Nr. 319/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Beiðni um endurupptöku máls nr. 319/2018
Miðvikudaginn 21. nóvember 2018
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir. Með bréfi, dags. 31. október 2018, óskuðu B og C, f.h. […] A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 319/2018 þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. júní 2018 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en að meta honum örorkustyrk tímabundið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 15. mars 2018. Með örorkumati, dags. 27. júní 2018, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá X til X.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. september 2018. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 17. október 2018. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.
II. Sjónarmið kæranda
Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 319/2018.
Í beiðni um endurupptöku segir meðal annars að kærandi komist ekki út á vinnumarkaðinn vegna veikinda og að það hafi verið margreynt. Hann hafi ekki einu sinni getað unnið hjá [...] án þess að gefast upp og leggjast veikur í rúmið [...]. Það virðist vera honum ofviða að vera úti í þjóðfélaginu.
Kærandi sé með sjúkdóm sem heiti […]persónuleikaröskun, sjúkdómurinn sé ólæknandi eins og aðrar persónuleikaraskanir en hægt sé að læra að lifa með sjúkdómnum með réttri meðferð sem í hans tilfelli hafi ekki fundist. Þá sé kærandi einnig með þunglyndi. Það séu engin meðferðarúrræði fyrir kæranda, stefnt sé að því að reyna D en þangað muni hann ekki komast á næstunni. Það sé ekki rétt sem standi í skýrslunni frá Tryggingastofnun að mörg úrræði séu í boði fyrir kæranda og ef það séu einhver þá hafi hann ekki efni á þeim.
Vitað sé að kærandi fegri yfirleitt hlutina sé hann spurður, til dæmis hafi hann sagst sofa vel og geta búið einn sem sé ekki rétt. Hann sofi einungis í nokkra tíma og vaki í nokkra tíma, hann nái ekki að vaka heilan dag eða að sofa heila nótt. Ef hann [...].
Þá segir í endurupptökubeiðninni að augljóst sé að kærandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 að meta hann án þess að byggja á staðli, kærandi geti vart farið út úr húsi og geti ekki verið innan um annað fólk.
III. Niðurstaða
Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 17. október 2018. Með úrskurðinum var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur staðfest. Af beiðni um endurupptöku má ráða að óskað sé að fallist verði á að kærandi uppfylli skilyrði örorkulífeyris.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í beiðni um endurupptöku kemur fram að aðspurður geri kærandi minna úr veikindum sínum en raunin sé, hann geti ekki verið innan um annað fólk og geti varla farið út úr húsi. Þá sofi hann óreglulega og geti ekki búið einn.
Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða úrskurðarins hafi ráðist af ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Engin ný læknisfræðileg gögn voru lögð fram með endurupptökubeiðninni heldur er eingöngu um að ræða nánari lýsingu […] kæranda á andlegri færniskerðingu hans.
Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 319/2018 synjað.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að telji hann að þau læknisfræðilegu gögn, sem liggja fyrir í málinu, gefi ekki rétta mynd af andlegri færniskerðingu hans þá geti hann sótt um örorkulífeyri á ný hjá Tryggingastofnun með framlagningu nýrrar umsóknar og ítarlegri læknisfræðilegra gagna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 319/2018 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála er synjað.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir