Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/1992

Álit sérskipaðrar kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 11/1992

A
gegn
dómstjóranum í Reykjavík

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála mánudaginn 11. janúar 1993 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

1. Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu hinn 22. jan. 1992 var auglýst laus til umsóknar staða skrifstofustjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur. Lögfræðimenntun var áskilin. Skyldi staðan veitast frá 1. júlí 1992.

Eftirtaldir lögfræðingar sóttu um stöðuna: B, A, D, E og F.

Með bréfi dags. 2. mars 1992 var kæranda máls þessa tilkynnt að B hefði verið ráðinn til starfans.

B var síðan boðin staða sýslumanns í Vestmannaeyjum og afþakkaði hann því skrifstofustjórastöðuna.

Staðan var síðan auglýst að nýju með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu 31. mars 1992 og var hún efnislega á sömu leið og fyrri auglýsing.

Eftirtaldir lögfræðingar sóttu þá um: C, A, G, dr. H og I. Tveir umsækjendur óskuðu nafnleyndar.

Með bréfi dags. 7. maí 1992 var kæranda tilkynnt að C hefði verið ráðinn til starfans.

Þessum málalokum vildi A ekki una og með kæru dags. 22. maí 1992 óskaði hún eftir því að kærunefnd jafnréttismála færi fram á það við settan dómstjóra í Reykjavík, J, að hann upplýsti nefndina um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda þeir tveir umsækjendur um stöðu skrifstofustjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur, sem ráðnir voru til starfsins hefðu, sbr. 8. gr. 1. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Á fundi með sérskipaðri kærunefnd jafnréttismála kom það fram hjá kæranda að þrátt fyrir orðalag kæru væri leitað eftir áliti nefndarinnar á því hvort ráðning í stöðu skrifstofustjóra við embætti Héraðsdóms Reykjavíkur væri brot á jafnréttislögum.

Þar sem starfandi kærunefnd jafnréttismála taldi sig vanhæfa til meðferðar málsins var sérstök kærunefnd skipuð, en í henni eiga sæti eftirtaldir lögfræðingar: Guðríður Þorsteinsdóttir, formaður, Gylfi Knudsen og Jón Þorsteinsson.

Með bréfi dags. 1. júní 1992 var dómstjóranum í Reykjavík J kynnt kæran og óskað eftir upplýsingum sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991. Hann veitti síðan umbeðnar upplýsingar í bréfi dags. 15. sept. 1992. Í bréfi dags. 27. sept. sama ár kom A á framfæri athugasemdum við bréf J. Kærunefnd óskaði síðan með bréfi til dómstjórans í Reykjavík dagsettu 2. október 1992 eftir frekari upplýsingum og gaf honum jafnframt tækifæri til að tjá sig um bréf A frá 27. september sama ár. Hann svaraði loks með bréfi dags. 7. október 1992. A og C komu síðan bæði til viðtals við kærunefnd jafnréttismála.

2.   A lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands vorið 1977 og hóf störf sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík í júlí sama ár og var skipaður fulltrúi 1. maí 1980. Haustið 1985 var hún ráðin til að gegna störfum yfirlögfræðings í félagsmálaráðuneytinu og fékk jafnfram launalaust leyfi í eitt ár. Hinn 1. sept. 1986 var hún skipuð til að vera deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu og var henni þá veitt lausn frá fyrra starfi sínu hjá borgardómaraembættinu. Verksvið hennar hefur einkum verið á sviði sveitarstjórnamála, m.a. að kveða upp rökstudda úrskurði í sveitarstjórnamálum, semja frumvörp og reglugerðir, samskipti við sveitarstjórnir og sveitarstjórnarmenn og auk þess hefur hún setið í fjölda nefnda í tengslum við störf sín hjá ráðuneytinu. Hún öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi á árinu 1989. Hún hefur sótt námskeið á sviði endurmenntunar og sinnt ýmsum félagsstörfum.

B lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands um áramót 1984/1985 og var settur fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík 1. febr. 1985, en skipaður til starfans 1. mars 1986. Veturinn 1987 til 1988 lagði hann stund á framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla í félagarétti, alþjóðlegum einkamálarétti og réttarfari. Hinn 1. sept. 1988 var hann skipaður aðalfulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík.  Frá 15. sept. 1989 gegndi hann starfi sýslumanns í Dalasýslu til 1. sept. 1990. Hann var settur borgardómari í Reykjavík frá þeim tíma til 1. sept. 1991. Hann var settur sýslumaður í Strandasýslu sumarið 1991 og settur fulltrúi sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu í septembermánuði sama ár. Hann var settur borgardómari hinn 10. jan. 1992. Auk þess hefur hann lagt stund á kennslu og sinnt félagsstörfum.

C lauk embættisprófi í lögum vorið 1985. Hann var fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík frá 1. júní 1985 til 15. sept. 1986, fulltrúi á lögmannsstofu frá þeim tíma til 15. okt. 1988, aðstoðarmaður hæstaréttardómara frá 17. okt. 1988 til 31. ágúst 1990, settur borgardómari í Reykjavík frá þeim tíma til 31. ágúst 1991, fulltrúi yfirborgardómara frá 1. sept. 1991 til 31. des. 1991. Frá 1. jan. 1992 var hann aðstoðarmaður hæstaréttardómara með starfsheitið yfirlögfræðingur. Auk þess hefur C lagt stund á kennslu, m.a. í Tækniskóla Íslands og Háskóla Íslands og verið prófdómari við Lagadeild Háskóla Íslands. Réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi öðlaðist hann árið 1988.

Við Héraðsdóm Reykjavíkur starfa alls 49 manns (31 kona og 18 karlar). Lögfræðingar við embættið eru 27 talsins, þar af 11 konur og 16 karlar.

3.   Ekki liggur fyrir starfslýsing fyrir starf skrifstofustjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, en í svarbréfi J, dómstjóra, dags. 15. sept. kemur fram að skrifstofustjóri sé nokkurs konar aðstoðarmaður dómstjóra. Í verkahring skrifstofustjórans sé að stjórna hinni almennu skrifstofu, annast innkaup, sjá um ráðningar ólöglærðs starfsfólks, stjórna og hafa yfirumsjón með starfi löglærðra fulltrúa dómstjóra, hafa samskipti við dómara og lögmenn og taka þátt í uppbyggingu skipulags dómstólsins og mótun framkvæmda á nýjum réttarfarsreglum að svo miklu leyti sem hún er ekki í höndum dómara. Ennfremur að framkvæma dómsathafnir í nafni dómstjóra. Þessi störf fari öll fram í nánu samráði við dómstjóra og því megi „í stuttu máli segja að hér sé um að ræða hægri hönd dómstjóra og hans helsta trúnaðarmann.“

Af þessari lýsingu má ráða að skrifstofustjórastarfið er í raun tvíþætt; annars vegar felst í því að annast daglegan rekstur á embætti Héraðsdóms Reykjavíkur í samvinnu við dómstjóra, en hinn þáttur starfsins er að sinna dómstörfum.

Í bréfi J, dómstjóra kemur fram það álit hans „að á tveimur til þremur árum hafi fulltrúarnir náð þeirri leikni í meðferð skriflegra mála sem verður náð,“ og telur hann því jafnræði með þessum þrem umsækjendum að því er varðar reynslu af dómarafulltrúastörfum.

J telur B hafa það fram yfir A að hann hafi verið aðalfulltrúi yfirborgardómarans um skeið og hafi þannig öðlast nokkra reynslu í skrifstofustjórn. Starf aðalfulltrúa yfirborgardómara hafi a.m.k. í sinni tíð verið í eðli sínu svipað starfi skrifstofustjóra, en miklum mun umfangsminna. Þá hafi B bæði verið settur sýslumaður og borgardómari, sem kærandi hafi hvorugt verið. Þannig hafi hann „öðlast umtalsverða reynslu af dómstörfum og reyndar einnig framkvæmdavaldsstörfum svo og stjórnun á dómaraembætti.“ Reynsla B sé öll fengin innan vébanda dómskerfisins og telji hann engan vafa leika á að reynsla hans, þ.m.t. stjórnunarreynsla sé mun yfirgripsmeiri og þýðingarmeiri fyrir dómstólinn en reynsla kæranda.

Um C segir dómstjórinn að hann hafi verið afburða námsmaður og hafi fjölbreytta reynslu af dómstörfum auk þess að þekkja töluvert til lögmennsku. Hann hafi víðtæka og trausta þekkingu í lögum, hafi kennt fjármunarétt við lagadeild Háskóla Íslands og sé nú prófdómari við deildina. Þá hafi hann gegnt starfi borgardómara af mikilli prýði. J segir að C hafi ekki haft beina reynslu af stjórnunarstörfum innan dómskerfisins, en hann teldi að miðað við fyrri störf hans yrði hann fljótur að ná tökum á þeim þætti. Þá segir J að hann fái ekki séð að kærandi hafi heldur reynslu af stjórnunarstörfum. Hann bendir m.a. á að það sé alkunna að í stjórnarráðinu séu menn yfirleitt stutta hríð fulltrúar áður en þeir verði deildarstjórar og leitun muni að deildarstjóra í ráðuneytunum sem hafi nokkur mannaforráð er heitið geti. Þá kveðst hann telja að það að sitja í stjórnum og nefndum sé nokkuð annars eðlis.

A leggur áherslu á að hún hafi fimmtán ára starfsreynslu sem lögfræðingur en þeir B og C hvor um sig sjö ára reynslu í lögfræðistörfum. Þá kemur fram það álit A að þegar opinbert starf sé veitt sé „það tvímælalaust starfsreynsla umsækjenda sem helst er horft til þegar starfið er veitt.“ Hafi báðir eða allir umsækjendur staðið sig vel í starfi sé „það venja sem ekki þarf að fara frekari orðum um, að sá, sem hefur lengstan starfsaldur, fær starfið, sérstaklega ef mikill munur er á starfsaldri umsækjenda....“ Þá mótmælir kærandi því áliti dómstjóra, að aðeins þurfi tvö til þrjú ár til að ná þeirri leikni í meðferð skriflegra fluttra mála sem náð verði. A mótmælir einnig því áliti J að hún hafi ekki reynslu af stjórunarstörfum og kemur fram að hún telur að starf löglærðs deildarstjóra í ráðuneyti sé „a.m.k. að verulegum hluta stjórnunarstarf....“ og bendir á að hún hafi farið með málefni nokkurra undirstofnana félagsmálaráðuneytisins og setið í fjölmörgum starfsnefndum og m.a. gegnt störfum formanns í sumum þeirra.

Loks telur kærandi að á henni hafi verið brotinn réttur þar sem hún hafi ekki verið kölluð til viðtals vegna umsóknar sinnar, en það sé óskráð réttarregla í íslenskum stjórnarfarsrétti að þeim sem ræður í opinbert starf, beri að kynna sér eftir föngum hagi umsækjenda, þ.á.m. starfsreynslu þeirra og önnur atriði sem máli skipta við ráðningu í stöðuna.

VIÐHORF KÆRUNEFNDAR

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum. Síðan segir að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Samkvæmt 3. gr. laganna er hvers kyns mismunun eftir kynferði óheimil, en þó eru sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna í jafnréttisskyni heimilar skv. 3, gr., sbr. og 13. gr. og 2. tl. 16. gr. laganna. Að öðru leyti taka ákvæði laganna formlega jafnt til karla og kvenna. I 5. gr. laganna er sérstök skylda lögð á atvinnurekendur til að vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Í 1. mgr. 6. gr. laganna er sérstaklega kveðið á um það, að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það skv. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf.

Við meðferð mála fyrir kærunefnd jafnréttismála vegna ætlaðra brota á ákvæðum laga 28/1991 út af stöðuveitingum ber atvinnurekanda, að kröfu kærunefndar, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna að veita nefndinni skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika sá er veitt var starfið hefur umfram kæranda. Jafnframt er atvinnurekanda skylt að sýna kærunefnd fram á, að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans um þau efni, sem greinir í 1. mgr. 6. gr. laganna ef einhver telur rétt á sér brotinn og vísar málinu til kærunefndar jafnréttismála, sbr. 2. mgr. 6. gr. Ákvæði þetta er nýmæli, sem tekið var upp með lögum nr. 28/1991. Ekki kemur skýrt fram í 2. mgr. 6. gr. laganna við hvaða aðstæður sönnunarskylda sú sem mælt er fyrir um í ákvæði þessu, fellur á atvinnurekanda. Eftir því sem ráðið verður af lögskýringargögnum verður að álíta, að sönnunarbyrði falli ekki á atvinnurekandann nema sá sem telur brotinn á sér rétt geti fært fyrir því gild rök, að hann standi framar þeim sem tekinn var fram yfir.

Áður en tekið verður til úrlausnar hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 við ráðningu skrifstofustjóra Héraðsdóms Reykjavíkur þykir nefndinni rétt að draga fram tvö atriði sérstaklega sem hún telur hafa verulega þýðingu við úrlausnina.

Starf skrifstofustjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur var nýtt starf, tengt nýrri dómaskipan og starfið var lítt mótað þegar það var auglýst laust til umsóknar. Hér var steypt saman tveimur óskyldum starfsþáttum, þ.e. dómsstörfum og störfum við stjórnun og rekstur, sem voru áður að einhverju leyti á hendi ólöglærðs starfsfólks, sbr. t.d. starf skrifstofustjóra við Sakadóm Reykjavíkur. Fram hefur þó komið í málinu að aðalfulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík hafði nokkra stjórnun með höndum en ágreiningslaust er að sá þáttur var miklu umfangsminni en stjórnunarverkefni þau, sem skrifstofustjóri héraðsdómsins hefur á hendi. Nefndin telur því að byggja beri á því að um nýtt starf hafi verið að ræða og því enginn umsækjenda með reynslu í hliðstæðu starfi. Þessar aðstæður valda því að mat á hæfni umsækjenda var örðugra en ella. Þá hefur dómstjórinn lýst því og lagt á það áherslu að skrifstofustjórinn vinni í nánum tengslum við hann og sé hans helsti trúnaðarmaður. Telja verður að þessi atriði gefi þeim sem ræður í starfið nokkuð meira svigrúm til vals á starfsmanni með tilliti til laga nr. 28/1991 en ef um væri að ræða fastmótað starf svo sem starf löglærðs fulltrúa.

Þegar tekið er tillit til hlutfalls kvenna og karla í störfum við dómstólinn, sbr. málavaxtalýsingu og jafnframt horft til skiptingar kynjanna almennt í stétt lögfræðinga, telur nefndin að ekki hafi hvílt sérstakar skyldur á dómstjóranum samkvæmt ákvæðum 5. gr. laganna.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hefur kærandi, A, síðan hún lauk lagaprófi gegnt störfum fulltrúa yfirborgardómara í átta ár en störfum deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu í sjö ár. Hún hefur því mun lengri starfsaldur, en þeir B og C. Í málatilbúnaði sínum leggur kærandi megináherslu á lengri starfsaldur og telur að hafi báðir eða allir umsækjendur staðið sig vel í starfi eigi að veita þeim starfann, sem lengsta hefur starfsreynsluna. Ekki verður með öllu fallist á þessi sjónarmið kæranda. Lengd starfsreynslu er eitt þeirra atriða sem líta ber til við val á starfsmanni. Vægi hennar fer þó auðvitað eftir því hvernig talið er að starfsreynslan nýtist í nýju starfi og einnig verður að telja að eftir því sem starfsreynsla við sama starf er lengri skipti viðbótarstarfsreynsla í því starfi minna máli.

Víkur þá að úrlausn þess hvort dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hafi með umræddum ráðningum í stöðu skrifstofustjóra við embættið brotið gegn ákvæðum laga nr. 28/1991. Verður fyrst fjallað um ráðningu B.

Gerð er grein fyrir starfsferli og menntun B í málavaxtalýsingu hér að framan. Eins og rakið er þar telur dómstjórinn B hafa staðið kæranda framar að því leyti að B hafi gegnt starfi aðalfulltrúa yfirborgardómarans og þannig öðlast nokkra reynslu af skrifstofustjórn, og auk þess hafi hann bæði verið settur sýslumaður og borgardómari. Hann hafi þannig öðlast umtalsverða reynslu af dómstörfum, framkvæmdavaldsstörfum og stjórnun ádómaraembætti. Þá hafi hann stundað framhaldsnám, m.a. á sviði réttarfars. Á þessi rök dómstjórans verður að fallast. Verður því ekki talið að dómstjórinn hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 þegar hann réði B í starf skrifstofustjóra við embættið.

Starfsferill og menntun C er rakinn í málavaxtalýsingu hér að framan. Auk starfa sem dómarafulltrúi hefur C verið settur borgardómari, aðstoðarmaður hæstaréttardómara og fulltrúi lögmanns. Hann hefur gegnt hverju þessara starfa fremur skamman tíma. Störfin eru öll innan réttarkerfisins en engin stjórnunarreynsla er til staðar. Eins og fram kemur telur dómstjórinn að jafnstaða hafi verið með A og C að því er varðar störf þeirra sem löglærðra fulltrúa yfirborgardómara. C hafi reynslu af lögmennsku og hafi gegnt starfi borgardómara og hann hafi verið afburða námsmaður. Að öðru leyti eru þau atriði sem dómstjórinn dregur fram í bréfi sínu sem ástæður fyrir því, að hann valdi C til starfans frekast huglægs eðlis. Þrátt fyrir það sem að framan segir um örðugleika við mat á starfsreynslu, þegar um nýtt starf er að ræða og minna vægi viðbótarstarfsreynslu eftir langan starfsaldur í sama starfi má segja að A hafi staðið C nokkru framar hvað varðar starfsreynslu. Dómstjórinn hefur því ekki, að mati kærunefndar, sýnt fram á að C hafi almenna hæfni umfram kæranda sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991.

Eins og áður er fram komið telur nefndin að vegna sérstöðu starfs skrifstofustjóra hafi dómstjórinn haft nokkuð meira svigrúm til vals á starfsmanni heldur en ef verið hefði um fastmótaða stöðu að ræða. Þá hafi ekki hvílt sérstakar skyldur á dómstjóranum til jöfnunaraðgerða samkvæmt 5. gr. laga nr. 28/1991. Þegar til þessara atriða er litið og virtar eru skýringar dómstjórans má á það fallast að af hans hálfu hafi ráðning C verið réttlætt nægjanlega, þannig að ekki verði talið að kynferði hafi legið til grundvallar stöðuveitingu þessari, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991.

Fallast verður á það sjónarmið kæranda A að það sé aðfinnsluvert að hún var ekki kölluð til viðtals í tilefni umsókna sinna um starf skrifstofustjóra.

NIÐURSTAÐA

Með ráðningu B í starf skrifstofustjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur og síðar ráðningu C í sama starf var eigi brotið gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Guðríður Þorsteinsdóttir
Jón Þorsteinsson
Gylfi Knudsen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta