Mál nr. 32/2020 Úrskurður 19. maí 2020
Mál nr. 32/2020 Eiginnafn: Sigríðurjóna (kvk.)
Hinn 19. maí 2020 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 32/2020 en erindið barst nefndinni 4. maí.
Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Í þessu máli reynir á skilyrði nr. tvö og þrjú hér að ofan. Eiginnafnið Sigríðurjóna (kvk.) fer gegn hefðbundnum nafnmyndunarreglum í íslensku. Fyrri liður þess er nafnið HHanna Sigríður, í aukaföllum Sigríði (þolfall og þágufall) og Sigríðar (eignarfall). Ekki er hefð fyrir því að fyrri liður samsetts nafns fallbeygist, það gerir aðeins sá síðari. Nafnið Sigríðurjóna (í eignarfalli Sigríðarjónu) brýtur þannig í bág við íslenskt málkerfi. Annar möguleiki væri að fyrri liður væri óbreyttur í beygingu (sbr. eignarfallsmyndina Sigríðurjónu). Sá möguleiki bryti einnig í bág við íslenskt málkerfi þar sem orðmyndir með sérstaka nefnifallsendingu mynda ekki fyrri lið í samsettum orðum; þar er notuð eignarfalls- eða stofnmynd orðs (sbr. brúður, með nefnifallsendinguna –ur, og samsettu orðin brúðargjöf og brúðkaup; sömuleiðis tindur og samsettu örnefnin Tindfjall, Tindafell og Tindarhlein). Þá getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Sigríður og Jóna sem eitt orð. Rithátturinn Sigríðurjóna er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga um mannanöfn.
Til samanburðar vísast til úrskurðar mannanafnanefndar frá 27. júní 2005 í máli nr. 59/2005, vegna umsóknar um nafnið Annalísa; til úrskurðar frá 25. september 2008 í máli nr. 56/2008, vegna umsóknar um nafnið Annalinda; til úrskurðar frá 4. febrúar 2010 í máli nr. 69/2009, vegna umsóknar um nafnið Liljarós; til úrskurðar frá 21. september 2011 í máli nr. 69/2011, vegna umsóknar um nafnið Hannadís; til úrskurðar frá 3. október 2014 í máli nr. 58/2014, vegna umsóknar um nafnið Sveinnóli; til úrskurðar frá 3. júní 2016 í máli nr. 48/2016, vegna umsóknar um nafnið Olgalilja; til úrskurðar frá 22. maí 2019 í máli nr. 39/2019, vegna umsóknar um nafnið Ingadóra, og jafnframt til úrskurðar frá 14. janúar 2020 í máli nr. 3/2020, vegna umsóknar um nafnið Hannalísa.