Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2012.

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, miðvikudaginn 10. apríl 2013, var tekið fyrir mál A hjá kærunefnd barnaverndarmála varðandi umgengni við sonarson hennar, B, nr. 26/2012.

 

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

 

Með bréfi, dags. 21. desember 2012, skaut Guðríður Lára Þrastardóttir hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar C frá 21. nóvember 2012til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðurinn varðar umgengni kæranda við sonarson hennar, B. Með úrskurðinum var beiðni kæranda um umgengni við drenginn, sem hefur verið ráðstafað í fóstur af barnaverndarnefnd C, hafnað.

 

B og er því eins og hálfs árs gamall. Drengurinn var ófeðraður við fæðingu, en 28. ágúst 2012 var Mál þetta lýtur að kröfu föður um rýmri umgengni við tvö börn sín. Hinn kærði úrskurður var stað, sem er sonur kæranda þessa máls, úrskurðaður faðir hans. Móðir B er E. B var ráðstafað í fóstur fljótlega eftir fæðingu til hjónanna F og G og kvað barnaverndarnefnd C upp úrskurð um fóstrið 17. október 2011. Eldri albróðir drengsins, H, er einnig í fóstri hjá sömu hjónum. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 7. desember 2012 var móðirin svipt forsjá B að kröfu barnaverndarnefndar C og 18. desember 2012 gerði barnaverndarnefndin samning við fósturforeldrana um að fóstra barnið þar til það yrði lögráða.

 

Kærandi óskar þess að úrskurður barnaverndarnefndar C frá 21. nóvember 2012 verði ógiltur og að kærunefnd barnaverndarmála úrskurði umgengni kæranda við barnabarn sitt.

 

Barnaverndarnefnd C vísar til hins kærða úrskurðar varðandi rökstuðning fyrir ákvörðun sinni.

 

Fósturforeldrar B telja ekki ástæðu til þess að breyta hinum kærða úrskurði.

 

 

 

I. Helstu málavextir.

 

B hefur verið í umsjón barnaverndarnefndar C frá því hann var tveggja daga gamall. Kynforeldrar B slitu samvistum í júní 2009, en báðir hafa þeir átt við lyfja- og fíkniefnavanda að stríða og geðræna erfiðleika.

 

Í kæru kemur fram að kynmóðir drengsins hafi á meðgöngunni búið hjá kæranda þar sem hún hafi séð til þess að hún héldi sig frá vímugjöfum, færi reglulega í mæðraeftirlit og skaðaði ekki ófætt barn sitt með vímuefnaneyslu eða annarri óæskilegri hegðun. Kærandi hefur umgengni við eldri albróður B, H, þrisvar sinnum á ári.

 

 

II. Sjónarmið kæranda.

 

Kærandi byggir kröfu sína um umgengni við drenginn á 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þá leggur hún áherslu á að í 70. gr. og 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga sé sérstaklega tekið fram að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því séu nákomnir. Um sé að ræða sjálfstæðan rétt barns sem beri að virða enda í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Taka verði tillit til þess að drengurinn eigi bróður sem hafi umgengni við kæranda, en að mati kæranda sé afar óeðlilegt að einungis annað barnið fái umgengni við föðurömmu sína en hinu sé óheimil umgengni. Drengirnir eigi sömu kynforeldra og sömu fósturforeldra. Fráleitt sé að einungis annar þeirra eigi rétt á umgengni við föðurömmu.

 

Kærandi bendir á að í athugasemdum við 2. mgr. 74. gr. frumvarps til barnaverndarlaga komi fram að réttur nákominna til umgengni við barn sé ekki jafnríkur og kynforeldra en vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir barn, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Að mati kæranda eigi þetta við í máli þessu. Barnaverndarnefnd C hafi úrskurðað að faðir drengsins, D, skuli hafa umgengni við drenginn einu sinni á árinu 2012 en tvisvar á árinu 2013, í hálftíma í senn. Það sé ljóst að umgengni fósturbarns við kynforeldri verði ekki ákveðin minni en hér og megi í raun segja að umgengni föður við barnið sé svo lítil að ekki sé um raunverulega umgengni að ræða. Kærandi hafi ekki upplýsingar um umgengni móður drengsins.

 

Að mati kæranda muni umgengni drengsins við hana því hafa sérstaka þýðingu fyrir drenginn þar sem hún sé mikilvæg tenging við fjölskyldu kynföður hans. Kærandi telji það þjóna hagsmunum barnsins að þekkja uppruna sinn og fá vitneskju um það frá unga aldri að fjölskyldu kynföður hans sé annt um og umhugað um velferð hans.

 

Kærandi uppfylli öll almenn skilyrði til þess að umgangast og annast börn. Hún sé reglusöm, heilbrigð á líkama og sál en fyrst og fremst sé henni afar annt um velferð og líðan barnabarna sinna. Kærandi telji að farsælast og best væri fyrir drenginn ef hann gæti haft sem reglulegasta og ríkulegasta umgengni við fjölskyldu kynföður.

 

 

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar C.

 

Barnaverndarnefnd C vísar til rökstuðnings nefndarinnar fyrir því að hafna því að úrskurða kæranda umgengni við barnabarn sitt sem komi fram í úrskurðinum sjálfum. Meginröksemdin sé sú að það teljist ekki barninu til hagsbóta eða samræmist markmiðum varanlegs fósturs að ákveðin sé sérstök umgengni þess við ömmu sína sem barnið hafi aldrei verið í samvistum við og þekki ekki. Byggi mat nefndarinnar meðal annars á þeirri túlkun sem fram komi í athugasemdum við frumvarp til núgildandi barnaverndarlaga. Samkvæmt þeirri túlkun skuli umgengni við aðra en kynforeldra einkum ákveðin ef hún hafi sérstaka þýðingu fyrir barnið, svo sem þar sem umgengni við kynforeldra er lítil sem engin. Að mati nefndarinnar hafi hér ekki verið sýnt fram á að svo sé.

 

 

IV. Sjónarmið fósturforeldra.

 

Fósturforeldrar B eru hjónin G og F. Auk B eru þau með eldri bróður hans, H, í varanlegu fóstri. Hjá þeim kemur fram að þeim hafi verið falin umsjá B þegar eftir fæðingu hans. Tilgangur ráðstöfunarinnar hafi fyrst og fremst verið sá að veita honum öruggt og eðlilegt umhverfi til uppvaxtar og þroska. Að undangengnum endurteknum matsgerðum og vitnisburði sér­fræðinga vegna kæru kynforeldra, hafi neyðarráðstöfun barnaverndaryfirvalda verið dæmd lögmæt af Héraðsdómi Norðurlands eystra og réttmæt í þágu barnsins. Þeim dómi hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar og beðið sé fyrirtöku og niðurstöðu á því dómstigi.

 

Fram kemur af hálfu fósturforeldra að rýmri umgengni sé ekki í samræmi við tilgang fóstursins. Þeir horfi fyrst og fremst til upprunalegs tilgangs fóstursins, ungs aldurs barnsins, forsögu ráðstöfunarinnar og þeirrar staðreyndar að drengurinn þekki ekki aðra fjölskyldu en þá sem hann hafi alist upp hjá frá fæðingu. Þvert á móti telji þeir að slíkt gæti truflað þroskaferil hans og eðlilegan uppvöxt. Þegar hann eldist og öðlist vit, að ekki sé talað um hæfileika til að tjá sig og skilja, myndist forsendur til að upplýsa hann um uppruna sinn, samkvæmt réttindum hans.

 

 

V. Niðurstaða.

 

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt skv. 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.

 

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt því orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

 

Í máli þessu er um að ræða eins og hálfs árs gamlan dreng, B, sem barnaverndarnefnd tók í umsjá sína tveggja daga gamlan og ráðstafaði til núverandi fósturforeldra. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 7. desember 2012 var krafa barnaverndarnefndar um að svipta foreldrana forsjá drengsins tekin til greina. Í gögnum málsins kemur fram að nefndin hafi gert samning við fósturforeldrana 18. desember sama ár um að fóstra barnið þar til það yrði lögráða.

 

Af þessum sökum hefur drengurinn hvorki haft tækifæri til að kynnast né tengjast kæranda í máli þessu. Kærandi getur því ekki talist nákominn barninu í skilningi laga­ákvæðisins. Þá verður heldur ekki talið að umgengni yrði barninu til hagsbóta eins og áskilið er í 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, að minnsta kosti ekki á meðan barnið er jafn ungt og það er í dag. Með vísan til þessa er fallist á þær röksemdir sem fram koma í hinum kærða úrskurði um að ekki samræmist hagsmunum barnsins og þörfum að kæranda verði úrskurðuð umgengni við það. Samkvæmt því er kröfu kæranda um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi hafnað og verður hann því staðfestur eins og í úrskurðarorði greinir.

 

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar C frá 21. nóvember 2012 varðandi umgengni B við föðurömmu sína, A, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir,

 formaður

 

 

Guðfinna Eydal                     Jón R. Kristinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta