Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 530/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 530/2021

Fimmtudaginn 24. febrúar 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. október 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. ágúst 2021, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun í mars og apríl 2020 samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá C. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2020, að fjárhæð 125.442 kr., á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. október 2021. Með bréfi, dags. 13. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 17. nóvember 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. desember 2021, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 14. janúar 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. janúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi starfað hjá C frá nóvember 2019 og til apríl 2020 þegar hann hafi sagt upp störfum með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti. Kærandi hafi óskað eftir því að fá að hætta sem fyrst og samið hafi verið um að hann fengi að hætta strax og því hafi hann ekki þurft að vinna uppsagnarfrestinn. Eins og svo margir í upphafi Covid-19 faraldursins hafi verið sótt um greiðslur hlutabóta vegna kæranda fyrir tímabilið 23. til 31. mars og fyrir allan aprílmánuð árið 2020. Kærandi hafi fengið greitt samkvæmt áætlun fyrirtækis, 50% hlutabótaleið frá Vinnumálastofnun og 50% greiðslu frá atvinnurekanda. Gengið hafi verið frá umsókn kæranda og unnið hafi verið samkvæmt umræddu samkomulagi þar til hann í lok mánaðar hafi fengið nýtt starf sem hann hafi getað hafið störf strax, þ.e. þann 1. maí 2020, og því hafi ekki verið hægt að afturkalla samkomulagið um hlutabótaleiðina fyrir þann mánuð. Starfsmaðurinn hafi því einungis unnið 50% vinnu í apríl og fengið 50% greiðslu frá Vinnumálastofnun á móti.

Greiðsla hafi borist frá Vinnumálastofnun fyrir tímabilið 23. til 31. mars 2020 þann 7. apríl 2020 og fyrir tímabilið 1. til 30. apríl 2020 með launaseðli gefnum út 1. maí 2020 með heildarupphæð 212.385 kr. Fyrir sama tímabil hafi kærandi fengið greiddar 338.510 kr. frá atvinnurekanda, þ.e. 50% af 677.020 kr. umsömdum mánaðarlaunum. Þar sem samið hafi verið um starfslokin í lok apríl hafi verið gert upp við kæranda áunnin og uppsöfnuð réttindi við starfslok ásamt launum fyrir þann mánuð. Samkvæmt gr. 1.3.1. um desemberuppbót og 1.3.2. um orlofsuppbót í kjarasamningi skal greiða og gera upp áunnið og uppsafnað orlof samkvæmt 8. gr. laga nr. 30/1987 um orlof.

Kærandi bendi á að það geti ekki verið tilgangur bráðabirgðaákvæðis laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna Covid-19 heimsfaraldursins að skerða lagalegan og kjarasamningsbundinn rétt starfsmanna. Með því að draga áunnin og uppsöfnuð orlofsréttindi kæranda samkvæmt lögum um orlof og kjarasamningi frá greiddum hlutabótum í apríl 2020 sé verið að skerða áunnin réttindi hans. Þegar aðilar hafi gert með sér samkomulag um að fá hlutabætur frá Vinnumálastofnun fyrir apríl 2020 hafi ekki legið fyrir að kærandi myndi óska eftir að fá að hætta störfum og að aðilar hefðu náð samkomulagi um starfslok 1. maí 2020. Ef vitneskja hefði legið fyrir um að starfsmaður fengi skerðingu vegna þessa hefði fyrirtækið gert upp við hann áunnin réttindi mánuði síðar til að komast hjá skerðingu en þá væri ekki farið að lögum þar sem uppgjör eigi að eiga sér stað við starfslok sem í þessu tilfelli hafi verið 1. maí. Auk þess hefði þessi endurkrafa ekki átt sér stað hefði orlof verið greitt af starfsmanninum inn á orlofsreikning. Því sé farið fram á að umrædd skuld kæranda verði felld niður.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að þágildandi XIII. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna Covid-19 hafi verið sett í þeim tilgangi að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs á atvinnulífið. Svokölluð hlutabótaleið hafi verið sett á fót til þess að halda í gildi ráðningarsamböndum launþega til þess að draga úr stígandi atvinnuleysi og halda fólki í vinnu. Í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé kveðið á um að kjarasamningar séu lágmarkskjör og réttindi og samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör skuli ógildir.

Ástæða skuldar kæranda, að fjárhæð 125.442 kr., komi til vegna þess að uppgjör á áunnum réttindum hafi átt sér stað í apríl 2020. Uppgjörið sem um ræði hafi verið vegna áunninna orlofsréttinda samkvæmt lögum nr. 30/1987 um orlof. Áunnin réttindi samkvæmt kjarasamningi séu hluti af lágmarkskjörum samkvæmt lögum og gildandi kjarasamningi VR og SA. Því sé alfarið hafnað að bráðabirgðaákvæðið sem Vinnumálastofnun byggi afstöðu sína á geti orðið til þess að réttur til lágmarkskjara samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningi skerðist þó svo að greiðslur hafi af framangreindum sökum farið yfir þau mörk sem kveðið sé á um í 2. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða.

Þá sé meginreglan við töku stjórnvaldsákvarðana og þegar kveða eigi á um rétt eða skyldu manna, þá sérstaklega við beitingu íþyngjandi úrræða, að lágmarks málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi og að skýra beri allan vafa einstaklingnum í hag. Með kröfu Vinnumálastofnunar um að kærandi greiði til baka umrædda upphæð sé verið að skerða lágmarksrétt hans til orlofslauna samkvæmt lögum um orlof sem og kjarasamningsbundinn rétt um uppgjör á hlutdeild í desember- og orlofsuppbótum samkvæmt gr. 1.3. í kjarasamningi VR og SA við starfslok og þar með sé verið að brjóta á lögum nr. 55/1980. Að framangreindu sögðu sé kröfu Vinnumálastofnunar alfarið hafnað.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 25. mars 2020, sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta á meðan hann starfaði í minnkuðu starfshlutfalli, eða á svokallaðri hlutabótaleið, sbr. þágildandi XIII. ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi starfað í 100% starfi hjá C en í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafi fyrirtækið og kærandi sótt um greiðslu hlutabóta fyrir 23. til 31. mars og allan aprílmánuð. Með erindi, dags. 4. apríl 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt. Á tímabilinu 23. til 31. mars og allan aprílmánuð hafi kærandi fengið greiddar 50% atvinnuleysisbætur á móti 50% launagreiðslu frá atvinnurekanda sínum. Með greiðsluseðli, gefnum út þann 1. júlí 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að skuld hefði myndast við Vinnumálastofnun að fjárhæð 125.442 kr. Þann 20. ágúst 2021 hafi verið farið þess á leit við kæranda að umrædd skuld yrði greidd samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skuld hafi myndast við Vinnumálastofnun vegna þess að kærandi hafi fengið greidd laun vegna aprílmánaðar 2020 sem hafi verið umfram hámarksfjárhæð hlutabóta samkvæmt þágildandi XIII. ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar. Meðal gagna í málinu sé launaseðill frá C vegna aprílmánaðar. Þar komi fram að kærandi hafi fengið greitt orlofsuppgjör að fjárhæð 634.706 kr. Samtals hafi þau laun sem kærandi hafi fengið greidd frá atvinnurekanda sínum í apríl verið 1.076.776 kr.

B reki mál þetta fyrir hönd kæranda. Í kæru sé nánar skýrt frá aðstæðum kæranda. Þar segi að kærandi hafi sagt upp störfum með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti í lok apríl 2020. Aðilar hafi samið um að hann fengi að hætta strax og því hafi hann ekki þurft að vinna uppsagnarfrest sinn. Kærandi hafi þann 1. maí hafið störf í nýju starfi. Í ljósi þess að samið hafi verið um starfslok við kæranda hjá C hafi verið gert upp við hann áunnin og uppsöfnuð réttindi, þar á meðal orlof samkvæmt 8. gr. laga um orlof. Í kæru sé jafnframt farið fram á að umrædd skuld kæranda verði felld niður með vísan til þess að verið væri að skerða áunnin réttindi hans.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort skerða hefði átt greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á meðan hann hafi starfað í minnkuðu starfshlutfalli, sbr. XIII. ákvæði til bráðabirgða, vegna þeirra orlofslauna sem kærandi hafi fengið greidd frá atvinnurekanda sínum í apríl 2020.

Kærandi hafi þegið greiðslur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 23. mars til 31. mars og allan aprílmánuð á meðan hann hafi starfað í minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Um hafi verið að ræða svokallaða hlutabótaleið samkvæmt þágildandi XIII. ákvæði til bráðabirgða. Svohljóðandi hafi 1. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða verið:

„Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað.“

Í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins sé kveðið á um greiðslur atvinnuleysisbóta til þeirra sem starfi á hlutabótaleið. Þar segi orðrétt:

„Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starfs sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.“

Líkt og segi í síðasta málslið 2. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir til launa og skuli í því samhengi horfa til laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um tryggingagjald teljist til gjaldstofns tryggingagjalds hvers konar laun og þóknanir, þar með talið orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof. Samkvæmt launaseðli kæranda vegna aprílmánaðar 2020 hafi hann jafnframt fengið greidda orlofsuppbót og desemberuppbót en slíkar greiðslur teljist jafnframt til launa samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um tryggingagjald. Með vísan til 2. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða og laga um tryggingagjald skerði því orlofsgreiðslur og aðrar þær greiðslur sem kærandi hafi fengið greiddar hlutabætur til jafns við aðrar skattskyldar tekjur. Í ljósi framangreinds telji Vinnumálastofnun að áunnin orlofslaun kæranda, sem hann hafi fengið greidd út í maí 2020, skuli telja með þegar reiknuð séu laun hans frá vinnuveitanda í samræmi við XIII. ákvæði til bráðabirgða.

Meðaltal heildarlauna kæranda, sbr. 3. málsl. 2. mgr. XIII. ákvæði til bráðabirgða, hafi verið 508.535 kr. Heildarlaun kæranda vegna aprílmánaðar 2020 frá C hafi eins og áður segi verið 1.076.776 kr. Því liggi fyrir að laun kæranda séu langt yfir því marki sem kveðið sé á um í 2. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða. Því hafi komið til fullrar skerðingar samkvæmt ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna þeirra atvinnuleysisbóta sem kærandi hafi fengið greiddar í aprílmánuði sem síðar hafi leitt til þess að skuld hafi myndast við Vinnumálastofnun að fjárhæð 125.442 kr.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem hafi fengið hærri atvinnuleysisbætur en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum, endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Með vísan til alls framangreinds beri kæranda því að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. ágúst 2021, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2020, að fjárhæð 125.442 kr., vegna uppsafnaðs orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar sem kærandi fékk greitt í þeim mánuði en hann þáði atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Í 1. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sem var í gildi til 1. júní 2020, kemur fram að þegar atvinnuleysisbætur séu greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skuli föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta samkvæmt 36. gr., enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins: 

„Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.“

Í 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald kemur fram að til gjaldstofns samkvæmt 6. gr. sömu laga teljist hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Samkvæmt framansögðu fellur því áunnið og uppsafnað orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót undir laun í skilningi 2. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006.

Ágreiningur málsins lýtur að þeirri túlkun Vinnumálastofnunar að áunnið og uppsafnað orlof , orlofsuppbót og desemberuppbót sem kærandi fékk greitt samhliða launum í aprílmánuði 2020 séu laun í þeim mánuði og komi því til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta.

Í grein 1.3.1. í kjarasamningi á milli Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og Samtaka atvinnulífsins kemur fram að desemberuppbót fyrir hvert almanaksár, miðað við fullt starf, hafi á árinu 2020 verið 94.000 kr. Uppbótin skuli greiðast eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt sé með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs. Þá kemur fram að desemberuppbót innifeli orlof, sé föst tala og taki ekki breytingum samkvæmt öðrum ákvæðum. Áunna desemberuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Í grein 1.3.2. í framangreindum kjarasamningi kemur fram að orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1. maí til 30. apríl), miðað við fullt starf, hafi á árinu 2020 verið 51.000 kr. Uppbótin skuli greiðast þann 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum miðað við 30. apríl eða eru í starfi fyrstu viku í maí. Þá kemur fram að orlofsuppbót innifeli orlof, sé föst tala og taki ekki breytingum samkvæmt öðrum ákvæðum. Áunna orlofsuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Af framangreindu er ljóst að um áunnin réttindi er að ræða í samræmi við starfshlutfall og starfstíma viðkomandi sem greitt er út eftir að ávinnslutímabili lýkur eða við starfslok. Þá er í 4. gr. kjarasamningsins fjallað um orlof. Þar segir í grein 4.1. að lágmarksorlofsréttur skuli vera 24 virkir dagar. Orlofslaun skuli vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem er fyrir dagvinnu, eftirvinnu eða yfirvinnu. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd út áunnin orlofslaun frá vinnuveitanda sínum vegna starfsloka í apríl 2020. Úrskurðarnefndin telur ljóst að þar hafi einnig verið um áunnin réttindi að ræða sem reiknuð voru út frá starfstíma kæranda.

Að framangreindu virtu fellst úrskurðarnefndin ekki á að sú greiðsla sem kærandi fékk í aprílmánuði 2020 fyrir áunnið og uppsafnað orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót teljist sem laun fyrir þann mánuð. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi verið óheimilt að skerða atvinnuleysisbætur kæranda í apríl 2020 vegna þeirrar greiðslu. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. ágúst 2021, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta