Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 476/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 476/2017

Miðvikudaginn 14. febrúar 2018

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 22. desember 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 11. desember 2017 á umsókn um styrk til kaupa á heyrnartæki.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 5. desember 2017, var sótt um styrk til kaupa á heyrnartæki. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 11. desember 2017, var umsókn kæranda synjað. Í bréfinu segir að ástæða synjunar sé sú að umsókn kæranda falli ekki undir reglugerð nr. 969/2015 um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð. Í bréfinu segir að samkvæmt reglugerðinni eigi einstaklingar með tónmeðalgildi á betra eyranu á bilinu 30 dB og 70 dB rétt á styrk. Mæling kæranda sé 27 dB og falli því ekki undir reglugerðina.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. desember 2017. Með bréfi, dags. 3. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. janúar 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. janúar 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé eftir því að synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn hans um styrk til kaupa á heyrnartæki verði endurskoðuð.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að reglugerð nr. 969/2015 um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð, ásamt síðari breytingum, sé sett með stoð í 5. gr. laga nr. 42/2007 um Heyrnar- og talmeinastöð og 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. 55. gr. laganna. Í reglugerðinni segi að einstaklingar 18 ára og eldri sem séu sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar og hafi tónmeðalgildi á betra eyranu ≥ 30 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz eigi rétt á styrk að fjárhæð 50.000 kr. á hverju fjögurra ára tímabili. Sjúkratryggingar Íslands sjái um úthlutanir styrkja sem byggi á reglugerðinni.

Heyrnarmæling kæranda sé 27 dB á hægra eyra og 65 dB á vinstra eyra, þ.e. heyrnin á betra eyra sé < 30 dB og falli því ekki undir reglugerðina. Umsókn um styrk hafi því verið synjað.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um styrk vegna kaupa á heyrnartæki.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal meðal annars kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti. Þá segir í 5. gr. laga nr. 42/2007 um Heyrnar- og talmeinastöð að ráðherra skuli setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við hjálpartæki vegna heyrnar- og talmeina að höfðu samráði við Heyrnar- og talmeinastöð.

Reglugerð nr. 969/2015 um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð hefur verið sett með stoð í framangreindum lagaheimildum. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar eiga einstaklingar 18 ára og eldri sem eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og hafa tónmeðalgildi á betra eyranu ≥ 30 dB < 70 dB við tíðnina 0,5, 1,0, 2,0 og 4,0 kHz eða við tíðnina 2,0, 4,0 og 6,0 kHz rétt á styrk að fjárhæð 50.000 kr. frá Sjúkratryggingum Íslands vegna kaupa á heyrnartækjum hjá rekstrarleyfishöfum, sbr. reglugerð nr. 148/2007 um sölu heyrnartækja.

Samkvæmt gögnum málsins keypti kærandi heyrnartæki hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð. Um kaupin fer því samkvæmt reglugerð nr. 969/2015. Kærandi er með skerta heyrn, með tónmeðalgildi 64 dB á vinstra eyra og 27 dB á hægra eyra. Þar sem heyrn kæranda á betra eyra er undir 30 dB uppfyllir hann ekki skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 969/2015, sbr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.

Í verðskrá B ehf., sem fylgdi með kæru, er að finna upplýsingar um að ellilífeyrisþegar og öryrkjar geti sótt um viðbótarstyrk til Tryggingastofnunar ríkisins og má sjá að þær upplýsingar hafa verið undirstrikaðar. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er Tryggingastofnun heimilt að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri hefur verið sett með stoð í 5. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 2. tölul. 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að uppbót á lífeyri sé heimilt að greiða sökum kostnaðar vegna kaupa á heyrnartæki sem sjúkratryggingar greiði ekki. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að hann geti sótt um uppbót á lífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins telji hann að skilyrði 9. gr. laga um félagslega aðstoð séu uppfyllt í hans tilviki.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um styrk til kaupa á heyrnartæki staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn A, um styrk til kaupa á heyrnartæki, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta