Hoppa yfir valmynd

Nr. 505/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 505/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060071

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. júní 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. maí 2017, um að synja honum um dvalarleyfi hér á landi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að gefa út dvalarleyfi honum til handa.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi þann 13. janúar 2017. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. maí 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Kærunefnd barst kæra kæranda þann 29. júní 2017, en í kæru koma einnig fram athugasemdir kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnun kom fram að samkvæmt b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki að atvinnuleyfi skv. lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga hefði áður verið gefið út. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. apríl 2017, hefði kæranda hins vegar verið synjað um atvinnuleyfi. Útlendingastofnun hefði þar af leiðandi ekki heimild til að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga og var umsókn hans því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda segir að hann geti ekki fallist á niðurstöðu Útlendingastofnunar um að synja honum um dvalarleyfi. Kærandi telji að hann fullnægi öllum þeim skilyrðum sem ákvæði 62. gr. laga um útlendinga tiltaki fyrir veitingu leyfisins, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum málsins. Leggur kærandi áherslu á að [...] og að hann hafi sterk tengsl við landið.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laganna eru m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. apríl 2017, var umsókn kæranda um atvinnuleyfi synjað og hefur þeirri ákvörðun ekki verið hnekkt. Telst kærandi því ekki uppfylla skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Að því virtu verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                              Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta