8/2020 A gegn Háskóla Íslands
Ár 2021, 24. febrúar, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður og Eva Halldórsdóttir lögmaður, málinu
nr. 8/2020
A
gegn
Háskóla Íslands
með svohljóðandi
Ú R S K U R Ð I
I.
Málsmeðferð
Mál þetta hófst með kæru A, dags. 30. nóvember 2020 (hér eftir „kærandi“), þar sem kærð er ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í málinu nr. 2020/3 og sú krafa gerð að úrskurðurinn verði endurskoðaður og að ályktun hans um að „kennsluáætlun sé óheppilega orðuð“ sé fylgt eftir og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Niðurstaða kærunefndarinnar var að hafna kröfu um endurskoðun á ákvörðun deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar frá 9. september 2020, þar sem því var hafnað að nemendur í námskeiðinu Klínísk bráðahjúkrun (HJÚ0AOF) gætu tekið hluta af klínísku námi sínu á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri.
Viðbrögð Háskóla Íslands (hér eftir „HÍ“) við kærunni bárust 23. desember 2020. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við afstöðu skólans, en engar athugasemdir bárust. Ekki var haldinn fundur með málsaðilum í samræmi við 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema þar sem kærandi svaraði ekki tölvupóstum nefndarinnar.
II.
Málsatvik
Kærandi er nemandi í diplómanámi í bráðahjúkrun við HÍ. Þann 11. júní 2020 sendi kærandi, ásamt sjö samnemendum, bréf til formanns námsnefndar um diplómanám á framhaldsstigi í bráðahjúkrun þar sem óskað var eftir að nemendurnir fengju hluta af vinnu sinni á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri metna í klínísku námi í námskeiðinu Klínísk bráðahjúkrun (HJÚ0AOF). Formaður námsnefndar svaraði bréfinu þann 8. júlí 2020 og taldi að ekki væri tilefni til að verða við beiðni nemendanna. Í bréfinu var á það bent að samkvæmt námskeiðsáætlun og kennsluskrá yrði klíníska námið í námskeiðinu að fara fram á Landsspítala eða 3.-4. stigs bráðamóttöku erlendis. Þá sagði einnig að bráðamóttaka Landspítalans væri eina 3.-4. stigs bráðamóttakan á Íslandi með allar þær sérgreinar sem skilgreining um 4. stigs sjúkrahúss byggði á. Af þessum sökum gæti þetta tiltekna námskeið að svo stöddu ekki farið fram á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri en vonandi gæti orðið svo í framtíðinni.
Í kjölfar bréfs formanns námsnefndar sendu nemendurnir kvörtun sem barst deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar þann 11. ágúst 2020. Í kvörtuninni var farið fram á að niðurstaða námsnefndarinnar yrði endurskoðuð og hún felld úr gildi. Í kvörtuninni er m.a. vísað til þess að samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis hafi það ekki staðið fyrir vinnu við að staðfæra eða gera úttekt á bráðamóttökum hér á landi sem byggðist á svonefndu ACEM-flokkunarkerfi (e. Australian College for Emergency Medicine). Þá var vísað til þess að heilbrigðisráðuneytið hafi staðfest að ACEM-flokkunin hefði ekki verið staðfærð fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu. Enn fremur var í kvörtuninni vísað til þess að samstarfsmenn nemendanna á Sjúkrahúsinu á Akureyri vissu ekki til þess að framkvæmd hefði verið úttekt á bráðamóttöku sjúkrahússins sem byggðist á ACEM-flokkuninni. Með vísan til framangreinds kemur fram í kvörtuninni að fyrir liggi að ekki hafi farið fram úttekt á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri. Jafnframt er dregið í efa gildi ACEM-flokkunarkerfisins þar sem það hafi ekki verið staðfært fyrir bráðamóttöku í íslensku heilbrigðiskerfi.
Varðandi hæfniviðmið er vísað til tveggja yfirlýsinga sem fylgdu kvörtuninni. Annars vegar frá framkvæmdastjóra hjúkrunar, forstöðuhjúkrunarfræðingi bráðamóttöku og forstöðulækni bráðalækninga Sjúkrahússins á Akureyri, þar sem fullum stuðningi var lýst við beiðni nemendanna um heimild til að taka hluta klíníska hluta námskeiðsins á sjúkrahúsinu. Hins vegar yfirlýsingum frá nýsjálenskum bráðalækni á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem að sögn þekkir vel til ACEM-flokkunarinnar og hefur unnið samkvæmt henni. Vísað er til þess að í þeirri yfirlýsingu komi fram að með því að fá tíma á Sjúkrahúsinu á Akureyri metna í klíníska hluta námskeiðsins væri með engum hætti veittur afsláttur af kröfum námsins heldur komið til móts við starfsreynslu og þekkingu nemendanna. Teldu nemendurnir að við ákvörðun sína hefði námsnefnd annað hvort látið hjá líða að kynna sér fyrirliggjandi upplýsingar um bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri eða a.m.k ekki aflað fullnægjandi gagna til þess að ná mætti upplýstri niðurstöðu í málinu. Þá var því haldið fram að með synjun um að taka a.m.k. hluta klíníska námsins á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri væri þeim mismunað á grundvelli búsetu.
Þann 9. september 2020 tók deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar ákvörðun samkvæmt 50. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands, þar sem því var hafnað að fella ákvörðun námsnefndar úr gildi. Í ákvörðuninni kemur fram að samkvæmt 3. mgr. 54. gr. reglnanna sé deildum heimilt að setja reglur um skyldu stúdenta til þátttöku í einstökum námskeiðum, æfingum, verklegu námi og vettvangsþjálfun, svo og reglur um leiðbeiningar og umsjón með námi stúdenta að öðru leyti. Slíkar reglur deilda skuli birtar í kennsluskrá. Í ákvörðuninni er jafnframt tekið fram að skýrt væri samkvæmt kennsluskrá að klínískt nám gæti eingöngu farið fram hérlendis á Landspítalanum. Reglan væri skýr og ótvíræð og ekki væri vafi um túlkun hennar. Nemendum hafi mátt vera ljóst um skilyrðin við upphaf náms og því þótti ekki koma til álita að fella úr gildi ákvörðun námsnefndarinnar.
Ein af samnemendum kæranda kærði ákvörðun deildarforseta til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í september 2020. Í kærunni gerir kærandi kröfu um endurskoðun á ákvörðun deildarforseta, nánar tiltekið „að ágæti bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri sé skoðað og metið áður en ákvörðun er tekin um það að hún sé ekki nægilega hæf til að sinna þessu verkefni“. Í umfjöllun nefndarinnar um kæruefnið kemur m.a. fram að þótt kæran sé í nafni tiltekins samnemenda kæranda sé ljóst að hún sé lögð fram fyrir hönd átta nemenda við Hjúkrunarfræðideild sem höfðu komið fram í sameiningu gagnvart Hjúkrunarfræðideild á fyrri stigum málsins. Kærandi var ein þeirra.
Í úrskurðinum er tekið fram að með tölvubréfi kærunefndarinnar frá 23. október 2020 hafi verið óskað eftir afstöðu deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar til kærunnar. Svar hafi borist frá deildarforseta með bréfi, dags. 26. október 2020, þar sem greint sé frá því að það sem fram komi í kennsluskrá geri ekki ráð fyrir að fram fari mat á því hvort Sjúkrahúsið á Akureyri teljist 3.-4. stigs bráðamóttaka. Hafi í því sambandi verið vísað til þess að nemendur skuli taka klínískt nám annað hvort við bráðamóttöku Landsspítala eða á 3. eða 4. stigs bráðamóttöku háskólasjúkrahúss erlendis. Þá komi þar fram að Sjúkrahúsið á Akureyri sé ekki háskólasjúkrahús heldur kennslusjúkrahús samkvæmt skilgreiningu laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Kæranda í málinu fyrir kærunefndinni var gefinn kostur á að svara athugasemdum deildarforsetans, en ekki bárust frekari sjónarmið kæranda.
Niðurstaða kærunefndarinnar í máli nr. 2020/3, dags. 24. nóvember 2020, var sú að kröfu um endurskoðun á ákvörðun deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar frá 9. september 2020 var hafnað.
Byggði nefndin á því að almennt yrði að leggja til grundvallar að ekki megi gera vægari kröfur til verklegs náms sem fram fari erlendis en hér á landi. Hins vegar hafi komið fram í kennsluskrá að gerð væri krafa um að í skiptinámi færi klíníski hluti þess fram á bráðamóttöku á háskólasjúkrahúsi. Fyrir lægi að Sjúkrahúsið á Akureyri væri ekki háskólasjúkrahús heldur kennslusjúkrahús samkvæmt skilgreiningu 9. tl. 4. gr. og 21. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Taldi nefndin að ekki yrði annað séð en að krafan um að klíníski hluti námsins færi fram á háskólasjúkrahúsi væri hlutlæg og málefnaleg. Þar sem Sjúkrahúsið á Akureyri uppfyllti ekki umrætt skilyrði yrði þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfunum.
Í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar vakti nefndin hins vegar athygli á að í kennsluskrá fyrir umrædd námskeið kæmi fram að nemendur væru í starfi hjúkrunarfræðinga (eða ráðnir í starf) á bráðamóttöku Landsspítala að hluta eða öllu leyti, eða í klínísku námi á 3. eða 4. stigs háskólasjúkrahúsi erlendis í gegnum skiptinám (samþykkt af umsjónarkennara). Það væri hins vegar ekki fullt samræmi um þessar kröfur í öðrum gögnum málsins. Þannig kæmi t.d. ekki fram í auglýsingu um námið á heimasíðu HÍ að gerð væri krafa um að bráðamóttakan erlendis væri á háskólastigi. Taldi nefndin þetta ósamræmi óheppilegt og beindi þeim tilmælum til deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar að tryggja að samræmis væri gætt í upplýsingagjöf um umrætt námskeið.
Þá kom fram í úrskurðinum að ef Hjúkrunarfræðideild teldi, á grundvelli sinnar fagþekkingar, að til greina kæmi að heimila klínískan hluta námsins á kennslusjúkrahúsi væri þeim tilmælum jafnframt beint til deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar að hlutast til um að lagt yrði sjálfstætt og efnislegt mat á hvort Sjúkrahúsið á Akureyri uppfyllti þau skilyrði sem eðlilegt væri að setja með hliðsjón af gæðakröfum deildarinnar.
Líkt og rakið er hér að framan hefur kærandi, með kæru dagsettri 30. nóvember 2020, kært framangreinda ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í málinu nr. 2020/3 til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.
III.
Málsástæður kæranda
Í kæru er vísað til þess að fyrir kærunefnd í málefnum nemenda við Háskóla Íslands hafi verið óskað eftir og færð rök fyrir því að bráðamóttakan á Sjúkrahúsinu á Akureyri væri hæf til að taka á móti hjúkrunarfræðingum í sérnámi á sínu klíníska starfstímabili. Bent er á að í auglýsingu vegna námsins hafi komið fram að deildin þyrfti að vera 3.-4. stigs bráðamóttaka samkvæmt erlendum staðli sem ekki hafi verið staðfærður á Íslandi. Þá er tekið fram að í verkefnalýsingu vegna námsins hafi komið fram að sækja mætti um að fara á bráðamóttöku erlendis að því gefnu að kennarar í náminu samþykktu þá deild. Enn fremur er á það bent að í kennsluáætlun væri ekki tilgreint að nauðsynlegt væri að bráðamóttakan væri á háskólasjúkrahúsi. Þá er, með vísan til sjónarmiða um jafnræði, vakin athygli á að læknar í sérnámi í bráðalækningum geti skilað hluta af sínu klíníska starfstímabili á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Í kærunni er einnig tekið fram að óskað hafi verið eftir því að formlegt mat færi fram á hæfi bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri þannig að unnt væri að taka upplýsta ákvörðun um hæfi deildarinnar til að taka á móti nemendum á þessu stigi náms.
Að þessu virtu væri sú krafa gerð að ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands yrði endurskoðuð og að ályktun nefndarinnar um „að kennsluáætlun sé óheppilega orðuð“ verði fylgt eftir og viðeigandi ráðstafanir gerðar.
IV.
Málsástæður Háskóla Íslands
Í athugasemdum HÍ er vísað til þess að málið snúist um það hvort sú ákvörðun námsnefndar diplómanáms í bráðahjúkrun í máli kæranda og annarra nemenda, að hafna beiðni þeirra um leyfi til þess að þreyta hluta af klínísku námi í námskeiðinu Klínísk bráðahjúkrun (HJÚ0AOF) við bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, hafi verið lögmæt.
Vísað er til þess að hlutverki kennsluskrár Háskóla Íslands sé lýst í 23. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Í 3. mgr. 54. gr. þeirra komi fram að deildum sé heimilt að setja reglur um skyldu stúdenta til þátttöku í einstökum námskeiðum, æfingum, verklegu námi og vettvangsþjálfun, svo og reglur um leiðbeiningar og umsjón með námi stúdenta að öðru leyti. Reglur deilda um þetta skuli birtar í kennsluskrá. Á grundvelli þeirrar heimildar hafi Hjúkrunarfræðideild sett eftirfarandi reglu sem birtist á upplýsingasíðu námsins í kennsluskrá:
„Nemendur eru í starfi hjúkrunarfræðinga (eða ráðnir í starf) á bráðamóttöku Landspítala að hluta eða öllu leyti eða í klínísku námi á 3. eða 4. stigs bráðamóttöku háskólasjúkrahúss erlendis í gegn um skiptinám (samþykkt af umsjónarkennara)“.
Framangreind regla sé skýr og valdi ekki vafa um túlkun. Það sé ljóst að bráðamóttaka Sjúkrahússins á Akureyri sé ekki bráðamóttaka 3. eða 4. stigs háskólasjúkrahúss erlendis enda sé ekki deilt um það.
Þá bendir HÍ á að í rökstuðningi kæranda til áfrýjunarnefndarinnar komi fram að sá staðall sem notast hafi verið við til að meta bráðamóttökur hafi ekki verið staðfærður fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Af þessu tilefni tekur HÍ fram að enda þótt regla hjúkrunarfræðideildar styðjist við tiltekið flokkunarkerfi, þar sem einungis þær bráðamóttökur háskólasjúkrahúsa erlendis sem teljist vera á 3. eða 4. stigi komi til greina í skiptinámi nemenda, sé umsjónarkennara falið að leggja mat á það hvort viðkomandi háskólasjúkrahús uppfylli kröfur sem gerðar séu í náminu við Háskóla Íslands. Sé það í samræmi við það að háskólakennarar og -deildir beri ábyrgð á námsmati og gæðum náms samkvæmt reglum skólans. Í þessu sambandi vísar HÍ til svarbréfs formanns námsnefndar til kæranda og annarra nemenda 9. júní sl. þar sem ítarlega hafi verið greint frá því hvaða hæfniviðmið væru lögð til grundvallar í náminu og hvers vegna einsýnt þætti að námskeiðið yrði kennt á Landspítala.
HÍ vísar einnig til þess að líkt og fram hafi komið í niðurstöðu kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands sé gerð krafa um að klíníski hluti námsins fari fram á háskólasjúkrahúsi hvort sem er hér á landi eða erlendis. Sú krafa sé hlutlæg og málefnaleg. Sjúkrahúsið á Akureyri sé ekki háskólasjúkrahús heldur kennslusjúkrahús samkvæmt skilgreiningu 9. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Þá er á það bent að námsleiðin hafi verið skipulögð í samstarfi við Landspítala enda sé meðferð sjúklinga samþætt kennslu og rannsóknum í daglegum störfum á spítalanum og margir starfsmenn spítalans séu einnig í starfi við háskólann eða í nánum tengslum við hann.
Varðandi röksemd kæranda, að læknar sem leggi stund á sérnám í bráðalæknisfræði við Landspítala geti tekið hluta sérnáms við Sjúkrahúsið á Akureyri, bendir HÍ á að sérnám í bráðalæknisfræði sé ekki á vegum HÍ. Um sé að ræða sex ára sérnám á vegum bráðadeildar á flæðasviði Landspítala sem hlotið hafi viðurkenningu sem kennslustofnun í bráðalækningum sbr. reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Af þeim sex árum sem læknir sé í sérnáminu sé honum heimilt að verja allt að sex mánuðum við Sjúkrahúsið á Akureyri og auk þess skylt að verja a.m.k. sex mánuðum á bráðadeild erlendis sem hlotið hafi viðurkenningu þar til bærra yfirvalda í því landi til sérmenntunar í bráðalækningum. Þannig sé um að ræða ósambærilegar námsleiðir á vegum mismunandi stofnana og um þær gildi ólíkar reglur.
Að öðru leyti vísar HÍ til þess sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun námsnefndar dags. 8. júní sl. ásamt niðurstöðum deildarforseta dags. 9. september og kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands dags. 23. nóvember 2020.
V.
Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort að heimilt hafi verið að synja kæranda að taka hluta af klínísku námi sínu í námskeiðinu Klínísk bráðahjúkrun (HJÚ0AOF) á Sjúkrahúsinu á Akureyri í stað Landspítala.
Samkvæmt 23. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands skal í kennsluskrá m.a. gerð grein fyrir skipan náms á hverju fræðasviði og í hverri deild, stjórn fræðasviðs og deildar, námsleiðum, inntökuskilyrðum, námskröfum og hæfniviðmiðum, námsframvindu, hámarksnámstíma og prófgráðum, námskeiðum sem í boði eru og vægi þeirra, kennslumisserum, kennslufyrirkomulagi og kennsluaðferðum, námsefni, námsmati og prófkröfum, starfsþjálfun, æfingum og öðru því sem viðkemur náminu, eftir því sem við á. Í 3. mgr. 54. gr. sömu reglna kemur fram að deildum sé heimilt að setja reglur um skyldu stúdenta til þátttöku í einstökum námskeiðum, æfingum, verklegu námi og vettvangsþjálfun, svo og reglur um leiðbeiningar og umsjón með námi stúdenta að öðru leyti. Reglur deilda um þetta skulu birtar í kennsluskrá.
Á grundvelli framangreindra heimilda í reglum nr. 569/2009 setti Hjúkrunarfræðideild eftirfarandi reglu sem birtist í kennsluskrá fyrir námskeiðið: „Nemendur eru í starfi hjúkrunarfræðinga (eða ráðnir í starf) á bráðamóttöku Landspítala að hluta eða öllu leyti eða í klínísku námi á 3. eða 4. stigs bráðamóttöku háskólasjúkrahúss erlendis í gegn um skiptinám (samþykkt af umsjónarkennara)“.
Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema tekur undir með kærunefnd í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í máli nr. 2020/3 að ekki verði annað séð en að krafan um að klíníski hluti námsins fari fram á háskólasjúkrahúsi sé hlutlæg og málefnaleg. Þar sem fyrir liggur að Sjúkrahúsið á Akureyri er kennslusjúkrahús en ekki háskólasjúkrahús uppfyllir sjúkrahúsið ekki umrætt skilyrði. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um viðurkenningu á því að óheimilt hafi verið að synja kæranda að taka hluta af klínísku námi sínu í námskeiðinu Klínísk bráðahjúkrun (HJÚ0AOF) á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Á hinn bóginn tekur áfrýjunarnefndin undir þá ályktun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í máli nr. 2020/3 að ákveðins ósamræmis gæti í upplýsingum um umrætt námskeið, hvað varðar kröfur um bráðamóttökur erlendis. Æskilegt væri að þetta ósamræmi yrði leiðrétt þannig að ekki leiki á því vafi að gerð sé sú krafa að bráðamóttökur erlendis séu á háskólasjúkrahúsum. Framangreint breytir hins vegar ekki efnislegri niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar, enda er Sjúkrahúsið á Akureyri íslenskt kennslusjúkrahús en ekki háskólasjúkrahús og því máttu nemendur vita, miðað við þær upplýsingar sem fram komu í kennsluskrá, þeim væri ekki heimilt að taka hluta af klínísku námi sínu í námskeiðinu Klínísk bráðahjúkrun (HJÚ0AOF) á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands frá 24. nóvember 2020 í máli nr. 2020/3.
Einar Hugi Bjarnason
Daníel Isebarn Ágústsson Eva Halldórsdóttir