Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/1992

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 8/1992:

A
gegn
Heilsuverndarstöð Reykjavíkur.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 30. apríl 1993 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi dags. 27. apríl 1992 óskaði A, fyrrverandi deildarstjóri á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu starfsmannastjóra hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þann 16. júní sama ár kom A á fund kærunefndar og gerði nánar grein fyrir beiðni sinni og málavöxtum. Á þeim fundi óskaði hún jafnfram eftir því að kærunefnd tæki afstöðu til þess hvort sá munur sem var á launum hennar og hins nýráðna starfsmannastjóra bryti gegn 1. mgr. 4. gr. laga nr. 28/1991.

Með bréfum dagsettum 19. maí, 29. júní og 7. október 1992 óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir upplýsingum frá B, forstjóra Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og heilsugæslustöðvanna í Reykjavík, m.a. um fjölda umsækjenda, menntun þeirra og starfsreynslu, lýsingu á störfum kæranda og starfsmannastjóra og skipuriti stofnunarinnar. Jafnframt var aflað skriflegra upplýsinga frá C, alþingismanni og formanni Samstarfsráðs heilsugæslunnar í Reykjavík.

Á fund kærunefndar jafnréttismála mættu auk kæranda málsins, D, hjúkrunarforstjóri á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, B, forstjóri og E, framkvæmdastjóri Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og heilsugæslustöðvanna í Reykjavík.

II

Með setningu laga nr. 87/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var starfsemi heilsugæslustöðva, þar með Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, færð undir stjórn ríkisins. Breytingin í Reykjavík tók gildi 1. nóvember 1990. Vegna þessa voru gerðar ýmsar skipulagsbreytingar hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, m.a. stofnuð ný staða starfsmannastjóra. Sú staða svo og staðan sem kærandi máls þessa gegndi, falla undir stjórnsýslusvið Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og heilsugæslustöðva borgarinnar.

Starf starfsmannastjóra var auglýst laust til umsóknar 28. nóvember 1990. í auglýsingu voru ekki gerðar sérstakar menntunarkröfur en tekið fram að umsækjendur skyldu hafa góða reynslu af stjórnun og starfsmannahaldi. Umsækjendur voru F, G, H, I, J, K, A og L.

Samstarfsráð heilsugæslustöðva, sem í eiga sæti formenn fjögurra heilsugæsluumdæma í Reykjavík auk héraðslæknisins í Reykjavík og formanns stjórnar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, réð F í stöðuna og hóf hann störf 1. febrúar 1991.

B, núverandi forstjóri, tók ekki við starfi sínu fyrr en ráðning í stöðu starfsmannastjóra hafði átt sér stað og kærandi látið af störfum. Ekki var leitað umsagnar E, framkvæmdastjóra, um stöðuveitinguna.

III

Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsferil F og kæranda. F hefur að baki almennt skyldunám. Hann gegndi gjaldkera- og bókhaldsstörfum á árunum 1960 til 1971 en tók þá við starfi framkvæmdastjóra Samvinnufélagsins Hreyfils og gegndi því í 18 ár. í nóvember 1989 hóf hann störf í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu og sinnti þar verkefnum tengdum breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sérstaklega vegna yfirtöku ríkisins á allri heilsugæslu í landinu.

A lauk prófi frá Samvinnuskóla Íslands árið 1953. Hún hefur ennfremur stundað nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og lokið 82 einingum til stúdentsprófs. Hún gegndi verslunarstörfum á árunum 1949 til 1967 og rak m.a. eigið fyrirtæki í nokkur ár en eftir það vann hún við almenn skrifstofustörf þ.m.t. launabókhald fram til ársins 1985. Þá réðst hún til Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og heilsugæslustöðva í Reykjavík og starfaði þar sem deildarfulltrúi og síðar sem deildarstjóri til 1. júlí 1991 er hún lét af störfum að eigin ósk.

Fyrir liggja upplýsingar um starf og launakjör starfsmannastjóra og það deildarstjórastarf sem A gegndi og launakjör hennar. Um starfsmannastjóra segir í bréfi forstjóra, dags. 23.10. 1992: „Starfsmannastjóri, sem ... var ný staða, annast starfsmannahald, fjarvistaskrár, orlofsmál og annað þess háttar og heyrir beint undir forstjóra“. Upplýst er að starfsmannastjóri fær laun samkvæmt 249. launaflokki B.S.R.B. og fær greiddar 40 stundir á mánuði í fasta yfirvinnu. Vinni hann umfram það, þarf samþykki forstjóra. Starfsmannastjóri hefur jafnframt bílastyrk, 7000 km á ári.

Um starf deildarstjóra segir í sama bréfi: „Gjaldkeri. Útbjó gögn í hendur launadeildar ríkisins vegna starfsmanna Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og heilsugæslustöðvanna í Reykjavík (220 stöðugildi sem gegnt er af 300 - 350 manns) vegna ráðninga, eftirvinnu og þess háttar. Sá um sjóð og uppgjör hans og vann að gerð fjárlagatillagna. Um var að ræða deildarstjórastöðu (aðalgjaldkeri)“. í viðtölum við samstarfsfólk A kom fram að það teldi starf núverandi starfsmannastjóra einungis brot af því starfi sem A hefði haft með höndum, auk þess sem starfi A hefði fylgt meiri ábyrgð. Hún hefði t.d. verið afar vel að sér í kjarasamningum og séð um skipulagningu á sumarleyfum starfsfólks.

Upplýst er að A fékk laun samkvæmt 239. launaflokki B.S.R.B. í mars 1991 voru laun hennar hækkuð frá og með 1. febrúar s.á. í 242. launaflokk. Hún kveðst hafa fengið greidda 15 yfirvinnutína á mánuði en ekki hafa haft bílastyrk.

Þegar A varð ljós sá munur sem var á launum hennar og starfsmannastjóra og að hennar áliti ekki vilji til leiðréttingar, sagði hún starfi sínu lausu 1. apríl 1991. A lét af störfum l.júlí.s.á.

IV

Erindi kæranda til kærunefndar jafnréttismála er tvíþætt:

1. Að kannað verði hvort ráðning í stöðu starfsmannastjóra hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og heilsugæslustöðvunum í Reykjavík brjóti í bága við ákvæði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

2. Hvort sá munur sem var á launum starfsmannastjóra og kæranda brjóti gegn ákvæðum 1. mgr. 4. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Máli sínu til stuðnings bendir kærandi á að starf starfsmannastjóra feli að miklu leyti í sér það starf sem hún hafi gegnt sem deildarstjóri. Hún hljóti því að teljast hæf. Að því er varðar muninn á launum þeirra segir A að hún telji starf starfsmannastjóra mun umfangsminna en deildarstjórastarfið. Eftir sem áður hafi því verið raðað mörgum launaflokkum ofar, auk þess sem starfinu fylgi fleiri yfirvinnutímar og bílastyrkur.

Í bréfi forstjóra Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og heilsugæslustöðvanna í Reykjavík til kærunefndar jafnréttismála, dags. 13. júlí 1992 kemur fram að það hafi verið mat Samstarfsráðs heilsugæslustöðvanna í Reykjavík að F uppfyllti þær kröfur sem gera bæri til starfsmannastjóra, sérstaklega þegar haft væri í huga að hann hefði veitt forstöðu stóru fyrirtæki í tæpa tvo áratugi, unnið á vegum heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins að yfirfærslu heilsugæslunnar frá sveitarfélögunum til ríkisins auk þess að hafa þekkingu á bókhaldi og öðru sem tengdist starfsmannahaldi. Þetta mat staðfesti síðan C formaður Samstarfsráðs heilsugæslustöðva í Reykjavík í bréfi til kærunefndar jafnréttismála.

B, forstjóri, skýrði framangreindan launamun svo að starf núverandi starfsmannastjóra væri að annast starfsmannahald í heilsugæslustöðvum og á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Hann annaðist einnig undirbúning starfssamninga og héldi fjarvistaskrár, sæi um endurkröfur vegna launa og samskipti við Tryggingarstofnun ríkisins. Ennfremur taldi forstjórinn að starf núverandi starfsmannastjóra og það deildarstjórastarf sem kærandi gegndi væru ekki sambærileg, þar sem deildarstjórastarfið hefði fyrst og fremst verið gjaldkerastarf, þótt kærandi hefði haft með höndum talsverðan hluta þeirra starfa sem starfsmannastjóri gegndi nú.

V

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur laganna að koma á jafnrétti kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf og um laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir starf. Ef einhver telur rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum greinarinnar og vísar máli sínu til kærunefndar, skal atvinnurekandi sýna henni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 2. mgr. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna skulu konur og karlar njóta sömu launa og sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Um kæruatriði 1:

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem ráðinn var í stöðu starfsmannastjóra hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og heilsugæslustöðvunum í Reykjavík. Það er álit kærunefndar að A hafi meiri menntun en sá sem ráðinn var í stöðuna. Báðir umsækjendur hafa langa reynslu af verslunar-, bókhalds- og gjaldkerastörfum. F hefur auk þess 18 ára starfsreynslu sem framkvæmdastjóri bifreiðastöðvar en A aftur á móti 6 ára starfsreynslu hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og heilsugæslustöðvum Reykjavíkur og hefur sinnt stórum hluta þeirra starfa sem nú heyra undir starfsmannastjóra. F starfaði í eitt ár í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu sem aðstoðarmaður skrifstofustjóra sem stjórnaði fyrrnefndri skipulagsbreytingu á sviði heilbrigðismála.

Með hliðsjón af menntunar- og starfsferli umsækjenda og lýsingu á starfi starfsmannastjóra verður að telja bæði hæf til að gegna stöðunni. Þó verður að telja starfsreynslu A þess eðlis að hún hafi verið hæfari enda er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að sá sem starfið hlaut hafi haft einhverja sérstaka hæfileika umfram A sem réttlættu það að gengið væri fram hjá henni við ráðningu í starfið.

Um kæruatriði 2:

Kærandi fullyrðir, að með ráðningu starfsmannastjóra hafi deildarstjórastarfið verið brotið upp og hluti af því falinn nýráðnum starfsmannastjóra. Lýsingar forstjóra á starfi starfsmannastjóra eftir breytingarnar og starfi kæranda, svo og orð samstarfsmanna kæranda styðja þessa fullyrðingu. Því telur kærunefnd að ekki hafi verið sýnt fram á að starf starfsmannastjóra sé umfangsmeira eða feli í sér meiri ábyrgð en það starf sem kærandi gegndi samhliða öðrum störfum sem deildarstjóri. Telja verður því að hér sé um að ræða störf sem eru jafnverðmæt og sambærileg í skilningi 1. mgr. 4. gr. laganna og því sé sá munur sem var á launum þeirra óeðlilegur og andstæður ákvæðum laga nr. 28/1991.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit kærunefndar að með ráðningu F í stöðu starfsmannastjóra Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og heilsugæslustöðvanna í Reykjavík hafi verið brotinn réttur kæranda samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hið sama á við um laun þeirra, sbr. 1. mgr. 4. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Samstarfsráðs heilsugæslustöðvanna og forstjóra Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og heilsugæslustöðvanna í Reykjavík að fundin verði leið til úrbóta sem kærandi getur sætt sig við, sbr. 20. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta