Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 64/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 64/2017

Fimmtudaginn 8. júní 2017

A
gegn
Vestmannaeyjabæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. febrúar 2017, kærir B, hrl. f.h. A, ákvörðun Vestmannaeyjabæjar frá 30. nóvember 2016 um synjun á umsókn hans um ferðaþjónustu fatlaðra.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með bréfi til Fjölskyldu- og tómstundaráðs Vestmannaeyjabæjar, dags. 21. nóvember 2016, fór kærandi fram á að sveitarfélagið gerði við hann 12 mánaða tilraunasamning um allt að 60 leigubílaferðir í Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu í mánuði hverjum. Beiðni kæranda var tekin fyrir á fundi ráðsins þann 30. nóvember 2016 sem hafnaði erindinu á þeirri forsendu að það félli ekki undir reglur Vestmannaeyjabæjar um ferðaþjónustu.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vestmannaeyjabæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Vestmannaeyjabæjar barst með bréfi, dags. 23. febrúar 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. mars 2017. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. mars 2017, og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. mars 2017. Athugasemdir bárust frá Vestmannaeyjabæ með bréfi, dags. 28. apríl 2017, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí 2017. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. maí 2017, og voru þær sendar Vestmannaeyjabæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé lögblindur og teljist því fatlaður einstaklingur í skilningi 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Kærandi tekur fram að hann sé búsettur í Vestmannaeyjum og þurfi á leigubílaþjónustu að halda til þess að geta sinnt starfi sínu, námi, tómstundum, félagsstarfi og til að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og lifa innihaldsríku og ábyrgu lífi. Þá þurfi kærandi reglulega að sækja læknisferðir á höfuðborgarsvæðinu og hann stundi nám í Reykjavík. Kærandi bendir á að hann hafi ríka getu til að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og lifa innihaldsríku og ábyrgu lífi. Hann hafi mikla getu til að stunda atvinnu, nám, tómstundir, félagsstarf auk hvers konar samfélagsþátttöku og fleira. Til að geta nýtt getu sína þurfi kærandi hins vegar aðstoð samfélags síns í formi ákveðinnar þjónustu sem hafi það að markmiði að vega upp þá skerðingu sem hann búi við. Réttur hans til þessarar þjónustu leiði af ákvæðum stjórnarskrár, sér í lagi 76. gr., sem og ákvæðum almennra laga.

Kærandi vísar til þess að hann hafi þurft að sæta skerðingu á þeirri þjónustu sem honum sé nauðsynleg til að njóta þeirra mannréttinda sem kveðið sé á um í 76. gr. stjórnarskrárinnar. Skerðingin sé meðal annars til komin fyrir þær sakir að Vestmannaeyjabær veiti ekki þjónustu með leigubifreið heldur sé um sérhæfða þjónustu að ræða, sbr. 9. gr. reglna sveitarfélagsins um ferðaþjónustu. Þjónustan sé afmörkuð við ákveðna tímasetningu á virkum dögum og ekki veitt utan marka sveitarfélagsins. Kærandi hafi hins vegar þörf fyrir ferðaþjónustu með leigubifreiðum á öðrum tímum og á höfuðborgarsvæðinu. Með höfnun sveitarfélagsins um ferðaþjónustu með leigubifreiðum hafi kæranda verið mismunað um þá þjónustu sem honum sé nauðsynleg, meðal annars á grundvelli þeirrar atvinnu, náms, tómstunda og félagsstarfs sem hann hafi valið sér. Slík mismunun feli í sér brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar og byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum og tryggi ekki að jafnræðis sé gætt meðal borgaranna óháð þeirri atvinnu, tómstundum og félagsstarfi sem þeir hafi valið að stunda.

Kærandi tekur fram að samkvæmt 4. gr. laga nr. 59/1992 beri sveitarfélögin ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar. Í þeirri ábyrgð felist að tryggja fötluðum einstaklingi rétt á þjónustu til að sinna þeirri atvinnu sem hann stundi. Kærandi vísar til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en í 20. gr. sáttmálans sé sérstaklega fjallað um ferlimál fatlaðra einstaklinga. Þar komi fram að aðildarríki skuli gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir því að fatlaðir einstaklingar geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem þeir kjósi, og þegar þeim henti, gegn viðráðanlegu gjaldi. Þannig beri Vestmannaeyjabæ að veita fötluðum aðgang að ferðaþjónustu og tryggja þannig sjálfstæði þeirra sem einstaklinga. Slíkt sé í samræmi við markmið laga nr. 59/1992 sem sé að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til að lifa eðlilegu lífi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Enn fremur beri Vestmannaeyjabæ að tryggja raunverulegt aðgengi einstaklinga að ferðaþjónustu og felist það meðal annars í því að greiða fyrir þær ferðir sem fatlaður einstaklingur þurfi að fara til að geta meðal annars stundað atvinnu sína og nám. Ljóst sé að hin kærða ákvörðun brjóti gegn framangreindum skyldum sveitarfélagsins og rétti kæranda. Ákvörðunin sé því röng og fer kærandi fram á að hún verði ógilt.

Til stuðnings kæru sinni vísar kærandi einnig til Mannréttindasáttmála Evrópu, mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, Félagssáttmála Evrópu og alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Af ákvæðum framangreindra samninga, yfirlýsinga og sáttmála sé ljóst að íslenska ríkið hafi meðal annars skuldbundið sig til að tryggja kæranda rétt til þjónustu, sem geri honum kleift að lifa lífi sínu til jafns við aðra, hafa raunverulegan aðgang að, og geta sinnt, atvinnu sinni og námi. Vestmannaeyjabæ beri þannig að veita kæranda ferðaþjónustu sem uppfylli þær þarfir hans. Löggjafinn hafi enn fremur leitast við að uppfylla jákvæðar skyldur sínar með setningu laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt ákvæðum þeirra laga sé ljóst að sveitarfélögum beri að skapa skilyrði fyrir íbúa sveitarfélagsins sem búa við líkamlega fötlun til að lifa eðlilegu lífi. Ein leið til þess sé að veita einstaklingi ferðaþjónustu til að hann geti stundað atvinnu, nám, iðkað tómstundir og stundað það félagsstarf sem hann kjósi. Með ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að synja kæranda um ferðaþjónustu sniðgangi sveitarfélagið framangreindar skyldur sínar og brjóti gegn rétti kæranda. Ákvörðunin sé því röng og fer kærandi fram á að hún verði ógilt. Vestmannaeyjabær bendir einnig á að velferðarráðherra hafi gefið út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk. Reglurnar skýri nánar rétt fatlaðs fólks til ferðaþjónustu sveitarfélaga, meðal annars með því að varpa ljósi á inntak og fyrirkomulag slíkrar ferðaþjónustu og veita leiðbeiningar um þjónustuhætti og þjónustustig hennar.

Kærandi vísar til þess að í reglur Vestmannaeyjabæjar um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk kveði eingöngu á um almenna akstursþjónustu en ekki ferðaþjónustu með leigubifreiðum, óháð því hvað henti hverjum og einum einstaklingi. Kærandi geti hins vegar ekki nýtt sér þá almennu þjónustu sem sveitarfélagið bjóði upp á, sér í lagi þar sem lífi kæranda sé þannig háttað að hann eigi þess ekki kost að gera ráðstafanir vegna ferða sinna með sólarhrings fyrirvara líkt og reglurnar geri ráð fyrir. Auk þess myndi það hafa veruleg áhrif á kæranda að þurfa að sæta töfum og breytingum á áætlun. Þannig verði ekki séð að reglurnar séu í samræmi við leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin þar sem segi að sveitarfélag skuli leitast við að tryggja fjölbreytt þjónustuframboð á sviði ferðaþjónustu. Þá hafi kærandi mikla þörf fyrir ferðaþjónustu utan þess þjónustutíma sem Vestmannaeyjabær veiti ferðaþjónustu. Ekki sé nægjanlegt að einhver þjónusta sé til staðar heldur verður hún að vera með ákveðnum hætti og ná ákveðnum markmiðum. Lögbundin ferðaþjónusta við fatlaða einstaklinga hafi það grundvallarmarkmið að gera þeim kleift að lifa sem eðlilegustu lífi miðað við getu hvers og eins. Það sé því ekki hægt að setja alla fatlaða einstaklinga undir sama hatt og veita þeim sömu þjónustu. Þá skuli þjónustan tryggja sjálfstæði fatlaðs fólk með því að tryggja að þeir geti farið allra sinna ferða þegar þeim henti. Með hliðsjón af framangreindu og aðstæðum kæranda sé ljóst að eina leiðin til að tryggja honum þá aðstoð, sem geri honum kleift að lifa eðlilegu lífi, sé að Vestmannaeyjabær veiti honum ferðaþjónustu sem uppfylli þarfir hans og geri honum kleift að sinna þeirri atvinnu og því félagsstarfi sem hann hafi getu til og kjósi að stunda. Ekki sé til að dreifa sérákvæðum eða undanþágum sem leysi ákveðin sveitarfélög undan umræddri skyldu. Þá geti sveitarfélög ekki vikist undan skyldum sínum vegna sérstakra aðstæðna.

Kærandi tekur fram að í ákvæði 9. gr. reglna Vestmannaeyjabæjar um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, um að þjónustan sé veitt innan marka sveitarfélagsins, felist takmörkun á ferðaþjónustu sem eigi sér ekki stoð í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins sem geri sérstaklega ráð fyrir að ferðir geti náð út fyrir mörk sveitarfélags. Einnig sé um að ræða takmörkun á ákvæðum laga og stjórnarskrár og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland sé aðili að. Takmörkunin sé einnig í augljósri andstöðu við tilgang og markmið lagareglnanna sem séu grundvöllur ferðaþjónustunnar. Auk þess feli ákvæðið í sér mismunun eftir búsetu í andstöðu við jafnræðisregluna. Beiðni kæranda lúti að akstri á höfuðborgarsvæðinu til þess að geta sinnt námi en það falli undir 35. gr. laga nr. 59/1992. Þá gildi öll framangreind sjónarmið og reglur um ferðaþjónustu til að sækja heilbrigðisþjónustu. Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun feli í sér mismunun gagnvart kæranda í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrár, stjórnsýslulaga og alþjóðasamninga. Í fyrsta lagi sé kæranda mismunað með þeim hætti að honum sé gert ófært að standa jafnfætis ófötluðum. Í öðru lagi sé kæranda mismunað með þeim hætti að hann njóti ekki sömu þjónustu hjá Vestmannaeyjabæ og aðrir fatlaðir einstaklingar njóti innan annarra sveitarfélaga. Vestmannaeyjabær hafi ekki fært fyrir því rök að framangreind mismunun kæranda og takmarkanir á mannréttindum hans byggi á málefnalegum sjónarmiðum.

Kærandi bendir á að heimildarákvæði 3. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 feli einungis í sér heimild til þess að setja reglur um nánari útfærslu og framkvæmd þjónustunnar, en þjónustan skuli vera í fullu samræmi við ákvæði laganna og hinar leiðbeinandi reglur velferðarráðuneytisins. Hvergi sé að finna lagaheimild sem kveði á um að sveitarstjórnum sé heimilt að skerða þau réttindi sem kveðið sé á um í lögum nr. 59/1992 og reglum ráðuneytisins. Reglur Vestmannaeyjabæjar um ferðaþjónustu taki hvorki tillit til aðstæðna kæranda eða þeirra þarfa sem hann hafi fyrir þjónustu né getu hans til atvinnu- og samfélagsþátttöku. Reglurnar taki þannig ekki mið af þörfum hvers fatlaðs einstaklings fyrir sig, þvert gegn ákvæðum og markmiðum laga nr. 59/1992 og hinna leiðbeinandi reglna velferðarráðuneytisins. Samkvæmt lögmætisreglunni verði íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að byggjast á skýrri lagaheimild svo að hún geti talist lögmæt. Þannig sé hvergi að finna heimild Vestmannaeyjabæ til handa til þess að skerða þau réttindi sem kæranda séu tryggð með stjórnarskrá, lögum og alþjóðasáttmálum. Ákvörðunina skorti því lagastoð og sé þar með ólögmæt.

Kærandi byggir einnig á því að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið farið að formreglum stjórnsýsluréttar. Hvorki aðstæður kæranda né þörf fyrir hina umbeðnu aðstoð hafi verið skoðaðar með fullnægjandi hætti. Það fari í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og meginregluna um skyldubundið mat. Þá hafi ekki verið gætt að andmælarétti kæranda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vestmannaeyjabæjar kemur meðal annars fram að á sveitarfélaginu hvíli sú skylda að meta þörf kæranda til ferðaþjónustu, sbr. 1. mgr. 3. gr. leiðbeinandi reglna velferðarráðuneytisins. Það sama leiði einnig af meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat stjórnvalda og rannsóknarreglunni. Um sé að ræða sjálfstæða skyldu sveitarfélagsins og því ekki hægt að halda því fram að kærandi þurfi að ganga á eftir sveitarfélaginu til þess að það fullnægi lögbundnum skyldum sínum. Kærandi hafi ekki verið boðaður í þjónustuviðtal í tengslum við umsókn sína og því sé ljóst að sveitarfélagið hafi vanrækt skylduna til að meta þörf kæranda til ferðaþjónustu. Þannig liggi fyrir að Vestmanneyjabær hafi ekki tekið tillit til sérstakra aðstæðna kæranda sem hann hafi vísað til. Kærandi áréttar að reglur sveitarfélagsins geti hvorki takmarkað lögbundnar skyldur þess til að veita ferðaþjónustu né skert lögbundin stjórnarskrárvarin réttindi kæranda til slíkrar þjónustu. Að mati kæranda geti það ekki talist ósamrýmanlegt jafnréttissjónarmiðum að meta sérstaklega aðstæður fatlaðs einstaklings og veita honum þjónustu í samræmi við þarfir hans. Þá sé afstaða Vestmannaeyjabæjar að þessu leyti í beinu ósamræmi við fyrri ákvarðanir í tengslum við málefni kæranda en hann hafi áður fengið niðurgreiddar allt að 60 leigubílaferðir á mánuði frá sveitarfélaginu. Þá hafi farið fram sjálfstætt mat á þörfum kæranda til ferðaþjónustu og verið fallist á beiðni hans um niðurgreiðslu leigubílaferða. Slíkt úrræði, til að tryggja sjálfstæði og mannréttindi kæranda, hafi ekki verið talið brjóta í bága við jafnréttissjónarmið og verði ekki séð að slíkar röksemdir eigi nú við um sambærilega umsókn kæranda. Kærandi bendir á að málatilbúnaður hans lúti ekki að því að sveitarfélagið hafi með beinum hætti komið í veg fyrir að hann sæki sér leigubílaþjónustu, enda sé slík valdbeiting ekki heimil. Hins vegar liggi fyrir að höfnunin á umsókn kæranda hafi þau óbeinu áhrif að kæranda sé gert ókleift að sækja sér nauðsynlega þjónustu og brjóti jafnframt í bága við lögbundin og stjórnarskrárvarin réttindi hans.

Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur meðal annars fram að kærandi sé ósammála sveitarfélaginu um að atvinnustaða hans hafi áhrif á skyldu þess til að veita honum fullnægjandi ferðaþjónustu til og úr vinnu. Kærandi ítrekar aðstæður sínar og bendir á að hann sé algjörlega háður hjálp vina og vandamanna eða þjónustu leigubifreiða þegar ferðaþjónusta sveitarfélagsins sé ekki í boði. Þá bendir kærandi á að Vestmannaeyjabær hafi hafnað umsókn hans á þeim grunni að reglur sveitarfélagsins væru í samræmi við lög og reglur og að því væri ekki skylt að veita kæranda umbeðna ferðaþjónustu. Því telji kærandi að þjónustumat muni hvorki hafa áhrif á málatilbúnað kæranda né afstöðu hans.

III. Sjónarmið Vestmannaeyjabæjar

Í greinargerð Vestmannaeyjabæjar kemur fram að kæranda hafi verið fullkunnugt um þá þjónustu sem í boði sé samkvæmt reglum um ferðaþjónustu sveitarfélagsins. Hann hafi ekki verið tilbúinn til að þiggja þá þjónustu heldur viljað fá einstaklingsbundinn tilraunasamning um allt að samtals 60 leigubílaferðir í Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu í mánuði hverjum. Kæranda hafi einnig verið fullkunnugt um að æskilegt væri að gera þjónustumat til að meta þörfina og finna ásættanlega niðurstöðu um ferðaþarfir utan þjónustutíma ferðaþjónustunnar. Kærandi hafi viljað láta reyna á ósk sína um leigubílaþjónustu í Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu.

Vestmannaeyjabær tekur fram að mikilvægt sé að gæta jafnræðis í þjónustu. Engin mismunun sé falin í því að fara eftir reglum um ferðaþjónustu sem gildi fyrir alla þjónustuþega sem eigi rétt á henni samkvæmt 2. gr. reglnanna. Kærandi eigi rétt á þjónustu samkvæmt reglunum sem hann hafi hafnað og viljað sérmeðhöndlun. Sveitarfélagið hafni því að fara aðrar leiðir í þeirri þjónustu á meðan ekki liggi fyrir frekari rökstuðningur. Þá tekur sveitarfélagið fram að ásakanir kæranda um að hin kærða ákvörðun vegi meðal annars að stjórnarskrárrétti, jafnræðisreglu, alþjóðarétti og lögum nr. 59/1992 séu alvarlegar og særandi. Vestmannaeyjabær hafi á engan hátt hindrað kæranda að sækja sér leigubílaþjónustu. Erindi kæranda snúist frekar um það hver eigi að greiða fyrir þá þjónustu.

Í greinargerð Vestmannaeyjabæjar vegna athugasemda kæranda kemur fram að sveitarfélagið telji reglur þess um ferðaþjónustu fatlaðra í öllu samrýmast lögum nr. 59/1992 sem og leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk. Kærandi telji að hann þurfi aðra og frekari þjónustu en þá sem sé í boði, meðal annars þar sem hann sé sjálfstæður atvinnurekandi. Vestmannaeyjabær hafni því að kærandi eigi rétt á ferðaþjónustu með leigubifreiðum samkvæmt lögum nr. 59/1992 og geti ekki nýtt sér þá ferðaþjónustu sem sé í boði samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Þá þurfi einnig að líta til þess að atvinnurekendur geri almennt ráð fyrir því í sínum rekstri að kostnaður vegna nauðsynlegra ferða í þágu atvinnurekstursins sé hluti rekstrarkostnaðar en teljist ekki, eins og kærandi krefjist, hluti af ferðaþjónustu þeirri sem fatlaðir eigi rétt á. Vestmannaeyjabær tekur fram að það hafi verið skilningur sveitarfélagsins að kærandi vilji láta reyna á kröfur sínar án þess að sérstakt þjónustumat fari fram. Sveitarfélagið sé ekki sammála kæranda og telur eðlilegt að sérstakt þjónustumat fari fram. Ef afstaða kæranda hvað það varði sé breytt sé sveitarfélaginu ekkert að vanbúnaði að hefja slíkt þjónustumat.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að synja umsókn kæranda um ferðaþjónustu fatlaðra. Beiðni kæranda fólst nánar tiltekið í því að sveitarfélagið myndi gera við hann 12 mánaða tilraunasamning um allt að 60 leigubílaferðir í Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu í mánuði hverjum.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laga um málefni fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðs fólks til ferðaþjónustu en þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu en markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur fram í 2. mgr. 35. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega.

Í 3. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á grundvelli ákvæðisins. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk kemur fram að reglunum sé ætlað að vera til hliðsjónar og stuðla að samræmi á milli sveitarfélaga og þjónustusvæða. Í 3. gr. reglnanna segir meðal annars að viðmið um ferðafjölda skuli taka mið af þörfum hvers og eins. Þá segir að ferðir vegna afþreyingar eða tómstunda skuli metnar í samráði við hvern og einn og í öllum tilfellum skuli meta þarfir og markmið viðkomandi einstaklings og getu hans til að ná þeim markmiðum. Í 8. gr. reglnanna kemur fram að framkvæmd ferðaþjónustu skuli styðja við það markmið að efla vald fatlaðs fólks yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja félagslega stöðu þess, sjálfsvirðingu og lífsgæði. Reglur sveitarfélags skuli ganga út frá því að aðstæður hvers einstaklings eigi að meta sérstaklega. Þar beri að meta markmið einstaklingsins, meðal annars hvað varðar atvinnu, nám og tómstundir og hvaða þarfir hann hafi fyrir ferðaþjónustu sem myndi gera honum kleift að ná þeim markmiðum.

Að framangreindu virtu er ljóst að meðal þess sem líta verður til við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk er þörf þess fyrir slíka þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Óumdeilt er að slíkt mat fór ekki fram varðandi umsókn kæranda um ferðaþjónustu fatlaðra, en að mati úrskurðarnefndarinnar hefði átt að beina umsókn kæranda í slíkt ferli eftir að hún barst sveitarfélaginu. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vestmannaeyjabæ að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, frá 30. nóvember 2016, um synjun á umsókn A, um ferðaþjónustu fatlaðra er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta