Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 394/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 394/2019

Miðvikudaginn 12. febrúar 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Ásmundur Helgason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. september 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 24. júní 2019 um greiðslu bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala X. Sjúkratryggingar Íslands samþykktu bótaskyldu. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 24. júní 2019, voru kæranda metnar þjáningabætur, bætur vegna varanlegs miska, bætur vegna varanlegrar örorku og bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, auk vaxta.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. september 2019. Með bréfi samdægurs óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. X. Með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. X, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi samdægurs. Viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi 25. nóvember 2019 og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. X. Athugasemdir við viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands bárust með bréfi X og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. X. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þá leið aðallega að bætur til kæranda vegna varanlegrar örorku samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 taki mið af aldri tjónþola á slysdegi, en til vara að miðað sé við meðaltal aldurs þriggja ára fyrir slysið, í stað aldurs kæranda þegar heilsufar er orðið stöðugt.

Fram kemur í kæru að við ákvörðun bóta hafi verið horft til 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ákvæðið sé svohljóðandi í heild sinni:

https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg [Árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.
https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. mgr. skal ekki miða við lægri árslaun en tilgreint er í þessari töflu:

Aldur

Kr.

66 ára og yngri

1.200.000

67 ára

1.100.000

68 ára

1.000.000

69 ára

900.000

70 ára

800.000

71 árs

700.000

72 ára

600.000

73 ára

500.000

74 ára

400.000

https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr.]“

Kærandi sé fædd X. Hin bótaskylda meðferð hafi átt sér stað hinn X. Þann dag hafi kærandi verið X ára að aldri. Með vísan til aldurstöflu, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, telur kærandi að notast hefði átt við 1.200.000 krónur við útreikning árslaunaviðmiðunar, uppreiknað að teknu tilliti til breytinga á vísitölu á stöðugleikapunkti sem hafi verið metinn X en þann dag hafi heilsufar kæranda þótt orðið stöðugt.

Við ákvörðun bóta miði Sjúkratryggingar Íslands hins vegar við aldur kæranda á stöðugleikapunkti hinn X. Í stað þess að miða við 1.200.000 krónur sem lágmarkslaun virðist stofnunin notast við einhverja fjárhæð á bilinu 900.000 krónur og 1.000.000 krónur.

Kærandi telur framangreinda viðmiðun ekki til samræmis við ákvæði skaðabótalaga og ekki í samræmi við viðtekna túlkun laganna. Við túlkun laga ber fyrst og fremst að horfa til lagatextans sjálfs. Í lögunum sé einfaldlega vísað í aldur viðkomandi. Hvergi sé um það getið, eða gert ráð fyrir, að þar sé átt við aldur tjónþola á stöðugleikamarki. Sú túlkun fái þannig ekki stoð í ákvæðinu sjálfu en augljóst megi vera að taka hefði átt fram í lagatextanum ef ætlunin hafi verið að miða við stöðugleikamark.

Það sem virðist hafa áhrif á túlkun Sjúkratrygginga Íslands sé að í lögunum sé gert ráð fyrir að árslaun séu verðbætt til stöðugleikamarks. Jafnframt að þegar verið sé að reikna út svokallaðan aldursstuðul samkvæmt 6. gr. laganna sé notast við aldur viðkomandi á stöðugleikamarki. Það hafi hins vegar ekkert með það að gera hvaða árslaunaviðmiðun séu notuð. Bent sé á að í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé árslaunahugtakið skilgreint. Þar segir að árslaun „teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.“ Samkvæmt meginreglunni beri þ.a.l. að miða laun viðkomandi þrjú ár fyrir slysið. Þau laun séu svo verðbætt fram til þess dags er stöðugleika hefur verið náð og notaður aldursstuðull 6. gr. á þau uppreiknuðu laun.

Ef samanlögð laun tjónþola á þessum þremur árum fyrir tjónsviðburðinn, sem vísað sé til í 1. mgr., reynast lægri en lágmarkslaun sem tilgreind séu í 3. mgr. sé um það kveðið að nota skuli þau laun í stað launanna fyrir slysið. Kærandi telji með öllu órökrétt og í andstöðu við 1. mgr. að nota laun sem taki mið af aldri tjónþola við allt annað tímamark en tjónsdaginn og jafnvel mörgum árum seinna líkt og í þessu tilviki.

Ef ekki ætti að nota laun á tjónsdegi væri rökréttara að notast við aldur tjónþola umrædd þrjú ár fyrir tjónsdag. Væri tjónþoli þannig X ára á tjónsdegi ætti að nota töfluna þannig að notast væri við meðaltal aldur þriggja ára fyrir tjónsdag til samræmis við fyrirmæli 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þ.e.a.s.:

- Aldur X ára (ári fyrir slysið) – 1.000.000 krónur.

- Aldur X ára (tveimur árum fyrir slysið) – 1.100.000 krónur.

- Aldur X ára (þremur árum fyrir slysið) – 1.200.000 krónur.

Þannig yrði fjárhæðin sem miðar við X ára aldur lögð til grundvallar.

Í tilviki kæranda sé ekki nauðsynlegt að fara í þessar hugleiðingar þar sem kærandi hafi verið X ára að aldri á slysdegi og því í öllum tilfellum rétt að miða við 1.200.000 krónur.

Framangreindri afstöðu til stuðnings vísi kærandi einnig til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga sem feli einnig í sér aldurstengdar bætur. Þar sé skýrlega tekið fram að verið sé að vísa til aldurs tjónþola á slysdeginum. Engin rök séu fyrir því að notast við annan dag við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga en bent sé á að bætur vegna bæði varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga og samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skuli reiknaðar upp til þess dags er bótafjárhæðin er ákveðin, sbr. 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga.

Kærandi leggi áherslu á að engin áhrif hafi á túlkun ákvæðis 3. mgr. 7. gr. að mat á varanlegri örorku taki mið af ástandi kæranda við stöðugleikamark. Mat á miska samkvæmt 4. gr. taki einnig mið af ástandi við stöðugleika. Þau rök hrökkvi þannig stutt. Þá sé lögð rík áhersla á að aldursstuðull 6. gr. skaðabótalaga taki mið af aldri tjónþola við stöðugleikamark. Þar sé nánar um það kveðið að margfalda skuli saman örorkustig, árslaun (eins og þau séu skilgreind í 7. gr.) og stuðul töflunnar sem fram komi í 6. gr., að teknu tilliti til aldurs tjónþola við stöðugleika. Nánar sé verið að vísa til aldurs á stöðugleika hvað varði stuðulinn sjálfan en ekki árslaunin, líkt og fyrr greini. Ef einnig ætti að lækka árslaunin miðað við stöðugleikamark væri búið að taka tillit til aldurs tjónþola í tvígang sem fái enga stoð í lögunum.

Í athugasemdum kæranda, dags. X, kemur fram að í greinargerð  Sjúkratrygginga Íslands segi að túlkun stofnunarinnar ráðist af 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga en einnig sé vísað til athugasemda við ákvæðið.

Kærandi telji að málatilbúnaður Sjúkratrygginga Íslands byggi á misskilningi. Ákvæði 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga segir að reikna skuli saman örorkustig, árslaun og stuðul töflunnar í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við (stöðugleikatímamark). Það hafi ekkert með það að gera hvaða árslaunaviðmiðun skuli notuð samkvæmt 7. gr. Hér sé lögð áhersla á að meginreglan komi fram í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem árslaunahugtakið sé skilgreint. Þar segir að árslaun „teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.“

Í ákvæðinu komi skýrt fram að notast eigi við laun viðkomandi fyrir slysið, þ.e. síðustu þrjú árin fyrir slysið. Enda þótt árslaun samkvæmt 1. mgr. 7. gr. séu laun fyrir slysið séu þau áfram verðbætt til stöðugleikatímamarks og notaður aldursstuðull 6. gr. á þau uppreiknuðu laun. Í 1. mgr. 6. gr. sé þannig kveðið á um að margfalda eigi saman tiltekna þætti þannig að lokamargfeldarinn sé aldursstuðull ákvæðisins að teknu tilliti til aldurs við stöðugleika. Nánar: Örorkustig x árslaun x aldursstuðull 1. mgr. 6. gr. við stöðugleika.

Sjúkratryggingar Íslands hafi þannig dregið of víðtæka ályktun af ákvæðinu með því að bera því við að horfa eigi til aldurs tjónþola á stöðugleika einnig við ákvörðun árslauna, sbr. 3. mgr. 7. gr.

Þá telji Sjúkratryggingar Íslands að athugasemdir með 1. mgr. 6. gr. styðji þessa túlkun. Kærandi leggi áherslu á að túlka verði ákvæðið eftir orðanna hljóðan. Athugasemdir við ákvæðið gefi ekki heldur ástæðu til annarrar  túlkunar. Í tilvitnuðum athugasemdum segir að „tekjurnar yrðu færðar upp til verðlags þess dags sem metin varanleg örorka þjónþola miðast við.“ Athugasemdirnar kveði þannig einfaldlega á um að verðbæta beri árslaunin en ekkert um að notast skuli við árslaun miðað við stöðugleika.

 

 

 

 

Í tilviki kæranda þýði þetta eftirfarandi:

1)         Örorkustig samkvæmt mati Sjúkratrygginga Íslands (50%)

X

2)         Árslaun, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga miðað við tjónsdag – X ára og yngri (1.200.000 kr. ) verðbætt til stöðugleika (1.200.000 / 3282 (lánskjaravísitala við 1. júlí 1993 skv. 29. gr., sbr. 15. gr. skbl.) x X (lánskjaravísitala á stöðugleikatímapunkti X) = X.

X

3)         Aldursstuðull 1. mgr. 6. gr. skbl. á stöðugleika = X ára og X daga (1,965)

= X sem reiknast svo: (1) 0,50 x 2) X x 3) 1,965)

Sjúkratryggingar Íslands hafi fengið niðurstöðuna X krónur sem hafi ráðist af því að Sjúkratryggingar Íslands hafi notast við aldur kæranda á stöðugleika við útreikning á lið 2 sem hvorki 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga né 1. mgr. 6. gr. geri ráð fyrir, enda sé verið að vísa í síðarnefnda ákvæðið í aldursstuðulinn, sbr. lið 3. Líkt og fram komi í kærunni séu Sjúkratryggingar Íslands að taka inn í útreikninginn aldur kæranda í tvígang ef bæði árslaun og aldursstuðull taka mið af aldri á stöðugleika. Kjarni málsins sé sá að í lögunum sé gert ráð fyrir að árslaunin séu verðbætt til stöðugleika, sbr. lið 2.

Að áliti kæranda séu þannig dregnar rangar ályktanir af 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga sem fjallar aðeins um það hvernig verðbæta skuli árslaun en hefur ekkert með það að gera hvaða aldursmark eigi að nota við beitingu 3. mgr. 7. gr. Af orðanna hljóðan megi ljóst vera að löggjafinn sé að vísa til aldurs á slysdegi en ekki einhvers síðara tímamarks og jafnvel mörgum árum síðar. Þá eigi túlkun SÍ sér ekkert fordæmi, enda í andstöðu við venjuhelgaða beitingu 3. mgr. 7. gr. laganna.

Kærandi vísar að öðru leyti til kæru og þeirra röksemda sem þar koma fram.

Með bréfi, dags. X, bárust svör lögmanns kæranda vegna viðbótargreinargerðar Sjúkratrygginga Íslands þar sem óskað var að sýnt yrði fram á hina venjuhelguðu beitingu 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga með vísan til fordæma.

Fram kemur í svari lögmanns að lögmannsstofan geri upp nokkur hundruð slysamál á ári hverju. Aldrei hafi komið upp ágreiningur um réttmæti þess að miða eigi við aldur tjónþola á slysdegi þegar beitt sé 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Eflaust væri hægt að finna nokkur mál sambærileg máli kæranda en ekki standi til í að fara í þá vinnu, auk þess sem það sé óheimilt að nota slík gögn sökum persónuverndar.

Þar sem ekki sé vitað til þess að bótagreiðandi hafi beitt fyrir sig umræddri túlkun hafi málatilbúnaðurinn ekki rekið á fjörur dómstóla svo að vitað sé, enda þótt reynt hafi á flest sem unnt sé að deila um varðandi túlkun laganna. Sökum þess sé ekki unnt að vísa til fordæma í formi úrskurða eða dóma. Vísar kærandi til námsritgerðar frá árinu 2014 „Bætur vegna líkamstjóns, útreikningur skaðabóta vegna líkamstjóns“ eftir Sigtrygg Arnþórsson þar sem höfundur hefur stillt upp jöfnu til útreiknings bóta samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Höfundur vísar þar til „Lágm.laun í samræmi við aldur á tjónsdegi“ og deilir lágmarkslaunum á slysdegi með lánskjaravísitölu við setningu laganna og er niðurstaðan margfölduð með lánskjaravísitölunni á stöðugleikapunkti. Þarna sé höfundur að fylgja hinni venjuhelguðu beitingu ákvæðisins sem ráða megi, að mati kæranda, af eðlilegri túlkun ákvæðisins og laganna í heild sinni.

Mikilvægt sé að rugla ekki saman annars vegar vísitölumargfaldaranum, sem taki mið að stöðugleika, og hins vegar árslaunaviðmiðun 3. mgr. 7. gr., sem taki mið af aldri á slysdegi.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er vísað til þess sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun:

Við ákvörðun árslaunaviðmiðs vegna varanlegrar örorku er stuðst við upplýsingar frá RSK sem fram koma í töflunni hér að framan. Litið er til meðaltekna tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, síðustu þrjú almanaksárin fyrir sjúklingatryggingaratburð. Við útreikning bóta er því miðað við lágmarks árslaunaviðmið sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.“

Í kæru sé tekið fram að notast hefði átt við 1.200.000 krónur við útreikning árslaunaviðmiðunar, uppreiknað að teknu tilliti til breytinga á vísitölu á stöðugleikapunkti sem hafi verið metinn X en þann dag hafi heilsufar kæranda þótt orðið stöðugt. Við ákvörðun bóta miði Sjúkratryggingar Íslands hins vegar við aldur kæranda á stöðugleikatímamarki X. Í stað þess að miða við 1.200.000 krónur sem lágmarkslaun virðist stofnunin notast við einhverja fjárhæð á bilinu kr. 900.000 og 1.000.000 krónur.

Varðandi útreikning Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að á stöðugleikapunkti hafi kærandi verið X ára og X daga gömul, þ.e. þann X. Það hafi gefið stuðulinn 1.964762 (1.965).

Árslaunaviðmið fyrir X ára og X daga gamla manneskju sé 968.219 krónur (Upphæðin á milli 900.000 og 1.000.000).

Ljóst sé að kærandi miði aldur tjónþola vegna lágmarkslauna við tjónsdag, en Sjúkratryggingar Íslands miði við aldur tjónþola á stöðugleikapunkti, sbr. 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga. 

Í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga segi eftirfarandi:

„Bætur fyrir varanlega örorku skal meta til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola skv. 5. gr., árslauna hans skv. 7. gr. og eftirfarandi töflu, þannig að margfölduð séu saman örorkustig, árslaun og stuðull töflunnar í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.“

Í athugasemdum við 6. gr. skaðabótalaga komi fram:

„Hér er lagt til að snúið verði til fyrri framkvæmdar um að tekjurnar miðist við almanaks­ár og miðað verði við meðaltal þriggja síðustu ára fyrir slys. Tekjurnar yrðu færðar upp til verðlags þess dags sem metin varanleg örorka tjónþola miðast við. Þetta er sama tímamark og miðað er við í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Samkvæmt ofangreindu hafi Sjúkratryggingar Íslands því miðað við aldur tjónþola vegna lágmarkslauna við stöðugleikapunkt.

 

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Með viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. X, var þess óskað að lögmaður kæranda sýndi fram á hina venjuhelguðu beitingu 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem hann hafði vísað til, með vísan til fordæma. Að öðru leyti var vísað til fyrri greinargerðar Sjúkratrygginga Íslands.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um uppgjör bóta vegna sjúklingatryggingaratviks. Eingöngu er deilt um hvort árslaun kæranda samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli miða við þrjú ár fyrir tjónsdag en Sjúkratryggingar Íslands telja að miða eigi árslaun samkvæmt ákvæðinu við aldur kæranda á stöðugleikatímapunkti.

Í hinni kærðu ákvörðun segir um mat Sjúkratrygginga Íslands á varanlegri örorku kæranda:

„Við ákvörðun árslaunaviðmiðs vegna varanlegrar örorku er stuðst við upplýsingar frá RSK sem fram komi í töflunni hér að framan. Litið er til meðaltekna tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, síðustu þrjú almanaksárin fyrir sjúklingatryggingaratburð. Við útreikning bóta er miðað við lágmarks árlaunaviðmið sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.“

Í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga segir:

„Bætur fyrir varanlega örorku skal meta til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola skv. 5. gr., árslauna hans skv. 7. gr. og eftirfarandi töflu, þannig að margfölduð séu saman örorkustig, árslaun og stuðull töflunnar í samræmi við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við:[...]“

Hugtakið árslaun er skilgreint í 7. gr. skaðabótalaga og þar segir í 1. mgr. ákvæðisins:

„Árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.“

Í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga segir:

„Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. mgr. skal ekki miða við lægri árslaun en tilgreint er í þessari töflu:

Aldur

Kr.

66 ára og yngri

1.200.000

67 ára

1.100.000

68 ára

1.000.000

69 ára

900.000

70 ára

800.000

71 árs

700.000

72 ára

600.000

73 ára

500.000

74 ára

400.000“

Við ákvörðun árslauna samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ber að leggja til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til batahvarfa/stöðugleikatímapunkts. Í 3. mgr. 7. gr. kemur fram að þrátt fyrir þetta skuli aldrei miða við lægri fjárhæðir en settar séu fram í töflu með greininni.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi verið X ára gömul þegar hún varð fyrir umræddu tjóni. Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur hennar síðustu þrjú ár fyrir tjónsatburð lægri en mælt er fyrir um í 3. mgr. 7. gr. og bar því að miða við þau lágmarkslaun sem þar eru tilgreind.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður 7. gr. skaðabótalaga ekki túlkuð með öðrum hætti en samkvæmt orðanna hljóðan og með þeim hætti að 7. gr. skaðabótalaga, leidd af meginreglu 1. mgr. ákvæðisins, kveði á um að miða skuli við tjónsdag við útreikning lágmarksárslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá telur úrskurðarnefndin að lokaorð 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga eða ummæli í greinargerð feli ekki í sér að miða skuli við stöðugleikatímapunkt við ákvörðun árslauna samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga líkt og fram hefur komið í rökstuðningi Sjúkratrygginga Íslands. Í lagagreininni er vísað til þess að aldursstuðull skuli miðaður við stöðugleikatímapunkt og í greinargerð er áréttuð regla 1. mgr. 7. gr. laganna um að laun tjónþola skuli leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, nánar tiltekið stöðugleikatímapunkt.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar Sjúkratrygginga Íslands.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um bætur vegna varanlegrar örorku til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er felld úr gildi og vísað til Sjúkratrygginga Íslands til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta