Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 92/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 17. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 92/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. maí 2010, var kæranda, A, tilkynnt að samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafi hann verið staddur erlendis frá 25. janúar til 28. febrúar 2010 og af þeirri ástæðu hafi verið ákveðið að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði og draga þá daga sem hann var erlendis, alls 25 virka daga, frá greiðslum til hans. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 4. júní 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 12. október 2009 og fékk þær greiddar í samræmi við bótarétt sinn. Samkvæmt gögnum málsins var hann í B-landi á tímabilinu frá 25. janúar til 28. febrúar 2010 að leita að vinnu.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi farið erlendis í janúar 2010 til að sækja um vinnu og hann hafi ætlað að sækja um svokallað E303 vottorð vegna atvinnuleitar erlendis. Á hinn bóginn hafi honum verið bent á að það myndi ekki borga sig að sækja um slíkt vottorð fyrir svona stuttan tíma. Hann hafi hins vegar haldið áfram að skrá sig inn því honum hafi ekki verið tilkynnt um annað og því ekki vitað betur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, kemur fram að þann 22. febrúar 2010 hafi komið staðfesting á atvinnuleit á kennitölu kæranda frá B-landi. Vinnumálastofnun hafi því sent kæranda erindi 18. mars 2010 og óskað eftir skýringum á dvöl hans erlendis. Þann 23. mars 2010 hafi kærandi haft samband við stofnunina og í skýringum hans hafi komið fram að hann hafi leitað eftir því að fá útgefið svokallað E303 vottorð sem geri atvinnulausum kleift að leita sér, tímabundið, að vinnu í aðildarríkjum EES-samningsins. Þá hafi kærandi sagt að starfsmaður stofnunarinnar hafi ekki talið þörf á slíku þar sem hann væri að fara í svo stuttan tíma. Kærandi hafi skilað inn flugfarseðlum sem staðfesta að hann hafi verið staddur í B-landi frá 25. janúar til 28. febrúar 2010. Þann 7. maí 2010 hafi kæranda svo verið sent bréf þar sem hin kærða ákvörðun var tilkynnt.

Vinnumálastofnun greinir frá því að lög um atvinnuleysistryggingar hafi það meginmarkmið að tryggja launamönnum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laganna Eitt grundvallarskilyrði þess að launamenn njóti greiðslu bóta úr sjóðnum sé að þeir séu búsettir og staddir hér á landi, sbr. c-lið 13. gr. Það sé forsenda þess að atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit að hann sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. d-lið 14. gr. laganna. Vinnumálastofnun greinir frá því að frá þessu skilyrði sé unnt að veita undanþágu, sbr. VIII. kafla sem fjalli meðal annars um atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ljóst sé af gögnum málsins að kærandi hafi ekki sótt um svokallað E303 vottorð svo hann gæti nýtt sér þetta undanþáguákvæði og því fari ekki um rétt hans samkvæmt því. Kærandi geti ekki talist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á því tímabili sem hann var í B-landi.

Vinnumálastofnun greinir frá því að jafnframt þurfi að líta til þess að skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. teljist sá í virkri atvinnuleit sem sé reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og ber atvinnuleitanda án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt þessum h-lið, sbr. 2. mgr. 14. gr. Vinnumálastofnun vísar til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar sé kveðið á um skyldu þess sem fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar til að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili og annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Samkvæmt 10. gr. laganna eigi sá sem er tryggður samkvæmt lögunum að tilkynna til stofnunarinnar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og skal tilkynningin gerð með sannanlegum hætti og taka fram ástæður þess að atvinnuleitinni var hætt. Þá vísar Vinnumálastofnun í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun er tilkynnt aðila.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi gert tveggja ára samning við fótboltaliðið X í B-landi þann 20. janúar 2010. Hann hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að hann hygðist halda erlendis til að leggja stund á atvinnumennsku í knattspyrnu, þrátt fyrir ríka skyldu til að upplýsa stofnunina um slíkar fyrirætlanir. Því hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar til greiðslna frá stofnuninni á þeim tíma. Af þeim sökum bæri að fella niður greiðslur til hans í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. sem og skuldajafna hinum ofgreiddu atvinnuleysistryggingum við síðar tilkomnar greiðslur frá stofnuninni skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi var í Noregi frá 25. janúar til 28. febrúar 2010. Því hefur verið haldið fram af Vinnumálastofnun að hann hafi gert tveggja ára samning við norskt knattspyrnulið áður en hann hélt utan og er þessi fullyrðing meðal annars reist á frétt á íslenskri vefsíðu, dags. 20. janúar 2010. Kærandi hefur ekki mótmælt þessu sem röngu.

Eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Frá þessu skilyrði eru gerðar undantekningar í VIII. kafla laganna og þarf atvinnuleitandi þá að sækja sérstaklega um svokallað E303 vottorð ásamt því að uppfylla margvísleg önnur skilyrði, sbr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi fór til B-lands í janúar 2010 uppfyllti hann ekki skilyrði 1. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hann sótti ekki um að fá E303 vottorðið áður en hann hélt af landi brott. Ekki hefur verið sýnt fram á að Vinnumálastofnun hafi brotið á leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda áður en hann hélt utan.

Kærandi braut á trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun þegar hann hélt af landi brott án þess að láta af því vita fyrir fram, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar Því bar að láta hann sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna eins og Vinnumálastofnun gerði. Að auki ber honum að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann fékk á meðan hann var erlendis, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreinds, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. maí 2010 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í tvo mánuði og að hann endurgreiði atvinnuleysisbætur fyrir 25 virka daga er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta