Nr. 180/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 180/2019
Þriðjudaginn 3. september 2019
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 14. maí 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. apríl 2019, um að afturkalla ákvörðun sína frá 2. júlí 2018, um bótahlutfall kæranda, á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 18. apríl 2018. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. júlí 2018, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 100%. Samkvæmt greiðsluseðlum atvinnuleysistrygginga fékk kærandi þó greitt í samræmi við 65% bótarétt frá umsóknardegi og þar til hann afskráði sig af atvinnuleysisskrá 1. apríl 2019. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. apríl 2019, var kæranda tilkynnt að mistök hafi verið gerð við útreikning á bótarétti hans. Ákvörðun um 100% bótarétt væri því afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bótaréttur metinn 65%.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. maí 2019. Með bréfi, dags. 15. maí 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. júní 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda við greinargerð bárust 26. júní 2019 og með bréfi, dagsettu sama dag, voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. júlí 2018 hafi kæranda verið ákvarðaður 100% bótaréttur atvinnuleysisbóta. Á þeim tímapunkti hafi það numið 279.720 kr. Lífeyrisgreiðslur kæranda, um það bil 54.000 kr. á mánuði fyrir skatta, hafi komið til frádráttar og útborgaðar atvinnuleysisbætur því verið um það bil 226.000 kr. fyrir skatt. Þannig hafi þetta verið til að byrja með en af einhverri ástæðu hafi orðið breytingar um mánaðamótin september/október 2018. Þrátt fyrir erindi til Vinnumálastofnunar hafi engin skýring verið gefin.
Það hafi ekki verið fyrr en hann hafi leitað til B. Þá hafi ekki komið neitt svar frá Vinnumálastofnun heldur aðeins barnalegt „af því bara“ svar um afturköllun ákvörðunar frá 2. júlí 2018. Rökstuðningur hafi hvorki borist kæranda né B samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðfylgjandi séu öll sömu gögn sem kærandi og B sendu Vinnumálastofnun. Kæranda hafi brugðið. Hann hafi verið í samskiptum við ákaflega færa starfsmenn Vinnumálastofnunar í Kringlunni og sé þakklátur fyrir þeirra aðstoð.
Það hafi ekki staðið til að fara taka ellilífeyri 1. maí 2019 sem hann hafi þó gert. Allur útreikningur hjá Tryggingastofnun sé eins og kærandi telji að hefði átt að gera hjá Vinnumálastofnun. Vegna þessa hafi kæranda ekki fundist hann fjárhagslega geta verið á atvinnuleysisskrá og telji að með þessu hafi hann verið beittur nauðung.
Að þessu sögðu þá leggi kærandi málið í hendur úrskurðarnefndar velferðarmála og ítreki að hann telji sig eiga inni um það bil 440.000 kr. hjá Vinnumálastofnun en ekki skulda þeim.
Vinnumálastofnun hafi tilkynnt kæranda á sínum tíma það sem rétt hafi verið og það sem kærandi hefði áður fengið að vita að réttur hans væri 100%, en til frádráttar kæmu lífeyrisgreiðslur hans. Þessu sé kærandi búinn að reyna vera að koma á framfæri frá því í október 2018.
Meðfylgjandi sé framtal fyrir árin 2018 og 2017 þar sem komi fram að kærandi hafi talið fram á þann hátt sem Vinnumálastofnun segi að kærandi hafi ekki gert og þessi gögn hafi þeir fengið strax í upphafi.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Áður en kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi hann starfað við eigin rekstur og teljist því vera sjálfstætt starfandi í skilningi b-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006. Útreikningur á bótarétti sjálfstætt starfandi einstaklinga fari eftir 19. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt 1. og 2. mgr. ákvæðisins beri Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga út frá því endurgjaldi sem viðkomandi reikni sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald atvinnuleitanda nái ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðist bótaréttur af hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Sjálfstætt starfandi einstaklingur geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra.
Bótaréttur kæranda byggi á vinnu hans sem sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. gr. laganna. Starf kæranda falli undir tekjuflokk D9 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settar samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Tekjuflokkur D9 taki til iðnaðarmanna sem starfi einn eða með einum starfsmanni. Flokkurinn eigi í raun einungis við um þá sem séu að hefja starfsemi í fyrsta sinn og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar. Viðmiðunartekjur Ríkisskattstjóra fyrir tekjuflokk D9 vegna ársins 2015 hafi verið 262.000 kr. á mánuði. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi hæstu mánaðarlaun kæranda numið á því tímabili 67% af viðmiðunartekjum Ríkisskattstjóra eða 175.000 kr. á mánuði. Þar sem kærandi hafði sótt um atvinnuleysisbætur þann 9. apríl 2018 hafi stofnuninni verið unnt að horfa aftur til 10. apríl 2015 við mat á bótarétti hans, sbr. 23. gr. laga nr. 54/2006. Á þessu tímabili hafi kærandi einungis verið með reiknað endurgjald í um sjö og hálfan mánuð og hafi bótahlutfall hans því reiknast 65%.
Það liggi fyrir að kæranda hafi verið birt röng tala í upprunalegri ákvörðun frá Vinnumálastofnun. Síðari leiðrétting á þeirri ákvörðun hafi ekki haft áhrif á greiðslur til hans heldur hafi honum eingöngu verið birt rétt tryggingarhlutfall með nýju erindi stofnunarinnar. Í VI. kafla stjórnsýslulaga sé að finna ákvæði er varði afturkallanir á ákvörðunum stjórnvalda. Samkvæmt 25. gr. laganna sé stjórnvaldi heimilt að taka aftur ákvörðun sína að eigin frumkvæði í þeim tilvikum þar sem ákvörðun verði að teljast ógildanleg. Upprunaleg ákvörðun í máli kæranda hafi verið haldin slíkum ógildingarannmörkum að stofnunin hafi talið sér skylt að birta kæranda nýja ákvörðun, enda hafði kærandi ekki áunnið sér rétt til fullra atvinnuleysisbóta. Kæranda hafi verið tilkynnt um leiðréttinguna um leið og hennar hafi verið vart.
Með hliðsjón af ofangreindum sjónarmiðum sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að tryggingarhlutfall kæranda sé rétt reiknað 65%.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. apríl 2019, um að afturkalla ákvörðun sína frá 2. júlí 2018, um bótahlutfall kæranda, á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun sé ógildanleg, sbr. 1. og 2. tölul. ákvæðisins. Við mat á heimild til afturköllunar ógildanlegra ákvarðana ber meðal annars að líta til réttmætra væntinga málsaðila, góðrar trúar og réttaröryggis.
Vinnumálastofnun byggir á því að upprunaleg ákvörðun í máli kæranda hafi verið haldin slíkum ógildingarannmörkum að stofnunin hafi talið sér skylt að birta kæranda nýja ákvörðun, enda hefði kærandi ekki áunnið sér rétt til fullra atvinnuleysisbóta. Kæranda hafi verið tilkynnt um leiðréttinguna með hinni kærðu ákvörðun.
Óumdeilt er að með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. júlí 2018 var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysistryggingar væri samþykkt með 100% bótarétti. Samkvæmt greiðsluseðlum atvinnuleysistrygginga fékk kærandi, frá umsóknardegi og þar til hann afskráði sig af atvinnuleysiskrá 1. apríl 2019, þó ætíð greitt í samræmi við 65% bótarétt. Því er ljóst að mistök áttu sér stað við formlega úrvinnslu ákvörðunarinnar hjá Vinnumálastofnun, enda var rétt bótahlutfall kæranda 65% lögum samkvæmt. Úrskurðarnefndin telur því að umrædd ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. júlí 2018 um 100% bótarétt hafi verið ógildanleg og bar stofnuninni því að afturkalla þá ákvörðun og taka nýja ákvörðun um bótarétt kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Með vísan til þessa er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. apríl 2019 um að afturkalla ákvörðun sína frá 2. júlí 2018 á grundvelli 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. apríl 2019, um afturköllun á ákvörðun stofnunarinnar frá 2. júlí 2018 er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson