Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 34/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 34/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 13. febrúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hafi á fundi sínum 6. febrúar 2012 fjallað um rétt hans til atvinnuleysistrygginga. Beiðni kæranda um að rafræn staðfesting atvinnuleitar, sbr. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, yrði samþykkt og atvinnuleysisbætur greiddar afturvirkt fyrir tímabilið frá 23. nóvember 2011 til 6. janúar 2012, var hafnað, en ekki varð séð að um mistök Vinnumálastofnunar hefði verið að ræða. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 22. febrúar 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 6. september 2011 með rafrænni skráningu. Hann fór í kjölfarið á kynningarfund hjá stofnuninni þar sem hann var upplýstur um réttindi sín og skyldur sem hann þurfti að uppfylla til að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína í desember 2011. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar 17. janúar 2012 kemur fram að faðir kæranda hafi tilkynnt um vinnu hans með tölvupósti 20. desember 2011. Í samskiptasögunni 21. desember 2011 er birtur tölvupóstur frá föður kæranda, B, frá 20. desember 2011 þar sem gerð er ítarleg grein fyrir vinnu kæranda hjá Cdagana 5. desember til 20. desember 2011.

 

Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun 6. janúar 2012 þar sem hann hafði reynt að skrá sig inn rafrænt en þá komið upp að hann hefði verið afskráður. Kæranda var tjáð að hann hefði verið afskráður þar sem hann hefði ekki staðfest atvinnuleit í desember. Kærandi kvaðst hafa verið í tilfallandi vinnu í desember og hefði hann haldið að hann þyrfti ekki að staðfesta atvinnuleit í desember. Var honum í sama skipti leiðbeint um að senda skýringabréf og óska eftir að fá það tímabil greitt sem hann hefði ekki staðfest atvinnuleit fyrir. Í skýringarbréfi kæranda sem barst 20. janúar 2012 heldur hann því fram að hann hafi skilið starfsmann stofnunarinnar svo að þar sem hann hefði verið í tilfallandi vinnu hefði hann ekki þurft að staðfesta atvinnuleit á meðan. Hann hafi talið það fullnægjandi að skila inn upplýsingum um unnar stundir.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi fengið tímabundna vinnu hjá C í desember 2011 og hafi verið haft samband við Vinnumálastofnun, bæði Greiðslustofu og Vinnumiðlun Vesturlands, til þess að fá leiðbeiningar um hvernig ætti að snúa sér varðandi skattkort og skráningu. Hafi það verið gert sérstaklega til þess að fyrirbyggja klúður þegar tímabundinni vinnu væri lokið. Kærandi kveðst hafa farið að öllum þeim leiðbeiningum sem honum hafi verið gefnar. Kærandi kveðst ekki hafa talið sig þurfa að stimpla sig á skráningartíma í desember 2011 þar sem hann var búinn að koma öllum umbeðnum upplýsingum á framfæri.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. maí 2012, kemur fram að málið varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að neita kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 23. nóvember 2011 til 6. janúar 2012, þar sem kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit sína líkt og honum hafi verið skylt að gera skv. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum sem fylgdi frumvarpi til breytingalaga nr. 134/2009 á lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að mikilvægt sé að festa framangreinda framkvæmd stofnunarinnar enn frekar í sessi innan atvinnuleysistryggingakerfisins og undirstrika þannig að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt beri honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði.

 

Eins og fram hafi komið hafi kærandi sótt um rafrænt og staðfest hina rafrænu skráningu 15. september 2011. Með undirskrift sinni hafi kærandi staðfest að þær upplýsingar sem hann hafi gefið upp í umsókn um atvinnu og atvinnuleysisbætur hafi verið gefnar samkvæmt bestu vitund hans. Þar með hafi hann staðfest að hafa fengið upplýsingar um að staðfesta skuli atvinnuleit mánaðarlega hjá stofnuninni símleiðis á heimasíðu stofnunarinnar eða með komu á þjónustuskrifstofu. Jafnframt séu á heimasíðu stofnunarinnar upplýsingar fyrir umsækjendur atvinnuleysisbóta. Séu þar meðal annars ítarlegar upplýsingar um staðfestingu á atvinnuleit. Komi skýrt fram að staðfesta skuli atvinnuleit 20.–25. hvers mánaðar og að mögulegt sé að skrá staðfestingu á heimasíðu stofnunarinnar. Sé hægt að gera það með því að fara í gegnum mínar síður, en innskráning fyrir þær sé ofarlega til hægri á forsíðu heimasíðu Vinnumálastofnunar.

 

Atvinnuleitanda sé gert að staðfesta að hann sé virkur í atvinnuleit, mánaðarlega hjá Vinnumálastofnun. Umsækjendur geti hringt í þjónustufulltrúa, skráð sig rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar eða mætt á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar til þess að staðfesta atvinnuleit sína. Í ljósi aukinna umsvifa þjónustuskrifstofa stofnunarinnar sé umsækjendum almennt ráðlagt að staðfesta sig rafrænt á Netinu.

 

Regluleg staðfesting á atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun sé nauðsynleg til að tryggja greiðslu atvinnuleysistrygginga. Þau samskipti milli umsækjenda um atvinnuleysisbætur og Vinnumálastofnunar sem felist í því að staðfesta mánaðarlega atvinnuleit séu því mikilvægur þáttur í því að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Vinnumálastofnun haldi úti heimasíðu stofnunarinnar þar sem atvinnuleitendum sé gert kleift að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega. Það að kærandi hafi staðið í þeirri trú að nægjanlegt væri að tilkynna um unna tíma til að staðfesta atvinnuleit geti ekki leyst hann undan þeirri skyldu sem hvíli á honum skv. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, segir:

 

Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.

 

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til breytingalaga nr. 134/2009 á lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hefur verið samþykkt beri honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Talið var að þetta fyrirkomulag væri þýðingarmikið í því skyni að efla eftirlit með því að atvinnuleitendur væru að sinna skyldum sínum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 18. maí 2012, segir að atvinnuleitanda sé gert að staðfesta að hann sé virkur í atvinnuleit, mánaðarlega hjá stofnuninni. Umsækjendur geti hringt í þjónustufulltrúa, skráð sig rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar eða mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til þess að staðfesta atvinnuleit sína. Í ljósi aukinna umsvifa þjónustuskrifstofa stofnunarinnar sé umsækjendum almennt ráðlagt að staðfesta sig rafrænt á Netinu.

 

Faðir kæranda sendi Vinnumálastofnun tölvupóst 20. desember 2011 og tilkynnti um tilfallandi vinnu hans frá 5. til 20. desember 2011 eins og fram hefur komið. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður að líta svo á að með þeim tölvupósti hafi jafnframt verið uppfyllt skilyrði 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hafa samband við Vinnumálastofnun í því skyni að staðfesta atvinnuleit kæranda. Bent er á að ekki er nákvæmlega tilgreint með hvaða hætti hafa skuli samband við stofnunina í því skyni að staðfesta atvinnuleit, en Vinnumálastofnun nefnir að um geti verið að ræða að hringja í þjónustufulltrúa, skrá sig rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar eða mæta á þjónustuskrifstofu.

 

Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. febrúar 2012 í máli A um synjun á greiðslu atvinnuleysisbóta frá 23. nóvember 2011 til 6. janúar 2012 er felld úr gildi.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta