Hoppa yfir valmynd

Nr. 482/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 482/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060068

 

Endurtekin umsókn [...]

I.       Málsatvik

Með úrskurði nr. 517/2022, dags. 15. desember 2022, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. október 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...]og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 16. desember 2022.

Hinn 23. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og synjaði kærunefnd beiðni kæranda 12. janúar 2023 með úrskurði nr. 34/2023. Hinn 7. júní 2023 barst kærunefnd endurtekin umsókn kæranda ásamt greinargerð. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun 8. júní 2023, Vinnumálastofnun 20. júní 2023 og stoðdeild Ríkislögreglustjóra 27. júní 2023 og 5. september 2023.

Af greinargerð kæranda má ráða að umsókn hans byggi á 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Endurtekin umsókn kæranda byggir á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 7. júní 2022 en umsókn hans hafi verið synjað. Kærandi hafi flúið erfiðar aðstæður í heimaríki til Grikklands en hann hafi alltaf ætlað sér að koma til Íslands. Á Íslandi hafi kærandi dvalið í úthlutuðu húsnæði og lagt fram umsókn um atvinnuleyfi fyrir flóttamenn. Kærandi vilji vera hluti af íslensku samfélagi og læra íslensku. Kærandi hafi mátt þola fordóma í Grikklandi og óttist að verða fyrir fordómum verði hann endursendur þangað.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans skv. 24. gr. laganna.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b-, c- og d-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Með 10. gr. laga nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga, voru breytingar gerðar á orðalagi 2. mgr. 36. gr. laganna. Í hinu nýja ákvæði er m.a. kveðið nánar á um við hvaða tímamark skuli miða þegar 12 mánaða fresturinn er annars vegar auk þess sem kveðið er á um til hvaða sjónarmiða skuli líta við mat á því hvað teljist tafir á málsmeðferð hins vegar. Í lokamálslið 2. mgr. 23. gr. breytingalaganna kemur fram að ákvæði 10. gr. gildi ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna. Umrædd lög tóku gildi 5. apríl 2023 og ljóst að umsókn kæranda barst fyrir gildistöku þeirra. Því fer um mál kæranda samkvæmt þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í samræmi við fyrri framkvæmd nefndarinnar og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við úrlausn endurtekinnar umsókn kæranda.

Í þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiddi að umrætt 12 mánaða tímabil hæfist þegar umsækjandi legði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Í úrskurðum kærunefndar hefur verið lagt til grundvallar að tímabilinu hafi lokið þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda var framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi færi úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hafði verið tekin.

Kærunefnd hefur túlkað þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 7. júní 2022 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 7. júní 2023. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 8., 20. og 21. júní 2023 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort kærandi væri staddur á landinu, hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 8. júní 2023, kemur fram að stofnunin hafi ekki upplýsingar um hvort kærandi hafi verið fluttur og sé ekki kunnugt um hvar kærandi hafi haldið sig frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp. Í svari Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2023, kemur fram að kærandi hafi verið í þjónustu hjá þeim og sé með opið greiðslukort á þeirra vegum. Meðfylgjandi var greiðslukortayfirlit kæranda þar sem sjá má úttektir í Reykjanesbæ. Í svari frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra, dags. 27. júní 2023, kemur m.a. fram að 29. mars 2023 hafi verið farið að búsetuúrræði kæranda. Öryggisvörður hafi greint starfsmönnum stoðdeildar frá því að kærandi væri fluttur í herbergi 106. Barið hafi verið að dyrum á því herbergi en enginn hafi komið til dyra. Hinn 25. apríl 2023 hafi upplýsingar borist frá Vinnumálastofnun um að kærandi væri fluttur í íbúð 303. Hinn 28. apríl 2023 hafi stafsmenn stoðdeildar farið að búsetuúrræði kæranda og rætt við öryggisverði. Þeir hafi greint frá því að kærandi væri ekki í þessu úrræði og ekki á þeirra skrá. Hinn 26. maí 2023 hafi stoðdeild reynt að hafa samband við kæranda símleiðis án árangurs. Kærandi hafi verið settur í eftirlýsingu samdægurs.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 27. júní 2023, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og stoðdeildar Ríkislögreglustjóra og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Í andmælum kæranda sem bárust 28. júní 2023 kemur fram að kærandi hafi ávallt verið á dvalarstað sínum nema þegar hann hafi farið að versla eða hitta vini. Þá hafi farsími hans verið virkur og hann hafi átt í samskiptum við öryggisverði á dvalarstað hans vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Kærandi fari fram á að öryggismyndavélar verði skoðaðar til að staðfesta frásögn hans. Kærandi kveðst hafa sýnt samvinnu við meðferð máls hans og ekki valdið töfum á flutningi.

Hinn 21. ágúst 2023 sendi kærunefnd tölvubréf til kæranda, með vísan til 35. gr. a laga um útlendinga, þar sem fram kom að samkvæmt skráningu stoðdeildar ríkislögreglustjóra væri kærandi skráður „finnst ekki" og eftirlýstur í kerfum lögreglu. Í ljósi þeirra upplýsinga liti kærunefnd svo á að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann væri staddur á landinu. Kæranda var gefinn frestur til að gefa sig fram við lögreglu og fá skráningunni breytt, ellegar yrði endurtekinni umsókn kæranda vísað frá. Hinn 25. ágúst 2023 barst tölvubréf frá kæranda ásamt fylgigögnum þar sem fram kom að kærandi hafi upplýst lögreglu um heimilisfang hann og sent þeim staðfestingu á að hann væri með gilt atvinnuleyfi og starfi hér á landi. Á meðal fylgigagna var tölvubréf frá kæranda til stoðdeildar með upplýsingum um heimilisfang kæranda.

Hinn 29. ágúst 2023 sendi kærunefnd tölvubréf á stoðdeild og óskaði eftir upplýsingum um hvort kærandi hafi gefið sig fram við lögreglu. Hinn 5. september 2023 barst svar frá stoðdeild þess efnis að kærandi hafi verið handtekinn og færður í gæsluvarðhald. Þá barst tölvubréf frá stoðdeild 6. september 2023 þar sem fram kom að flutningur kæranda úr landi væri fyrirhugaður 11 .september 2023. Með hliðsjón af framangreindu liggur fyrir að kærandi er sannanlega staddur á landinu.

Af framangreindum upplýsingum frá stoðdeild og Vinnumálastofnun má ráða að tafir hafi orðið á framkvæmd úrskurðar kærunefndar í máli kæranda. Samkvæmt gögnum málsins fóru starfsmenn stoðdeildar tvívegis að búsetuúrræði kæranda. Í fyrra skiptið hafi engin komið til dyra og í seinna skiptið hafi öryggisvörður greint frá því að hann væri ekki í þessu úrræði eða á þeirra skrá. Þá hafi starfsmenn stoðdeildar reynt að hafa samband við kæranda símleiðis í eitt skipti án árangurs. Í andmælum kæranda kemur fram að hann hafi ávallt verið á dvalarstað sínum nema þegar hann hafi farið að versla eða hitta vini. Fyrir liggur að kærandi var í þjónustu hjá Vinnumálastofnun og fékk vikulegar greiðslur frá stofnuninni eftir að kærandi var skráður eftirlýstur og horfinn hjá stoðdeild. Þá benda úttektir til þess að hann hafi verið staðsettur nálægt búsetuúrræði sínu. Af gögnum málsins virðist stoðdeild jafnframt ekki hafa átt í samskiptum við Vinnumálastofnun varðandi flutning kæranda, s.s. með því að upplýsa stofnunina um að kærandi væri horfinn og eftirlýstur. Þrátt fyrir að gögn málsins gefi til kynna að einhverjar tafir kunni að hafa verið af hálfu kæranda, telur kærunefnd með hliðsjón af gögnum málsins að framkvæmd stoðdeildar hafi verið ómarkviss. Þar sem kærandi var í þjónustu Vinnumálastofnunar er ljóst að samskipti milli stoðdeildar Ríkislögreglustjóra, sem annast framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála, og Vinnumálastofnunar, sem sér um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi ekki verið fullnægjandi að því er varðar að staðsetja kæranda innan þjónustuúrræða Vinnumálastofnunar. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd ekki hægt að fullyrða að kærandi hafi tafið mál sitt.

Í ljósi alls framangreinds, samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd og þeirrar staðreyndar að kærandi sé staddur á landinu, er það mat kærunefndar að nýjar upplýsingar liggi fyrir í máli hans sem leiði til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga. Er það því niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð:

 

Endurtekin umsókn kæranda er tekin til meðferðar.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnunar að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s subsequent application shall be examined.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

Þorsteinn Gunnarsson, formaður.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta