Hoppa yfir valmynd

Nr. 144/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 144/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19030036 og KNU19030037

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 24. maí 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 29. janúar 2018, um að synja [...] (hér eftir M), og [...] (hér eftir K), ríkisborgurum [...], um dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laga um útlendinga, brottvísa þeim og ákveða þeim tveggja ára endurkomubann til landsins. Úrskurðir kærunefndar voru birtir fyrir aðilum þann 28. maí 2018. Þann 28. júní 2018 hafnaði kærunefnd beiðni aðila um frestun réttaráhrifa og þann 23. júlí 2018 hafnaði kærunefnd beiðni aðila um endurupptöku í málum þeirra.

Þann 18. mars 2019 barst kærunefnd beiðni frá aðilum um endurupptöku á úrskurðum kærunefndar í málum nr. 187/2018, 313/2018 og 340/2018, með vísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með beiðni aðila um endurupptöku fylgdi greinargerð ásamt fylgigögnum.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggja K og M á því að dóttir þeirra, [...] (hér eftir A), sé aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga en aðild hennar hafi aldrei verið viðurkennd af hálfu kærunefndar á meðan stjórnsýslumeðferð á umsóknum foreldra hennar, þ.e. K og M, hafi staðið. Telja aðilar þar af leiðandi að ákvarðanir í málum þeirra hafi verið byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum. Vísa aðilar til þess að slík málsmeðferð þar sem aðild A að stjórnsýslumálunum var ekki viðurkennd sé andstæð meginreglu stjórnsýslulaga sem og ákvæðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, um aðild barna að málsmeðferð stjórnvalda sem varði hagsmuni þess. Telja aðilar ljóst að A hafi sérstakra og augljósra hagsmuna að gæta í stjórnsýslumáli þessu, sem varði tveggja ára endurkomubann K og M frá Íslandi. Muni ákvörðunin hafa mjög íþyngjandi áhrif á ferðafrelsi A sem og möguleika til áframhaldandi dvalar á Íslandi, þ.e.a.s í fæðingarlandi hennar og eina heimili sem hún hafi þekkt frá fæðingu. Vísa aðilar til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9524/2017 máli sínu til stuðnings. Þá telja aðilar að sérreglur laga um útlendinga, sbr. 78. gr. sem geri áskilnað um að umsækjandi um dvalarleyfi á viðkomandi grundvelli skuli vera 18 ára eða eldri, eigi með engu móti að stuðla að því að réttindi A, sem barn í stjórnsýslumáli, séu virt að vettugi. Vísa aðilar til þess að reglur stjórnsýsluréttar þ.m.t. um hverjir teljast aðilar að stjórnsýslumáli, séu lágmarkskröfur og verði ekki afnumdar með ákvæðum sérlaga. Jafnframt telja aðilar að kærunefnd hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort dvöl A, sem sé fædd á Íslandi, sé ólögleg og hvort tveggja ára endurkomubann skuli einnig taka til hennar. Telja aðilar að skortur á umfjöllun og rökstuðningi nefndarinnar er varði A sé í andstöðu við 22. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreinds telja aðilar að ákvörðun kærunefndar hafi ekki tekið mið af A sem aðila máls og því sé ljóst að mjög íþyngjandi ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli rangra og ófullnægjandi upplýsinga sem rétt sé að endurupptaka, enda hafi ekki verið tillit til sjónarmiða A.

Aðilar vísa einnig til þess að A hafi nú lagt inn umsókn um dvalarleyfi sem grundvallist á ákvæði 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Hafi umsóknin verið móttekin 13. mars sl. Telja aðilar ljóst að aðstæður A hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin í máli K og M og þyki rétt að hún fái þess kost að dvelja hérlendis þar til Útlendingastofnun hafi tekið afstöðu til umsóknar hennar. Telja aðilar rétt að með vísan til 11. gr. stjórnsýslulaga fái A ákvörðun á umsókn sinni hjá Útlendingastofnun áður en henni verði ásamt foreldrum sínum, K og M, gert að yfirgefa landið. Telja aðilar ljóst að þessar nýju upplýsingar hafi ekki legið fyrir þegar fyrri ákvarðanir í málum þeirra hafi verið teknar.

Aðilar byggja einnig á því að brottvísun þeirra muni leiða til réttarspjalla fyrir A. Í fyrsta lagi séu þau í fyrirsvari fyrir A í dómsmáli hennar gegn Þjóðskrá en með dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann 20. febrúar sl. hafi öllum kröfum A verið hafnað. Hafi aðilar áfrýjað framangreindum dómi til Landsréttar með beiðni um útgáfu áfrýjunarstefnu, dags. 12. mars 2019. Telja þau að mikilvægi þess að þau verði viðstödd hér á landi meðan málið er rekið felist í tvennu. Annars vegar sé ólíklegt að A, sökum ungs aldurs, fái að dvelja hérlendis áfram án K og M á meðan málið sé til meðferðar. Hins vegar muni brottvísun K og M frá landinu, með A í för gera það að verkum að skilyrðum 102. gr. laga um útlendinga, sem umsókn A grundvallist á, verði ekki lengur fullnægt. Telja aðilar að með þessu verði A fyrir augljósum réttarspjöllum. Með áfrýjun til Landsréttar sé máli A ólokið hér á landi og því hafi hún lögvarða hagsmuni af því að flutningur K og M komi ekki til með að hafa áhrif á mál hennar. Vísa aðilar í því samhengi til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

Loks vísa aðilar til þess að með fyrrgreindum dómi héraðsdóms í máli sem þau hafi höfðað fyrir hönd A gegn Þjóðskrá, hafi dómstóllinn litið svo á að K og M væru beinir aðilar málsins en komist að þeirri niðurstöðu að hafna bæri kröfum þeirra en ekki A. Telja þau ljóst að forsendur fyrir synjun á dvalarleyfi, sbr. 79. gr. laga um útlendinga, hafi breyst með fyrrgreindum héraðsdómi. Hafi ein af forsendum þess að umsóknum þeirra um dvalarleyfi hafi verið synjað, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 188/2018, verið sú að K og M væru ekki eiginlegir aðilar að málinu heldur fyrirsvarsmenn ólögráða barns síns, sem væri aðili máls. Telja aðilar að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli rangra og ófullnægjandi upplýsinga og beri nefndinni því skylda til að endurupptaka mál þeirra í samræmi við 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar nr. 340/2018 frá 23. júlí 2018 var beiðni aðila um endurupptöku á úrskurðum kærunefndar nr. 187/2018 og 188/2018 frá 24. maí 2018 hafnað. Málsástæður aðila eru að meginstefnu þær sömu og í fyrrgreindum úrskurði frá 23. júlí 2018. Þá áréttar kærunefnd að engin stjórnvaldsákvörðun liggur fyrir í máli A en úrskurðir kærunefndar frá 24. maí 2018 vörðuðu umsóknir K og M um dvalarleyfi vegna lögmæts og sérstaks tilgangs en ekki hafði verið lögð fram umsókn um slíkt leyfi fyrir A. Þá var K og M í úrskurðum kærunefndar frá 24. maí 2018 vísað brott frá Íslandi á þeim grundvelli að þau hefðu ekki heimild til dvalar í landinu. Ljóst er að kærunefnd hefur ekki tekið ákvörðun er lýtur að heimild A til dvalar hér á landi enda vörðuð framangreindir úrskurðir hvorki umsókn A um dvalarleyfi né brottvísun hennar. Kærunefnd fellst því ekki á að framangreindir úrskurðir séu haldnir slíkum annmarka eða að aðrar ástæður sem varða hagsmuni A eigi að leiða til endurupptöku málanna.

Í beiðni aðila um endurupptöku er vísað til þess dómsmáls sem K og M hafi höfðað fyrir hönd A gegn Þjóðskrá Íslands. Ljóst er af dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] að stefna aðila snýr einungis að því að fá fellda úr gildi ákvörðun Þjóðskrár Íslands en ekki að því að fá úrskurðum kærunefndar útlendingamála í málum K og M hnekkt. Þá liggur fyrir að í framangreindum dómi var íslenska ríkið sýknað af kröfum A. Er því ekki fallist á atvik málsins hafi að þessu leyti breyst verulega frá því að kærunefnd kvað upp úrskurði sína í málinu.

Með bréfi umboðsmanns Alþingis til þáverandi fyrirsvarsmanns aðila, dags. 28. september 2018, lauk umboðsmaður athugun sinni á málsmeðferð kærunefndar í málum aðila. Í bréfi umboðsmanns kemur m.a. fram að eftir að hafa kynnt sér úrskurð kærunefndar nr. 313/2018 og þau gögn sem fylgdu kvörtun aðila, væri það niðurstaða hans að ekki væri tilefni til nánari athugunar af hálfu umboðsmanns. Jafnframt tók umboðsmaður fram að ekki yrði séð af kvörtuninni eða gögnum málsins að verulegar breyttar aðstæður hefðu skapast í málinu frá því að kærunefnd útlendingamála hefði kveðið upp úrskurð sinn frá 24. maí 2018.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að úrskurðir i málum aðila hafi verið byggðir á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik eða aðrar aðstæður hafi breyst verulega frá því úrskurðirnir voru kveðnir upp.

Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku máls síns því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu aðila um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants is denied.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                         Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta