Hoppa yfir valmynd

Nr. 240/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 240/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050017

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. maí 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2020, um að synja henni um ótímabundið dvalarleyfi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi fyrir maka Íslendings þann 10. maí 2016 og fékk það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 5. júní 2020. Þann 9. ágúst 2019 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2020, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 13. maí sl. en kæru fylgdi greinargerð. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með tölvupósti, dags. 18. maí sl. og 2. júlí sl. og fékk svar við þeim erindum þá sömu daga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða væru að útlendingur uppfyllti áfram skilyrði dvalarleyfis þegar sótt væri um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. a-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, og að útlendingur eigi ekki ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. laganna. Vísaði Útlendingastofnun til þess að þann 17. febrúar sl. hafi verið skráð í þjóðskrá að kærandi og maki hennar hefðu skilið að lögum. Þá væri kærandi samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá 3. febrúar 2020 með ólokið mál í refsivörslukerfinu. Með hliðsjón af framangreindu uppfyllti kærandi ekki skilyrði a- og e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún hafi ekið bifreið án ökuréttinda og eigi von á sektargreiðslu vegna þess. Þá sé hún nú gift íslenskum ríkisborgara en hjónavígslan hafi farið fram þann 10. maí sl. og eigi þau von á barni saman. Með vísan til þessara breyttu aðstæðna séu brostnar forsendur fyrir synjun á umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi samfellt með gild dvalarleyfi frá 10. maí 2016 til 6. maí 2020 en þá afturkallaði Útlendingastofnun dvalarleyfi kæranda. Frá 13. maí sl. hefur kærandi haft kærumál vegna ákvarðana Útlendingastofnunar um afturköllun dvalarleyfis og synjunar á ótímabundnu dvalarleyfi til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Frekari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58 gr. laga um útlendinga. Af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 58. gr. laganna má ráða að útlendingur sem sækir um ótímabundið dvalarleyfi þurfi almennt að uppfylla skilyrði a- e-liða 1. mgr. til að fá útgefið leyfið. Samkvæmt a-lið ákvæðisins er skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis að útlendingur uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sækir um ótímabundið dvalarleyfi.

Af orðalagi a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga leiðir þó að mat á því hvort umsækjandi uppfyllir áfram skilyrði dvalarleyfis er miðað við þann tíma sem umsókn er lögð fram. Kærandi lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi þann 9. ágúst 2019 og samkvæmt gögnum var skráð í Þjóðskrá Íslands þann 17. febrúar 2020 að kærandi og fyrrverandi maki hennar væru skilin að lögum. Þar sem lögskilnaður kæranda kom til síðar er það mat kærunefndar að ekki verði annað lagt til grundvallar við úrlausn málsins en að kærandi hafi uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna við framlagningu umsóknar. Stendur a-liður 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga því að mati nefndarinnar ekki í vegi fyrir því að kærandi fái útgefið ótímabundið dvalarleyfi, enda var kærandi enn í hjúskap þegar hún lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi þann 9. ágúst 2019.

Samkvæmt e-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er það skilyrði að útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 2. júlí 2020, á kærandi ólokið mál í refsivörslukerfinu. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis. Vegna athugasemda í greinargerð áréttar kærunefnd að kærandi hefur við meðferð málsins hjá kærunefnd ekki lagt fram gögn eða upplýsingar þess efnis að máli hennar sé lokið hjá lögreglunni.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 656/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. ágúst 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                           Daníel Isebarn Ágústsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta