Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 374/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 374/2015

Miðvikudaginn 10. ágúst 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. nóvember 2015, um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja um ofgreiddar bætur vegna tímabilsins 1. október 2014 til 31. október 2015.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015, 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. október 2015, var kærandi upplýst um að stofnuninni hefði borist ábending um að dóttir hennar væri skráð til heimilis á sama stað og hún. Kæranda var gefinn kostur á að leggja fram gögn sem staðfestu að þær byggju ekki í sömu íbúð eða hefðu fjárhagslegt hagræði af sambýli en að öðrum kosti yrðu greiðslur heimilisuppbótar til hennar stöðvaðar frá 12. september 2014. Kærandi sótti um greiðslu heimilisuppbótar á nýjan leik og óskaði eftir afturvirkum greiðslum frá 12. september 2014. Í umsókn kæranda tiltók hún að dóttir hennar hafi ekki búið hjá henni. Því til stuðnings fylgdu með afrit af leigugreiðslum dóttur kæranda til leigusala, auk húsaleigusamnings, dags. 26. júní 2013. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2015, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda um að innsend gögn og andmæli hefðu verið tekin til skoðunar en ekki gefið tilefni til breytinga. Greiðslur heimilisuppbótar hafi því verið stöðvaðar frá og með 1. október 2014 til 31. október 2015. Þá segir að bótaréttur ársins hafi verið endurreiknaður og fyrir liggi ofgreiðsla að fjárhæð 307.570 krónur. Með öðru bréfi, dagsettu sama dag, var umsókn kæranda um heimilisuppbót samþykkt og henni ákveðnar greiðslur heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2015 til 28. febrúar 2018. 

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 23. desember 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 6. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. janúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins send kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2016, bárust viðbótargögn frá kæranda og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 15. febrúar 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að krafa Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu heimilisuppbótar verði felld niður. Lögð verði til grundvallar gögn um  það að ekki hafi verið til staðar fjárhagslegt hagræði af lögheimilisskráningu dóttur hjá kæranda.

Í kæru segir að kæruefni sé afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins þann 19. nóvember 2015 þar sem krafist hafi verið endurgreiðslu á heimilisuppbót fyrir tímabilið 1. október 2014 til 31. október 2015 þar sem lögheimili dóttur kæranda hafi verið skráð hjá henni á því tímabili. Ekki hafi verið tekin til greina gögn um að heimili dóttur hennar hafi í raun ekki verið að B á heimili kæranda og því ekki um sameiginlegt heimili að ræða. Dóttir hennar hafi átt heima að C í bílskúr. Lögheimili dóttur kæranda hafi verið skráð hjá kæranda í þeim tilgangi að hagræða varðandi póstinn, en það hafi verið erfiðleikum bundið að hafa póstkassa á þeim stað þar sem hún bjó þar sem það hafi verið í bílskúr. Kærandi hafi enga vitneskju haft um að þetta hagræði myndi koma niður á greiðslum hennar á heimilisuppbót. Kærandi hafi engan hag haft af því að lögheimili dóttur hennar hafi verið skráð hjá henni að B, hvorki varðandi húsnæðiskostnað né rekstur á heimili hennar. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri þá sé kærandi með gögn sem sanni að hún hafi ekki haft fjárhagslegt hagræði af því að lögheimili dóttur hennar væri skráð að B. Kærandi vilji árétta að hún myndi ekki hafa samþykkt að skrá lögheimili dóttur sinnar hjá sér ef hún hefði vitað um afleiðingar þess og að heimilisuppbót félli niður. Kærandi eigi eins og aðrir öryrkjar í erfiðleikum með að framfleyta sér þótt ekki komi einnig til skuldar við Tryggingastofnun.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé krafa um endurgreiðslu heimilisuppbótar fyrir tímabilið 1. október 2014 til 31. október 2015 sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 19. nóvember 2015.

Heimilt sé að greiða heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð til lífeyrisþega sem sé einhleypingur og einn um heimilisrekstur án þess að hann njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Kærandi hafi verið með skráð lögheimili að B og fengið greidda heimilisuppbót. Ábending hafi borist frá eftirliti Tryggingastofnunar um að dóttir hennar, D hafi verið skráð með lögheimili hjá kæranda frá 24. september 2014.

Tilkynnt hafi verið um stöðvun heimilisuppbótar með bréfi, dags. 5. október 2015, og þar gefinn fjórtán daga frestur til að andmæla. Kærandi hafi gert það með því að sækja að nýju um heimilisuppbót með umsókn, móttekinni 15. október 2015, þar sem tilgreint hafi verið að D hafi ekki búið hjá kæranda. Fylgigögn með umsókn kæranda um heimilisuppbót hafi verið yfirlit um leigugreiðslur/millifærslur til E á tímabilinu 2. janúar 2014 til 20. september 2015, útprentun á tilkynningum um sumar af millifærslunum á yfirlitinu og afrit af húsaleigusamningi um íbúðarhúsnæði vegna bílskúrs að C, dags. 26. júní 2013, fyrir tímabilið 1. júlí 2013 til 1. júní 2014.

Húsaleigusamningurinn hafi ekki verið undirritaður af E, eiganda C, heldur F sem sé með skráð lögheimili að C og tilgreind sem umboðsmaður leigusala í samningnum, án þess þó að umboð til að gera leigusamning um húsnæðið fyrir hönd leigusala hafi fylgt með.

Þar sem lögheimili dóttur kæranda hafi verið flutt frá heimili kæranda 7. október 2015 hafi verið samþykkt að hefja greiðslur heimilisuppbótar að nýju frá 1. nóvember 2015. Það hafi verið tilkynnt kæranda með bréfum, dags. 19. nóvember 2015. Annars vegar að samþykkt hafi verið að hefja greiðslu heimilisuppbótar að nýju og hins vegar um synjun á að taka til greina andmæli kæranda og í kjölfarið endurkröfu ofgreiddrar heimilisuppbótar fyrir tímabilið 1. október 2014 til 31. október 2015.

Með kæru hafi verið framvísað afriti af húsaleigusamningi um íbúðarhúsnæði, dags. 15. desember 2015, þar sem staðsetning leiguhúsnæðis sé sami bílskúr, leigutímabilið sé tilgreint sem tímabilið 1. júlí 2013 til 30. september 2015, hann sé undirritaður af F sem umboðsmanni leigusala án þess að umboð fylgi með og áður komnu yfirliti yfir millifærslur/leigugreiðslur fyrir hluta tímabilsins.

Dóttir kæranda hafi aldrei verið skráð með lögheimili á C þar sem haldið sé fram að hún hafi verið búsett. Hún hafi verið skráð að G, sem faðir hennar sé skráður eigandi að, til 12. september 2014. Síðan hafi hún verið skráð hjá móður sinni að C, frá 12. september 2014 til 7. október 2015. Frá 7. október 2015 hafi hún verið skráð búsett að H, þar sem systir hennar sé búsett. Tryggingastofnun telji greiðslur heimilisuppbótar réttilega hafa verið stöðvaðar og innheimtar fyrir ofangreint tímabil.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar fyrir tímabilið 1. október 2014 til 31. október 2015.

Um heimilisuppbót er kveðið á um í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, þar sem segir:

„Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, 23.164 kr. á mánuði. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skal lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.“

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í máli þessu hefur kæranda verið synjað um heimilisuppbót á þeirri forsendu að dóttir hennar hafi verið skráð til heimilis hjá henni. Þá verður ráðið af gögnum málsins að lögheimili dóttur kæranda hafi verið flutt af heimili kæranda 7. október 2015 og hóf þá Tryggingastofnun greiðslu heimilisuppbótar til kæranda að nýju samkvæmt umsókn hennar þar um.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir að heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo sé ástatt um: 

„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila.

2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins grundvölluðust greiðslur heimilisuppbótar til 1. nóvember 2015 á því að kærandi væri ein um heimilisrekstur að B, sem var skráð lögheimili hennar. Eftir að upplýsingar bárust um að dóttir hennar væri skráð á sama lögheimili taldi stofnunin að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um að vera ein um heimilisrekstur. Úrskurðarnefndin fellst á að upplýsingar þess efnis að kærandi væri ekki skráð ein með lögheimili að B hafi gefið stofnuninni tilefni til að kanna hvort dóttir hennar væri í raun búsett á skráðu lögheimili og hvort kærandi nyti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við hana, sbr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands var lögheimili dóttur kæranda skráð hjá henni frá 12. september 2014 til 7. október 2015. Þar á undan var lögheimilið skráð hjá föður hennar að G frá 20. mars 2006 til 12. september 2014.  Frá 7. október 2015 hafi dóttir kæranda verið skráð með lögheimili hjá systur sinni að H. Úrskurðarnefndin telur að jafnan séu líkur á því að afkomendur á fullorðinsaldri sem búi hjá foreldrum sínum hafi fjárhagslega aðkomu að heimilisrekstri. Hins vegar hefur kærandi lagt fram húsaleigusamninga dóttur sinnar auk yfirlits yfir leigugreiðslur hennar. Af breytingasögu lögheimilis í Þjóðskrá Íslands verður ráðið að dóttir kæranda hafi verið skráð til lögheimilis hjá föður sínum og í framhaldinu hafi hún verið skráð til lögheimilis hjá móður sinni að  tímabilið 12. september  2014 til 7. október 2015.

Samkvæmt húsaleigusamningi, dags. 26. júní 2013, var dóttir kæranda með þinglýstan húsaleigusamning vegna bílskúrs að C fyrir tímabilið 1. júlí 2013 til 1. júní 2014. Með kæru til úrskurðarnefndarinnar fylgdi þinglýstur húsaleigusamningur dóttur kæranda fyrir sama húsnæði og var hann dagsettur 15. desember 2015 þar sem leigutímabilið var tilgreint frá 1. júlí 2013 til 30. september 2015. Er þar tilgreint að um íbúðarhúsnæði sé að ræða. Sjá má af yfirliti yfir millifærslur dóttur kæranda að hún hafi greitt skráðum eiganda C nokkuð reglulegar leigugreiðslur allt frá 13. október 2013 til 2. september 2015. Úrskurðarnefnd velferðarmála fær ekki annað ráðið en að dóttir kæranda hafi verið með húsaleigusamning í gildi og greitt leigugreiðslur fyrir bílskúr að C, bæði á meðan lögheimili hennar var skráð hjá föður og einnig eftir að lögheimilið var skráð hjá kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að gögn málsins gefi nægilega til kynna að raunveruleg búseta dóttur kæranda hafi verið í bílskúrnum að C frá 1. júlí 2013 til 30. september 2015, þrátt fyrir að hún hafi ekki verið með skráð lögheimili þar. Úrskurðarnefndin horfir til þess að bæði 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og bætur á lífeyri gera fjárhagslegt hagræði af sambýli sem skilyrði niðurfellingar heimilisuppbótar, ekki lögheimilisskráningu.

Með hliðsjón af framangreindu er ekki fallist á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að dóttir kæranda hafi verið búsett hjá henni og hún notið fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu frá 1. október 2014 til 31. október 2015. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. nóvember 2015, um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda og endurkrefja um ofgreiðslu heimilisuppbótar fyrir tímabilið frá 1. október 2014 til 31. október 2015, er því felld úr gildi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, og endurkrefja um ofgreiðslu heimilisuppbótar fyrir tímabilið 1. október 2014 til 31. október 2015 er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta