Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 45/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 45/2017

Miðvikudaginn 31. maí 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. febrúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. janúar 2017 þar sem heimilisuppbót kæranda var stöðvuð.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er ellilífeyrisþegi og hefur verið með heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. janúar 2017, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun heimilisuppbótar hans þann 1. febrúar 2017 þar sem B, væri búsett á heimili kæranda. Stöðvunin myndi miðast við flutning B á heimili kæranda þann X 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 20. febrúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2017, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. apríl 2017, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva heimilisuppbót hans frá X 2016 verði dregin til baka.

Í kæru segir að barnabarn kæranda hafi verið með tímabundið lögheimili hjá honum vegna flutnings á milli landshluta. Kærandi hafi ekki haft neitt fjárhagslegt hagræði af því sambýli.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um stöðvun heimilisuppbótar kæranda frá 23. janúar 2016.

Kærandi hafi verið með heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. september 1997 þar sem hann sé ellilífeyrisþegi og einn um heimilisrekstur. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. janúar 2017, hafi verið stöðvaðar greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá og með 1. febrúar 2017 þar sem kærandi hafi ekki lengur uppfyllt skilyrði laga um að vera einn um heimilisrekstur eftir að barnabarn hans hafi verið skráð með tímabundið lögheimili hjá honum. Komið hafi í ljós við hefðbundið eftirlit hjá Tryggingastofnun að annar aðili hafi verið skráður með lögheimili hjá kæranda frá X 2016. Í framangreindu bréfi hafi jafnframt verið tekið fram að endurreiknuð yrði heimilisuppbót frá þeim tíma er Þjóðskrá bárust upplýsingarnar um að fleiri en kærandi væru skráðir til heimilis hjá honum. Í málinu hafi verið veittur frestur til andmæla og til að skila inn gögnum um að ekki væri fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Kærandi hafi ekki nýtt sér frestinn til andmæla en hafi hins vegar skilaði inn yfirliti yfir bankabók sína með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 1. febrúar 2017. Auk þess hafi kærandi lýst yfir í rökstuðningi með kærunni að hann hafi ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af sambýli við barnabarnið og að hann hafi einn séð um allan rekstur heimilisins, þrátt fyrir að barnabarnið hafi flutt lögheimilið sitt til hans tímabundið vegna flutnings á milli landshluta.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setja þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót eftir að barnabarn kæranda flutti lögheimili sitt til hans þann X 2016. Kærandi hafi þar af leiðandi frá því tímabili ekki uppfyllt það skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð að vera einn um heimilishald, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem bótaþegi þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á heimilisuppbót.

Tryggingastofnun telji ljóst að synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda vegna breyttra aðstæðna hans hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem býr með öðrum einstaklingi hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva heimilisuppbót kæranda vegna sambýlis með barnabarni hans frá X 2016 eða frá því að þau voru skráð með sameiginlegt lögheimili.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1052/2009, með síðari breytingum var sett á grundvelli 5. mgr. 9. gr. sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 8. gr. reglugerðarinnar, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.

Ef heimilismaður er á aldrinum 18-20 ára og í fullu námi skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða sam­lögum við hann. Þá skal einstaklingur sem er á aldrinum 20-25 ára og stundar nám fjarri lögheimili sínu ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við aðra ein­staklinga á skráðu lögheimili sínu og öfugt ef hann hefur sannarlega tímabundið aðsetur annars staðar.“

Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar grundvölluðust greiðslur heimilisuppbótar til X 2016 á því að kærandi væri einn um heimilisrekstur að C sem er skráð lögheimili hans. Eftir að upplýsingar bárust um að barnabarn hans væri skráð á sama lögheimili taldi stofnunin að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um að vera einn um heimilisrekstur. Úrskurðarnefndin fellst á að upplýsingar þess efnis að kærandi væri ekki skráður einn með lögheimili að C hafi gefið stofnuninni tilefni til að kanna hvort barnabarn hans væri í raun búsett á skráðu lögheimili og hvort kærandi nyti fjárhagslegs hagræðis af því sambýli, sbr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings um að ekki hafi verið um fjárhagslegt hagræði að ræða af sambýli með barnabarni hans. Athygli kæranda var vakin á því að myndi hann ekki leggja fram umbeðin gögn kynni það að leiða til þess að úrskurðað yrði honum í óhag. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn máli sínu til stuðnings og verður hann því að bera hallann af því.

Kærandi hefur ekki andmælt búsetu barnabarnsins. Úrskurðarnefndin telur að jafnan séu líkur á því og að eðlilegt sé að afkomendur á fullorðinsaldri sem búi hjá aðstandendum sínum hafi fjárhagslega aðkomu að heimilisrekstri. Kærandi hefur lagt fram yfirlit um greiðslur af bankareikningi máli sínu til stuðnings því að ekki hafi verið um fjárhagslegt hagræði að ræða af sambýlinu. Frekari gögn sem gætu varpað frekara ljósi á málið hefur hann ekki lagt fram, þrátt fyrir að honum hafi verið gefinn kostur á því. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála staðfesta fyrirliggjandi gögn ekki að kærandi hafi ekki haft fjárhagslegt hagræði af sambýli með barnabarni sínu. Ljóst er því að kærandi uppfyllti ekki lengur skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð um að vera einn um heimilisrekstur og án þess njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra frá þeim tíma þegar barnabarn hans flutti lögheimili sitt til hans.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda samþykkt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, frá X 2016, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta