Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/1992

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 15/1992:

A
gegn
skólanefnd Héraðsskólans í Reykholti

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 19. febrúar 1993 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:

MÁLAVEXTIR

Með bréfi dags. 14. september 1992 óskaði A, kennari, eftir því, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort setning í stöðu skólastjóra Héraðsskólans í Reykholti bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Staða skólastjóra við Héraðsskólann í Reykholti var auglýst laus til umsóknar í lok júní 1992 og var umsóknarfrestur til 15. júlí það ár. Staðan var auglýst að nýju og umsóknarfrestur framlengdur til 10. ágúst 1992. Menntamálaráðherra setur í stöðu skólastjóra að fengnum tillögum viðkomandi skólanefndar.

Með bréfi dags. 1. október 1992 var skólanefnd Héraðsskólans kynnt kæran og óskað eftir upplýsingum m.a. um fjölda umsækjenda, menntun þeirra og starfsreynslu og sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var, sbr. 8. gr. 1. 28/1991. Svarbréf formanns skólanefndar er dags. 20. október. Jafnframt var aflað upplýsinga frá menntamálaráðuneytinu. A mætti á fund kærunefndar og gerði grein fyrir afstöðu sinni. Hið sama gerði formaður skólanefndar, C.

Umsækjendur um skólastjórastöðuna voru:

A, D, B og E. Meirihluti skólanefndar, þrír af fimm, mælti með B í stöðuna en minnihlutinn, tveir af fimm, mælti með A. Menntamálaráðherra staðfesti ákvörðun meirihluta skólanefndar.

Rétt þykir að rekja hér menntun og starfsferil þessara tveggja umsækjenda.

1. A hefur kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands auk tveggja ára viðbótanáms erlendis í sérkennslufræðum. A er með réttindi til kennslu bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Hún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. fyrir skólastjórnendur. A á að baki 19 ára starfsferil innan skólakerfisins, þar af 2 ár sem skólastjóri.

2. B hefur BA próf í heimspeki og bókmenntum auk prófs í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands. Hann hefur sótt ýmis námskeið m.a. í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum í tómstunda-, æskulýðs- og félagsmálum. Hann hefur kennt í lýðháskólum bæði hér á landi og erlendis í samtals 7 ár, starfað sem fræðslufulltrúi Krabbameinsfélagsins í 2 ár, starfað við útideild Reykjavíkurborgar og sem meðferðarfulltrúi hjá Unglingaheimili ríkisins, auk stundakennslu við Háskóla Íslands og við Námsflokka Reykjavíkur.

Í samtali við kærunefnd lagði formaður skólanefndar áherslu á sérstöðu skólans og þann vanda sem við honum blasti. Í héraðsskólum víða um land hafi nemendum fækkað verulega og nám orðið fábreyttara. Rætt hafi verið um að leggja Héraðsskólann niður vegna þessa og flytja námskeiðahald á vegum verkalýðshreyfingarinnar að Reykholti. Af þessu hafi þó ekki orðið. Þessi umræða hafi ásamt öðru leitt til þess að skólanefnd hafi séð fram á að loka yrði skólanum innan fárra ára yrði ekkert að gert. Þegar ljóst hefði verið að yfirkennari skólans, sem hafði gegnt starfi skólastjóra til bráðabrigða, óskaði ekki eftir því starfi áfram, hefði skólanefnd í samráði við menntamálaráðuneytið ákveðið að auglýsa stöðuna og leita sérstaklega eftir manni sem gæti tekist á við aðsteðjandi vanda. Hefði áhersla verið lögð á að skapa skólanum ákveðna sérstöðu og gefa honum nýtt yfirbragð og aukið aðdráttarafl fyrir nemendur. Það hafi verið mat meirihluta skólanefndar að B uppfyllti þessi skilyrði best umsækjenda, bæði þegar horft væri til menntunar hans, starfsreynslu og þeirra tillagna og hugmynda um framtíð skólans sem hann hefði kynnt er hann kom til viðtals við skólanefndina. Formaður skólanefndar upplýsti að B hefði rætt við bæði fulltrúa menntamálaráðuneytisins og sig áður en hann sótti um starfið og aflað sér þannig upplýsinga um skólann og hvers hann þyrfti með.

Í samtali nefndarinnar við A kom fram að hún teldi óeðlilegt að tillögur umsækjenda um nýjungar í skólastarfi væru lagðar til grundvallar ákvörðun um veitingu starfsins. Hún kvaðst að vísu hafa verið spurð um þau atriði í viðtali við skólanefnd en sagði að sér hefði hins vegar ekki verið gefinn sami kostur til undirbúnings slíkra tillagna og B sem hefði m.a. rætt þau mál við formann skólanefndar áður en hann sótti um starfið. Engar kröfur eða ábendingar í þessa veru hefðu komið fram í auglýsingu ráðuneytisins um starfið. Rökstuðningur meirihluta skólanefndar fyrir vali sínu fæli þannig í sér mismunun þar sem hún hefði ekki fengið sama svigrum til að koma hugmyndum sínum á framfæri.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur laga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði, sbr. 1. gr. laganna. Veigamikill þáttur í því að koma á jafnrétti kynja er að þess sé gætt við ráðningar í störf og við stöðuveitingar, sbr. 5. gr., 6. gr. og 8. gr. laganna.

Það er mat kærunefndar jafnréttismála að báðir umsækjendur um stöðu skólastjóra Héraðsskólans í Reykholti séu vel hæfir til að gegna því starfi. Menntun þessara tveggja umsækjenda og starfsferill er ólíkur. Starfsreynsla A er alfarið innan skólakerfisins sem kennari og við stjórnun, en starfsferill B er nokkuð fjölbreyttari og annars eðlis.

Kærunefnd telur að formaður skólanefndar hafi sýnt fram á að við mat á umsækjendum hafi vegið þyngra hæfni til að takast á við hinn sérstaka vanda Reykholtsskóla en reynsla af almennu skólastarfi og að B hafi haft þá eiginleika til að bera sem gerðu hann líklegri til þess en umsækjandi með hæfileika og reynslu kæranda. Ekki verður fallist á þau rök kæranda að það feli í sér mismunun umsækjenda að einn þeirra hafi í viðtali við skólanefnd lagt fram ítarlegri hugmyndir um aðgerðir en aðrir umsækjendur. Kærunefnd telur að rétt hefði verið eins og á stóð að gefa til kynna í auglýsingu hvers vænst væri af nýjum skólastjóra. Hins vegar voru umsækjendur kallaðir til viðtals við skólanefnd þar sem þeim var kynnt staða skólans og gefinn kostur á að gera grein fyrir viðhorfum sínum. Fram hefur komið að B hafi rætt við bæði fulltrúa menntamálaráðuneytisins og formann skólanefndar áður en hann sótti um starfið og aflað sér upplýsinga um hvers skólinn þyrfti með. Öðrum umsækjendum var í lófa lagið að afla sambærilegra upplýsinga og búa sig undir að koma hugmyndum sínum á framfæri.

Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd jafnréttismála að skólanefnd Héraðsskólans í Reykholti hafi sýnt fram á sérstaka hæfileika þess umsækjenda sem settur var í starfið og að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið vali í stöðuna, sbr. 8. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991.

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er því sú að í máli kæranda, A, hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Helgi Guðjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta