Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 15. júlí 1977

Ár 1977, föstudaginn 15. júlí, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                Vegagerð ríkisins
                     gegn
                  Sigurði Oddssyni,
                  Kjalardal,
                  Skilmannahreppi, Borgarfjarðarsýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 12. ágúst 1976 hefur Vegagerð ríkisins, með vísan til 10. kafla vegalaga og laga nr. 11/1973, farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði lögboðnar bætur vegna efnistöku úr landi Kjalardals, Skilmannahreppi, Borgarfjarðarsýslu, sem Sigurður Oddsson, þar til heimilis sé eigandi að.

Vegagerð ríkisins, kveðst á undanförnum árum hafa tekið efni úr landi Kjalardals og skv. samkomulagi verið greiddar kr. 2.50, fyrir hvern teningsmetri á árinu 1973 og kr. 3.75 á árinu 1974, en samningar hafi ekki náðst um efnistöku 1975 vegna ágreinings um verð.

Nú standi fyrir dyrum, að hefja uppbyggingu Akranesvegar og sé við þá framkvæmd hentugast að taka efni úr landi Kjalardals. Samkomulag hafi ekki náðst um verðlagningu á efninu og sé því óskað úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta um verðið. Vegagerðin myndi byrja fljótlega á umræddu verki og var því óskað eftir, að mál þetta yrði tekið fyrir við fyrstu möguleika og jafnframt að Matsnefndin heimilaði Vegagerðinni skv. 14. gr. l. um framkvæmd eignarnáms, að taka efni úr landi Kjalardals þótt niðurstaða Matsnefndar um verð efnisins liggi ekki fyrir.

Mál þetta var tekið fyrir á fundi í Matsnefnd eignarnámsbóta sem haldinn var á Litlu-Fellsöxl, Skilmannahreppi 23. ágúst 1976. Af hálfu eignarnámsþola, Sigurðar Oddssonar, Kjalardal, mætti á fundi þessum sonur hans Oddur Sigurðsson, bóndi Litlu-Fellsöxl og ásamt honum Gunnar Ásgeirsson. Á fundi þessm var gerð svofelld bókun: "Umboðsmaður eignarnámþola gerir kröfu um bætur fyrir efnistöku, sem kynni að vera ógreidd fyrir 1975 og svo bætur fyrir efni tekið á þessu ári og hér eftir verður tekið úr landinu.

Umboðsmenn Vegagerðarinnar álíta, að efnistaka á þessum stað kunni að verða 20 - 30 þús. rúmmetrar, sem taka þurfi.

Gengið var á vettvang og allar aðstæður skoðaðar og varð samkomulag um það á vettvangi, að Vegagerðin haldi áfram efnistöku úr gamalli vegagerðarnámu í austarenda Kjalardalshryggs og taki síðan efni í vesturátt frá þessari gömlu námu. Um verð á efninu verður ákveðið síðar með samkomulagi eða mati."

Eignarnemi skýrir svo frá, að á undanförnum árum hafi verið tekið efni til viðhalds og uppbyggingar Akranesvegar úr landi Kjalardals. Á árinu 1973 hafi eignarnemi greitt fyrir þessa efnistöku kr. 2.50 á hvern rúmmetra malar og á árinu 1974 hafi náðst samningar við Sigurð Oddsson um að greiða kr. 15.00 fyrir hvert bílhlass malar, miðað við átta tonna bíl, þ.e. ca. kr. 3.75 pr. rúmmetra, sem ekið yrði úr námu sbr. samning dags. 13. maí 1974, mskj. nr. 3. Sigurður Oddsson hafi aldrei skrifað undir þennan samning vegna ágreinings um frágang á úrgangsefni, sem til hafði fallið vegna eldri efnistöku, en viðurkennt ávallt efnislegt gildi samningsins og uppgjör fyrir árið 1974 farið fram í samræmi við hann, sbr. kvittun dags. 11/4 1975, mskj. nr. 4.

Vegna veikinda Sigurðar hafi ekki verið unnt að halda samningi þessum til haga á árinu 1975 og þá hafi umboðsmenn landeiganda efast um gildi hans og því ekki náðst á því ári samningar um efnistöku úr landi Kjalardals, vegna ágreinings um verð.

Á árinu 1976 hafi verið hafist handa við endurlagningu Akranesvegar við Akranes og hafi við þá framkvæmd verið hentugast að taka efni úr landi Kjalardals. Samkomulag hafi ekki náðst um verðlagningu efnisins. Samtals hafi á árinu 1976 verið tekið efni úr landi Kjalardals 46,496 rúmmetrar, en Vegagerð ríkisins hafi haft hug á frekari efnistöku þar.

Eignarnemi heldur því fram, að við ákvörðun skaðabóta vegna efnistöku til vegagerðar utan markaðssvæða, þ.e. dreifbýli, þar sem ekki hafi komið fram eftirspurn eftir efni, t.d. til gatna og húsagerðar, hafi sá háttur verið hafður á, að kanna hver afrakstur sé af landi því, sem efnistakan fari fram á og verðmæti tjónsins að öðru leyti. Hafi Vegagerð ríkisins í þeim tilvikum ekki getað komið auga á, að landeigandi yrði fyrir öðru tjóni en jarðraski, sem skerti nýtingu á landinu eða möguleika á nýtingu þess til beitar eða ræktunar, eða þess búskapar, sem á landinu væri stundaður, ef um nytjar af landinu væri að ræða á annað borð. Hafi Vegagerðin talið sig bæta að fullu tjón landeigandans, með því að greiða fyrir hvern fermetra lands, sem nýttur sé til efnistöku. Verðið hafi verið breytilegt og farið eftir því hve verðmætar nytjar landsins hafi verið, en ekki farið yfir kr. 3.00 á fermetra. Hafi þá ekki verið tekið tillit til hve djúpt sé tekið.

Vegagerð ríkisins hafi hins vegar haft þann hátt á, þegar bætt hafi verið fyrir vegagerðarefni, þar sem sölumarkaður sé fyrir hendi, að greiða fyrir magn tekins efnis. Slíkur markaður hafi nú á síðari árum myndast í vaxandi mæli í grennd við þéttbýlisstaði, þar sem eftirspurn hafi orðið til vegna nota jarðefnis til ýmiskonar byggingarframkvæmda. Verðlagning efnisins hafi verið nokkuð mismunandi eftir stöðum og hæst þar sem eftirspurnin sé mest og takmarkað efnismagn fyrir hendi, en algengast sé að Vegagerðin hafi greitt kr. 1-10 fyrir hvern rúmmetra. Sé þetta yfirleitt nokkuð lægra verð, en aðrir aðilar hafi þurft að greiða og komi þá það til, að eigendur efnisins viðurkenni þörf þjóðfélagsins og sitt eigið hagræði af bættum samgöngum og einnig það, að Vegagerðin sé í flestum tilvikum langstærsti efnistökuaðilinn og megi því segja að um magnafslátt sé að ræða.

Vegagerð ríkisins viðurkennir, að jarðefnisnáman í Kjalardal sé á markaðssvæði og í samræmi við það hafi á undanförnum árum verið greitt þar fyrir magn tekins efnis, eins og að framan segir. Verðákvörðun á jarðefni úr landi Kjalardals ætti ekki að vera erfiðleikum bundin, þar sem fyrir liggi mótað verðlag á jarðefni til Vegagerðarinnar allt frá Þyrli í Hvalfirði og Grjóteyri í Borgarfirði kr. 0.50 pr. rúmm til kr. 10.00 pr. rúmm. Í samræmi við þetta verðlag hafi umboðsmanni landeiganda Kjalardals verið boðnar kr. 10.00 pr. rúmmetra fyrir jarðefni úr Kjalardal, sem sé með því hæsta, sem Vegagerðin greiði fyrir jarðefni og sama verð og nýgerður samningur við eiganda Stóru-Fellsaxlar, sem er í næsta nágrenni Kjalardals, hljóði upp á, sbr. mskj. nr. 12. Umboðsmaður landeiganda hafi ekki talið sig geta gengið að þessu.

Eignarnemi telur, að ekki séu sýnileg rök, sem mæli með því að Vegagerðin eigi að greiða eiganda Kjalardals hærra verð fyrir jarðefni en öðrum á þessum slóðum og óhjákvæmilegt sé að taka mið af þeim efnistökusamningum, sem gerðir hafi verið og sem lagðir eru fram í málinu. Einnig megi hafa hliðsjón af því verði, sem eignarnemi hefur áður greitt fyrir efni úr þessari sömu námu. Einnig sé það viðurkennt og venjuhelgað, að Vegagerðin greiði til muna lægra verð, en aðrir efnistökuaðilar og vísar eignarnemi til þess, sem hann hefur bent á um magn efnisins og hag eignarnámsþola af bættum samgöngum. Sem dæmi um þennan venjuhelgaða mismun megi nefna að eignarnemi greiði nú kr. 10. pr. rúmmetra fyrir efni úr námu í landi Stóru-Fellsaxlar, en Járnblendifélagið greiði kr. 15.00 pr. rúmmetra fyrir sama efni úr sömu námu. Samningur við eiganda að Stóru-Fellsöxl um þetta verð hafi verið gerður 12. janúar 1977.

Þá bendir eignarnemi á ákvæði 59. gr. og 61. gr. vegalaga. Einnig bendir hann á það ákvæði vegalaga, að veghaldari skuli jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár, sem myndist á grónu landi við vegaframkvæmdir. Þar sem efnistaka á vegum Vegagerðar ríkisins fari fram, sé það oftast svo, að Vegagerðin opni námur, oft með ærnum tilkostnaði t.d. vegna ofanafnýtingar, slétti síðan landið þegar efnistöku sé lokið og sái í það, og sé nú svo komið, að Vegagerðin muni vera annar mesti landgræðsluaðili á landinu. Sé þessi vinna í langflestum tilvikum umfram það, sem aðrir efnistökuaðilar gera, en samningar við þá séu yfirleitt við það miðaðir, að unnt sé að ganga í opið stálið, eða jafnvel í uppýtta hauga og þurfi þeir því hvorki að leggja í kostnað við opnun né lokun námu. Hafi landeigendur kunnað vel að meta þessa snyrtingar og landgræðslustarfsemi eignarnema og gefið þess vegna kost á hagstæðari samningum. Þá hafi það komið fram hjá landeigendum, að þeir telji ekki ósjaldan, að þeir búi við öruggari magntalningu og meira greiðsluöryggi, ef samið sé við Vegagerðina.

II.

Af hálfu eignarnámsþola hefur flutt mál þetta Jón Ólafsson, hrl.. Gerir hann þær kröfur, að Vegagerð ríkisins verði dæmd til að greiða eignarnámsþola kr. 35.00 pr. rúmm. af jarðefni úr landi Kjalardals og að ákveðið verði af Matsnefndinni að rúmmetragjald þetta hækki í samræmi við byggingarvísitölu á þeim tíma er jarðefni séu tekin þar. Auk þess er krafist lögmannskostnaðar úr hendi eignarnema.

Krafa eignarnámsþola er á því byggð, að eignarnemi greiði honum sömu upphæð og aðrir þeir er kaupi af honum jarðefni úr námum hans í Kjalardalslandi, en það sé í dag. kr. 35.00 pr. rúmm.

Eignarnámsþoli hafi selt jarðefni úr námum sínum í langan tíma. Á árinu 1975 hafi hann selt rúmmeterinn á kr. 25.00, árið 1976 hafi rúmmetraverðið verið kr. 30.00, en nú í ár, 1977, sé það kr. 35.00. Til stuðnings þessum kröfum bendir eignarnámsþoli á mskj. nr. 14, 15 og 16 í málinu. Bæjarsjóður Akraness hafi 30. nóv. 1976 greitt kr. 30.00 pr. rúmmeter. Þá bendir hann á vottorð frá vörubílastöðinni Þjóti, Akranesi, sem staðfesti að stöðin hafi greitt kr. 30.00 pr. rúmmeter í námugjald í Kjalardal fyrir árið 1976. Einnig vottorð Trésmiðjunnar Akur h.f. Akranesi, sem staðfestir, að fyrirtækið hafi greitt kr. 30.00 í námugjald í Kjalardal, fyrir árið 1976, en ekki er getið efnismagns.

Umboðsmaður eignarnámsþola hefur krafist þess, að eignarnema verði gert að greiða vexti af þeirri upphæð er honum verði úrskurðuð og greiða þá frá þeim tíma er efnið hafi verið tekið, en eignarnemi hafi tekið úr landi eignarnámsþola árið 1976, 46.496 rúmmetra.

Eignarnámsþoli heldur því fram, að efni það er tekið sé úr námum hans þjappist mjög vel og sé mjög hentugt til vegagerðar.

III.

Eignarnámsheimild eignarnema fyrir töku þessara jarðefna er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 80/1973, sbr. l. nr. 66/1975.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt umboðsmönnum eignarnema og eignarnámsþola og skoðað aðstæður á staðnum. Viðfangsefni Matsnefndar í þessu tilfelli er að meta til fébóta efnistöku þá, sem þarna hefur farið fram.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land er þurfi undir vegi, eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að efni til vegar sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Eignarnemi hefur ekki greitt landeiganda neitt fyrir efni það, sem tekið var úr landi Kjalardals árið 1976, en samtals voru teknir á því ári 46.496 rúmmetrar.

Upplýst er í máli þessu, að efni það sem hér um ræðir hefur verið notað sem vegagerðarefni og þykir með því sýnt að það hefur í eðli sínu verðgildi, auk, þess sem sýnt hefur verið fram á, að um aðra kaupendur sé að ræða, en eignarnema. Við skoðun á efni þessu kom í ljós, að það virtist ekki frábrugðið öðru efni, sem tekið er víðsvegar um land og notað sem vegagerðarefni og eignarnemi viðurkennir, að jarðefnisnáman í Kjalardal sé á markaðssvæði og í samræmi við það hafi á undanförnum árum verið greitt þar fyrir magn tekins efnis. Upplýst er einnig í máli þessu um greiðslur fyrir jarðefni, sem eignarnemi hefur tekið á svæðinu frá Þyrli í Hvalfirði að Grjóteyri í Borgarfirði, svo og um greiðslur Járnblendifélagsins í Hvalfirði fyrir sama eða svipað efni og hér um ræðir. Einnig er á það að líta, að eignarnemi hefu ekki þurft að gera sérstakan veg að námunni til hagnýtingar hennar og að aðstaða er því hagstæð til efnistökunnar. Þá þykir rétt að hafa í huga að landinu er skilað aftur að lokinni efnistöku og að þá verður það sléttað, og grædd upp sár, sem myndast hafa við efnistökuna. Í 61. gr vegalaga segir m.a., að gæta skuli við mat að taka tillit til árlegs afrakstrar af landi því er um ræðir og athuga vandlega allt það er getur haft áhrif á verðmæti þess er meta skuli. Einnig skuli taka tillit til þess ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð. Þá eru eins og áður segir talsverðar upplýsingar í máli þessu um gangverð á malarefnum á þessu svæði. Land það, sem efnistakan fer fram í eru óræktaðir melar og móar.

Matsmenn hafa undir höndum talsvert magn upplýsinga um sölu og möt á jarðefnum víðsvegar um land. Land þetta er mjög venjulegt þarna í sveit og ekki þykir ástæða til að telja, að þarna sé um sérstakt jarðrask að ræða, umfram það sem fylgir efnistökunni.

Leitað var um sættir með aðilum, en án árangurs.

Malarnáma þessi er við þjóðveginn og því aðstaða til efnistöku góð.

Þegar virt eru þau atriði, sem rakin hafa verið hér að framan, góð aðstaða til efnistökunnar, nýtingarkostir efnisins, markaðsverð fyrir ofaníburðarefni og uppfyllingarefni á þessum stað, í nálægð við vaxandi þéttbýli, svo og þau atriði önnur, sem nefndin telur máli skipta í þessu sambandi, þá telja matsmenn malarefni þetta hæfilega metið á kr. 15.00 hvern rúmmetra efnisins, enda telja matsmenn rétt í þessu tilfelli að miða við rúmmetra efnis en ekki fermetra lands. Ekki er ágreiningur um magn efnis þess, sem tekið var úr landi Kjalardals árið 1976. Verð þetta er miðað við staðgreiðslu og verðlag í dag.

Samkvæmt þessu greiði eignarnemi Sigurði Oddssyni, eiganda Kjalardals kr. 697.440.- og kr. 30.000.- í málskostnað, skv. 11. gr. l. nr. 11/1973.

Rétt þykir að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 125.000.-, skv. 11. gr. sömu laga.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði Sigurði Oddssyni, eiganda Kjalardals, kr. 697.440.- og kr. 30.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 125.000.-.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta