Hoppa yfir valmynd

Nr. 421/2016 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 421/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16060017

Kæra […] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 10. júní 2016, kærði [...] hdl., f.h. […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júní 2016, um að synja kæranda um dvalarleyfi á Íslandi.

Í kæru er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og breytt á þá leið að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 12. gr. f. laga um útlendinga nr. 96/2002.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli 13. gr. laga um útlendinga vegna fjölskyldusameiningar þann 5. ágúst 2015. Kærandi varð 18 ára við vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun og var það mat stofnunarinnar að ljóst væri að hann uppfyllti ekki lengur skilyrði 13. gr. laga um útlendinga fyrir útgáfu dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar vegna aldurs.  Að mati stofnunarinnar kynni kærandi að eiga rétt á dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla ef hann uppfyllti skilyrði þess leyfis og legði inn gögn þar að lútandi. Kærandi lagði því inn gögn vegna sérstakra tengsla hjá stofnuninni. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júní 2016. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 10. júní 2016. Greinargerð og gögn frá kæranda bárust kærunefnd samtímis kæru. Með tölvupósti sama dag var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 15. ágúst 2016, en stofnunin gerði ekki athugasemdir við kæruna.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi orðið 18 ára við vinnslu umsóknar á grundvelli fjölskyldusameiningar. Ítrekað hafi verið óskað eftir fullnægjandi gögnum í hans máli sem hafi aldrei borist og sé stofnunin ekki sammála kæranda um að hann hafi náð sjálfræðisaldri við vinnsluna vegna seinagangs við afgreiðslu umsóknarinnar. Kærandi hafi haft þrjá mánuði til að leggja fram umbeðin gögn frá því að hann lagði inn umsóknina og á þeim tíma hafi þrjú bréf verið send honum með leiðbeiningum um hvaða gögn hafi þurft að berast stofnuninni svo hægt hefði verið að afgreiða hana. Í kjölfar þess að umbeðin gögn hafi ekki borist hafi stofnunin kannað grundvöll fyrir veitingu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla kæranda við Ísland. Kærandi hafi byggt á því að móðir hans sé hans nánasta fjölskylda sem hafi annast hann og hans framfærslu allt frá því að foreldrar hans hafi skilið árið 2011. Í gögnum kæranda komi fram að aðrir fjölskyldumeðlimir sjái sér ekki fært að annast kæranda, vegna ótryggra tekna þeirra og vegna veikinda. Kærandi búi hjá ömmu sinni, en þar hafi hann einnig verið búsettur ásamt móður sinni áður en hún hafi flutt til Íslands. Stofnunin tekur fram að kærandi sé ungur að aldri, en sé þó sjálfráða, hafi lokið námi og geti stundað atvinnu í […]. Hann geti því framfleytt sér sjálfur og þurfi ekki að vera háður framfærslu annarra. Þess utan séu framfærslu- og forsjárskyldur móður kæranda ekki lengur til staðar, en hún hafi þann kost að aðstoða kæranda frá Íslandi ef þess þarf.

 

Ákvörðun um synjun dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla byggði Útlendingastofnun á því að gögn málsins bentu ekki til annars en að kærandi hafi alist upp í heimalandi sínu og búið þar alla tíð. Þar hafi hann gengið í skóla og þar hafi allt hans félagslega líf verið. Stofnunin taldi kæranda hafa sterkari tengsl við […] en Ísland, þar sem hann hafi aldrei verið verið búsettur á Íslandi. Þar að auki hafi hann ennþá náin fjölskyldutengsl í heimalandi þó móðir hans sé flutt til Íslands. Að mati stofnunarinnar er móðir kæranda hans einu tengsl við Ísland. Þegar litið væri til gagna málsins og aðstæður kæranda í heild var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki svo sérstök tengsl við Ísland að það réttlætti beitingu undantekningarreglu 12. gr. f laga um útlendinga og því bæri að synja umsókn kæranda.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og breytt á þá leið að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 12. gr. f. laga um útlendinga.

Kærandi byggir á því að skilyrði 12. gr. f. laga um útlendinga séu uppfyllt og því beri að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli. Kærandi kveðst upphaflega hafa sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 13. gr. laga um útlendinga, vegna fjölskyldusameiningar þann 5. ágúst 2015. Móðir hans hafi þá þegar sent inn umsókn um dvalarleyfi á sama grundvelli í því skyni að geta dvalið með eiginmanni sínum sem hafi dvalarleyfi á Íslandi. Móður kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi á þeim grundvelli þann 28. janúar 2016, en á meðan umsókn kæranda var til skoðunar hafi hann orðið 18 ára gamall og því ekki lengur uppfyllt skilyrði 13. gr. laga um útlendinga.

Kærandi getur þess að Útlendingastofnun hafi sent honum beiðni, dags. 20. ágúst 2015, um frekari gögn til staðfestingar á forsjá kæranda þar sem staðfestur samningur milli foreldra kæranda vegna ferðar og dvalar á Íslandi hafi ekki verið talinn fullnægjandi. Þann 20. október 2015 hafi forsjárgögn sem kærandi hafi aflað í heimaríki sínu verið send stofnuninni, auk yfirlýsingar frá föður hans, sem hafi sýnt að móðir hans hafi haft forsjá yfir honum síðan foreldrar hans hafi skilið. Stofnunin hafi þó ekki talið þau gögn fullnægjandi.

Í greinargerð kæranda furðar kærandi sig á því að hversu mikið kapp hafi verið lagt á að hálfu Útlendingastofnunar að fá nákvæmlega rétt stimpluð forsjárgögn í málinu þar sem ljóst hafi verið að kærandi hafi orðið 18 ára rúmum mánuði síðar. Samningar hafi legið fyrir milli foreldra kæranda, auk forsjárgagna, sem þó hafi ekki verið stimpluð með réttum hætti. Í málinu hafi legið fyrir viðurkenndur samningur þar sem faðir kæranda hafi heimilað honum að flytjast með móður sinni til Íslands ásamt yfirlýsingu föður kæranda þar sem fram komi að þeir hafi lítil sem engin samskipti eftir skilnað foreldranna. Sú afstaða Útlendingastofnunar að hafa ekki séð sér fært að veita kæranda leyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, þegar mánuð hafi vantað til þess að hann yrði sjálfráða, sé í mótsögn við þá afstöðu stofnunarinnar nú að telja að kærandi hafi enga þörf á því að flytja til Íslands með móður sinni sem hann sé fjárhagslega og tilfinningalega háður.

Þá greinir kærandi frá því að hann hafi að tillögu Útlendingastofnunar lagt fram öll umbeðin gögn til þess sýna fram á tengsl sín við Ísland. Kærandi sé afar háður móður sinni, bæði fjárhagslega og tilfinningalega og hafi lítið stuðningsnet í heimalandi. Hann hafi einungis ömmu sína sem sé mikill sjúklingur og frænku sem hann hafi einhver samskipti við, en hún hafi þó líst því yfir að hún geti ekki stutt við kæranda, hvorki félagslega né fjárhagslega. Þá hafi kærandi ekki stundað atvinnu í heimalandi og afar erfitt sé að fá vinnu þar.

Kærandi telur ljóst að ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga sé afar matskennt og því mikið vald lagt í hendur Útlendingastofnunar við ákvörðun um veitingu slíks leyfis. Kærandi vísar til leiðbeinandi sjónarmiða innanríkisráðuneytisins varðandi veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla. Samkvæmt þeim séu m.a. tengsl við nákomna ættingja sem búsettir séu hér á landi málefnalegt sjónarmið sem beri að líta til við matið. Þá þurfi að vera til umönnunarsjónarmið þannig að umsækjandi sé háður fjölskyldu hér á landi að einhverju eða öllu leyti. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli öll skilyrði sjónarmiða ráðuneytisins hvað varði sérstök tengsl. Hann sé 18 ára gamall, makalaus og móðir hans, sem sé hans nánasta fjölskylda hafi fengið dvalarleyfi á Íslandi sem geti verið grundvöllur búsetuleyfis. Kærandi hafi lagt fram gögn þar sem fram komi að hann sé afar háður henni tilfinningalega og fjárhagslega, þannig að umönnunarsjónarmið liggi að baki. Kærandi hafi verið barn þegar hann og móðir hans hafi upphaflega sótt um dvalarleyfi hér á landi og hafi kærandi gert ráð fyrir því að fá að fylgja móður sinni til landsins. Það sé því afar þung byrði fyrir hann að hafa fengið neitun og eiga þess ekki kost að dvelja í sama landi og móðir sín.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f. laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum, og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum.

Samkvæmt 12. gr. f laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt almennum skilyrðum fyrir dvalaleyfi sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið. Ákvæðið felur stjórnvöldum að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu svo sérstök að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Í almennum athugasemdum við 12. gr. f laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008, er áréttað að um undanþáguheimild sé að ræða, sem meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort ástæða sé til að beita. Við mat á sérstökum tengslum hefur m.a. verið litið til þess hve lengi einstaklingur hefur dvalið löglega á landinu, og hvort hann eigi hér nákomna ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Þá hefur verið horft til annarra tengsla við landið svo sem vegna atvinnu, félagslegrar eða menningarlegrar þátttöku.

Í greinargerð vísar kærandi til leiðbeinandi sjónarmiða innanríkisráðuneytisins við veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Þar segir að til greina komi að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla ef umsækjandi er á aldrinum 18-30 ára, er makalaus en á foreldri sem er íslenskur ríkisborgari eða hefur búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem myndar grundvöll fyrir búsetuleyfi hér á landi og umsækjandi mun vera einn eftir í heimalandi eða að öll nánasta fjölskylda er búsett á Íslandi. Þá þurfi að vera til staðar umönnunarsjónarmið þannig að umsækjandi sé háður fjölskyldu hér á landi að einhverju eða öllu leyti.

Fyrir liggur að kærandi er nýlega orðinn 18 ára, makalaus og á móður sem hefur dvalarleyfi hér á landi sem myndar grundvöll fyrir búsetuleyfi. Móðir hans er eini ættingi hans hér á landi en móðuramma kæranda og faðir eru búsett í heimalandi. Kærandi er sjálfráða, er í námi í heimalandi og hefur kost á að stunda atvinnu í heimalandi sínu.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur búið alla sína ævi í […] og hefur þar bæði félagsleg tengsl og náin fjölskyldutengsl. Hann hefur aftur á móti aldrei dvalið á Íslandi. Einu tengsl kæranda við landið eru tengsl við móður sem hefur dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Þótt fyrir liggi yfirlýsingar frá nánustu fjölskyldu um að kærandi sé háður móður sinni um framfærslu, m.a. vegna veikinda ömmu hans og þar sem erfitt geti reynst að fá vinnu í heimaríki, telur kærunefnd að slík fjárhagsleg tengsl séu ekki þess eðlis að fallist verði á að móðir annist um kæranda þannig að hann teljist háður henni á þann hátt að veita beri kæranda dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið. Þá telur kærunefnd að tilfinningatengsl sem kærandi lýsir gagnvart móður sinni geti ekki leitt til annarrar niðurstöðu.

Í kæru eru gerðar athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, n.t.t. að stofnunin hafi lagt fyrir kæranda að afla gagna sem ekki væru nauðsynlegt fyrir málið sem hafi leitt til tafa á meðferð málsins. Af því tilefni er tekið fram að kærunefnd gerir ekki athugasemd við að Útlendingastofnun hafi krafist opinberra forsjárgagna vegna umsóknar um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Þá fær kærunefnd ekki séð að óréttlættar tafir hafi orðið á meðferð málsins.

Að öllu framangreindu virtu og í ljósi þess að ekkert annað er fram komið sem bendir til þess að kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland eða að aðstæður hans í heimalandi séu með einhverjum þeim hætti að fallið geti undir ákvæðið er það mat kærunefndar að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                       Pétur Dam Leifsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta