Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 292/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 292/2021

Fimmtudaginn 14. október 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 14. júní 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur verið heimilislaus um margra ára skeið og sótt nokkrum sinnum um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Síðasta umsókn kæranda er dagsett 19. júní 2019 og var hún samþykkt á biðlista með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 20. júní 2019.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 14. júní 2021 og kvaðst enn bíða úthlutunar húsnæðis. Með bréfi, dags. 16. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 14. júlí 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júlí 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 29. júlí 2021 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júlí 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fyrst sótt um félagslegt leiguhúsnæði 27. febrúar 2012 og aftur 26. apríl 2013. Á þessum tíma hafi kærandi leigt íbúð í C. Báðum umsóknunum hafi verið synjað á þeim forsendum að hann hafi ekki átt lögheimili í Reykjavík samfellt síðustu þrjú árin áður. Þessum umsóknum hafi ekki verið áfrýjað. Í bréfi frá 10. maí 2013 komi fram að umsókn kæranda um fjögur stig í húsnæðisgrunni og undanþágu frá þriggja ára búsetureglu sé samþykkt. Eftirfarandi komi fram í viðtalsskráningu þann 6. maí 2013: „Áður hafði hann um árabil verið óstaðsettur í hús og m.a. verið um skeið í Gistiskýlinu.“ Þó ekki segi að lögheimili kæranda hafi verið í Reykjavík í gegnum árin þá sé það svo, samfleytt frá því að hann hafi flutt úr Kópavogi árið 1995. Á árunum 2009 til 2011 hafi kærandi verið skráður óstaðsettur í hús í Kópavogsbæ og þar með hafi upphaflega verið hægt að synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík. Hins vegar hafi því ekki verið áfrýjað fyrir kæranda til að ýta undir gilda húsnæðisumsókn og þar með öruggt húsnæði fyrir hann eftir eðlilegan biðtíma. Ef það hefði verið gert hefði kærandi ekki endað aftur á götunni og í bílnum sínum þegar hann hafi misst leiguhúsnæði sitt í desember 2016. Ástæða þess að kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði sé sú að hann hafi verið orðinn öryrki og tekjurnar minnkað verulega. Kærandi hafi viljað komast í öruggt húsnæði til framtíðar. Kærandi hafi nokkrum sinnum rifið sig upp eftir áfengismeðferð, komið sér í vinnu, verið sjálfstæður atvinnurekandi, keyrt leigubíl, keypt sér íbúð og bíl. Fyrir vikið hafi heilsan gefið sig meir og meir í hvert sinn.

Næsta húsnæðisumsókn kæranda sé frá 25. apríl 2014 og hún hafi verið samþykkt með bréfi, dags. 26. maí 2014. Því bréfi fylgi ekki matsblað en talað sé um 10 stig í húsnæðisgrunni. Engin matsblöð með fyrri umsóknum hafi fylgt afritum gagna en mikil breyting hafi orðið á stigunum, þ.e. fjögur stig á fyrstu tveimur umsóknunum en 10 stig á þeirri frá 2014, en ekki sé vitað hvað hafi valdið því. Í viðtalsskráningu ráðgjafa, dags. 21. maí 2014, sem sé fyrsta viðtal með nýjum ráðgjafa kæranda, segi: „Farið í gegnum búsetustig og í ljós kom að hann á rétt á sérstökum húsaleigubótum“. Í erindinu frá 26. maí 2014 sé vakin athygli á að „umsókn fellur af biðlista eftir félagslegri íbúð um leið og greiðsla sérstakra húsaleigubóta hefst, nema að óskað sé sérstaklega eftir að umsóknin um félagslegt leiguhúsnæði gildi áfram“. Slík beiðni hafi einnig fylgt með 26. maí 2014. Þennan sama dag sé skráð minnisatriði af ákvarðanafundi og greinilega notað sama minnisblað frá árinu áður, eða 10. maí 2013. Því vanti afrit af ákvarðanafundi frá 26. maí 2014 og hvaða ákvarðanir hafi verið teknar.

Næstu gögn í máli kæranda frá þjónustumiðstöðinni séu frá 17. nóvember 2016 þar sem kærandi tilkynni að hann sé að missa húsnæðið eftir nokkra daga. Í áðurnefndu erindi í fyrsta viðtali við nýjan ráðgjafa, dags. 21. maí 2014, segi meðal annars í skráningu ráðgjafa: „Nú hefur leigufélagið D verið tekið til skiptameðferðar og það veldur óróleika hjá A og óvissu með framtíðarbúsetu“. Engin gögn um húsnæðismál kæranda frá maí 2014 til nóvember 2016 hafi komið með afritum gagna. Þarna sé kominn enn annar ráðgjafi sem skrifi þessi orð 24. nóvember 2016: „Málin hans hafa ekki verið í mikilli vinnslu hér“. Þjónustumiðstöðin hafi vitað af stöðu mála hjá leigusala kæranda í tvö og hálft ár. Kærandi hafi komið á þjónustumiðstöðin 17. nóvember 2016, tilkynnt að hann væri að missa íbúðina nokkrum dögum síðar og sótt um styrk til fyrirframtryggingar. Þeirri umsókn hafi verið synjað og rúmlega mánuði síðar hafi kærandi þurft að yfirgefa íbúðina, hafi endað á götunni og neyðst til að búa í bílnum sínum. Enga aðstoð hafi verið að fá hjá þjónustumiðstöðinni og beiðni um fyrirframtryggingu hafi ekki verið áfrýjað. Næst hafi kærandi sótt aðstoð hjá þjónustumiðstöðinni í júlí 2017 og óskað eftir styrk til að leysa út bíl sinn hjá Vöku. Bíllinn hafi þá bilað og Vaka hirt hann en öll föt kæranda hafi verið í bílnum. Þjónustumiðstöðin hafi samþykkt styrkinn með þeim orðum að hann félli að reglum. Kærandi skilji ekki hvernig það falli að reglum Reykjavíkurborgar að aðstoða einstakling við að leysa bilaðan bíl sinn út hjá Vöku, sem hann hafi neyðst til að búa í, en það falli ekki að reglum að aðstoða viðkomandi með tryggingu til að komast í húsnæði svo að hann þurfi ekki að búa í bílnum sínum.

Kærandi tekur fram að svokallað VOR-teymi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hafi komið hlaupandi með leigusamning þegar kærandi hafi skoðað nýtt neyðarskýli í Víðinesi sem félagi hans hafi þá flutt í. Kærandi hafi dvalið þar í þrjá daga en farið aftur í bílinn sinn þar sem honum hafi liðið mjög illa þar. Seinni hluta árs 2018 hafi kærandi þurft að taka út dóm og síðan dvalið erlendis í nokkra mánuði en farið í Gistiskýlið við komuna til landsins í maí 2019 þar sem hann hafi verið húsnæðislaus. Þangað hafi mætt enn einn ráðgjafi sem hafi fyllt út umsókn um húsnæði fyrir kæranda, dags. 18. júní 2019, en hafi strikað yfir sérstakar húsaleigubætur og sagt að hann ætti ekki virka umsókn. Þarna hafi E verið að koma að máli kæranda og í kjölfarið hafi verið beðið um afrit allra gagna til að skoða hans mál. Þar sé ekki að finna umsóknir frá 2015 og 2016 en með erindi, dags. 28. september 2017, sé kærandi minntur á að endurnýja umsókn um félagslegt leiguhúsnæði og því hafi kærandi átt virka umsókn.

Reynt hafi verið að setja kæranda í flokkinn heimilislausir með miklar og flóknar þarfir en þá sé umsóknin ekki um almennt félagslegt húsnæði. Kærandi hafi neitað því en síðar hafi verið sagt við hann að hann væri „góður kandídat“ í smáhýsin sem væri verið að koma upp hér og þar um bæinn. Ástæðan hafi verið sú að hann gæti ekki séð um sig sjálfur og haldið heimili. Kærandi hafi ekki verið spurður út í lífsreynslu, menntun, störf, heilsufar eða annað sem gæti vegið á móti þessari skilgreiningu á honum af hálfu starfsfólks sem þekkti hann ekki neitt. Kærandi hafi staðið fast á sínu og sé með umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði.

Kæranda svíði að hafa sótt um gleraugnastyrk en verið sagt að hann væri ekki með rétta örorku. Það hafi verið mjög niðurlægjandi að deildarstjórinn skyldi segja við kæranda að hann væri ófær um að sjá um sig sjálfur þar sem hann hafi búið svo lengi í bíl. Ástæðan fyrir því að hann hafi búið í bílnum sé sú að hann hafi ekki fengið neina aðstoð hjá þessum deildarstjóra, hvorki fjárhagslega né húsnæðislega þegar hann hafi verið að missa sitt leiguhúsnæði. Svo hafi verið sagt að hann þyrfti að byrja upp á nýtt fimm árum eftir að hann hafi fyrst sótt um íbúð. Kæranda hafi hvorki verið hjálpað þegar hann hafi verið að missa húsnæði sitt né á meðan hann hafi verið fastur í bílnum eða í Gistiskýlinu. Kærandi hafi lagt fram læknisvottorð, dags. 5. nóvember 2019, en eins og komið hafi fram í málum annarra einstaklinga sé lítið stuðst við þau hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar þegar komi að umsókn um félagslegt húsnæði.

Stuttu eftir að umsókn kæranda hafi verið gerð í Gistiskýlinu hafi aftur verið kominn nýr ráðgjafi í mál hans. Í desember sama ár, 2019, hafi fyrsta tilnefningin í íbúð verið gerð. Miðað við að þjónustumiðstöðin hafi ekki viljað viðurkenna fyrri umsóknir kæranda sé merkilegt að hann hafi verið tilnefndur eftir aðeins hálft ár á biðlista þegar biðin sé að öllu jöfnu þrjú ár. Kærandi hafi verið tilnefndur einu sinni í desember 2019 en svo ekkert fyrr en í nóvember 2020. Þessar tvær tilnefningar hafi ekki verið samþykktar af nefndinni í þjónustumiðstöðinni. Í júlí 2020 hafi verið sendur tölvupóstur til að spyrjast fyrir um húsnæðismál kæranda þar sem ekkert hafi heyrst frá ráðgjafanum í rúmt hálft ár. Næsta og þriðja tilnefningin hafi verið 8. desember 2020 og þá hafi kærandi verið tilnefndur í þá íbúð hjá þjónustumiðstöðinni en hafi ekki fengið úthlutun hjá úthlutunarnefndinni. Ljóst sé að hann sé kominn mjög ofarlega á listann í tilnefningu hjá þjónustumiðstöðinni. Fjórða tilnefningin hafi verið 7. janúar 2021 og sé aftur á þann veg að hún hafi verið samþykkt á þjónustumiðstöðinni en ekki hjá úthlutunarnefndinni. Kærandi hafi hins vegar verið tilnefndur til vara í þá íbúð og því kominn einu skrefi nær úthlutun. Fimmta tilnefningin hafi verið 20. janúar 2021 en kærandi hafi ekki verið tilnefndur. Þann 19. febrúar 2021 hafi kæranda staðið til boða að óska eftir tilnefningu í íbúð en honum hafi ekki litist á hana og því afþakkað. Engar tilnefningar hafi verið eftir það og því velti kærandi því fyrir sér hvort hann hafi hoppað aftur á bak á biðlistanum. Ekkert hafi heyrst frá ráðgjafanum og því hafi þann 19. maí 2021 verið send fyrirspurn um stöðu húsnæðismála kæranda og hún ítrekuð 4. júní 2021. Loks hafi borist svar 11. júní 2021 þar sem upplýst hafi verið um breytingar á tilnefningarferli og aðkomu ráðgjafans en engu svarað um stöðu húsnæðismála hans. Sendar hafi verið nokkrar spurningar til baka en þeim sé enn ósvarað.

Nú hafi kærandi óskað eftir félagslegri íbúð hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar síðan 2012 þegar hann hafi vitað í hvað stefndi, þ.e. vegna óöryggis í húsnæðismálum. Þannig hafi hann viljað tryggja sjálfan sig frá því að lenda aftur á götunni, vitandi að hann gæti ekki leigt íbúð á uppsprengdu leiguverði á almennum markaði og að óregla væri yfirvofandi vegna húsnæðisleysis, svo sem að þurfa að búa í bíl sínum eða dvelja í Gistiskýlinu. Kærandi hafi haft lögheimili í Reykjavík samfellt síðan 1995 og fyrstu tveimur umsóknum hans hafi því verið ranglega synjað vegna þessa atriðis. Allan þennan tíma hafi engin einstaklingsmiðuð áætlun verið gerð hjá þeim fimm ráðgjöfum sem hafi sinnt máli hans síðustu níu árin. Engin bráðabirgðaáætlun hafi verið gerð þegar hann hafi misst húsnæði sitt með mjög stuttum fyrirvara tveimur dögum fyrir jól árið 2016 sem hafi verið vitað að myndi gerast í meira en tvö ár þar sem leigusalinn hafi verið tekinn til skiptameðferðar. Kæranda hafi verið neitað um aðstoð á fyrirframgreiðslu til að halda sér í leiguíbúð af því það hafi ekki samræmst reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Honum hafi hins vegar verið hjálpað að leysa út bílinn sinn hjá Vöku svo að hann gæti búið áfram í honum þar sem það samræmdist reglum Reykjavíkurborgar.

Umsóknum kæranda hafi ekki verið viðhaldið en alltaf hafi verið hægt að ná í hann í síma. Það hafi verið vitað að hann byggi ekki lengur í D en einungis hafi verið reynt að ná til hans þar til að endurnýja umsókn um félagslegt leiguhúsnæði árið 2017. Þannig hafi fimm ára bið hans verið hent út um gluggann. Að auki hafi hann aldrei verið tilnefndur í íbúð á þessum fimm árum. Byrjað hafi verið upp á nýtt um mitt árið 2019 þegar kærandi hafi skráð sig í Gistiskýlið. Með þrýstingi frá E hafi hann verið tilnefndur og skráður til vara á íbúð sem tákni að hann sé með næstu einstaklingum til að fá úthlutað íbúð. Síðan hafi allar tilnefningar verið stöðvaðar. Nú séu því liðin níu og hálft ár frá fyrstu umsókn en kærandi hafi ekki enn fengið íbúð, sama hverjar aðstæður hans hafi verið. Engin áætlun, engin bráðabirgðalausn og varanleg lausn virðist ekki í sjónmáli.

Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9164/2018 sé ljóst að Reykjavíkurborg hafi ekki uppfyllt lagaleg skilyrði við vinnslu mála húsnæðislausra einstaklinga þar til álitið hafi komið út í júlí 2018. Reykjavíkurborg hafi fengið eitt ár til að gera endurbætur á sínum reglum.

Með vísan til biðtíma án nokkurra aðgerða vegna umsókna kæranda um félagslegt húsnæði sé óskað eftir að þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts sýni fram á að unnið hafi verið eftir einstaklingsmiðaðri bráðabirgðaáætlun og varanlegri áætlun í máli kæranda, fyrir og eftir álit umboðsmanns Alþingis, sem sagt breyttu verklagi fyrir og eftir. Einnig að þjónustumiðstöðin sýni fram á hvernig unnið hafi verið í máli kæranda í samræmi við lagaskyldu, sbr. orðalag í áliti umboðsmanns: „Þegar þessi atriði og umgjörð við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg séu virt heildstætt skorti á að Reykjavíkurborg tryggi utangarðsfólki, svo fullnægjandi sé, aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, eins og þau verða túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindareglna“, annars vegar fyrir og hins vegar eftir álit umboðsmanns Alþingis.

Í svari kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar kemur fram að það sé gegnumgangandi hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar í málum einstaklinga að viðhafa villandi orðalag um hagi viðkomandi. Til að mynda sé sagt „Kærandi var í öruggu leiguhúsnæði í Reykjavík frá árinu 2011 þar til a.m.k. lok árs 2016.“ Algjörlega sé farið fram hjá athugasemdum í kærunni um að þjónustumiðstöðin hafi í maí 2014 vitað að leiguhúsnæði kæranda væri óöruggt. Eins sé sagt að kærandi sé í dag í öruggu húsnæði á áfangaheimili frá 30. janúar 2021. Kærandi hafi búið á áfangaheimili E frá janúar 2020 til loka janúar 2021 og hafi flutt þaðan á áfangaheimilið F. Áfangaheimili geti eingöngu talist vera óöruggt húsnæði þar sem um sé að ræða tímabundna dvöl og leigu á herbergi. Algjörlega sé farið fram hjá viðbrögðum og aðgerðarleysi þjónustumiðstöðvar sem eigi að uppfylla sína lagalegu skyldu eins og bent sé á aftast í kærunni. Einnig sé það lagt fram að kærandi hafi ekki áfrýjað synjun á fyrstu tveimur umsóknum sínum vegna lögheimilis. Algjörlega sé farið fram hjá því að áfrýjunarferlið sé þannig að ráðgjafi hvetji einstaklinga til að áfrýja og sjái um að áfrýja með þeirra samþykki. Hvergi í málsgögnum komi slíkt fram en hefði átt að vera skýrt í skráningum ráðgjafa um samtöl við kæranda. Ferlið við að áfrýja sé þannig að ráðgjafi verði að áfrýja líka og því sé ekki nóg að einstaklingur áfrýji sjálfur, allavega hafi ráðgjafar lagt þetta út í öllum málum sem E hafi komið að með einstaklingum.

Í svarbréfi fyrir hönd áfrýjunarnefndar hafi verið gefið upp að fyrirframgreiðsla á tryggingu félli ekki að 23. og 27. gr. þáverandi reglna Reykjavíkurborgar þar sem kærandi hafi ekki fengið greidda fjárhagsaðstoð. Í núverandi reglum standi: „Í þeim tilfellum sem umsækjandi hefur ekki fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan, en hefur til langs tíma glímt við vímaefnavanda og/eða geðræna erfiðleika auk þess að hafa jafnframt átt í margháttuðum húsnæðiserfiðleikum og miklum félagslegum erfiðleikum því fylgjandi er heimilt að veita lán og/eða styrk til tryggingar húsaleigu, að hámarki 600.000 kr.“ og þessar breytingar hafi tekið gildi í júní 2014 og október 2017. Kærandi óski eftir upplýsingum um hvað af þessu hafi verið komið í reglurnar árið 2014. Nú sé hér með ekki verið að tilgreina það að kærandi hafi átt við allan þennan vanda sem tilgreint sé að viðkomandi þurfi að glíma við til að fá fyrirframgreiðslu á tryggingu en ljóst sé að hann hafi áður verið húsnæðislaus og hafi alls ekki viljað lenda aftur í þeim sporum. Hann hafi því leitað til félagsþjónustunnar eftir aðstoð við erfiðleikum sem blöstu við, þ.e. að missa leiguhúsnæði sitt en hafi viljað fyrirbyggja það að enda á götunni eða í bíl. Það hafi ekki verið gert og því hafi farið svo að kærandi hafi verið húsnæðislaus í rúmlega tvö ár, algjörlega án þess að velferðarkerfið hafi tekið á hans máli. Kærandi óski eftir afriti af þáverandi reglum Reykjavíkurborgar frá byrjun árs 2014 til lok árs 2017. Þá fari kærandi þess á leit að áfrýjunarnefndin geri grein fyrir því hvernig þessi neitun, byggð á 23. og 27. gr. þáverandi reglna, uppfylli og sé í samræmi við lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, einnig 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegar mannréttindareglur. Í svarbréfi fyrir hönd áfrýjunarnefndar sé gefið upp að þjónustumiðstöðin hefði getað uppfyllt a-lið 27. gr. þáverandi reglna Reykjavíkurborgar um styrkveitingu til kæranda til að leysa út bílinn hjá Vöku gegn þeirri munnlegu yfirlýsingu hans í reiðiskasti um að vilja ekki fá leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg, með orðunum „Var honum þá veittur styrkur til að leysa út bifreið sína...“. Samt sem áður sé tilgreint undir rök varnaraðila að umsókn hans frá 2014 hafi verið í gildi til 2017. Á þessum tíma sé ekki að sjá mikil samskipti þjónustumiðstöðvarinnar við kæranda og engar tilnefningar í íbúð en velferðarkerfið hafi getað hjálpað honum að búa áfram í bíl sínum. Kærandi fari þess á leit að áfrýjunarnefndin geri grein fyrir því hvernig þessi aðferðafræði og verklag í máli kæranda uppfylli og sé í samræmi við lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, einnig 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegar mannréttindareglur.

Í kærunni sé hvergi haldið fram að kærandi hafi verið í bráðum húsnæðisvanda frá árinu 2011. Hann hafi verið í óöruggu húsnæði frá maí 2014 þegar vitað hafi verið að leigufélagið sem hann hafi leigt hjá hafi verið tekið til skiptameðferðar. Þegar hann hafi leitað til félagsþjónustunnar í nóvember 2016 hafi hann hins vegar verið í bráðum vanda og vitað hafi verið af hans félagslega vanda sem hafi leitt til áfengisvanda í gegnum árin. Því sé jú haldið vel á lofti í svarbréfi fyrir hönd áfrýjunarnefndar sem og að kærandi hafi setið í fangelsi um tíma og dvalið erlendis. Það leiðréttist hér með að kærandi hafi ekki flutt erlendis árið 2019 heldur hafi hann dvalið í þrjá til fjóra mánuði erlendis. Þess skuli einnig getið að ekki sé tekið mið af því að einstaklingur upplifi reiði, höfnun eða aðra vanlíðan af verklagi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þegar það sé með þessum hætti árum saman.

Það að hægt hafi verið að aðstoða kæranda samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar sem miði að þágildandi a-lið 27. gr. reglnanna sem séu skilgreindar við „þar sem verið er að veita markvissan stuðning“ og „aðstoðin miðar að því að viðhalda árangri sem náðst hefur með stuðningsvinnu“ og byggi á „skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum vanda“ sé hreinlega galið. Kærandi spyrji hvort vandi hans hafi ekki verið nægur í lok árs 2016, þegar hann hafi misst húsnæði sitt og endað á götunni, til að uppfylla þann lið 23. gr. reglnanna sem geri ráð fyrir aðstoð vegna fyrirframgreiðslu til umsækjenda sem ekki séu að fá fjárhagsaðstoð. Kærandi spyrji einnig hvort það hafi þurft að auka enn frekar á félagslegan vanda hans sem vitað hafi verið að ýtti undir áfengisvanda, sem hafi svo leitt til fangelsisvistar vegna ölvunaraksturs við að ná sér í nauðsynjahluti út í búð, til að geta síðar veitt honum aðstoð á grundvelli 27. gr. reglnanna. Þá spyrji kærandi hvaða markvissa stuðning hann hafi fengið og hvaða árangur hafi náðst og sem hafi verið viðhaldið með því að styrkja hann húsnæðislausan til að leysa út bílinn sinn hjá Vöku. Kærandi fari þess á leit að áfrýjunarnefndin geri grein fyrir því sem beðið hafi verið um í kærunni hvað varði álit umboðsmanns Alþingis nr. 9164/2018.

Varðandi frásagnir lögfræðingsins, fyrir hönd áfrýjunarnefndar, um dvöl kæranda í Víðinesi þá hafi ekki komið fram hvers vegna kærandi hafi ekki nýtt sér það úrræði. Enn fremur segi að kærandi hafi farið þaðan eftir tvo daga „án þess að hægt væri að finna annað úrræði eða vinna í málum hans“. Kærandi spyrji hvort lögfræðingurinn hafi skjalfastar upplýsingar um af hverju kærandi hafi farið úr Víðinesi eftir aðeins tveggja daga dvöl og hvaða úrræði hafi átt að finna fyrir kæranda á meðan á dvöl hans í Víðinesi stæði. Kærandi spyrji af hverju þetta annað úrræði hafi ekki fundist á árunum 2014 til 2017 þegar hann hafi átt virka umsókn um félagslegt húsnæði þar sem engar tilnefningar í húsnæði hafi farið fram á þessum þremur og hálfa ári. Kærandi spyrji einnig hvernig átt hafi að vinna í hans málum í Víðinesi, af hverju það hafi ekki verið unnið í hans málum áður en Víðinesið hafi komið til, hvernig dvöl í Víðinesi hefði tryggt öðruvísi verklag í húsnæðismáli kæranda og þá sérstaklega í samræmi við þágildandi reglur Reykjavíkurborgar.

Varðandi samskipti, upplýsingaflæði og tafir í máli kæranda, eins og lögfræðingur komi inn á í lokaorðum fyrir hönd áfrýjunarnefndar og tengi við 9. gr. stjórnsýslulaga, þá séu einnig nokkur villandi atriði þar að finna. Til að mynda sé kærandi að bíða eftir almennu félagslegu húsnæði en ekki sértæku húsnæðisúrræði. Ef um væri að ræða umsókn um sértækt húsnæðisúrræði væri staða kæranda enn alvarlegri en hún sé og ætti því að teljast til bráðabirgðaúrræðis lögum samkvæmt á meðan fundin yrði varanleg húsnæðislausn. Það hafi til dæmis verið gert með því að bjóða honum dvöl í Víðinesi. Nú hafi komið skýrt fram að þetta atriði hafi verið rætt á umbeðnum fundi með deildarstjóra á þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts en deildarstjórinn hafi talið kæranda vera „góðan kandídat“ í smáhýsin sem verið væri að setja upp. Ekki sé tekið mið af því að smáhýsin séu tiltæk fyrir meðal annars sprautufíkla sem ekki þurfi að vera edrú og að þar sem kæranda hafi liðið afar illa og farið eftir tvo daga úr Víðinesi sé nokkuð augljóst að smáhýsin geti ekki heldur verið fýsilegur kostur fyrir hann. Þá telji lögfræðingurinn að ráðgjafar þjónustumiðstöðvarinnar hafi upplýst kæranda „eftir því sem hægt er um tafir málsins“. Kærandi spyrji hvaða tafir lögfræðingurinn telji að hafi verið í máli hans frá maí 2014 og út árið 2017 og hvort það sé virk húsnæðisumsókn en engar tilnefningar allan þann tíma. Einnig hver hafi verið ástæða þeirra tafa, hvernig hafi verið upplýst um tafirnar og hvenær ákvörðunar væri að vænta.

Varðandi orðalagið um að frá júní 2019 hafi verið mjög regluleg samskipti við kæranda þá vísi kærandi til þess sem fram komi í kærunni um samskipti við núverandi ráðgjafa. Samkvæmt þeim hafi samskiptin verið mun meiri af hálfu E fyrir hönd kæranda og í samvinnu við hann. Í nýju erindi frá 8. júlí 2021 taki deildarstjóri fram að það sé mikilvægt að kærandi komist í fast og öruggt húsnæði, ekki síst til að viðhalda edrúmennsku sinni. Þar sem deildarstjórinn skýri frá í bréfi sínu að kærandi hafi búið á tveimur áfangaheimilum síðan janúar 2020 en nefni síðan að hann þurfi að komast í fast og öruggt húsnæði sé litið svo á að deildarstjórinn líti á herbergjaleigu á áfangaheimili sem óöruggt húsnæði. Kærandi spyrji af hverju hann hafi aldrei verið tilnefndur í húsnæði með virka umsókn frá maí 2014 til september 2017.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé 75% öryrki sem glími við mikinn félagslegan vanda og hafi verið heimilislaus um tíma. Hann eigi einn son sem hann sé ekki í samskiptum við og sé ekki með tengslanet fjölskyldu. Hann eigi við mikinn kvíða- og fíknisjúkdóm að stríða og eigi að baki margar afeitranir og meðferðir, bæði á Landspítala og hjá SÁÁ, en sé edrú í dag. Kærandi hafi verið í öruggu leiguhúsnæði í Reykjavík frá árinu 2011 þar til að minnsta kosti til loka árs 2016. Hann hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg þann 27. febrúar 2012 og þann 2. apríl 2013. Í báðum tilvikum hafi umsóknunum verið hafnað með bréfum þann 28. febrúar 2012 og þann 30. apríl 2013 þar sem kærandi hafi ekki haft lögheimili nógu lengi í Reykjavík en samkvæmt 4. gr. b. þágildandi reglna um félagsleg leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar hafi verið mælt fyrir um að minnsta kosti þriggja ára samfellda búsetu í Reykjavík. Í báðum tilvikum hafi verið bent á kæruleiðir og kærufresti í svarbréfum, en hann hafi ekki áfrýjað þeim ákvörðunum.

Fram hafi farið mat á aðstæðum kæranda en þegar umsóknin frá 2013 hafi verið tekin til skoðunar hafi kærandi mælst með 10 stig, þar af þrjú stig í húsnæðisgrunni sem hafi verið hluti matsviðmiða þágildandi reglna um félagslegt leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar. Athugasemd hafi verið skráð um að kærandi væri með mikil félagsleg vandkvæði til margra ára en einnig með áfengissýki og kvíða til áratuga. Málið hafi verið tekið fyrir á ákvarðanafundi þjónustumiðstöðvar þann 13. maí 2013 og sú ákvörðun tekin að mæla með því við áfrýjunarnefnd velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að hann yrði metinn til fjögurra stiga í húsnæðisgrunni sem myndi hækka heildarstigagjöfina í 11 stig og að honum yrði veitt undanþága frá búsetureglu, en sem fyrr segi hafi kærandi ekki áfrýjað ákvörðun þjónustumiðstöðvar um að synja beiðni um félagslegt leiguhúsnæði.  

Kærandi hafi aftur sótt um félagslegt leiguhúsnæði þann 29. apríl 2014 og hafi umsóknin verið samþykkt inn á biðlista með 10 stig. Kæranda hafi verið sent bréf þess efnis þann 26. maí 2014.  Í viðtali þann 21. maí 2014 hafi verið bókað að kærandi teldi sig ekki geta búið í fjölbýli og gæti illa farið á almennan leigumarkað. Á þessum tíma hafi kærandi verið í öruggu leiguhúsnæði, eða að minnsta kosti til desember 2016.

Kærandi hafi komið í viðtal á þjónustumiðstöð þann 17. nóvember 2016 og tilkynnt að hann væri að missa leiguhúsnæðið og að hann yrði húsnæðislaus nokkrum dögum síðar. Hann hafi sótt um að fá 300.000 kr. fyrirframtryggingu hjá Reykjavíkurborg en hafi verið synjað þann 24. nóvember 2016 þar sem kærandi hafi þá hvorki fengið greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. 23. gr. þágildandi reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar, né heldur hafi umsóknin fallið að 27. gr. reglnanna af þeim sökum. Þeirri ákvörðun hafi ekki verið áfrýjað, þrátt fyrir ábendingar í synjunarbréfi þar um, dags. 24. nóvember 2016.

Kærandi hafi komið í viðtal þjónustumiðstöðvar þann 13. júlí 2017 og hafi átt samtal við ráðgjafa sem hafi bókað munnlega yfirlýsingu kæranda í málaskrá um að hann vildi ekki fá leiguhúsnæði aftur hjá Reykjavíkurborg og að frekar svæfi hann í húsbíl sínum. Þá hafi kæranda verið veittur styrkur til að leysa út bifreið sína hjá Vöku sem hafði verið fjarlægð.

Þann 28. september 2017 hafi kæranda verið sent bréf þar sem hann hafi verið minntur á að endurnýja þyrfti umsóknina, annaðhvort munnlega eða skriflega, en hann hafi ekki gert það. Gerður hafi verið dvalarsamningur við kæranda vegna búsetu hans að Víðinesi, heimili fyrir heimilislausa einstaklinga í Reykjavík, frá lok árs 2017 og fram í febrúar 2018. Kærandi hafi þegið það boð en hafi þó ekki dvalið þar nema í tvo daga, þrátt fyrir samning til þriggja mánaða. Á tímabilinu 15. september til 29. desember 2018 hafi kærandi verið í afplánun, en áður hafi hann setið í fangelsi á árinu 2014 í einn mánuð. Þegar kærandi hafi lokið afplánun hafi hann farið til X en dvalið í gistiskýlinu að Lindargötu eftir komuna til landsins.

Kærandi hafi sótt um að nýju þann 19. júní 2019 við komuna til landsins og hafi umsóknin farið fyrir húsnæðisfund og verið samþykkt inn á biðlista með 11 stigum. Kæranda hafi verið tilkynnt um þá samþykkt með bréfi þann 20. júní 2019. Á tímabilinu desember 2019 til janúar 2021 hafi kærandi verið tilnefndur í fjögur skipti, án þess að fá úthlutað. Í febrúar 2021 hafi kærandi verið tilnefndur í fimmta sinn en ekki litist á þá íbúð og því hafi sú tilnefning verið dregin til baka.

Þann 30. janúar 2020 hafi kærandi fengið samþykktan styrk að fjárhæð 105.000 kr. til að greiða fyrir tryggingu á húsaleigu, sem hafi verið greitt inná E en um sé að ræða áfangaheimili. Kærandi hafi hins vegar búið á áfangaheimilinu F frá febrúar 2021 og þiggi 32.460 kr. í sérstakan húsnæðisstuðning á mánuði. Hann sé með gilda umsókn hjá Reykjavíkurborg um félagslegt leiguhúsnæði.

Reykjavíkurborg tekur fram að um úthlutun og meðferð umsókna um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglurnar séu settar á grundvelli XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra og 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. og reglugerð nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk.

Kærandi hafi ekki verið í bráðum húsnæðisvanda frá árinu 2011 eins og haldið sé fram en hann hafi leigt íbúð að D í Reykjavík þar til að minnsta kosti ársloka 2016. Kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði 2011 og 2012 en umsókn hans hafi ekki verið samþykkt fyrr en árið 2014 vegna þágildandi 4. gr. b. reglna Reykjavíkurborgar um þriggja ára samfellda búsetu í sveitarfélaginu. Sú umsókn hafi verið í gildi til 2017. Þá hafi honum verið boðið tímabundið húsnæðisúrræði í Víðisnesi í lok ársins 2017, til þriggja mánaða, sem hann hafi ekki nýtt.

Eftir að umsókn um félagslegt leiguhúsnæði hefur verið samþykkt fari umsóknir á biðlista. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma sem forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum, sbr. 19. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar. Eitt af þeim atriðum sem skipti máli við mat umsókna sé hvort viðkomandi sé í öruggu leiguhúsnæði. Þá skipti félagslegar aðstæður að öðru leyti einnig miklu máli varðandi hvers konar húsnæði henti viðkomandi.

Í lok ársins 2016 hafi kærandi komið að máli við félagsráðgjafa og tilkynnt að hann væri að missa húsnæði sitt. Hálfu ári síðar eða í júlí 2017 hafi hann tilkynnt ráðgjafa að hann hefði ekki áhuga á að fá úthlutað leiguíbúð frá Félagsbústöðum, frekar myndi hann búa í húsbíl sínum. Kæranda hafi þó verið boðin búseta að Víðinesi í lok árs 2017, á heimili fyrir heimilislaust fólk í Reykjavík. Hann hafi þegið það boð en farið þaðan eftir tvo daga, án þess að hægt væri að finna annað úrræði eða vinna í málefnum hans. Á árunum 2018 til 2019 hafi kærandi ekki verið með gilda umsókn um félagslegt leiguhúsnæði en sem fyrr segi hafi hann verið í afplánun og búið erlendis. Þegar kærandi hafi komið til landsins hafi umsókn hans verið samþykkt um leið, eða þann 20. júní 2019, og hann verið tilnefndur í fjórgang á tímabilinu desember 2019 til janúar 2021. Í febrúar 2021 hafi hann verið tilnefndur að nýju, þ.e. í fimmta sinn, en honum hafi ekki litist á þá íbúð og því hafi hann ekki komið til greina við þá úthlutun. Þann 30. janúar 2020 hafi kærandi verið kominn í öruggt leiguhúsnæði og hafi nú búið á áfangaheimilinu F frá febrúar 2021. Umsókn hans frá 2019 sé enn í gildi og hann sé á lista yfir fólk sem bíði eftir úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis.

Kröfur kæranda í kæru séu hvorki skýrar né hvaða ákvörðun hann sé að kæra. Ætla megi að vikið sé að málshraðareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. X. kafla reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi hafi lengst af búið í öruggu leiguhúsnæði og dvalið erlendis eftir afplánun 2018 og ekki endurnýjað umsókn sína fyrr en í júní 2019. Umsókn hans hafi verið samþykkt daginn eftir að hún hafi verið lögð fram þann 19. júní 2019 og sé enn í gildi. Kærandi hafi verið tilnefndur í fjögur skipti án árangurs en fyrsta úthlutun hafi farið fram hálfu ári eftir að umsóknin hafi verið samþykkt. Í fimmtu úthlutun í febrúar 2021 hafi honum ekki litist á íbúðina og því ekki komið til greina við þá úthlutun. Kærandi hafi fengið leigt hjá E 30. janúar 2020 en búi nú á áfangaheimilinu F í Reykjavík, samkvæmt leigusamningi þar um frá febrúar 2021.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber að skýra aðila máls frá því þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast. Þá skuli upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi ráðgjafar þjónustumiðstöðvar upplýst kæranda eftir því sem hægt hafi verið um tafir málsins og frá júní 2019 hafi verið mjög regluleg samskipti við kæranda þar sem honum hafi verið gerð grein fyrir stöðu mála.

Í þessu samhengi sé einnig vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E 1404/2019 þar sem bið eftir sértæku húsnæðisúrræði sem hafi numið þremur og hálfu ári hafi ekki verið talin vera óhófleg bið. Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að kærandi hafi verið upplýstur um þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu málsins. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða reglum um félagslegt leiguhúsnæði Reykjavíkurborgar.

IV.  Niðurstaða

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi kveðst hafa beðið í mörg ár eftir félagslegu húsnæði hjá Reykjavíkurborg og lítur úrskurðarnefndin því svo á að kærður sé dráttur á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Kærandi hefur verið heimilislaus um margra ára skeið og sótt nokkrum sinnum um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Síðasta umsókn kæranda er dagsett 19. júní 2019 og var hún samþykkt á biðlista með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 20. júní 2019. Síðasta umsókn kæranda þar áður féll úr gildi 29. september 2017 þar sem hann endurnýjaði ekki umsóknina. Kærandi var því ekki með gilda umsókn um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg frá þeim degi og þar til hann sótti um á ný þann 19. júní 2019. Umfjöllun úrskurðarnefndarinnar einskorðast því við afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókninni frá 19. júní 2019 en ekki öðrum umsóknum sem kærandi hefur lagt fram hjá sveitarfélaginu fyrir þann tíma.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt á biðlista og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt e-lið 4. gr. eru umsóknir metnar samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum og við lok mats eru reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Til þess að umsókn verði samþykkt á biðlista skuli umsækjandi vera metinn til að lágmarki níu stiga þegar um er að ræða einstakling/hjón eða sambúðarfólk.

Í VI. kafla reglnanna er kveðið á um forgangsröðun og úthlutun. Þar segir í 1. mgr. 17. gr. að umsóknum sé raðað í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt niðurstöðu stigagjafar samkvæmt matsviðmiðum. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. reglnanna fer úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma sem skipuð eru með sérstöku erindisbréfi. Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leggja faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafa verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 19. gr. kemur fram að úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þá segir í 30. gr. reglnanna að ráðgjafi skuli endurmeta aðstæður umsækjanda á meðan beðið sé úthlutunar á húsnæði og veita félagslega ráðgjöf ef þurfa þyki.

Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Reykjavíkurborgar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði til að vera á biðlista. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Líkt og að framan greinir hefur kærandi verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði frá 20. júní 2019. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að fyrsta úthlutun húsnæðis eftir þann tíma hafi farið fram í desember 2019. Kærandi hafi verið tilnefndur fjórum sinnum í húsnæði á tímabilinu desember 2019 til janúar 2021, án þess að fá því úthlutað. Í febrúar 2021 hafi kærandi verið tilnefndur í fimmta sinn en þar sem honum hafi ekki litist á íbúðina hafi sú tilnefning verið dregin til baka. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að ráðgjafar þjónustumiðstöðvar hafi upplýst kæranda eftir því sem hægt væri um tafir málsins og frá júní 2019 hafi verið mjög regluleg samskipti við kæranda þar sem honum hafi verið gerð grein fyrir stöðu mála.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með húsaleigusamning við E frá janúar 2020 til janúar 2021 og fékk samþykktan styrk frá Reykjavíkurborg til að greiða fyrir tryggingu á húsaleigu. Þann 11. febrúar 2020 fékk kærandi samþykktan sérstakan húsnæðisstuðning vegna þess leiguhúsnæðis. Frá febrúar 2021 hefur kærandi búið á áfangaheimilinu F og fær greiddan sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg.

Samkvæmt þeim skýringum sem Reykjavíkurborg hefur veitt og gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að sveitarfélagið hafi unnið í máli kæranda með viðunandi hætti og gert ráðstafanir til að hann fengi úthlutað húsnæði. Líta verður til þess að eftir rúmlega eitt og hálft ár á biðlista hafði kærandi verið tilnefndur fimm sinnum í húsnæði, þar af fékk hann einu sinni úthlutun til vara, auk þess sem sveitarfélagið veitti kæranda styrk vegna tryggingu á húsaleigu ásamt sérstökum húsnæðisstuðningi. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla máls kæranda hafi ekki dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin bendir þó á að ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta