Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 10. maí 1977.
Ár 1977, þriðjudaginn 10. maí var Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:
Hjörtur Torfason hrl.
f.h. Landsvirkjunar
gegn
Herði Jónssyni eiganda
Höfða, Mosfellshreppi.
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
Með bréfi dags. 4. maí 1977, hefur lögmaður eignarnema farið þess á leit við Matsnefnd eigarnámsbóta, að Matsnefndin framkvæmi mat til eignarnámsbóta á meintu tjóni eiganda jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi vegna 220 Kw. háspennulínu (Hvalfjarðarlínu), sem Landsvirkjun hyggst leggja fyrir land jarðarinnar. Kveður hann línu þessa muni liggja frá spennistöð Landsvirkjunar í Hólmsheiði ofan við Geitháls að nýrri spennistöð á Brennimel skammt frá Grundartanga í Hvalfirði og tengjast þar byggðarlínunni til Norðurlands.
Eigandi jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi er Hörður Jónsson, verslunarmaður, Bakkaflöt 12 í Garðabæ og lögmaður hans í þessu máli er Skúli Pálsson hrl.
Samkvæmt því sem upplýst er í málinu er háspennulína sú, sem hér um ræðir þriggja fasa lína með 220 Kw. spennu, lögð á stauravirki úr stáli. Standa þau á tveimur steinsteyptum sökklum og eru jafnframt stöguð niður með tveimur festingum, og er línan sömu gerðar og Búrfellslína II, er liggur austan frá Búrfellsvirkjun og Sigölduvirkjun að fyrrgreindri spennustöð í Hólmsheiði. Leið þeirrar línu sem hér um ræðir í þessu máli er frá Geithálsi austan um Grimmansfell yfir Mosfellsheiði, Kjósarskarð, Reynisvallaháls, Brynjudalsvog, Þyrilsnes og þaðan norðan Hvalfjarðar að Brennimel í landi Kalastaðakots, en þaðan liggur svo grein hennar niður að Grundartanga.
Bil milli víralínunnar er talið 9.4 m. þannig að samanlagt spannar hún 18.8 m. breidd. Línunni fylgir bann við byggingum í næsta nágrenni hennar. Samkvæmt gildandi reglum Rafmagnseftirlits ríkisins er fjarlægð bygginga frá línunni í aðalatriðum á þá leið að lárétt fjarlægð frá ysta vír og bygginga skuli vera minnst 10 m. miðað við stöðu vírsins án útsveiflu og við 45° útsveiflu í óhagstæðustu átt má vírinn ekki koma nær byggingu en 5 m. mælt lárétt frá þeirri stöðu. Skv. reglunum bætast því tvisvar sinnum 10 m. við breidd línunnar sjálfrar, eða samtals 38.8 m. að því er tekur til byggingabanns. Algeng hæð línunnar frá jörðu er 20 m. og algengt haf milli stauravirkja er talið 350 - 400 m. En algengt er talið að bæta þurfi 5 - 7 m. við áðurnefnda 10 m. fjarlægð til að ná tilskyldu marki.
Samkvæmt upplýsingum, sem fyrir liggja í málinu er lengd línunnar í landi Höfða talin 2850 m. flatarmál, sem fer undir línuna er því í landi Höfða 15.05 ha.
Iðnaðarráðherra hefur með bréfi dags. 13. des. 1976 veitt Landsvirkjun, með heimild í 7. gr. l. um Landsvirkjun nr. 59 frá 1965 heimild til bygginga 220 kw. háspennulínu milli spennistöðva Landsvirkjunar við Geitháls og hinnar fyrirhuguðu járnblendiverksmiðju við Grundartanga í Hvalfirði.
Er þá miðað við að línustæðið sé að öllu verulegu leyti í samræmi við kort er fylgdi bréfi Landsvirkjunar til ráðherra en það kort hefur verið lagt fram í þessu máli, svo og að línulögnin hljóti nauðsynlegt samþykki hlutaðeigandi skipulagsyfirvalda auk þess sem Landsvirkjun ábyrgist lausn allra vandamála, sem upp kunni að rísa í samskiptum við landeigendur varðandi línulögnina.
Um eignarnámsheimild sína vísar matsbeiðandi til bréfs iðnaðarráðherra dags. 9. maí 1977, sem lagt er fram í þessu máli, þar sem réðherra heimilar Landsvirkjun að framkvæma eignarnám á lóðum og löndum, eftir því sem hún þurfi vegna línunnar skv. 18. gr. l. nr. 59 1965 um Landsvirkjun, að því leyti sem það reynist óhjákvæmileg að hennar mati til lausnar á vandamálum samskiptum við landeigendur varðandi línulögnina.
Þá vísar ráðuneytið til þess, að það líti svo á að meta beri virkjunina við Sigöldu og tengdar aðalorkuveitur þ.á m. Hvalfjarðarlínu, sem orkuver og orkuveitur er leyfðar hafi verið í skilningi 54. gr. vatnalaga nr. 15/1923, þannig að virkjunin og veiturnar njóti þeirra réttinda gagnvart löndum, lóðum og mannvirkjum, sem um er mælt í 55. gr. vatnalaganna.
Mál þetta var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 9. maí 1977 á fundi nefndarinnar, sem haldinn var á landi jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi.
Var eignarnámsþoli mættur þar sjálfur ásamt lögmanni sínum, svo og voru mættir þar umboðsmenn eignarnema.
Matsmenn gengu á vettvang ásamt öllum viðstöddum aðilum og umboðsmönnum þeirra og skoðuðu landið og aðstæður á landinu og þá sérstaklega landsvæði það, sem háspennulína þessi á að liggja um.
Sátt var reynd með aðilum en árangurslaust og eignarnámsþoli neitaði því, að framkvæmdir byrjuðu á landi hans nema skv. úrskurði Matsnefndarinnar og þá gegn fullri tryggingu.
Þegar matsmenn gengu á vettvang skoðuðu þeir sérstaklega landsvæði það, sem línulögnin á að liggja um. Land þetta er mestmegnis gróið mosaland með berjalyngi og grónum hvömmum og sumstaðar ógrónum melum.
Í 7. gr. laga nr. 59/1965 um Landsvirkjun segir, að til byggingar nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna þurfi Landsvirkjun leyfi ráðherra þess sem fer með raforkumál. Skal Landsvirkjun senda ráðherra þeim, sem fer með raforkumál uppdrætti að hinum fyrirhugðuðu mannvirkjum ásamt lýsingu á þeim. Samkvæmt því sem fyrir liggur í máli þessu er lagaákvæði þessu fullnægt.
Í 18. gr. sömu laga segir, að ráðherra geti heimilað Landsvirkjun að taka eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki, og önnur réttindi, sem nauðsynlegt sé til framkvæmda skv. lögunum. Um framkvæmd eignarnáms skuli fara eftir lögum nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms. Sbr. nú lög nr. 11/1973.
Samkvæmt því, sem fyrir liggur í máli þessu er ákvæðum laganna um eignarnámsheimild til handa eignarnema fullnægt.
Í 14. gr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms segir, að þótt mati sé ekki lokið geti Matsnefnd heimilað eiganrema að taka umráð verðmætis, sem taka eigi eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir, sem séu tilefni eignarnámsins. Við vettvangsgöngu þá, sem fram fór 9. maí kynntu matsmenn sér rækilega land það, sem hér um ræðir og línan á að liggja um og kom í ljós að þar er hvergi um ræktað land að ræða né önnur mannvirki, er spillast kunna vegna lagnar línunnar. Þá líta matsmenn svo á að það muni ekki á neinn hátt torvelda framkvæmd efnismats í málinu, né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola þótt Landsvirkjun verði veitt leyfi til að hefjast nú þegar handa á þeim framkvæmdum, sem lýst er hér að framan. Ekki hefur heldur af hálfu eignarnámsþola verið bent á nein þau efnistök, sem mæli því í gegn, að eignarnema verði veitt heimild til, með hliðsjón af 14. gr. l. nr. 11/1973 að hefjast handa um framkvæmdir þær sem hér um ræðir.
Að svo vöxnu máli samþykkti Matsnefndin með samhljóða atkvæðum og með tilvísun til 14. gr. l. nr. 11/1973 að leyfa eignarnema að hefjast nú þegar handa um áðurgreindar framkvæmdir á landi jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi.
Eignarnámsþoli hefur krafist tryggingar af hálfu eignarnema vegna framkvæmda þessara. Af því efni þykir rétt að benda á eftirfarandi. Samkvæmt 1. gr. l. nr. 59/1965 setti Ríkisstjórn Íslands og Borgarstjórn Reykjavíkur á stofn virkjanafyrirtæki, er nefndist Landsvirkjun. Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili, er hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Lansvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkisins og Reykjavíkurborgar og á hvor aðili um sig helming fyrirtækisins. Hvor aðili um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins en um innbyrðis ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum. Samkvæmt þessu ábyrgist Ríkissjóður Íslands og Borgarsjóður Reykjavíkur fjárskuldbindingar Landsvirkjunarinnar og að áliti Matsnefndarinnar skiptir það ekki máli, þótt lögin segi að hvor aðili um sig sé í einfaldri ábyrgð vegna skuldbindinga fyrirtækisins. Matsnefndin hefur áður úrskurðað, að um framkvæmdir á vegum ríkisins, sem gerðar séu á ábyrgð ríkissjóðs Íslands komi ekki til álita að ákveða sérstaklega tryggingu fyrir væntanlegum bótum eignarnámsþola vegna slíkra framkvæmda.
Þykir Matsnefndinni ekki ástæða til að gera breytingu í þessu efni, þótt Reykjavíkurborg sé inni í málinu, sem annar aðili.
Hæfilegar skaðabætur til eignarnámþola vegna framkvæmda þeirra, sem hér um ræðir, verða úrskurðaðar á síðara stigi þessa máls.
Einnig verður þá kveðið á um kostnað af málinu skv. 11. gr. l. nr. 11/1973.
Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar, Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr.11/1973.
Þ v í ú r s k u r ð a s t :
Eignarnema, Landsvirkjun, er heimilt að taka nú þegar umráð þess lands, sem þarf til lagningar framangreindrar háspennulínu um land jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi, svo og aðgangur að landinu og umferð um það, sem nauðsynlegur er vegna þessara framkvæmda.
Skaðabætur til eignarnámsþola og kostnaður af málinu verður ákveðinn síðar.