegt væri að líta svo á að sala á vændi væri skaðleg fyrir samfélag okkar, sbr. dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-41/74 Van Duyn, og að slík háttsemi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gegn grundvallarhagsmunum samfélagsins.

Kærandi kom að nýju til landsins 23. október 2023. Í lögregluskýrslu, dags. 24. október 2023, kemur fram að lögregla hafi haft afskipti af kæranda við komuna til landsins. Kærandi hafi þá framvísað ráðningarsamningi við [...]., dags. 18. október 2023, og greint frá því að vera komin til landsins til að starfa hjá fyrirtækinu hér á landi í bókhaldi og umsjón með lager. Kærandi hafi sótt um umrætt starf á netinu nokkrum dögum áður en hún hafi undirritað samninginn. Kærandi muni búa í [...] í húsnæði í eigu eiganda fyrirtækisins en um 100% fjarvinnu sé að ræða. Lögregla hafi haft samband við eiganda fyrirtækisins sem hafi greint frá því að hafa auglýst umrætt starf á Facebook nokkrum dögum áður. Hann hafi aðeins átt samskipti við kæranda í gegnum internetið og þau hafi ekki þekkst áður. Eigandi fyrirtækisins hafi greint frá því að velta fyrirtækisins væri um fimmtán milljónir á ári og var því í kjölfarið spurður að því hvernig fyrirtækið hefði tök á því að greiða kæranda laun upp á rúmlega [...] krónur á mánuði fyrir 100% vinnu. Eigandinn hafi þá sagt að kærandi þyrfti ekki endilega að vinna 100% starf en samkvæmt framlögðum ráðningarsamningi hafi verið samið um slíkt. Þá kvað hann starfsemi fyrirtækisins vera í [...] en hann væri með húsnæði fyrir kæranda í [...]. Kærandi myndi bæði vinna í starfstöð fyrirtækisins í [...] og í fjarvinnu frá [...]. Eigandinn hafi þá ekki getað greint frá því hvernig kærandi myndi ferðast á milli [...] og [...]. 

Í fyrrgreindri lögregluskýrslu kemur jafnframt fram að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós vændisauglýsingar sem bentu til þess að kærandi væri komin hingað til lands í öðrum tilgangi en hún hafi greint frá. Í umræddri auglýsingu sé m.a. að finna símanúmer kæranda og myndir af konu með húðflúr á sömu stöðum og kærandi. Þegar lögregla hafi greint kæranda frá því að til stæði að vísa henni frá landinu að nýju hafi hún brugðist illa við, sagt að vændi væri löglegt á Íslandi og hún mætti gera það sem hún vildi við líkama sinn. Var það mat lögreglustjórans á Suðurnesjum að sú frásögn kæranda að hún væri komin hingað til lands í öðrum tilgangi en til að stunda vændi væri ótrúverðug. Kæranda var að nýju vísað frá landinu með ákvörðun lögreglustjórans 23. október 2023. Byggði niðurstaða lögreglustjórans á því að koma kæranda til landsins væri ógn við allsherjarreglu í skilningi d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framburðar kæranda og gagna málsins, m.a. framangreindrar lögregluskýrslu, ráðningarsamnings kæranda við [...] og fyrrnefndra vændisauglýsinga, tekur kærunefnd undir það mat lögreglustjórans á Suðurnesjum að ótrúverðugt sé að kærandi hafi komið hingað til lands 23. október 2023 í þeim tilgangi að starfa fyrir fyrrnefnt fyrirtæki. Er það mat kærunefndar að kærandi hafi komið hingað til lands í sama tilgangi og áður, þ.e. í þeim tilgangi að stunda vændi hér á landi. Jafnframt bendir framburður hennar sjálfrar til þess samkvæmt því sem fram kemur í lok fyrrnefndrar lögregluskýrslu.

Líkt og ítarlega er rakið í úrskurði kærunefndar nr. 22/2024, dags. 17. janúar 2024, varðandi fyrri frávísun kæranda, er samkvæmt almennum hegningarlögum nr. 19/1940 ekki lögð refsing við þeirri athöfn að stunda vændi á Íslandi en samkvæmt 206. gr. laganna eru bæði kaup á vændi og milliganga þess refsiverð. Að stunda vændi er því ekki refsivert. Engu að síður er slík starfsemi þó þess eðlis að geta talist ógna allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði í skilningi d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga, m.a. með vísan til hugsanlegra aðstæðna þeirra sem stunda slíka starfsemi, tengsla starfseminnar við skipulagða brotastarfsemi, s.s. mansal, og ógn hennar við grundvallarhagsmuni samfélagsins. Þrátt fyrir að sala á vændi sé ekki refsiverð samkvæmt íslenskum lögum hafi markmið löggjafans ekki verið að lögleiða slíka háttsemi hér á landi. Benda gögn málsins, framburður kæranda og fyrra mál hennar hér á landi til þess að tilgangur komu hennar hingað til lands 23. október 2023 hafi verið að stunda vændi. Með vísan til ítarlegs rökstuðnings í fyrri úrskurði kærunefndar vegna frávísunar kæranda frá landinu 12. september 2023 er lagt til grundvallar að koma kæranda hingað til lands 23. október 2023 hafi verið raunveruleg ógn við allsherjarreglu í skilningi d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga.

Að framangreindu virtu er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum staðfest.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við störf lögreglunnar en kærandi hafi m.a. sætt ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð af hálfu lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Kærunefnd hefur m.a. það hlutverk að endurskoða ákvarðanir lögreglunnar er byggja á lögum um útlendinga og hvort málsmeðferð sé í samræmi við stjórnsýslureglur. Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins og málsmeðferð lögreglu að því leyti og telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við hana. Kærunefnd bendir kæranda á að hafi hún athugasemdir við störf lögreglunnar að öðru leyti getur hún leitað til nefndar um eftirlit með lögreglu sem hefur það hlutverk að taka við tilkynningum er varða ætlaða refsiverða háttsemi starfsmanna lögreglu, starfsaðferðir lögreglu eða framkomu starfsmanna lögreglu.


 

Úrskurðarorð

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun, dags. 23. október 2023, er staðfest.

Kæru kæranda á ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um synjun á beiðni hennar um endurupptöku, dags. 1. nóvember 2023, er vísað frá kærunefnd.

 

The applicants appeal of the decision of the Police Commissioner of Suðurnes District 23 October 2023 is affirmed.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District 1 November 2023 is dismissed.

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta