Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 39/2012.

 

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 30. apríl 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 39/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 29. febrúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé hann í skuld vegna tekjuskerðingar á tímabilinu 1. janúar til 19. apríl 2011. Eftirstöðvarnar innheimtist skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi var ekki lengur skráður atvinnuleitandi. Þess er farið á leit að skuldin verði greidd innan 14 daga frá dagsetningu innheimtubréfsins. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 2. mars 2012. Kærandi fer einnig fram á 10% endurgreiðslu af 65.678 kr. endurgreiðslu sem hann hafði innt af hendi til Vinnumálastofnunar, vegna málareksturs og annarra óþæginda. Vinnumálastofnun telur að kæranda hafi borið að endurgreiða útistandandi skuld við stofnunina.

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 3. janúar til 19. apríl 2011. Á sama tíma var hann í tilfallandi vinnu hjá Kynnisferðum ehf. og var með 179.235 kr. í tekjur í janúar, 210.265 kr. í febrúar, 373.298 kr. í mars og 300.171 í apríl 2011. Ekki lá fyrir í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar tekjuáætlun vegna framangreindrar vinnu kæranda og fékk hann af þeim sökum ofgreiddar atvinnuleysisbætur á sama tímabili, samtals að fjárhæð 169.594 kr.

Ofgreiddum atvinnuleysisbótum var skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum, samtals að fjárhæð 57.475 kr., skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi var afskráður, 19. apríl 2011, var eftirstandandi skuld hans vegna tímabilsins 3. janúar til 31. mars 2011 að fjárhæð 65.676 kr. Þeirri fjárhæð var skipt í sex afborganir og greiddi kærandi þær fyrsta hvers mánaðar á tímabilinu 1. maí til 1. október 2011.

 

Skuld kæranda fyrir tímabilið 1. til 19. apríl 2011 nam 46.443 kr. Skorað var á kæranda að greiða skuldina með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. febrúar 2011. Í greinargerð stofnunarinnar, sem send var úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. mars 2013, kemur fram að í framangreindu innheimtubréfi sé tilgreind röng fjárhæð. Kærandi greiddi umrædda skuld dagana 1. apríl, 3. maí og 6. júní 2012 og er hann skuldlaus við Vinnumálastofnun.

Í kæru kemur fram að kærandi telji sig ekki skulda þá fjárhæð sem tilgreind er í innheimtubréfi Vinnumálastofnunar, (þar segir að hún nemi 57.389 kr., en hún nemur 46.443 kr.). Auk þessa óskar kærandi eftir 10% endurgreiðslu af 65.678 kr. endurgreiðslu sinni vegna málarekstrar og annarra óþæginda.

Í tölvupósti innheimtufulltrúa Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 6. mars 2012, kemur eftirfarandi fram:

Það er rétt og í samræmi við skráningu hjá okkur að þú hafðir greitt skuld sem var skráð þegar þú sagðir þig af bótum 65.678 kr. Sú skuld miðaðist þó aðeins við skerðingu bóta vegna tekna fram til 31. mars 2011. Þú afskráðir þig 20. apríl 2011 og varst með tekjur í þeim mánuði og er því sú upphæð, sem nú er verið að innheimta hjá þér, skerðing vegna tímans sem þú varst á bótum í apríl. Þetta kemur þó ekki í ljós fyrr en eftir að þú ert afskráður þannig að líkur eru á að þú hafi ekki séð greiðsluseðilinn með þessari skuldamyndun. Þar sem þú hafðir greitt allt annað þá var ekki lagt álag á upphæðina eins og lög gera ráð fyrir enda ljóst að þú vissir ekki af þessari skuldamyndun í apríl.“

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2013, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefjast endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum til kæranda sem fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. til 19. apríl 2011. Kærandi hafi þegið laun frá fyrirtækinu B. samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Þar sem tekjuáætlun vegna tilfallandi vinnu hans hafi ekki legið fyrir í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 3. janúar til 19. apríl 2011. Meginreglu um skerðingu atvinnuleysisbóta sé að finna í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Tekjur kæranda frá B. hafi í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komið til skerðingar á atvinnuleysisbótum hans. Sökum þess að tekjuáætlun vegna vinnu kæranda fyrir B. hafi ekki legið fyrir hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og við það hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar.

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, hafi verið skorað á kæranda að greiða útistandandi skuld við stofnunina. Samkvæmt 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kæranda borið að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Innheimta ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé byggð á 2. mgr. 39. gr. um atvinnuleysistryggingar.

 

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að kærandi hafi greitt inn á skuld sína við Vinnumálastofnun með greiðslum dagana 11. apríl, 3. maí og 6. júní 2012 samtals 46.443 kr. Hann sé því skuldlaus við stofnunina. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kæranda hafi borið að greiða framangreinda skuld í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. apríl 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 16. apríl 2013. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann þáði greiðslur frá B. Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt atvinnuleysisbóta vegna tekna þar sem segir:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Fyrir liggur að kærandi fékk launagreiðslur frá B. í janúar, febrúar, mars og apríl 2011 á sama tíma og hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Ekki lá fyrir tekjuáætlun í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar og fékk hann því ofgreiddar atvinnuleysisbætur á þessum tíma sem námu samtals 169.594 kr. Fjárhæð 57.457 kr. vegna tímabilsins 3. janúar til 31. mars 2011 var skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum kæranda. Kærandi greiddi skuld sína vegna tímabilsins 3. janúar til 31. mars 2011 að fjárhæð 65.676 kr. í sex greiðslum eins og rakið hefur verið. Skuld kæranda vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna tímabilsins 1. til 19. apríl 2011 nam 46.443 kr. og er það sú fjárhæð sem ágreiningur í máli þessu snýst um. Skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda er tilkomin vegna launatekna hans hjá B. í apríl 2011 að fjárhæð 300.171 kr. en á þeim tíma fékk hann einnig greiddar hjá Vinnumálastofnun 46.443 kr. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar var rétt og í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er hún staðfest.

 

Kærandi óskar 10% endurgreiðslu af 65.678 kr. sem hann endurgreiddi Vinnumálastofnun, vegna málarekstrar og annarra óþæginda. Í lögum um atvinnuleysistryggingar er ekki lagaheimild til slíkrar endurgreiðslu og er beiðni kæranda því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt var með innheimtubréfi, dags. 29. febrúar 2012, í máli A, þess efnis að kæranda hafi borið að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 46.443 kr., sem hann hefur þegar endurgreitt, er staðfest.

 

Beiðni kæranda um 10% endurgreiðslu af 65.678 kr. endurgreiðslu hans til Vinnumálastofnunar vegna málarekstrar og annarra óþæginda er vísað frá.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta