Hoppa yfir valmynd

Nr. 383/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. ágúst 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 383/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21050049

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. maí 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2021, um að dvalarleyfi sem honum var veitt með gildistíma frá 24. apríl 2021 til 27. apríl 2022 teljist vera fyrsta leyfi samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 í stað endurnýjunar á dvalarleyfi, sbr. 57. gr.

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að dvalarleyfið teljist vera endurnýjun, sbr. 57. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga, hinn 25. mars 2019 með gildistíma til 8. janúar 2020. Var dvalarleyfið svo endurnýjað með gildistíma til 8. janúar 2021. Kærandi sótti um endurnýjun á leyfinu hinn 9. febrúar 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2021, var kæranda veitt dvalarleyfi samkvæmt fyrri grundvelli með gildistíma frá 24. apríl 2021 til 27. apríl 2022 og tók stofnunin fram að umsóknin teldist vera fyrsta leyfi, sbr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði þann þátt ákvörðunarinnar til kærunefndar útlendingamála þann 25. maí 2021. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 27. júní 2021. Þann 1. júlí 2021 bárust kærunefnd upplýsingar frá Vinnumálastofnun. Þær upplýsingar voru kynntar umboðsmanni kæranda með tölvupósti hinn 5. ágúst 2021 og honum veittur frestur til að leggja fram andmæli eða önnur gögn. Engar athugasemdir eða gögn bárust frá kæranda.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að það væri afstaða Útlendingastofnunar m.t.t. fyrirliggjandi gagna að ekki væru fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Af því leiddi að umsóknin teldist vera fyrsta leyfi samkvæmt 51. gr. laganna. Yrði framangreint til þess að rof hefði myndast á samfelldri dvöl kæranda í skilningi laga um útlendinga og af því leiddi að samfelld dvöl kæranda yrði talin frá útgáfudegi þessa leyfis, þ.e. 24. apríl 2021. Vísaði Útlendingastofnun til þess að þetta yrði til þess að útlendingur missti uppsöfnuð réttindi til ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 58. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að litið skuli til upphaflegrar umsóknar hans og sé slík túlkun m.a. eðlileg í ljósi þess að almennt hafi umsækjendur kost á því að lagfæra umsókn eða koma að nauðsynlegum gögnum eftir að umsókn hefur verið lögð fram til Útlendingastofnunar. Í tilviki hans hafi upphafsdagur umsóknar verið þann 8. desember 2020 þegar gögn hafi verið lögð fram hjá Rafiðnaðarsambandinu. Framkvæmdastjóra […] hafi verið af hálfu starfsmanns Rafiðnaðarsambandsins leiðbeint um að leggja umrædda umsókn inn til Vinnumálastofnunar. Nokkrum dögum síðar hafi starfsmaður Vinnumálastofnunar haft samband við framkvæmdastjórann og hann verið upplýstur um að hann þyrfti fyrst að afhenda umsóknina til Útlendingastofnunar. Hafi starfsmaður Vinnumálastofnunar beðist velvirðingar á mistökum sínum en hann hafi ekki áttað sig á því að umsókninni hefði ekki verið skilað fyrst til Útlendingastofnunar. Vísar kærandi til þess að almennir borgarar þekki ekki málsmeðferðarreglur yfirvalda og eigi að geta treyst þeim upplýsingum sem þeim séu gefnar. Sé bæði óréttlátt og ósanngjarnt að erlendur ríkisborgari og almennir borgarar þurfi að bera tjón af röngum leiðbeiningum ofangreindra aðila.

Loks gerir kærandi athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Kærandi byggir á því að fjöldi málsmeðferðarreglna hafi verið brotnar við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sem leiði til þess að fella beri hinar kærðu ákvarðanir úr gildi. Helst beri að nefna leiðbeiningarreglu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en kæranda hafi ekki verið leiðbeint um réttaráhrif þess að breyta grundvelli dvalarleyfisumsóknar. Sömuleiðis hafi ómálefnaleg sjónarmið verið lögð til grundvallar sem og hafi rökstuðningi verið áfátt. Kærandi byggir í öðru lagi á því að fyrir hendi séu ríkar sanngirnisástæður fyrir því að umsókn hans skuli teljast sem endurnýjun á dvalarleyfi en ekki fyrsta leyfi. Við mat á því verði að líta til þess að Útlendingastofnun hafi metið að ríkar sanngirnisástæður væru fyrir hendi samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og af því leiði að einnig séu til staðar ríkar sanngirnisástæður í skilningi 4. mgr. 57. gr. Framangreindu til viðbótar sé eðlilegt og sanngjarnt að litið sé á umsókn hans sem endurnýjun dvalarleyfis þar sem kærandi hafi skilað inn formi að umsókn og gögnum líkt og um endurnýjun sé ræða. Einnig vísar kærandi til þess að eitt af markmiðum laga um útlendinga sé aukin mannúð en hin kærða ákvörðun sé gríðarlega íþyngjandi fyrir kæranda með tilliti til réttar til ótímabundins dvalarleyfis síðar. Vísar kærandi til úrskurða kærunefndar nr. 25/2021 og 170/2021 máli sínu til stuðnings.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Eins og greinir í II. kafla úrskurðarins var kærandi með útgefið samfellt dvalarleyfi samkvæmt 61. gr. laga um útlendinga á tímabilinu 25. mars 2019 til 8. janúar 2021. Kærandi sótti um endurnýjun á því leyfi þann 9. febrúar 2021 og fékk það útgefið sem fyrsta dvalarleyfi samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2021. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun barst umsóknin til Útlendingastofnunar hinn 9. febrúar 2021 en til Vinnumálastofnunar 13. apríl 2021. Ákvörðun Útlendingastofnunar hefur þær lögfylgjur í för með sér að rof er komið í samfellda dvöl kæranda sem m.a. hefur áhrif við mat á samfelldri dvöl skv. 58. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis innan gildistíma fyrra dvalarleyfis skuli réttur til dvalar falla niður og fara skuli með umsókn skv. 51. gr. Þá segir í 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis sem borist hefur eftir þann frest sem um getur í 2. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Í athugasemdum við ákvæði 4. mgr. 57. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

„Í 4. mgr. er veitt undantekning frá 3. mgr. samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar ef afsakanlegt er að umsókn hafi borist eftir tilskilinn frest eða vegna ríkra sanngirnisástæðna. Sem dæmi um afsakanleg tilvik má nefna ef útlendingur hefur verið alvarlega veikur eða hann hefur af óviðráðanlegum ástæðum þurft að fara fyrirvaralaust til heimalands án þess að hafa haft tök á að leggja inn umsókn um endurnýjun. Sem dæmi um tilvik, sem ekki falla undir greinina, er ef útlendingur ber því við að hann hafi ekki vitað að leyfi hans væri að renna út eða að umboðsmaður hans hafi gert mistök. Ef útlendingur sækir of seint um endurnýjun dvalarleyfis, þ.e. eftir að leyfi hans rennur út, er hann í þeirri stöðu að þurfa að sækja um nýtt leyfi en ekki endurnýjun. Þetta verður til þess að útlendingur missir uppsöfnuð réttindi til ótímabundins dvalarleyfis, eftir atvikum. Vegna þessa verður í anda markmiðs um mannúð að líta sérstaklega til þessa við ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein sem og hvort líklegt sé að dvalarleyfi fáist endurnýjað. Við mat á því hvort umsækjanda sé heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar hans skal hafa þýðingu hvort líklegt sé að dvalarleyfið verði veitt og hvort dvalarleyfi það er útlendingur óskar endurnýjunar á sé þess eðlis að það myndi grundvöll til ótímabundins dvalarleyfis. Hins vegar yrði að líta á það leyfi sem yrði eftir atvikum veitt sem nýtt leyfi.“

Eins og að framan greinir lagði kærandi fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis þann 9. febrúar 2021 eða um mánuði eftir að gildistíma fyrra dvalarleyfis rann út. Liggja engin gögn fyrir í málinu sem styðja staðhæfingu kæranda um að hann hafi lagt fram endurnýjun umsóknar fyrir það tímamark, en vikið er að því síðar í úrskurðinum. Er því ljóst að sú dvalarleyfisumsókn sem hin kærða ákvörðun snýr að var ekki lögð fram innan þeirra tímaskilyrða sem 2. mgr. 57. gr. áskilur.

Kemur þá næst til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli kæranda, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, svo líta beri á dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 9. febrúar 2021, sem endurnýjun á fyrra dvalarleyfi. Í greinargerð byggir kærandi m.a. á því að upphafsdagur umsóknar hafi verið þann 8. desember 2020 þegar gögn hafi verið lögð fram hjá Rafiðnaðarsambandinu. Þá hafi Framkvæmdastjóra […] verið af hálfu starfsmanns Rafiðnaðarsambandsins leiðbeint um að leggja umrædda umsókn til Vinnumálastofnunar.

Í ljósi þessarar málsástæðu kæranda óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá Vinnumálastofnun, þ.e. hvenær kærandi hefði lagt inn umsókn um atvinnuleyfi hjá Vinnumálstofnun síðast og hvort eða hvenær stofnunin hefði áframsent umsóknina á Útlendingastofnun og hvort kærandi hefði verið upplýstur um að sækja um endurnýjun dvalarleyfis hjá Útlendingastofnun fyrst. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kærunefndar, dags. 1. júlí 2021, kemur fram að kærandi hafi fengið útgefið tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar til starfa hjá […] þann 28. apríl 2021 og sé gildistíma þess til 27. apríl 2022. Samkvæmt upplýsingum úr kerfum stofnunarinnar hafi sú umsókn borist Útlendingastofnun þann 9. febrúar 2021 en til Vinnumálastofnunar þann 13. apríl 2021. Kærandi hafi áður haft gilt atvinnuleyfi á sama grundvelli og hjá sama atvinnurekanda frá 9. janúar 2020 til og með 8. janúar 2021. Í ákvörðunarbréfum til atvinnurekanda og starfsmanns, dags. 9. janúar 2020, hafi þeim verið leiðbeint um að endurnýjun atvinnuleyfis skuli lögð inn að minnsta kosti fjórum vikum fyrir gildistíma þágildandi leyfis og skuli beina umsókn til Útlendingastofnunar. Líkt og greinir í II. kafla úrskurðarins var bréf Vinnumálastofnunar kynnt umboðsmanni kæranda og honum veittur frestur með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að koma athugasemdum á framfæri vegna þessara upplýsinga. Engar athugasemdir eða gögn bárust frá kæranda.

Fyrirliggjandi gögn málsins styðja ekki þá staðhæfingu kæranda að umþrætt endurnýjun umsóknar hafi verið lögð fram áður en fyrra dvalar- og atvinnuleyfi rann út. Að mati kærunefndar eru skýringar kæranda því ekki þess eðlis að fyrir hendi séu ríkar sanngirnisástæður í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta