Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2004

Þriðjudaginn, 14. september 2004

     

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. mars 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 12. mars 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 12. mars 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„1. Undirrituð er námsmaður erlendis skv. Skilgreiningu 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999, þar sem m.a. segir: „Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum“. Undirrituð stundar doktorsnám í B-fræði, sem ekki verður stundað hér á landi og lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum hér á landi. Námið er lánshæft hjá lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) og hefur undirrituð þegið lán fyrir 100% nám námsárið 2002-2003. Gögn frá LÍN, sem gilda fyrir yfirstandandi námsár segir m.a. um lánsrétt doktorsnema: „Sjóðurinn veitir námslán til framhaldsnáms, við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.... Skilyrði til aðstoðar frá sjóðnum er að viðkomandi sé fjárráða og hafi átt lögheimili á Íslandi í eitt ár áður ern lánshæft nám hefst.... Lán er ekki veitt til náms sem er liður í launuðu starfi samkvæmt ráðningarsamningi. Þetta gildir m.a. um launað framhaldsnám lækna.... Námsmaður þarf að ljúka í það minnsta 75% af fullu námi skv. skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins til þess að fá námslán.“

Í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir ennfremur: „Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns,....“ „Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.“

Af framansögðu má ljóst vera að undirrituð telst námsmaður í fullu námi skv. skilgreiningu TR og LÍN og á samkvæmt því rétt á fæðingarstyrk frá TR í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

2. Undirrituð hefur haldið lögheimilisskráningu á Íslandi allan námstímann í samræmi við heimild í lögum um almannatryggingar og vill ennfremur vísa í 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000, þar sem m.a. segir: „Rétt til fæðingarstyrks á foreldri sem er utan vinnumarkaðar, í minna en 25% starfi eða í námi að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns.... og síðustu 12 mánuðina þar á undan. “Þá segir í 15. gr. reglugerðar 463/1999 m.a. „Sá sem er búsettur og tryggður hér á landi og dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins.“ Með vísan í framangreindar reglugerðir telst ljóst að undirrituð er tryggð samkvæmt lögum um almannatryggingar á Íslandi á meðan á námi erlendis stendur og öðlast þannig rétt til fæðingarstyrks frá TR.

3. Þá vill undirrituð ennfremur vekja athygli á þeim mismuni sem ríkir á milli námsmanna á Íslandi og kollega þeirra erlendis, þar sem fyrrgreindur hópur er einungis krafinn um staðfestingu á námsástundun síðustu sex mánuði 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, án tillits til atvinnuþátttöku. Námsmenn erlendis virðast hins vegar þurfa að sanna námsástundun mun lengra aftur í tímann (í tilviki undirritaðrar – 10 ár) ásamt því að skila tekjuupplýsingum fyrir sama tímabil lán þess að skýra heimild til þess sé að finna í lögum eða reglugerðum. Í ljósi þess að við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis í lagalegu tilliti getur slík mismunum varla átt rétt á sér og gerir undirrituð alvarlega athugasemd við vinnubrögðin.

Í fylgiskjali I má sjá yfirlit yfir samskipti framkvæmdastjóra SÍNE, sem undirrituð fól umboð til upplýsingaöflunar vegna málsins, við starfsmenn TR. Ljóst er að málið hefur tafist fram úr hófi innan stofnunarinnar.

4. Þá er það einnig gagnrýnivert að í úrskurðarbréfi TR koma ekki fram upplýsingar um kæruheimild, kærufrest og hvert beina skuli kæru.

Undirrituð óskar eftir því að úrskurður TR, dags. 19. desember 2003, verði felldur úr gildi með vísan í ofangreindan rökstuðning.“

 

Með bréfi, dags. 28. apríl 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 11. maí 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.)

Með umsókn, dags. 18. október 2003, sem móttekin var 30. október 2003, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í 6 mánuði frá 1. desember 2003 að telja vegna væntanlegrar fæðingar 12. desember 2003. Með umsókninni fylgdu vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 20. október 2003 og staðfesting LÍN um nám kæranda, dags. 10. október 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 10. desember 2003, var kærandi beðin að leggja fram frekari gögn með umsókn sinni. Í kjölfarið bárust frá henni afrit af D-lensku skattframtali hennar vegna tímabilsins 6. apríl 2001 til 5. apríl 2002.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 18. desember 2003, var henni tilkynnt að umsókn hennar um fæðingarstyrk námsamanna væri synjað á þeim grundvelli að hún fengi greidd laun erlendis. Vísað var til 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 og síðan sagt að lífeyristryggingasvið liti svo á að heimild 3. ml. 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar til að meta nám foreldris erlendis ætti ekki við þegar viðkomandi væri einnig á vinnumarkaði erlendis, þar sem fæðingarstyrkur greiddist ekki foreldri sem væri á vinnumarkaði. Í bréfinu var kæranda bent á að heimilt væri að kæra ákvörðunina innan þriggja mánaða til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Lífeyristryggingasvið sendi kæranda bréf að nýju þann 19. desember 2003, þar sem tekið var fram að umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna væri synjað á þeim grundvelli að hún fengi greidd laun erlendis. Vísað var til 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og sagt að námsmenn sem stundi launaða vinnu erlendis teldust ekki vera námsmenn samkvæmt skilningi 15. gr. reglugerðarinnar en féllu þess í stað undir reglur almannatrygginga í búsetulandinu.

Eftir að kæranda höfðu verið send synjunarbréfin var af hennar hálfu haft samband við lífeyristryggingasvið og var henni af því tilefni að nýju sent bréf, dags. 12. mars 2004. Þar var kæranda gerð grein fyrir að samkvæmt upplýsingum sem borist höfðu lífeyristryggingasviði hefði hún hafið skólavist í D-landi haustið 2002 eftir að hafa verið á vinnumarkaði þar í landi. Í bréfinu segir enn fremur að þar sem hún hafi fengið greidd laun erlendis uppfylli hún ekki skilyrði 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá, til að teljast námsmaður. Þá segir að þessi niðurstaða byggist á því að upplýsingar sem bárust frá henni hafi gefið tilefni til að ætla að hún hafi sem launþegi verið búsett í D-landi og tryggð í almannatryggingum þar í landi við upphaf náms hennar. Lögheimili hennar eigi því réttilega að vera í D-landi og að hún eigi þar af leiðandi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks á Íslandi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. er það að jafnaði skilyrði fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 909/2000, en þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í I. kafla A. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um hverjir skuli tryggðir skv. lögunum. Þar segir í 9. gr. a. að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. c atl., sbr. 1. gr. laga nr. 74/2002, er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem tryggður er samkvæmt lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, enda dveljist hann erlendis vegna náms og sé ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um maka hans sem var tryggður hér á landi við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljast. Í 9. gr. d atl., sbr. 1. gr. laga nr. 59/1998, segir að ráðherra setji reglugerð um einstök atriði varðandi framkvæmd ákvæðanna, m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis.

Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999 er að finna svohljóðandi skilgreiningu á því hver sé námsmaður: “Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum”. Þessi skilgreining á því hver geti notið réttinda sem námsmaður og það skilyrði að viðkomandi einstaklingur sé ekki launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur er í samræmi við þá meginreglu 13. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, að einstaklingur sé tryggður í því landi sem hann er ráðinn til starfa í.

Samkvæmt yfirlýsingu frá LÍN hefur kærandi verið við nám í D-landi frá október 2002. Samkvæmt skattframtölum kæranda voru einu tekjur hennar á árunum 2000, 2001 og 2002 tekjur sem hún aflaði erlendis. Þá hefur kærandi lagt fram D-lenskt skattframtal sitt fyrir tímabilið 6. apríl 2001 til 5. apríl 2002, þar sem fram kemur að hún hafði tekjur þar í landi á því tímabili. Af gögnum þessum verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi verið við störf í D-landi áður en hún hóf þar nám haustið 2002. Varð hún þar með tryggð í almannatryggingum þar í landi, þó svo hún hafi haft lögheimili sitt hér á landi. Þegar kærandi hóf síðan nám sitt í D-landi fullnægði hún þannig ekki framangreindum skilyrðum fyrir því að heimilt væri að ákveða að hún væri áfram tryggð hér á landi.

Vert þykir að vekja athygli á að kærandi hefur engin gögn lagt fram um það hvort hún eigi einhvern rétt í D-landi vegna fæðingar barns hennar. Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. ffl. koma greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil til frádráttar við greiðslu fæðingarstyrks skv. 19. gr. ffl. Í áðurnefndu bréfi lífeyristryggingasvið til kæranda, dags. 10. desember 2003, var henni bent á að með umsókn hennar vantaði upplýsingar um hver væru réttindi hennar til greiðslna frá D-landi vegna fæðingarinnar og var hún beðin um að senda staðfestingu frá almannatryggingum D-lands um hvort hún ætti rétt á greiðslum en slík gögn hafa ekki borist.

Þá skal jafnframt á það bent að kærandi hefur engin gögn lagt fram um nám sitt önnur en áðurnefnda staðfestingu LÍN, dags. 10. október 2003, þar sem segir að kærandi sé með umsókn fyrir námsárið 2003-2004 og hafi verið með 100% námsárangur fyrir tímabilið 1. október 2002 – 30. júní 2003, en ekki sé komið út úr prófi frá 6. júlí til 30. september 2003. Í fyrri málslið 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Í áðurnefndu bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 10. desember 2003, var kæranda bent á að með umsókn hennar vantaði upplýsingar um námsframvindu hennar skólaárið 2002-2003 frá E-háskóla hvað teljist eðlileg námsframvinda þar, svo og skólavottorð um að hún væri skráð í skólann á haustönn 2003.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks, þar sem hún var tryggð í D-landi við upphaf náms, auk þess sem hún lagði ekki fram tilskilin gögn um rétt sinn í D-landi og nám sitt þar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. maí 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Með bréfi framkvæmdastjóra Sambands íslenskra námsmanna erlendis dags. 3. júní voru framsendar athugasemdir sem borist höfðu í tölvupósti frá kæranda. Í þeim tölvupósti segir m.a.:

„Ég faxaði yfir til ykkar afrit af öllum upplýsingum og staðfestingum sem ég hef frá skólanum og svo einnig afrit af upplýsingum sem D-lenska tryggingastofnunin sendi mér þegar ég bað um staðfestingu á að engir mæðrastyrkir væru til boða hjá þeim fyrir nemendur Á blaðinu eru skýrar upplýsingar hver á rétt á styrki frá þeim. Ég var svo hissa á að Tryggingastofnun benti á í svari sínu að ég hefði ekki sent inn staðfestingu frá skóla og engar upplýsingar um prófsnámsárangur!! Ég er í doktorsnámi og tek engin ársleg próf þannig að það auðvitað voru engar upplýsingar til staðar um prófsárangur. Þegar ég sótti um styrkinn þá var bara haustönn búin og ég sendi inn það skírteini sem LÍN tekur gilt sem staðfestingu eftir hverja önn. Auðvitað gat ég ekki sent lánasjóðnum eða Tryggingastofnun inn skírteini yfir annir sem ekki eru búnar því það var í haust sem upprunalega umsóknin fór inn til TR...

Þegar ég fór aftur í fullt nám haustið 2002 þá var ég eins og margir aðrir sem taka námshlé erlendis og fara síðan aftur í nám, með lögheimili skráð á Íslandi og sótti um LÍN sem taldi mig lánshæfa. Ég varð ófrísk í mars 2003 og átti í október 2003 og stundaði fullt nám á meðan. Þetta hefur lítið með tekjur mínar yfir árið 2001-2002 að gera sem voru svo litlar eða um F kr. þar sem ég var bara í hlutavinnu. Ég hef alltaf talið fram öll laun erlendis og heima i þessi ár sem ég hef unnið í D-landi og það hefur ALDREI verið gerð athugasemd við að ég hafi haft lögheimili heima á Íslandi og unnið í D-landi fyrr en núna...“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 2. málsl. 2. mgr. 19. gr. segir að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins og í 35. gr. ffl. er kveðið á um heimild félagsmálaráðherra að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem sett er samkvæmt heimild í 35. gr. ffl. er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Jafnframt segir í ákvæðinu að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett sé fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Barn kæranda er fætt 23. desember 2003. Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi í D-landi þar til hún hóf doktorsnám við E-háskóla í október 2002. Samkvæmt upplýsingum þjóðskrár Hagstofu Íslands var kærandi með skráð lögheimili á Íslandi við fæðingu barnsins og hafði verið það síðustu 12 mánuði þar á undan. Með hliðsjón af því og því sem fram kemur í gögnum málsins um doktorsnám hennar uppfyllir hún að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála skilyrði 19. gr. ffl., sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni að teknu tilliti til hugsanlegra greiðslna frá öðrum ríkjum sbr. 3. mgr. 33. gr. ffl.

    

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni að teknu tilliti til hugsanlegra greiðslna frá öðrum ríkjum sbr. 3. mgr. 33. gr. ffl.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta