Mál nr. 174/2021 Endurupptökubeiðni Úrskurður 13. janúar 2022
Mál nr. 174/2021 Endurupptökubeiðni
Eiginnafn: Regin (kk.)
Hinn 13. janúar 2022 tekur mannanafnanefnd fyrir beiðni, dags. 28. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir endurupptöku máls nr. 95/2020 Regin. Í því máli var óskað eftir að eiginnafninu Regin væri bætt á mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd komst að þeirri niðurstöðu að nafnið uppfyllti ekki öll þau skilyrði sem ný eiginnöfn þurfa að fullnægja skv. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þar sem nafnið væri ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og að ekki væri hefð fyrir rithættinum. Ákvæðið sem hér um ræðir er tilgreint í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna.
Í endurupptökubeiðninni segir að mannanafnanefnd hafi samþykkt fjölda nafna sem ekki uppfylli skilyrði laganna um að eiginnafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Í þessu sambandi er vísað í úrskurði nefndarinnar í málum nr. 134/2021 (Elliott), 142/2021 (Kateri), 143/2021 (Hunter), 145/2021 (Rosemarie), 146/2021 (Erykah), 149/2021 (Ullr), 152/2021 (Leonardo) og 12/2021 (Theo). Í flestum þessara mála (ekki þó í máli nr. 143/2021 (Hunter)) komst mannanafnanefnd að þeirri niðurstöðu að nöfnin væru ekki rituð í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls en að þau uppfylltu eigi að síður ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga þar sem hefð teldist fyrir þessum ritháttum, sbr. vinnulagsreglur mannanafnanefndar um hefð.
Í endurupptökubeiðninni segir að vinnulagsreglur mannanafnanefndar „séu einungis tilbúnar reglur sem Mannanafnanefnd [hafi] sett sér en [hafi] enga lagastoð í þeim lögum sem um mannanöfn gilda.“ Með setningu laga um mannanöfn, nr. 45/1996, var mannanafnanefnd falið að meta hvort ný eiginnöfn uppfylli skilyrði sem kveðið er á um í 5. gr. laganna. Í greinargerð með lögunum er mælt fyrir um að við mat á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laganna skuli nefndin styðjast við vinnulagsreglur sem birtar eru í greinargerðinni en jafnframt er þar tekið fram að nefndin skuli endurskoða reglurnar með reglulegum hætti. Því verður ekki annað séð en að vinnulagsreglurnar eigi sér stoð í viðeigandi lögskýringargögnum.
Í beiðninni er bent á að nákominn ættingi þess sem á að bera nafnið Regin hafi borið það. Samkvæmt núgildandi lögum um mannanöfn er ekki heimild til þess að samþykkja nýtt nafn á mannanafnaskrá á slíkum forsendum. Í 3. kafla laganna, sem fjallar um millinöfn, er sérstakt ákvæði sem heimilar að millinafn, sem víkur frá almennum skilyrðum um millinöfn, sé heimilt þegar svo stendur á að nákominn ættingi hafi borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Í slíkum tilvikum er nafninu ekki bætt á mannanafnaskrá. Þar sem samsvarandi ákvæði er ekki í 2. kafla laganna, sem fjallar um eiginnöfn, verður að líta svo á að ekki sé heimilt að samþykkja eiginnafn á samsvarandi forsendum.
Í beiðninni er bent á að eiginnafnið Regin tíðkast í nokkrum nágrannalöndum, Danmörku, Noregi og Færeyjum. Mannanafnanefnd setti sér nýjar vinnulagsreglur við mat á hefð 1. júlí 2021 sem fela í sér breytingar á mati á hefð tökunafna. Þar sem ljóst er að umræddar breytingar hafa þýðingu í málinu fellst nefndin á að taka það upp á ný og fylgir nýr úrskurður í málinu hér á eftir sem fengið hefur málsnúmerið 174/2021.
Hinn 13. janúar 2022 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 174/2021:
Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Ritháttur nafnsins Regin er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Í elstu íslensku ritheimildum kemur karlmannsnafnið Reginn fyrir sem dvergsheiti og er ef til vill einnig eitt af heitum Óðins. Það er skylt fleirtöluorðinu regin (hvorugkyn) sem merkir 'goð' eða 'goðmögn', en í þeirri merkingu er orðið ekki notað í eintölu. Samkvæmt skilyrði nr. 3 hér að ofan (3. málsl. 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga) skal rita mannanöfn samkvæmt almennum ritreglum íslensks máls, en um þær er vísað til auglýsingar mennta- og menningarmálaráðuneytisins, nr. 695/2016, um setningu íslenskra ritreglna. Þar kemur fram í lið 12.4 að í karlkynsnafnorðum sem enda á sérhljóði (a, i eða u) og nefhljóðinu n sé ritað tvöfalt nn í nefnifalli en einfalt n í öðrum föllum, t.d. aftann, aftan, aftni, aftans; himinn, himin, himni, himins; morgunn, morgun, morgni, morguns.
Karlmannsnafnið Reginn er á mannanafnaskrá, ritað með -nn í nefnifalli, skv. íslenskum ritreglum, en með einu n-i í öðrum beygingarmyndum. Ritháttur nafnsins með einu n-i í nefnifalli er ekki heimill skv. lögum nema hefð sé fyrir þeim rithætti nafnsins.
Við túlkun mannanafnanefndar á hefð í 5. og 6. gr. laga um mannanöfn er stuðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2021 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum, eldri vinnulagsreglum, dómaframkvæmd og sjónarmiðum sem fjallað er um í fundargerð:
- Nafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
- Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
- Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
- Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
- Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr);
- Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað. Hefð nafns telst rofin ef það hefur ekki verið borið af Íslendingi undanfarin 70 ár.
- Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
- Nafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
- Ritun tökunafns með þeim hætti sem gjaldgengur er í veitimálinu telst hefðbundinn. Frávik eru heimil ef um er að ræða aðlögun að almennum íslenskum ritreglum. Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands bera þrír karlar, sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna, eiginnafnið Regin í þjóðskrá. Sá elsti er fæddur 1983. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920. Rithátturinn uppfyllir því ekki skilyrði 1. liðar vinnulagsreglnanna. Eiginnafnið Regin með þessum rithætti getur talist vera tökunafn úr t.d. færeysku eða dönsku og telst nafnið því uppfylla skilyrði 4. liðar vinnulagsreglnanna.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Regin (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.